Bloggfærslur mánaðarins, mars 2018

Hvað með rafrænar kosningar?

Það er ekki margt sem tölva getur gert sem blýantur og pappír getur ekki líka gert, þótt á því séu auðvitað veigamiklar undantekningar.

Það er hægt að kjósa með blýanti.

Það er hægt að fylla út eyðublað með blýanti.

Það er hægt að rita hugleiðingar með blýanti.

Það er hægt að fylla út próf með blýanti.

Það er hægt að framkvæma útreikninga með blýanti.

Menn tala um rafrænar kosningar. Þó er saga þeirra ekki beinlínis glæsileg og eru til íslensk dæmi um ýmislegt sem fór fram í hugbúnaði en fór e.t.v. ekki fram í raunveruleikanum. Auðvitað virka flest kerfi yfirleitt vel en þegar þau gera það ekki er ekkert hægt að gera. Próf fara forgörðum. Kosningar verða ógildar eða niðurstaða þeirra verður röng. 

Vonandi muna menn gamalt lögmál smiðsins: Mældu tvisvar og sagaðu einu sinni. Það verður ekki aftur snúið ef eitthvað fer úrskeiðis.


mbl.is Gagnrýnivert að hafa ekkert „plan B“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Koma skotvopn í veg fyrir skotárásir?

Einhliða umfjöllun fjölmiðla í Evrópu um byssueign og skotvopnaglæpi segir eitt og bara eitt: Vopnaeign er slæm því hún leiðir til notkunar vopna.

En hvað ef hið gagnstæða er rétt? Að vopnaeign dragi úr vopnanotkun?

Þetta er kenning sem er ekki hægt að aflífa með því einu að benda á skólaskotárás í Bandaríkjunum eða Finnlandi.

Kenningin er e.t.v. ekki rétt en hið gagnstæða er það ekki heldur.

Það er létt fyrir einn mann með eitt vopn að brytja niður óvopnaða nemendur og kennara.  Þegar allir eru óvopnaðir er einmitt mjög freistandi fyrir örvæntingarfullan ungan mann að hefna sín á heiminum með einni lítilli byssu. Hann hefur nægan tíma til að særa og drepa á meðan lögreglan mætir á svæðið með sín vopn.

Í einni frétt er sagt frá bæ nokkrum í fylkinu Georgíu í Bandaríkjunum.

Þar á bæ voru menn orðnir þreyttir á ofbeldi og morðum. Bærinn setti því ákvæði í lög sem skylduðu eða hvöttu almenning til að ganga um með skotvopn. Hvað gerðist? Glæpatíðni hríðféll. 

Auðvitað sannar svona dæmi ekki neitt. Kannski eru íbúar þessa bæjar bara heppnir. Kannski fengu allir glæpamennirnir vinnu. Kannski mönnuðust öll áttavilltu ungmennin. 

Stjórnmálamenn vilja afvopna almenning. Þannig hefur það alltaf verið. Það er léttara að bæla niður fólk með heygaffla en riffla. Gleymum samt ekki að óvopnaður almenningur er eins og hænsn í kofa þar sem þarf bara einn ref til að drepa alla. 


mbl.is Í lífshættu eftir skotárás
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumt blandast vel saman, annað ekki

Einu sinni voru Vesturlönd fátæk og án velferðarkerfa. Síðan urðu þau rík en enn án velferðarkerfa. Að lokum tóku þau upp velferðarkerfi en héldu áfram að vera rík (hættu bara að verða jafnhratt ríkari og áður).

Fátæk ríki laða ekki til sín innflytjendur. Þau halda áfram að vera einsleit í fátækt sinni. Rík ríki án velferðarkerfa gera það ef það er nóg af vinnu að fá. Innflytjendur renna þá hratt út á atvinnumarkaðinn, blandast þeim sem þar eru fyrir og kapphlaupið snýst um að framleiða verðmæti.

Rík ríki með velferðarkerfi laða líka til sín innflytjendur en í miklu meiri mæli en þau án velferðarkerfa og einnig aðra tegund innflytjenda. Velferðarkerfin eru fjárfrek og krefjast hárra skatta og því lítið rými fyrir hagkerfið að vaxa jafnhratt og í frjálsara umhverfi. Úrval starfa fyrir innflyjendurna er takmarkað. Þeir fara á bætur. Þeir læra á kerfið, ekki tungumálið og samfélagið. 

Það er alveg hægt að blanda fullt af innflytjendum inn í samfélag rétt eins og það er hægt að þykkja graut með sósuþykkni. Persónulega er ég t.d. á þeirri skoðun að því fleiri Pólverjar flytjast til ákveðins svæðis, því betur vegnar því. 

Vandamálin byrja þegar menn blanda ósamrýmanlegu innihaldi við gamla uppskrift. Ef þú hellir stórum skammti af múslímum ofan í úthverfasamfélag í Bretlandi uppskerðu gettó, einangrun, sérstaka dómstóla sem starfa óháð landslögum og jafnvel andúð á því samfélagi sem tók við hinu nýja hráefni. Ef þú hellir stórum skammti af hvítum mönnum inn í Afríkuríki uppskerðu sjúkdómafaraldra, kúgun á innfæddum með valdi og þvingað trúboð. 

Það myndi leysa mörg vandamál að leggja niður velferðarkerfið, lækka skatta og láta fólk tryggja sig gegn áföllum á markaðsforsendum. Afæturnar nenna ekki að setjast að í slíku samfélagi. Þeir koma sem vilja, og þeir aðlagast sem vinna. 

En það dettur engum í hug. 


mbl.is Innflytjendur séu ekki gestir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný uppfinning: Blýantur

Ný uppfinning hefur litið dagsins ljós: Blýanturinn.

Velgengni þessarar uppfinningar er ekki óumdeild. Hún hefur vissulega náð í allar búðir. Það er hægt að kaupa blýant fyrir smápeninga nánast hvar sem er. Þó virðist enginn kæra sig um þá. 

Þeir sem tala fyrir hönd blýantsins benda á að hann virki á hvaða þurra pappír sem er. Þó þurfi pappírinn að vera stamur, en yfirleitt er það ekki vandamál. Þeir benda á að það sem er skrifað með blýant haldist við ýmis skilyrði. Skrif með blýant eru endanleg á meðan enginn leggur á sig mikla vinnu og þurrkar þau út með sérstöku gúmmíi.

Andstæðingar blýants segja að hann sé ekki nútímalegur. Upplýsingar frá blýant berast ekki beint inn í miðlæga gagnagrunna. Það er of mikil vinna að láta manneskjur lesa skrif blýants. Betra sé að tölvur geri allskonar, þ.e. þar til þær hrynja.

Ég er stuðningsmaður blýantsins og vona að þessi uppfinning haldi velli. Þetta er persónuleg skoðun, ekki pólitísk. Þó vona ég að pólitíkusar taki hana upp.


mbl.is „Þetta er óásættanlegt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Konur og karlar gera það sem þau vilja

Það er alltaf gaman að vinna þar sem er góð blanda af konum og körlum. Ég hef unnið á vinnustöðum þar sem karlar voru í meirihluta (100% starfsmanna), konur voru í meirihluta (allir í kringum mig konur nema ég) og blönduðum vinnustöðum. Blandaður hópur getur af sér skemmtilegasta vinnuumhverfið að mínu mati þótt vissulega skapist ákveðin stemming á hreinum karlastöðum, og sömuleiðis á hreinum konustöðum.

Menn hafa samt komist að einu: Konur og karlar vinna þar sem þau vilja. 

Þetta virðist sérstaklega eiga við í samfélögum þar sem engar kynbundnar hindranir eru til staðar, t.d. Norðurlöndunum. Karlar sem vilja kenna á leikskóla geta það. Konur sem vilja binda járn á byggingalóðum geta það. 

Það sem hefur komið rannsakendum á óvart er að þegar engar kynbundnar fyrirstöður eru til staðar þá ýkjast kynjahlutföllin í átt til einsleitni í mörgum greinum. Langflestir kennarar og hjúkrunarfræðingar eru kvenkyns. Langflestir iðnaðarmenn eru karlar. Þetta er niðurstaðan af algjörlega opnu kerfi menntunar og starfsvals. 

Óbein niðurstaða er svo auðvitað sú að heildarlaun karla eru hærri en kvenna (sem má ekki rugla saman við þá kröfu margra að fólki sé borgað sömu laun fyrir sömu vinnu að teknu tilliti til allskonar þátta, sem er allt önnur umræða). Karlar að jafnaði sækja í erfiði, áhættu, langa vinnudaga og kapphlaup við laun og titla. Konur sækja að jafnaði í jafnvægi á milli einkalífs og vinnu, fyrirsjáanleika og öryggi.

Margir hamast í konum vegna þessa. Talað er niður til þeirra fyrir að velja ekki á sama hátt og karlar - almennt - að vinna eins og skepnur til að uppskera há laun og fína titla. 

Það er samt ekki við neinn annan að sakast en þann sem velur eitthvað eitt en ekki annað og uppsker eftir því. 

Kannski vantar fleiri iðnmenntaðar konur eða hjúkrunarfræðimenntaða karlmenn. Kannski ekki. Hver á að ráða ef ekki einstaklingarnir sjálfir sem standa frammi fyrir vali á námi og starfi?


mbl.is „Ég er stolt af því að vera fyrsta kon­an“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Launamunur hverra?

Blaðamenn hafa lengi látið plata sig til að tala um launamun á milli kynjanna. Það er vandlega innpökkuð blekkingarstarfsemi sem fleiri og fleiri eru byrjaðir að sjá í gegnum.

Það er ekki launamunur á milli kynjanna. Það er launamunur á einstaklingum en kynferði útskýrir þann launamun ekki. Það sem útskýrir hann er sérstakt persónuleikaeinkenni sem á ensku útleggst "agreeableness", og má skilgreina svo:

Agreeableness (friendly/compassionate vs. challenging/detached). A tendency to be compassionate and cooperative rather than suspicious and antagonistic towards others. It is also a measure of one's trusting and helpful nature, and whether a person is generally well-tempered or not. High agreeableness is often seen as naive or submissive. Low agreeableness personalities are often competitive or challenging people, which can be seen as argumentativeness or untrustworthiness.

Þetta er persónuleikaeinkenni sem forðast átök, vill að allir séu vinir og að það sé góður liðsandi. Að rífast og slást um hærri laun fellur ekki að þessum óskum.

Konur hafa að jafnaði meira af þessu persónuleikaeinkenni en karlar.

Þeir sem hafa meira af þessu persónuleikaeinkenni en aðrir hafa að jafnaði lægri laun.

Kannski blaðamenn vitkist einn daginn og hætti að kokgleypa og endurbirta áróður.


mbl.is Dregur úr launamun kynjanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þá lýkur vonandi þessi þreytandi máli

Loksins kom eitthvað óþreifanlegt út úr margra mánaða kvabbi yfir fullkomlega eðlilegri stjórnsýslu (að því er virðist). Núna verður lögð fram vantrauststillaga, þingmenn kjósa og málið vonandi leitt til lykta í eitt skipti fyrir öll, á einn eða annan hátt.

Það hlýtur að vera runnið upp fyrir öllum að allt þetta mál er bara leið stjórnarandstöðu til að klekkja á stjórnarflokkunum og að það hefur enginn raunverulegan áhuga á málinu sem slíku.

Menn geta svo í framhaldinu hafið raunverulega og efnislega umræðu á því hvernig skipa beri dómara við íslenska dómstóla. 

Almenningur og fyrirtæki ættu svo að veita því aukna athygli að það eru til valkostir við innræktað dómaraveldi Íslands. Eða hverjum datt svo sem í hug að ríkiseinokun á úrlausn deilumála væri betri en ríkiseinokun á einhverju öðru?


mbl.is Leggja fram vantrauststillögu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veljum íslenskt, ekki satt?

Núna hrista margir hausinn yfir áhuga Bandaríkjaforseta á innflutningstollum. Þeir skaða bandaríska neytendur! Þeir vernda óhagkvæmni fyrir samkeppni! Þeir kveikja í viðskiptastríði! Þeir eru rangir!

En það þarf ekki að setja á tolla til að ná fram flestum ef ekki öllum ókostum þeirra. Á Íslandi er t.d. mikið talað um að velja íslenskt. Hvað þýðir það? Það þýðir að neytendur láti ekki verð og gæði angra sig heldur velji innlenda framleiðslu óháð verði og gæðum. Með því móti er verið að skaða neytendur, vernda óhagkvæmni fyrir samkeppni og setja neytendur í hugarfar viðskiptastríðs.

Íslendingar gera margt vel, bæði innlendis og á alþjóðavettvangi. Íslendingar eru góðir að veiða og selja fisk, hugbúnað, tækniþekkingu og ýmsan iðnaðarvarning, svo eitthvað sé nefnt. Þeir eru lélegir í að rækta appelsínur og sauma föt, a.m.k. borið saman við marga aðra í heiminum. Það er engum til gagns til lengri tíma að velja íslenskt nema ef hin íslenska framleiðsla stendur öðrum framar í verði og gæðum.

Heimurinn heldur vonandi áfram að gagnrýna Trump og benda á holurnar í hagfræði hans. En lítum okkur líka nær.


mbl.is Hótar að tollleggja innflutta bíla frá ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband