Er hugmyndafræði horfin úr umræðunni?

Hugmyndafræði er ekki lengur rauður þráður í umræðum um eitt né neitt. Menn segja ekki lengur að þeir vilji minna ríkisvald eða meira, að skattar eigi að hækka eða lækka af hugmyndafræðilegum ástæðum, eða að land eigi að vera ýmist í einka- eða ríkiseigu út frá ákveðnum og almennum hugmyndum um eignafyrirkomulag ríkis og einstaklinga. Nei, þess í stað er umræðan komin út í hreina talnaleikfimi og skýrslukast.

Eitt dæmi þess er stjórnmálafræðingurinn Hannes Hólmsteinn Gissurarson. Hann gerir nú fátt annað en að hrekja tölur og tölfræði, hvort sem umræðan snýst um loftslagsbreytingar eða skattbyrði. Þetta er hann í raun knúinn til að gera því vitleysan veður uppi hjá þeim sem vilja að ríkið stormi á vettvang og leysi allskyns möguleg og ómöguleg vandamál. Loftslags- og veðurfræðingar þegja. Hagfræðingar og aðrir talnaspekingar þegja. Hannes hefur því tekið að sér að berja á goðsögnunum sem við erum fóðruð með í fréttum daglega.

Vissulega er ákveðin hugmyndafræði undirliggjandi. Þeir sem halda því fram að maðurinn sé að hita jöðrina (eða kæla, eftir því á hvaða áratug umræðan fer fram) ýja oft að því að vandamálið sé frelsi hins frjálsa markaðar, og að ríkið þurfi að tálga þetta frelsi niður til að ná böndum á "vandamálinu". Þeir sem eru hvað duglegastir að reyna sýna fram á að lækkandi skatthlutföll séu í raun skattahækkanir eru pólitískir andstæðingar núsitjandi ríkisstjórnar og vilja koma vinstrimönnum til valda. Þetta er hins vegar útþynnt hugmyndafræði svo ekki sé meira sagt. Skýrslukast og talnaleikifimi, ætluð til þess að koma vinstrimönnum til valda eða auka afskipti ríkisins af hinum frjálsa markaði, er leiðinleg umræða og hefur enga stefnu sem hægt er að benda á.

Lausnina hef ég vitaskuld

Til að einfalda alla umræðu um hvaðeina ætla ég að reyna innleiða örlitla hugmyndafræði inn í íslenska dægurmálaumræðu, og beina spjótunum að áðurnefndum "vandamálum" loftslagsbreytinga (af mannavöldum) og vaxandi skattbyrði í kerfi lækkandi skatthlutfalla. Að sjálfsögðu er mín nálgun nálgun frjálshyggjumannsins, enda finnst mér ósannfærandi að ræða eitthvað út frá öðrum útgangspunkti en þeim að einstaklingar eigi líkama sinn sjálfir, og þær eignir sem líkami, hugur, heppni og hæfni aflar þeim.

Loftslagsbreytingar: Maðurinn hefur áhrif á umhverfi sitt með aðgerðum sínum. Skiptir í raun engu hvað það er - endurvinnsla, fjallganga, bruni olíu eða uppsetning vindmylla. Ef þessar aðgerðir fara fram í umhverfi einkaeignareigenda, sem gera frjálsa samninga sín á milli, þá skiptir engu máli hvaða afleiðingar þetta eru. Engar! Almenna hugmyndin er sú að ef einhver á eitthvað þá má viðkomandi gera hvað sem viðkomandi vill við eigur sínar. Það að dæla mengun út í andrúmsloftið er ekki í ósamræmi við þessa hugmynd, gefið að viðkomandi mengandi aðili hafi verið fyrstur á svæðið, eða hafi gert samkomulag við nágranna sína um að breyta samsetningu loftsins í kringum þá. Nánar hér. Sé maðurinn í raun og veru og sannarlega að breyta virkni lofthjúpsins þá er það sömuleiðis ekki neitt sem brýtur gegn lögmálum hins frjálsa markaðar. Hliðarafleiðingar frjálsra viðskipta breyta engu um réttmæti þeirra. Þvingun og frelsisskerðing réttlætist ekki með því að benda á að eitthvað réttmætt hafi áhrif á umhverfi frjálsra markaðsaðila, ekki frekar en að steinn losni undan áhrifum þyngdaraflsins þegar hann er að falla í átt að brothættum vasa. Þeir sem vilja réttlæta þvingun og frelsisskerðingu þurfa að gera það út frá rökum, og svo beita þeirri niðurstöðu á umheiminn, en ekki öfugt.

Niðurstaðan er því sú að allt tal og hjal um áhrif mannsins á virkni lofthjúpsins er út í buskann og á ekki að leiða til aukinna ríkisafskipta, enda eru þau óréttmæt og það óréttmæti er rökstutt út frá þeirri grunnforsendu að maðurinn eigi eigin líkama og á að geta átt hvaða samskipti sem er við hvern sem er, og gert hvað sem er við hvað sem er, á meðan hann ræðst ekki að öðrum einstaklingum, sem einnig eiga sinn eigin líkama. Innifalið í þessu er vitaskuld að sjálfseign leiði til séreignarréttar á réttmætt öfluðum eigum.

 Skattbyrði og skattalækkanir: Hið óumdeilda er að ríkið hefur fellt niður og lækkað skatta á rólegu tempói síðastliðin ár. Þetta hefur gert það að verkum að velta í samfélaginu hefur aukist, t.d. með þeim afleiðingum að persónuafsláttur hefur minnkað mjög í vægi varðandi innheimtu tekjuskatta, og hátt skattaður "lúxusvarningur" hefur streymt til landsins og skatttekjur vegna sölu hans aukist bæði í magni og sem hlutfall af sölu alls varnings (sem er oft íþyngdur með lægra skatthlutfalli). Talnaleikfimin er að vissu leyti áhugaverð, en staðreyndin er sú að ríkið er svo sannarlega að draga saman seglin í skattheimtu og það er mikilvægast. Hverjar svo sem hliðarafleiðingarnar eru (t.d vaxandi skattheimta vegna tekna og vaxandi skattbyrði sem hlutfall af heildarveltu í samfélaginu) er í sjálfu sér aukaatriði. Ef eitthvað þá á að gagnrýna stjórnvöld fyrir að lækka ekki skatthlutföll enn hraðar til að enginn geti vænt þau um vaxandi skattbyrði (óháð því hvaða talnaleikfimi er beitt). 

Það mikilvægasta er að ríkið dragi saman seglin og komi sér úr veginum, en ekki hvaða innheimtu það hefur af hinum ýmsu skatthlutföllum. Ef tekjuskattur lækkar um 5% en skattheimta af tekjum vex um 10% þá er það út af fyrir sig ekki gagnrýni vert. Það sem er gagnrýni vert er að skattar lækkuðu ekki enn meira, þannig að skattheimta af tekjum eigi aldrei möguleika á að vaxa vegna hennar. Í bullandi góðæri kallar þetta sennilega á róttækar skattalækkanir sem nema tugum prósenta, en sé ætlunin sú að forðast talnaleikfimi vinstrimanna er ekkert annað en róttæk skattalækkun nauðsynleg.

Er hægt að finna hugmyndafræðina aftur?

 Nú veit ég ekki hvort mér tókst að toga einhvers konar hugmyndafræði út úr ofannefndum deilumálum í samfélagsumræðunni, eða hvort það er hægt, en mikið væri nú allt einfaldara ef fólk væri hreinskilið við sjálft sig og gerði upp við sig hvort það vilji stærra ríkisvald (og minna einkaframtak) eða meira frelsi (og minna ríkisvald). Öll deilumál okkar yrðu einfaldari viðfangs ef við snérum okkur aftur að þessum grunnforsendum sem allar aðrar hugmyndir eru leiddar út frá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband