Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2018
Föstudagur, 2. nóvember 2018
Nokkur orð um íslenskar aðstæður
Þegar ég sé teikningar af framkvæmdum á Íslandi, þar sem sólin skín og allt er bjart og opið, þá veit ég að menn eru ekki að hugsa með höfðinu.
Á Íslandi þurfa allir staðir þar sem fólk á að standa og bíða að vera yfirbyggðir á einn eða annan hátt. Annars verða þeir ekki notaðir.
Þeir eru ekki margir dagarnir þar sem veðrið beinlínis leyfir að fólk standi lengi úti og bíði eftir einhverju. Menn láta sig hafa það að horfa á gleðigönguna og skemmtiatriði 17. júní og dröslast á krakkadaginn á Klambratúni. Mikið lengra nær það samt ekki. Þeir sem geta sleppt því að bíða í láréttri rigningu eftir fari gera það, og hinir vilja geta gert það í skjóli og helst í upphituðu húsnæði.
Kannski vonast menn til að veðrið batni við það eitt að eitthvað sé byggt sem gerir ráð fyrir góðu veðri.
Borgarlínustöð ný þungamiðja | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 1. nóvember 2018
Kommúnismi vekur upp það versta í manninum
Þeir eru til sem telja að kommúnismi sé draugur fortíðar.
Þeir eru líka til sem telja að sósíalismi sé framtíðin.
Báðir hópar hafa rangt fyrir sér.
Kommúnismi, eða sósíalismi (sjálfur Lenín gerði engan greinarmun á þessu tvennu), er bráðlifandi. Hann lifir í Venesúela og Norður-Kóreu. Hann lifir í höfði margra Vesturlandabúa. Sósíalismi er jafnvel í tísku meðal ákveðinna hópa, t.d. ungs fólks í mörgum vestrænum ríkjum, og gamalla kommúnista sem það lítur upp til.
Þetta má skrifa á skort á sagnfræðilegri þekkingu og skort á þekkingu á innihaldi sósíalískrar heimspeki, hvort sem hún kallar sig kommúnisma eða sósíalisma.
Kommúnismi í hvaða formi sem er mun alltaf og á öllum stöðum vekja upp verstu kenndir mannsins og sé hann gerður að opinberri stefnu mun saklaust fólk alltaf þjást og jafnvel deyja.
En hvað er til ráða? Ekki fá andstæðingar sósíalisma mikið um það að segja hvað blessuð börnin eru látin lesa í hinu opinbera skólakerfi.
Ekki er hægt að vænta þess að opinberir starfsmenn með tryggð eftirlaun - kennarar - höggvi í höndina sem fóðrar þá: Ríkisvaldið.
Auðvitað geta foreldrar rætt við börn sín og látið þau fá lesefni, en eru þeir sjálfir nægilega meðvitaðir um hætturnar?
Það má samt reyna. Og menn reyna.
Nú stendur t.d. til að endurútgefa The Gulag Archipelago í tilefni 50 ára afmælis bókarinnar. Þetta er bók sem margir telja að hafi haft töluvert um það að segja að Sovétríkin hrundu á sínum tíma. Ég hef ekki lesið hana en það stendur til, og mér skilst að þarna sé kommúnismanum veitt hið heimspekilega náðarhögg, og það rökstutt með óteljandi dæmum.
Það má nálgast ýmis rit Ayn Rand á íslenskri tungu, og Lögin eftir Bastiat og ýmis önnur rit sem steinrota ástina á ríkiseinokun og ríkiskúgun.
Kommúnisminn lifir góðu lífi, og jafnvel betra en nokkru sinni fyrr þökk sé tækniframförum hins frjálsa markaðar sem gera útbreiðslu hugmynda auðveldari en nokkru sinni.
Reynum nú, í eitt skipti fyrir öll, að jarða bændamorðingjana Che Guevera, Maó, Stalín og Pol Pot, þjóðernissósíalistann Adolf Hitler og hinar vægari nútímaútgáfur af öllum þessum sjálfelsku, sósíalísku valdafíklum.
Eru upp á náð karla komnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |