Lausnarhugmyndir

Eitthvað virðist stjórn OR vanta hugmyndir til að koma til móts við skuldafjallið sem OR er undir. Það er því ekki úr vegi leggja nokkrar til:

Hugmynd #1: Selja eignir:

OR á nóg af eignum og með örlítilli pólitískri hægribeygju er örugglega hægt að koma mörgum þeirra í verð. Segjum til dæmis sem svo að HS Orka verði keypt af Magma Energy, en orkuver OR seld í hendur einhvers annars fyrirtækis. Er þá ekki kominn prýðilegur grundvöllur fyrir harða samkeppni? Þeir sem vilja að ríkið eigi orkufyrirtæki geta þá att Landsvirkjun á þann samkeppnismarkað og séð til hver sé betri til að reka hefðbundið fyrirtæki sem þarf aðföng og viðskiptavini og agað bókhald: Einkaaðilar eða hið opinbera (sem setti OR í þrot).

Hugmynd #2: Lýsa OR gjaldþrota:

Önnur prýðileg leið til að vinda ofan af skuldabagga OR. OR brotið upp í milljón mola sem ganga kaupum og sölum á markaði þar til hagstæðar rekstrareiningar mætast á ný, í nýju og "hreinsuðu" fyrirtæki. Nú eða að ríkið setji lög sem sópi brunarústum OR aftur í faðm hins opinbera, sem getur þá á ný byrjað að hlaða skuldum á fyrirtækið (ef einhver vill lána því eftir þjóðnýtingu á eigum fyrri lánadrottna OR).

Hugmynd #3: Stunda kennitöluflakk:

Draumur sósíalistanna í ríkisstjórn gæti ræst með einföldu kennitöluflakki. Reykjavík lýsir sína kennitölu gjaldþrota, og flytur OR yfir á kennitölu í nafni ríkisins sem þá eignast OR. OR og Landsvirkjun má svo sameina í eitt ofur-orkufyrirtæki þar sem verðtaxtar eru ákveðnir á skrifstofu umhverfisráðherra, án tillits til annars en pólitískra hagsmuna.

Hugmynd #4: Mergsjúga grandlausa borgara:

Sú hugmynd sem mér finnst síst er sú að beita OR eins og barefli á grandlausa borgara sem hafa ekki um aðra kosti en að kaupa sína orku af OR. Því miður virðist samt þessi hugmynd ætla verða ofan á.


mbl.is Engin ánægja að hækka gjaldskrár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: ThoR-E

Góðar hugmyndir.

Einnig teldi ég gott ráð að lækka launin hjá þessum toppum.

Þegar staða fyrirtækissins er svona er nú varla réttlætanlegt að menn innan fyrirtækissins séu með mánaðarlaun upp á aðra milljón króna.

Það hlýtur að vera hægt að skera niður og lækka laun. Eða er virkilega alltaf fyrsta hugsun að hækka verð. Ýta vandanum yfir á almenning sem er saklaus af þessari skuldsetningu fyrirtækissins.

Það er allt eins á þessu blessaða landi okkar.

ThoR-E, 24.8.2010 kl. 16:43

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Vandamálið við að verðleggja vinnu forstjóra er að OR situr eitt að feitum fjósbita og þarf ekki að óttast samkeppni um hann, a.m.k. ekki nema einhver róttæk breyting á rekstrarumhverfi OR eigi sér stað.

Verðið sem OR borgar æðstu stjórnendum sínum er því algjörlega handahófskennd tala, hvort sem hún er 100 þús eða 1000 þús á mánuði.

Vandamál verðlagningar í sósíalísku rekstrarumhverfi (þar sem gæði og eignir geta ekki gengið frjálsum kaupum og sölum) er vel þekkt, og óleysanlegt, og þess vegna er ekki til "rétt" verð á æðstu stjórnendum OR.

Annars skilst mér að fráfarandi forstjóri hafi lagt fram hugmyndir um niðurskurði og aðhaldsaðgerðir sem lágmörkuðu þörfina á taxtahækkunum og fólu m.a. í sér launalækkun einhverra. Sá forstjóri fékk að fjúka.

Geir Ágústsson, 24.8.2010 kl. 18:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband