Loksins!

Vísindamönnum á vegum kínverskra stjórnvalda hefur tekist að endurnýta kjarnorkuúrgang til raforkuvinnslu.

 Þetta eru frábærar fréttir! Fyrir mörgum árum las ég að tækni í þessum dúr væri "væntanleg" en loksins kemur frétt um að eitthvað sé orðið nothæft í þessum málum. Núna er hægt að valta yfir andstæðinga kjarnorkuvera og slá málflutning þeirra algjörlega út af borðinu. Ef fréttin er rétt þá er að mínu mati um byltingu að ræða. 

Þessi "græna bylgja" í orkumálum er hrikaleg. Menn hafa eytt fúlgum í að þróa vindmyllur og annað eins rándýrt dót sem með engu móti er arðbært að fjárfesta í og reka og sendir rafmagnsreikninga almennings í himinhæðir (eða skattheimtuna). Öllum aðferðum hefur verið fundið eitthvað til foráttu: Vatnsafl er of plássfrekt, gufuorkuver losa of mikið af efnum í umhverfið, orkuver sem nýta jarðefnaeldsneyti losa of mikið af CO2 í andrúmsloftið, og svona má áfram telja. 

Bless, sú umræða. Halló kjarnorkuöld hin seinni!


mbl.is Kínverjar endurnýta kjarnorkueldsneyti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þórín er framtíðin í kjarnorkueldsneyti.

Guðmundur Ásgeirsson, 3.1.2011 kl. 18:37

2 identicon

Geir, ég veit ekki hvers konar ósammála ég á að vera...

Auðvitað er góð hugmynd að þróa endurnýtanlegu orkugjafana, þá sérstaklega þegar þeir gera ekki umfangsmeiri kröfu en að vindur, rennandi vatn eða sjávarföll séu til staðar.

Það er vitaskuld rétt hjá þér að engin aðferð (ég veit að minnsta kosti ekki betur) sé fullkomin. Þó verð ég að draga það í efa að vatnsvirkjanir séu plássfrekar. Ekki er Ljósafossstöðin mikið stærri en húsið mitt þótt hún framleiði mun meira rafmagn en hamstur systur minnar :)

Mín skoðun er sú að ef sá möguleiki er fyrir hendi að virkja lindár sé það oftar en ekki þjóðráð. Lindár hafa nefnilega þann eiginleika að vera tærar svo farvegur þeirra fyllist ekki af aurburði. Vatnavextir eru litlir sem engir og til þess að bæta einu ofan á annað þær þá frjósa þær ekki heldur. Þannig er orkuframleiðslan frá lindárvirkjun stöðug hvernig sem viðrar. Brauðsneið kjarnorkuveranna virðist hafa lent á sultuhliðinni hvað það varðar því gjarnan þarf að draga úr eða jafnvel slökkva á raforkuframleiðslu þegar heitt er í veðri. Þetta er varla vandamál hér á Íslandi en ég get ekki fullyrt það sama um heitari lönd þar sem einn helsti kostnaðarliður rafmagnsreikningsins er loftkæling.

Hvað rökræðutæknina þína varðar var kannski sterkur leikur að nefna aðeins kosti kjarnorku en galla annarra aðferða. Eins og þú nefndir hafa allar aðferðir vissulega einhverja galla en það sem kom mér mest á óvart við framsetninguna þína er að það sem þú nefndir hinum aðferðunum til foráttu á allt saman við um kjarnorku:

1- Kostnaður:

Hér ætla ég að nefna nokkra liði.

- Kostnaður við byggingu á verinu.

- Gæsla, bæði vegna hryðjuverka og stuldar á geislavirkum efnum.

- Eldsneyti (efni sem hægt er að kljúfa t.d. úran eða eins og Guðmundur Ásgeirsson bendir á hér að ofan, þórín).

- Gera að geislavirkum úrgangi.

- Lokun (mjög dýrt: 300.000.000$ skv. NRC)

- Tryggingar

Svo minni ég á að kjarnorkuver endast ekki nema um 40-60 ár. Til samanburðar má nefna að Kárahnjúkavirkjun endist í um 100-200 ár.

2- Plássfrekja:

Ég tel mig hafa gert því skil hér að ofan að vatnsafl þarf svo sannarlega ekki að vera plássfrekt. Kjarnorka þarf heldur ekki að vera það en hún er þó plássfrekari. Homeland Security gefur upp tvenn hættusvæði í kringum kjarnkljúfa: annað í 10 mílna radíus og hitt í 50 mílna, svo ekki sé minnst á plássfrekju slyss á Tjernóbýl-skalanum þar sem 14.000 manna bær lagðist í eyði.

3- Losun lofttegunda:

Það væri fásinna að halda því fram að við klofnun úranatóms yrði til koldíoxíð. Ég er nú betri í efnafræði en það. Þrátt fyrir það eru kjarnorkuver gríðarlegur koldíoxíðmengunarvaldur en hvað kemur til? Þótt það losni ekki CO2 við kjarnaklofnun losnar mikið af því í ferlinu sem á sér stað fram að því þ.e. námugröftur, flutningur og losun úrgangs. Hér er tafla sem ber saman CO2-losun nokkurra aðferða fyrir hverja kílówattstund:

Kjarnorka............66

Jarðhiti.............38

PV-Sólarorka.........32

Hitasólarorka........13

Vatnsvirkjanir.......10-13

Vindmillur á landi...9

Vissulega eru staðir og stundir þar sem kjarnorka kemur best út orkugjafanna en svo sannarlega ekki alltaf.

Ég vona að ég hafi komið þeirri skoðun minni á framfæri að kjarnorka er löngum leiðum frá því að vera hinn fullkomni orkugjafi. Segja mætti að kjarnorka sé „Perfect only in her imperfection,“ eins og Jon Mclauglin nokkur sagði. Hvort hann var að tala um kjarnorku veit ég hins vegar ekki.

http://www.nrc.gov/reading-rm/basic-ref/students/decommissioning.html

Jóhannes Bjarki (IP-tala skráð) 3.1.2011 kl. 23:56

3 identicon

Góðar fréttir.

En kjarnorkuandstæðingar og svokallaðir umhverfissinar munu samt sem áður ekki gefast upp.  Þvert á móti munu þeir finna eitthvað annað athugavert við þetta til að nota sem "góðan málstað" til að berjast gegn orkuvinnslu á þennan hátt.

Allt sem getur skaðað Vesturlönd og gert þau veikari, eru "góður málstaður" í augum svokalllaðra umhverfissinna og vinstrisinna.

Hafsteinn Th. Guðgeirsson (IP-tala skráð) 4.1.2011 kl. 08:44

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Sæll Jóhannes,

Ég þakka fyrir fræðandi innlegg.

Persónulega finnst mér öll arðbær orkuframleiðsla vera betri en engin eða óarðbær orkuframleiðsla. Mér finnst vatnsaflsvirkjanir vera það sniðugasta sem Íslendingar hafa tekið upp á sína arma síðan slátrið var fundið upp. Mér finnst fjáraustur úr vösum skattgreiðenda í "græna" orkutækni vera sérhagsmuna- og tískupólitík af verstu gerð. Ef menn vilja þekja húsþak sitt með sólarpanelum eða fylla garðinn sinn af vindmyllum þá á það að vera einkamál viðkomandi og á reikning viðkomandi. 

Kjarnorka hefur marga kosti (t.d. stöðugleika og gríðarlega afkastagetu) og galla (t.d. eingöngu eins örugg/óörugg og stjórnmálamenn vilja að hún sé). En ég veit ekki betur en að hún sé arðbær þar sem menn hafa tækni og þor til að nýta hana (t.d. í USA og Frakklandi). Þannig getur hún bæði útvegað rafmagn á góðum kjörum og látið skattgreiðendur í friði. 

Geir Ágústsson, 4.1.2011 kl. 09:18

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Sæll Hafsteinn,

Já vissulega. Hin pólitíska skoðun margra er sú að orkuvinnsla og aukning hennar ýti undir iðnað og að iðnaður sé í sjálfu sér ekki af hinu góða (af mörgum ástæðum). Þessari pólitísku skoðun er svo sveipað inn í teppi umhverfisverndar. 

Geir Ágústsson, 4.1.2011 kl. 09:20

6 Smámynd: Steinarr Kr.

Takk Geir.  Ég hélt ég væri sá eini á Íslandi sem fyndist kjarnorka sniðug.  Greinilega ekki.

Steinarr Kr. , 4.1.2011 kl. 19:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband