Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011

Skrifa undir hvað?

Ég undirrituð/undirritaður skora á stjórnvöld að koma í veg fyrir söluna á HS Orku og skora jafnframt á Alþingi að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um eignarhald á orkuauðlindum Íslands og nýtingu þeirra.

Þetta er mjög óskýr yfirlýsing - of óskýr til að ég geti skrifað undir hana. Ef banki framvísaði jafnóljósum texta og bæði viðskiptavini um að skrifa undir þá yrði hann sennilega dreginn fyrir dómstóla. 

Ég get samt leyft mér að giska á hvað er átt við með þessari óskýru yfirlýsingu. Sennilega eru listamennirnir á bak við hana að biðja um 6. grein stjórnarskrá Sovétríkjanna frá 1936 sem segir: 

The land, its natural deposits, waters, forests, mills, factories, mines, rail, water and air transport, banks, post, telegraph and telephones, large state-organized agricultural enterprises (state farms, machine and tractor stations and the like) as well as municipal enterprises and the bulk of the dwelling houses in the cities and industrial localities, are state property, that is, belong to the whole people. 

Ekki fjarri lagi er það nokkuð? Við vitum hvernig fór fyrir náttúruauðlindum Sovétríkjanna - þessara í "sameign" þjóðarinnar. Þeim var nauðgað. 

 


mbl.is Hátt í þrjátíu þúsund undirskriftir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðbólga er mikil og vaxandi

"Verðbólga" er nú að "mælast" lækkandi víðast hvar. Einmitt það já.

Enska orðið "inflation" var einhvern tímann rétt notað í merkingunni "útþensla á peningamagni í umferð". Seinna, þegar ríkisvaldið var búið að ala hagfræðinga upp í að styðja seðlaprentunarvald sitt fóru menn að tala um hækkandi verðlag sem "inflation", sem því miður er þýtt sem "verðbólga" á íslensku.

Réttara væri samt að tala um "verðbólgu" þegar vísað er til aukningu á peningamagni í umferð.

Menn segja að "verðbólga" sé nú að "mælast" lækkandi. Slíkt sendir þau röngu skilaboð til almennings og fjárfesta að seðlabankar heims séu hættir að prenta jafnmikið og áður. Það eru röng skilaboð. Seðlabankar heims eru að prenta eins og óðir. Bandaríkjamenn prenta upp í skuldir sínar og stjórnlausan hallarekstur hins opinbera, Evrópumenn prenta til að bjarga hinum ýmsu ríkisstjórnum frá afleiðingum ríkisábyrgða á áhættufjárfestingum einkafyrirtækja (aðallega banka). Kínverjar prenta til að halda í við seðlaprentun Bandaríkjamanna. Íslendingar moka erlendu lánsfé inn á skuldabækur ríkisins og breyta í krónur til að fleyta skelli kreppunnar fram í næsta kjörtímabil (þar sem ný ríkisstjórn mun þurfa tækla óráðsíuna og þiggja skammir fyrir). Svona má lengi telja.

Á meðan heldur gull og silfur áfram að hækka og hækka í verði (þá sérstaklega mældu í dollurum) en slíkt segir okkur að dollarinn eigi inni góða dýfu og hratt fallandi kaupmátt. Hið sama á við um flesta aðra gjaldmiðla heims. 


mbl.is Lækkandi verðbólga víðast hvar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur J. Sigfússon: Tvíhöfði

Stenst ekki að stela eftirfarandi texta héðan:

Ef allt væri með felldu myndi fjármálaráðherrann Steingrímur J. Sigfússon segja við Steingrím J. Sigfússon, formann Vinstri grænna: Skilurðu núna samhengið á milli skatta og efnahagslegra athafna. Því lægri skattar því meiri umsvif, því hærri skattar því minni umsvif.

Steingrímur J. tekst einhvern veginn svo oft að tala þannig að hann virðist í augnablik skilja samhengi hlutanna, en afhjúpar svo skilningsleysi sitt með hegðun sinni og ákvörðunum.

Fjármálaráðherrann SJS reynir að láta ríkisreksturinn ganga upp. Hann gafst upp og ákvað að taka risastór lán í stað þess að færa útgjöld niður að tekjum. Gjalddagar falla á næstu ríkisstjórn.

Vinstri-græni formaðurinn SJS reynir að framfylgja pólitísku markmiði sínu um að þenja ríkisvaldið út sem víðast og skipta sér sem mest af atvinnulífi og hegðun einstaklinga.

Þessir tveir menn tala lítið sem ekkert saman. Annað höfuð Tvíhöfða skilur ekki hitt. 

 


mbl.is Skattalækkun eykur umsvif
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sameinast um sósíalisma?

Ég vona að ósk Obama - að allir stjórnmálamenn sameinist um sósíalisma hans - verði ekki virt. Obama er í öllum meginatriðum að innleiða sósíalisma í Bandaríkjunum. Hann tók glaður við seðlaprentunarvélum alríkisins og ætlar að nota til að fjármagna stjórnlaust dýrt heilbrigðiskerfi, halda áfram útgerð bandarískra hermanna um allan heim og framfylgja allskyns tískubólum evrópskra sósíaldemókrata ("græn orka" og fleira slíkt).

Íslenskir sósíalistar hafa líka óskað eftir samstöðu um sinn sósíalisma á Íslandi. Sem betur fer hefur þeim ekki orðið að ósk sinni og sem betur fer finnst ennþá vottur af andstöðu við sósíalismann á Alþingi, þótt veik sé.


mbl.is Biðlar til repúblikana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins!

Vísindamönnum á vegum kínverskra stjórnvalda hefur tekist að endurnýta kjarnorkuúrgang til raforkuvinnslu.

 Þetta eru frábærar fréttir! Fyrir mörgum árum las ég að tækni í þessum dúr væri "væntanleg" en loksins kemur frétt um að eitthvað sé orðið nothæft í þessum málum. Núna er hægt að valta yfir andstæðinga kjarnorkuvera og slá málflutning þeirra algjörlega út af borðinu. Ef fréttin er rétt þá er að mínu mati um byltingu að ræða. 

Þessi "græna bylgja" í orkumálum er hrikaleg. Menn hafa eytt fúlgum í að þróa vindmyllur og annað eins rándýrt dót sem með engu móti er arðbært að fjárfesta í og reka og sendir rafmagnsreikninga almennings í himinhæðir (eða skattheimtuna). Öllum aðferðum hefur verið fundið eitthvað til foráttu: Vatnsafl er of plássfrekt, gufuorkuver losa of mikið af efnum í umhverfið, orkuver sem nýta jarðefnaeldsneyti losa of mikið af CO2 í andrúmsloftið, og svona má áfram telja. 

Bless, sú umræða. Halló kjarnorkuöld hin seinni!


mbl.is Kínverjar endurnýta kjarnorkueldsneyti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað vakir fyrir Kínverjum?

Kínversk stjórnvöld eru sannfærð um að spænska hagkerfið muni standa af sér núverandi efnahagskreppu og þau munu halda áfram að kaupa spænsk ríkisskuldabréf.

Einmitt það já? Mín kenning er sú að kínversk stjórnvöld hafi enga trú á því að Spánverjum takist að rétta úr kútnum, og hafi aðrar ástæður fyrir því að halda áfram að kaupa spænsk ríkisskuldabréf.

Ég held að Kínverjar séu að fjármagna skuldasöfnun Spánverja til að komast í góða stöðu gagnvart þeim sem munu fjármagna "neyðarlán" til Spánverja, t.d. AGS og ESB. Kínverjar treysta því (sennilega með réttu) að ESB og AGS muni virða skuldbindingar Spánverja gagnvart t.d. Kínverjum (frekar en að lýsa yfir gjaldþroti Spánar og afskrifa skuldir ríkisins). Með því að eignast mikið af skuldum Spánverja sé því hægt að komast djúpt í vasa ESB og AGS, og þar með Þjóðverja og annarra sem í raun eiga pening og hafa ekki gleymt því hvernig á að skapa verðmæti.

Kínverjar eru sennilega að byrja gefast upp á að lána Bandaríkjamönnum. Bandaríkin eru að peningaprenta sig til helvítis og Kínverjar vita það en af pólitískum ástæðum hafa þeir leitt það hjá sér. Nú er röðin komin að því að skuldsetja Evrópu og tappa af verðmætasköpuninni sem þar á sér stað, t.d. í Þýskalandi. 


mbl.is Kínversk stjórnvöld hafa fulla trú á spænska hagkerfinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað borga skattgreiðendur með sundmiðanum?

Núna mun það kosta mig, sem fullorðinn einstakling, 450 kr. að fara í sund ef ég kaupi stakan miða. Gott og vel. En hvað kostar mín sundferð skattgreiðandann sem fer ekki í sund? Er ég að taka mörg hundruð krónur úr hans vasa þegar ég ákveð að eyða mínum tíma í sundlaugum Reykjavikur? Getur einhver upplýst mig um það?

Mér finnst gaman að fara í sund, liggja í heita pottinum og allt sem fylgir sundferð. Ég fer oft á ári í sundlaugar höfuðborgarsvæðisins og úti á landi þegar ég er á ferðalagi. En mér blöskrar engu að síður þegar ég horfi á risavaxnar rennibrautir í hverju plássinu á fætur öðru. Heitu pottarnir eru allir með nýjustu nuddtækni og sundlaugarnar hannaðar með landsmót í huga (með tilheyrandi tómum sundbrautum í keppnislengd). 

Virðingarleysi sveitarstjórna fyrir skattgreiðendum er að því er virðist takmarkalaust. Ekki er nóg með að ríkið sé að niðurgreiða sundlaugarekstur sinn með fé skattgreiðenda, og heldur þannig einkaaðilum rækilega frá þessum markaði, heldur er bruðlið slíkt að skattgreiðendum er enginn griður gefinn, og nú sundlaugargestum í auknum mæli (þótt ég fagni því að notendur séu nú aðeins nær því að borga sjálfir fyrir tómstundir sínar).

Sundferðir eiga að vera kostaðar af þeim sem stunda þær. Mig grunar að rétt verð sundferða í faðmi hins opinbera sé miklu hærra en það ætti að vera, eða gæti verið, vegna blöndu af bruðli og skattfjárniðurgreiðslum. 


mbl.is Sundferðin kostar nú 450 krónur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrópskt = gott?

Katrín sagði í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins að hún teldi ekki verið að innleiða ritskoðun sérstaklega, verið væri að innleiða tilskipun sem flest Evrópuríki hefðu þegar tekið upp.

Hér skýtur gamalkunnug "röksemd" fyrir nýrri löggjöf upp kollinum - sú að eitthvað sé nú þegar í lögum margra Evrópuríkja eða sé í samræmi við einhverja löggjöf Evrópusambandsins, og þess vegna á að taka upp sömu löggjöf á Íslandi.

Man einhver hvaðan lög um tryggingasjóð innistæðueigenda á Íslandi komu? Man einhver hvernig sú löggjöf reyndist Íslendingum?

 


mbl.is Ritskoðun ekki leidd í lög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landið skuldsett á bólakaf

Ríkisstjórnin ákvað að bregðast við kreppunni með því að taka öll þau lán sem stóðu henni til boða og dæla í allskyns vitleysu. Tónlistarhúsið er ennþá í byggingu, ESB-löggjöf er verið að þýða í stórum stíl, stjórnlagaþing og þjóðfundir af ýmsu tagi sjúga til sín milljónirnar og ráðherrarnir raða vinum sínum í nýjar og gamlar stöður í ráðuneytum sínum.

Hið versta er svo að krónunni er haldið uppi á gjaldeyrisforða, sem tekinn var að láni.

Eðlilega hefur þetta kerfisbundna fikt með hagkerfið áhrif á einstaklingana sem þar hrærast. Almenningur heldur ranglega að kreppan sé að baki og er hættur að greiða niður lán sín en fer þess í stað á neyslufyllerí. Krónurnar rýrna í verði og því vissara að skipta á þeim og einhverju handföstu á meðan gjaldeyrishöftin halda. 

Gjaldeyrishöftunum verður ekki létt fyrr en dregur að lokum kjörtímabilsins. Ríkisstjórnin þorir ekki að losa um þau fyrr, og vinur hennar í stól seðlabankastjóra veit það.

Íslenska hagkerfið er ennþá á niðurleið. 


mbl.is Kortavelta eykst milli ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Keisarinn er nakinn

Ríkisstjórnin hefur umlukið sig orðum eins og "endurreisn" og "uppbygging" síðan hún komst til valda. Ríkisstjórnin hefur óskað eftir samstöðu þjóðarinnar um sósíalisma sinn, og beinlínis farið í fýlu þegar sú samstaða hefur ekki fengist.

Um tveimur árum seinna ætti flestum að vera orðið ljóst að ríkisstjórnin segir eitthvað eitt, en gerir eitthvað allt annað.

Hvernig dettur nokkrum manni í hug að skattahækkanir stuðli að endurreisn? Nú eða útþanið embættismannabákn? Fleiri reglur, meira eftirlit, fleiri boð og bönn, hærri skattar, niðurskurður á þeim hluta ríkisrekstursins sem fólk notar á meðan ESB-skjalaþýðingar og tónlistarhúsbygging sjúga til sín milljarðana. 

Það er eins og ríkisstjórnin hafi komist yfir rit með nafnið "Hvernig á að kafsigla hagkerfi" og fylgt því eftir til seinasta bókstafs.

Ríkisstjórnin er að gera vont ástand verra og verra með hverjum deginum. Sá tími er fyrir löngu liðinn að hún geti bent aftur til þarseinustu eða þarþarseinustu ríkisstjórnar til að gera að blóraböggli. Keisarinn er nakinn.


mbl.is Uppbygging og vöxtur framundan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband