Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2018

Vandamál - raunveruleg, ímynduð og vanmetin

Í heiminum finnast mörg vandamál þótt heimur fari vissulega batnandi. Sum vandamál eru stór, önnur ekki. Sum eru hreinlega ímynduð. 

Sum stór vandamál eru vanmetin og önnur smærri ofmetin.

Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna bendir ekki á stærstu vandamál heims og ímyndar sér vandamál sem eru ekki til staðar. Það eru slæm tíðindi. Sameinuðu þjóðirnar eiga að vera vettvangur ríkja til að ræða vandamál heimsins. Sóa menn þar tíma sínum og fé í vitleysu?

Stærsta vandamál heimsins eru viðskiptahöft. Þeim hefur vissulega farið fækkandi undanfarna áratugi en þar sem þau eru enn við lýði valda þau fátækt og vesæld. Viðskiptahöft má fella niður einhliða án tafa. Afríkuríki halda hverjum öðrum í gíslingu fátæktar með því að viðhalda háum tollamúrum milli hvers annars. Afnám viðskiptahafta er á góðri leið með að útrýma sárafátækt í Austur-Asíu. Viðskiptahöft þarf að uppræta hraðar og með öllu sem fyrst.

En aukið viðskiptafrelsi hefur mikilvæga forsendu sem heitir vel varin eignaréttindi. Maður sem á sinn skika fer betur með hann en maður sem getur búist við að missa hann fyrirvara- og ástæðulaust. Til að leysa stærsta vandamál heimsins - viðskiptahöftin - þarf líka að stuðla að betur vörðum eignaréttindum.

Næststærsta vandamál heimsins eru óhagganleg landamæri. Ríki eins og Sýrland, Tyrkland, Írak og Íran ættu í raun að vera safn margra smærri ríkja þar sem hver þjóð eða þjóðarbrot gæti stýrt eigin ríki eftir eigin höfði í stað þess að keppa um yfirráð yfir óteljandi öðrum þjóðum. Kúrdar gætu þá fengið sinn skika og verið þar til friðs og fengið frið. Í Afríku eru óhagganleg landamæri búin að vera uppspretta eilífra borgarastyrjalda í áratugi. 

Misskipting lífsgæða er annaðhvort afleiðing viðskiptahafta og spilltra stjórnmála eða þess að sumum er að takast að sinna neytendum á framúrskarandi hátt. Misskiptingin sem slík er ekki vandamál ef hún er til komin vegna framfara sem gagnast öllum. 

Loftslagsbreytingar eru ekki vandamál Sameinuðu þjóðanna. Sólvirkni er á niðurleið og kuldakast væntanlegt. Mannkynið þarf að einangra og kynda hús sín betur og kaupa sér þykkari flíkur en ekki leggja á haftir og skatta á hagkvæmustu orkugjafa heimsins, sérstaklega í fátækari hlutum heims. 

Vaxandi þjóðernishyggja er ekki heimsvandamál heldur staðbundið vandamál bundið við ríki sem hafa reist gjafmild velferðarkerfi á kostnað innfæddra, og mokað tugþúsundum einstaklinga inn í það frá menningar- og trúarbragðasvæðum þar sem hatur á Vesturlöndum er landlægt. 

Kjarnorkuvopn geta vissulega verið mikið vandamál. Menn ættu samt að hugleiða af hverju nokkurt ríki telur kjarnorkuvopn vera góða fjárfestingu. 

Sameinuðu þjóðirnar eru greinilega á villigötum, því miður. Ég er samt bjartsýnn á að árið 2018 verði enn eitt árið þar sem mannkyninu vegnar betur en árið á undan (en ef næsta hrun í fjármálakerfi heimsins skellur á í ár, þá verður það vonandi notað til að hreinsa upp skuldir, stöðva peningaprentvélar heimsins og leggja grunninn að enn meira velmegunarskeiði).

Gleðilegt ár!


mbl.is Sendir heimsbyggðinni rauða viðvörun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband