Hvað borga skattgreiðendur með sundmiðanum?

Núna mun það kosta mig, sem fullorðinn einstakling, 450 kr. að fara í sund ef ég kaupi stakan miða. Gott og vel. En hvað kostar mín sundferð skattgreiðandann sem fer ekki í sund? Er ég að taka mörg hundruð krónur úr hans vasa þegar ég ákveð að eyða mínum tíma í sundlaugum Reykjavikur? Getur einhver upplýst mig um það?

Mér finnst gaman að fara í sund, liggja í heita pottinum og allt sem fylgir sundferð. Ég fer oft á ári í sundlaugar höfuðborgarsvæðisins og úti á landi þegar ég er á ferðalagi. En mér blöskrar engu að síður þegar ég horfi á risavaxnar rennibrautir í hverju plássinu á fætur öðru. Heitu pottarnir eru allir með nýjustu nuddtækni og sundlaugarnar hannaðar með landsmót í huga (með tilheyrandi tómum sundbrautum í keppnislengd). 

Virðingarleysi sveitarstjórna fyrir skattgreiðendum er að því er virðist takmarkalaust. Ekki er nóg með að ríkið sé að niðurgreiða sundlaugarekstur sinn með fé skattgreiðenda, og heldur þannig einkaaðilum rækilega frá þessum markaði, heldur er bruðlið slíkt að skattgreiðendum er enginn griður gefinn, og nú sundlaugargestum í auknum mæli (þótt ég fagni því að notendur séu nú aðeins nær því að borga sjálfir fyrir tómstundir sínar).

Sundferðir eiga að vera kostaðar af þeim sem stunda þær. Mig grunar að rétt verð sundferða í faðmi hins opinbera sé miklu hærra en það ætti að vera, eða gæti verið, vegna blöndu af bruðli og skattfjárniðurgreiðslum. 


mbl.is Sundferðin kostar nú 450 krónur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Davíðsson

Þetta er góð spurning. Hvað skyldu skattgreiðendur borga mikið fyrir hvert spark í yfirbyggðri fótboltahöll, hvert högg á golfvellinum, hvert slag með spaðanum í badminton o.s.frv. Það virðist alveg á hreinu að sveitarstjórnarmenn hafi offjárfest í margskonar mannvirkjum á síðast liðnum árum.

Hið opinbera hefur vissulega hlutverki að gegna í að styðja við íþróttastarf. Það þarf hinsvegar að forgangsraða og þá tel ég að barna og unglingastarf eigi að njóta forgangs svo og almenningsíþróttirnar. Þeir sem stunda þessar íþróttir eiga að greiða sanngjarnt og viðráðanlegt verð fyrir það.

Mér finnst þessi hækkun á sundinu vera bæði sanngjörn og viðráðanleg enda eru margskonar afsláttarkjör í boði. Það er sennilega hvergi ódýrara eða auðveldara að stunda sund en á Íslandi.

Árni Davíðsson, 3.1.2011 kl. 00:00

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Árni,

Sennilega er ódýrt að fara í sund/heita pottinn á Íslandi, sérstaklega miðað við lönd án heitavatnsbóla neðanjarðar. En þar til ég veit hvað sundferðin kostar (aðgangsgjald+opinber niðurgreiðsla), þá er erfitt fyrir mig að sjá hversu ódýrt það er.  Ef aðgangsgjald+opinber niðurgreiðsla er meira en 1000 kall á haus, þá er ódýrara að fara í bíó. Og skattgreiðendum er hlíft. 

Geir Ágústsson, 3.1.2011 kl. 11:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband