Togstreita sameignar og séreignar

Ég var að koma af mínum fyrsta húsfélagsfundi (húsfélag = ejendomsforening, ekki alveg týpískt fyrirbæri á Íslandi) sem eigandi íbúðar og get ekki sagt annað en ég hafi lært heilmikið um ekki bara nágranna mína, heldur einnig um samspil ríkisins (sameign) og skattgreiðenda (einkaeign). Byrjum á örlítilli skýringu á aðstæðum:

Í byggingunni sem ég á íbúð í þá á ég ekki alla íbúðina. Ég á ekki gluggana (sem snúa út) og sjálft múrverkið eða kassann sem byggingin er. Ég á gólfið og innri veggi og allt það. Hafði raunar ekki hugmynd um þetta fyrr en nú (réði lögfræðing til að sjá um fasteignaviðskiptin og hef ekki lesið stafkrók í neinum pappír sem viðkemur kaupum og eignarhaldi). Þessi sérkennilega blanda "sameignar" (húsfélagið, sem margir sjá um að fjármagna í gegnum húsfélagsgjöld) og séreignar leiddi vægast sagt af sér fjörlegar umræður um viðhald sameignar og ýmsan kostnað eins og við var að búast, en með örlitlu flækjustigi sem viðkemur "sameign" á ytri hlið byggingarinnar og eignarhaldi húsfélagsins á gluggum.

Samkvæmt húsfélagslögum á húsfélagið að standa fyrir viðhaldi á eigum sínum (múrverk og gluggar). Þetta er ekkert mál þegar kemur að málningarvinnu og ýmissi steypu- og þakvinnu á ytri hlið hússins, en þegar kemur að rúðum er sagan mun flóknari. Fyrir nokkrum árum (skildist mér) gaf húsfélagið leyfi til að fólk gæti sjálft skipt um sína glugga (gerð var krafa um að skipta þeim út sem hluti af almennu viðhaldi), gegn því að vera ekki rukkað fyrir gluggaútskiptingu annarra. Nokkrum árum seinna hafa margir gleymt þessu, eða nýir eigendur komnir, og reyndu margir ákaft að losna við að þurfa greiða fyrir þennan hluta viðhaldsins, enda er það jú hlutskipti húsfélagsins að sjá um svona lagað! Flækjustigið er hið gamla samkomulag, og sumir sem höfðu lagt út í kostnað við að skipta um sína glugga, í góðri trú um að þurfa ekki að taka þátt í kostnaði annarra vegna þeirra gluggaskipta, voru ekki á eitt sáttir við það. Húsfélagið getur, með atkvæðagreiðslu meðlima, breytt hinu gamla samkomulagi, og margir sáu fram á að hafa skipt um eigin glugga og vera neyddir til að fjármagna gluggaskipti í íbúðum þar sem ekki hafði verið skipt um glugga.

Málið hefði geta farið á hvorn veginn sem er, en var afgreitt með málamiðlun um að athuga hitt og þetta og taka það upp á síðari fundi.

Líklega eru deilur af þessu tagi eitthvað sem fyrstu boðberar lýðræðis höfðu í huga þegar þeir héldu því fram að meirihlutastjórn yfir minnihluta gæti aldrei gengið í of fjölmennum samfélögum. Þarna var hópur fólks samankominn, hópur sem spannar sennilega allt hið pólitíska litróf, til að ræða um kostnað sem á annaðhvort að leggjast á alla (gegn því t.d. að auðveldara sé að fá gott tilboð í stórt verk) eða hvern og einn (og þannig getur hver og einn fylgt sínu máli eftir, og þarf ekki að hafa áhyggjur af því að einhver dragi fæturnar og verði til vandræða seinna).

Í lýðræði sem nær út fyrir fundarherbergi örfárra einstaklinga er hætt við að pressan aukist á einhverja að reyna velta kostnaði vegna eigin neyslu eða viðhalds yfir á aðra. Á húsfélagsfundinum heyrðist hver einasta rödd og menn sátu og hlustuðu á hin tæknilegustu mál því þau varða eignir þess og fjárfestingu sem skiptir máli. Þegar einn stakk upp á einhverju sem veltir kostnaði yfir á aðra, þá risu hinir sömu upp og mótmæltu og minntu á fyrra samkomulag eða bentu á ókostina sem hugsanlega fylgdu tillögunni.

Í stærra samfélagi þar sem málflutningsrétturinn er kominn til þeirra sem beinlínis hafa hag af því að auka kostnað allra til að auka eigin völd (t.d. heilbrigðisráðherra að heimta meira skattfé til sjúkrahúsa, í nafni sjúklinganna vitaskuld) þá er komin mótsögn sem getur bara leitt til þess að sá raddlausi verður mjólkaður meira og meira. Gildir einu úr hvaða þingflokki viðkomandi þingmaður eða ráðherra er: Það er í hans hag að auka rányrkju sína á kjósendum sínum.

Ég kem ánægður af mínum húsfélagsfundi (þótt ég dáist alltaf að því hvað Danir eru góðir í að þrauka langa fundi). Við ætlum ekki að leggja út fúlgur fjár til að fá breiðband. Við ætlum ekki að borga stórfé til ráðgjafa í tengslum við gluggaútskiptingar þeirra sem eiga slíkt eftir sem hluta af samkomulagi um viðhald á eigum húsfélagsins. Við ætlum hugsanlega að setja upp leikvöll, en sem betur fer eru þau áform hófsöm og frestað a.m.k. um eitt ár. Viðhaldsáætlanir eru á hinn bóginn metnaðarfullar og ekki á að slá slöku við þar. Gott mál segi ég.

Verkefni ríkisins kosta fé, og allir þurfa að leggja sitt af mörkum til að borga þau. Menn eiga það hins vegar til að reyna velta kostnaðinum yfir á aðra, eða telja sjálfum sér í trú um að það sé hægt. Oft er það hægt, en á meðan maður heyrir raddir fórnarlambanna þá helst freistingin að einhverju leyti í skefjum. Lýðræði er ágætt, en ef hópur kjósenda er of stór, sundurleitur, dreifður og samskiptalaus er hætt við að lýðræðið verði bara enn eitt kúgunartækið og tæki til rányrkju á hinum þögla hluta hópsins.

Bónuslexían er svo sú að "beint lýðræði" og "íbúalýðræði" er alveg stórkostlega hamlandi fyrir þann sem fer með sameiginlegan sjóð eða hefur yfirumsjón með einhverju sem kallast "sameign". Líklega er það ekki markmið vinstrimanna þegar þeir boða "íbúalýðræði" (nema þegar þeir eru í stjórnarandstöðu), en væri skemmtileg hliðarafleiðing fyrir hægrimenn, fái vinstrimenn óskir sínar uppfylltar. Af hverju eru hægrimenn ekki að boða fleiri kosningar um allskyns málefni ríkisvaldsins? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband