Skemmtiþátturinn umdeildi

Mér skilst að Eurovision-söngvakeppnin sé að hefjast eða sé jafnvel hafin. Ég hef ekki horft á þessa sýningu í mörg ár og gerði það bara á sínum tíma því þetta var gott partý. 

En eitthvað virðist þessi skemmtun núna vera orðin umdeild. Það er víst voðalega hræðilegt að skemmtikraftar frá einu tilteknu ríki fái að vera með af því yfirvöld þeirra standa í umdeildum aðgerðum, vægast sagt. Þessir skemmtikraftar standa að vísu ekki sjálfir í neinum umdeildum aðgerðum en það er víst svo að þegar yfirvöld einhverra gera eitthvað þá er það í umboði allra þegna þeirra. Svona eins og þegar íslensk yfirvöld beittu ekki neitunarvaldi sínu í NATO til að stöðva Bandaríkjaher frá því að teppaleggja Líbýu með sprengjum til að losna við pólitískan andstæðing: Íslendingar allir sem einn þar með samsekir í þeim glæp.

Af þessum sökum ætla margir ekki að njóta skemmtiatriðanna í ár og spara ekki að segja öllum sem vilja eða vilja ekki vita af því, svona eins og einhverjum sé meira en drullusama.

Af hverju er ekki bara hægt að njóta afþreyingar og íþrótta í friði fyrir pólitík? Voru Íslendingar að lýsa yfir stuðningi við mannréttindabrot Asera á Armenum þegar þeir kveiktu á Eurovision árið 2012? Eða að fagna Pútín þegar þeir skáluðu yfir Eurovision árið 2009? Eða að styðja við ofsóknir á rússneskum minnihluta í Austur-Úkraínu þegar þeir skemmtu sér yfir Eurovison árið 2017?

Ég veit að hjarðhegðunin er alveg ómótstæðilega freistandi, en Eurovision? Í alvöru? Algjörlega innihaldslaus skemmtun, full af glysi og gríni? 

Maður ætti kannski að kíkja á keppnina í ár og skrifa um hana langa pistla, bara svona til að segja þeim sem horfðu ekki á hverju þeir misstu af. Ég held samt ekki að ég nenni því.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Grímur Kjartansson

Ég horfði nú í gær og ekki var þetta beysið þó nóg væri að glysi og glamúr.

Sennilega fáum við alltaf svona fá atkvæði því verið er að refsa Íslandi fyrir að veiða hvali?
Á tímabili var því líka haldið staðfastlega fram að ofveiði væri að eyða öllum þorskstofninum og búnir til áhrifaríkir sjónvarpsþættir um hvarf hans úr Norðursjó.

Grímur Kjartansson, 8.5.2024 kl. 07:09

2 identicon

Ekki var af miklu að missa. Horfði, sem ég geri nánast aldrei. Man þegar Lordi vann. Tónlistaratriðin sem okkur var boðið upp á er á svo lágu plani að við Íslendingar eigum ekki að láta sjá okkur í keppninni. Tímabært að taka langt og gott hlé.

Eftir að hafa horft á þáttinn í gær, til að hlusta á Heru, varð ég enn vissari í minni sök. Þetta er keppni um að vera furðulegur, eiginleg frík, öskra og skoppa um sviðið. Sé gjarnan að Ruv noti peningana í eitthvað gáfulegra. 

Helga Dögg Sverrisdóttir (IP-tala skráð) 8.5.2024 kl. 08:10

Bæta við athugasemd

Hver er summan af átta og fimm?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband