Hvernig féfletta skal almenning

Sumir stjórnmálamenn tala um kjósendur sína og almenning allan sem „skattstofn“. Séu skattar ekki í löglegu hámarki eða svíðandi og svimandi hæðum er talað um „ónýttan skattstofn“ sem má vitaskuld nýta, sé áhugi á því.

Svona tungutak kemur ekki á óvart því stjórnmálamenn hafa um annað og betra að hugsa en matarútgjöld þín og önnur forgangsatriði þegar kemur að eyðslu launatekna þinna.

Leiðirnar sem stjórnmálamenn nota til að féfletta almenning eru margar og blasa ekki allar við. Sjálfir skattarnir eru auðvitað augljósir. Þú vinnur þér inn 1000 krónur og hið opinbera - ríkið og sveitarfélagið - hirðir stóran bita í tekjuskatt og útsvar. Þú kaupir þér vöru eða þjónustu og ríkið fær hluta af kaupverðinu í gegnum virðisaukaskattinn og þú færð minna fyrir vikið. Þú stofnar fyrirtæki og ríkið hirðir hluta veltunnar í gegnum tryggingagjaldið og væna sneið af hagnaðinum í gegnum fjármagnstekjuskatt. Allir þessir skattar og fleiri blasa við og þá skilja flestir.

Það eru hins vegar hinar óbeinu leiðir til að mjólka almenning sem gagnast oft betur. Hinar óbeinu leiðir eru minna í umræðunni og sleppa jafnvel við allt umtal. Sem dæmi má nefna rekstur fyrirtækis í eigu hins opinbera. Hérna er Orkuveita Reykjavíkur gott dæmi. Þetta fyrirtæki er svo gott sem í einokunaraðstöðu og getur því hækkað gjaldskrár sínar ítrekað án þess að nokkur geti að því gert. Hagnaðinn má svo hirða í formi arðgreiðslna í borgarsjóð. Þannig borga viðskiptavinir Orkuveitu Reykjavíkur bæði hæstu mögulegu skatta og svimandi afnotagjöld og láta þannig mjólka sig tvisvar í borgarsjóð en telja sig bara hafa verið mjólkaða einu sinni.

Önnur óbein leið er að skattleggja eitthvað sem hlutfall af verðmati og knýja svo verðmatið í hæstu hæðir. Hér þekkja flestir til fasteignaskattanna. Með því að takmarka aðgengi að lóðum og nýbyggingum má þrýsta upp fasteignaverði en halda innheimtuhlutfalli fasteignaskatts óbreyttu. Með þessari aðferð má skófla inn meira og meira fé í gegnum fasteignaskattinn um leið og hægt er að segja að skattar hafi ekki verið hækkaðir, enda hlutfall þeirra óbreytt.

Enn ein vinsæl en óbein leið er að leggja gjaldskrár á opinbera þjónustu sem ætti í raun að vera margborguð í gegnum skattkerfið. Þannig má rukka sjúklinginn á sjúkrahúsinu um brauðsneiðina sína, í fyrstu með vægu gjaldi sem síðar er hækkað og hækkað. Sjúklinga má krefja um komugjöld þótt þeir geti ekki valið um að koma ekki, og byrja á lágri fjárhæð sem síðan má hækka um leið og heimsóknartíminn hjá lækninum er styttur. Hvernig ætli færi fyrir hárgreiðslustofu sem hegðaði sér á sama hátt? 

Ríkiseinokun á rekstri er óendanleg uppspretta af fé almennings. Sumir muna hvernig farsímagjöld hrundu þegar fyrirtækjum var leyft að keppa við Símann á fjarskiptamarkaði. Aðrir muna hvað var erfitt að fá heyrnatæki áður en einkaaðilum var leyft að koma inn á þann markað, í samkeppni við ríkisvaldið. Þar sem hið opinbera hefur sleppt takinu hefur orðið til val, samkeppni og markaðsaðhald. Þar sem hið opinbera rígheldur í eitthvað, t.d. sorphirðu á höfuðborgarsvæðinu, þar rýrnar þjónustan um leið og hún hækkar í verði, og það er tekjulind fyrir hið opinbera sem fer fram hjá flestum í dægurþrasinu. 

Þú hugsar kannski ekki „ónýttur skattstofn“ þegar þú lítur á þig í spegli, en það gera flestir stjórnmálamenn. Það er því ráð að koma þeim út úr sem flestu svo þeir geti féflett þig sem minnst.

Þessi grein birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. nóv. 2018 og er aðgengileg áskrifendum blaðsins hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Við skattstofnarnir erum líka kallaðir borgarar af því að við borgum allt sem af okkur er heimtað. :)

Jón Steinar Ragnarsson, 26.11.2018 kl. 20:36

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Góður!

Geir Ágústsson, 27.11.2018 kl. 05:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband