Starfsleyfi

Er það svo að sífellt fleiri afkimar í samfélagi manna séu nú háðir því að yfirvöld veiti einhvers konar leyfi?

Starfsleyfi, rekstrarleyfi, byggingarleyfi, gistingarleyfi, leyfi, leyfi, leyfi.

Til hvers?

Fyrir mörgum árum, þegar ég var í verkfræðinámi í Háskóla Íslands, var okkur sagt að til að mega kalla sig verkfræðing á Íslandi þurfi að sækja um það og fara á sérstakan lista hins opinbera. Þetta hafði að vísu engin áhrif á möguleikana til að starfa sem verkfræðingur, eða til að ráða einstakling í stöðu verkfræðings. En til að mega kalla sig verkfræðing þurfi að sækja um að komast á hinn opinbera lista (gegn svolítilli þóknun, auðvitað).

Ég spurði hvort það kæmi einhvern tímann fyrir að einstaklingur útskrifaður úr verkfræðinámi frá Háskóla Íslands fengi ekki að komast á listann góða og fékk þau svör að nei, slíkt hafi ekki komið fyrir. Kannski tímar hafi breyst eitthvað í dag.

Þess má geta að ég er ekki búinn að sækja um að komast á listann góða og kalla mig samt verkfræðing. Þetta mun ekki breytast.

Núna stefnir í að apótekum þurfi að loka af því nýútskrifaðir lyfjafræðingar þurfi að bíða eftir starfsleyfi. Í engu hefur slíkt leyfi áhrif á menntun þeirra eða getu til að sinna starfi sínu. Þessir lyfjafræðingar eru tilbúnir að afgreiða lyf daginn eftir útskrift. Það blasir við að þeir muni fá sitt starfsleyfi. En bíða þurfa þeir samt.

Í stjórnarskrá segir í 75. grein:

Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.

Þetta eru innantóm orð. Í framkvæmd eru þau í raun svohljóðandi:

Enginn má gera nokkur skapaðan hlut nema hið opinbera veiti til þess sérstakt leyfi, háð hvaða þeim skilyrðum sem hið opinbera setur.

Neytendur lyfja fá að finna fyrir því í sumar. Aðrir finna nú þegar vel fyrir þessum óendanlegu völdum hins opinbera.

Stjórnarskrá hvað?


mbl.is Hætta á að þjónusta skerðist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Grímur Kjartansson

Maður hefði haldið að þegar menn sækja um vinnu og titla sig verkfræðing þá væri athugað hvort þeir væru á listanum. En svo er ekki 
Starfsmannstjórar trúa einfaldlega því sem að þeim er logið og ef þetta uppgötvast síðar þá er litið framhjá því
Annars liti starfsmannstjórinn illa út!

Annars er þessi verkfræðingalisti eilífur og á honum löngu látið fólk.

Grímur Kjartansson, 10.5.2024 kl. 13:39

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tveimur og einum?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband