Hvernig á að særa tilfinningar umhverfiskomma?

Ármann Jakobsson, vinstri-grænn og Múrverji, skrifar lítinn pistil á Múrinn.is þar sem tónninn er sá að öll gagnrýni á Vinstri-græna, hugmyndafræði þeirra og fortíðarafrek skoðanasystkyna þeirra er sögð röng og eigi við fátækleg og jafnvel ósmekkleg rök að styðjast. Slík gagnrýni sé í raun ekkert annað en rökleysa og útúrsnúningur, eða það eru í það minnsta þau skilaboð sem ég les út úr skrifum Ármanns.

Vinstri-grænir hafa lengi haldið því fram að þeir séu "sjálfum sér samkvæmir" og sveiflist ekki með vindátt skoðanakannana eins og t.d. Samfylking og Framsókn. Vitaskuld er þetta ekki rétt (frekar en um nokkurn annan stjórnmálaflokk sem þarf að taka afstöðu til alls milli himins og jarðar, og vega upp á móti væntigildi atkvæða í næstu kosningum auk eigin sannfæringar, sé hún til staðar). Vefþjóðviljinn hefur verið duglegur við að benda á ótal mörg atriði sem skjóta meinta staðfestu Vinstri-grænna á bólakaf og virðist hafa úr nóg að moða (dæmi, dæmi, dæmi), en Ármann ákveður að snúa þeim á haus, stytta niður í 5-10 orða útúrsnúning, og vísa frá. Skotárás á stjórnmálastefnuna "ég kýs ætíð á móti útvíkkun einkaframtaksins" (sem Vinstri-grænir eru forsvarsmenn fyrir í dag) kemur einnig úr annarri átt - frá Guðmundi Magnússyni, sem hefur verið duglegur við það seinustu daga að rifja upp andspyrnu meðal annars hins núlifandi og alltaf sitjandi þingmanns, Steingríms J. Sigfússonar, gegn auknu svigrúmi fyrir einkaframtakið.

Þorir Ármann ekki að taka efnislega á gagnrýni á Vinstri-græna, fyrirrennara Vinstri-grænna á ysta vinstrikanti stjórnmálanna og Steingrím J. - þingmanns bæði fyrr og nú? Ég er ekki að segja að Ármann eigi að svara fyrir öll afrek vinstrimanna fyrr og nú. Alls ekki. Hann mundi hins vegar gera sjálfum sér (og raunar mér líka) stóran greiða með því að hjálpa fólki að skilja á milli "ég kýs ætíð á móti útvíkkun einkaframtaksins"-stefnu nútímans, og þeirrar sem Guðmundur Magnússon hefur fjallað um í mörgum færslum. Ármann væri einnig nær sálarró með því að viðurkenna stökkbreytingu vinstrimennskunnar þegar Járntjaldið féll og jafnréttis- og umhverfismál urðu að hinum nýju tækjum til að þjarma að hinum frjálsa markaði, samhliða því sem öllum tilraunum til að auka svigrúm einkaframtaksins er hafnað á löggjafarsamkundu Íslendinga.

Svara efnislega, útskýra muninn á vinstrinu þá og nú, eða bara þegja. Múrs-grein Ármanns gerir honum engan greiða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband