Hlakkar í stóru útgerðunum

Veiðigjöldin eru landsbyggðaskattur sem er á góðri leið með að ryðja mörgum smáum útgerðum úr veginum og greiða leiðina fyrir þær stærri.

Jafnvel þótt stærri útgerðirnar greiði himinháar fjárhæðir í veiðigjöld geta þær aðlagast skattbyrðinni. Hver veit - kannski telja þær fram með þeim hætti, í gegnum erlend dótturfélög, að skattbyrðin er þolanlegri?

Háir skattar varðveita alltaf stöðu hinna stærri á kostnað þeirra smærri. Flókið skattkerfi hefur sömu áhrif. Menn tala um að með afnámi vörugjalda og flestra tolla hafi myndast svigrúm fyrir smærri aðila að koma inn, enda hafi háir skattar í flóknu skattkerfi fælt frá. Á sama tíma og skattar á innfluttan varning hafa einfaldast eru skattar á útgerðir flæktir. Það mætti jafnvel segja að skattkerfisbreytingar virki handahófskenndar og ekki byggðar á neinum samræmdum skilningi á áhrifum skatta á rekstur.

Á Íslandi er það af mörgum talið nánast glæpsamlegt að skila sómasamlegri afkomu. Hluthafar, sem eru meðal annars þúsundir einstaklinga og lífeyrissjóðir tugþúsunda einstaklinga, eiga ekki að fá að njóta ávöxtunar af arðbærum rekstri. Nei, þeirra ávöxtun má bara eiga sér stað í gegnum allskyns fjármálavafninga, gjaldeyrisbrask og bænir til almættisins. 

Er skrýtið að menn kvarti yfir vanmáttugum hlutabréfamarkaði á Íslandi?

Hættið að leggja sérstakan aukaskatt á útgerðina. Hún borgar alveg nóg í gegnum launaskatta, skatta á aðföng, skatta á aðkeypta vinnu, eldsneytisskatta, skatta á hagnað, skatta á arðgreiðslur og skatta á veltufé. 

Þeir sem tala um að það þurfi að skattleggja sérstaklega hina svokölluðu "auðlindarentu" hafa aldrei talað um að skattleggja Gullfoss sérstaklega fyrir fegurð og aðdráttarafl eða skattleggja berjamóa á löndum bænda. Það hefur enginn talað af samkvæmni um skatta á auðlindarentu á Íslandi - bara skatta á hagnað útgerða sem er nú óðum að þjappast saman á færri hendur, þökk sé skattlagningunni.


mbl.is „Stórblæðir um hver mánaðamót“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Veiðigjöldin eru allt of lág. Það endurspeglast í því að eftirspurn eftir kvóta er miklu meiri en framboð. Það kemur einnig fram í hárri leigu á kvóta.

Það nær auðvitað ekki nokkurri átt að valin fyrirtæki fái kvóta fyrir lítið til að leigja út fyrir margfalt verð. Slík mismunun stenst enga skoðun. Þetta er spilling.

Veiðigjald er ekki skattur frekar en húsaleiga sem fyrirtæki greiða og engum dettur í hug að kalla skatt. Veiðigjald er eins og hver annar eðlilegur rekstrarkostnaður.

Veiðigjald er gjald sem greitt er fyrir hlunnindi. Allir hljóta að greiða sama verð fyrir sömu hlunnindi enda væri annars verið að mismuna aðilum. Ef bæta verður rekstrarskilyrði minni fyrirtækja verður að gera það á annan hátt.

Gífurlegur hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja og eigenda þeirra er til vitnis um að mikil hækkun veiðigjalda er löngu tímabær. Mjög lítill arður þjóðarinnar af þessari eign sinni verður að hækka.

Ásmundur (IP-tala skráð) 3.1.2018 kl. 18:58

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Sé veiðigjaldið húsaleiga má þá ekki ætla að leigusalinn sjái um eftirfarandi hluti?

- Viðhald

- Endurnýjun

- Fjárfestingar í betrumbótum

- Þrif á ytra rými

Ríkið gerir ekkert af þessu. Það ákvarðar heildarmagnið og hallar sér svo aftur á meðan aðrir sjá um:

- Að ákveða hvaða skip henta miðað við samsetningu kvóta

- Að ákveða hvenær á að veiða hvaða tegund og hvar

- Að ákveða hvar vinnsla eigi að fara fram, og hvernig vinnsla sé arðbærust

- Að finna markaði

- Að ákveða tegund fiska, vinnslu, pökkun og geymsluaðferð fyrir hvern markað

- Að koma fisk á markað

- Að ráða og reka starfsfólk af öllu tagi

- Að ákveða hvernig viðhalds sé þörf

- Að ákveða í hvers konar flota skal fjárfest í í framtíðinni

- Að þróa, kaupa og innleiða tækninýjunar

- Að ákveða hvar eigi að vera með starfsstöðvar

Útgerð er víðast hvar í heiminum taprekstur. Á Íslandi var það líka svo lengi vel. En um leið og hagnaður myndast koma dollaramerkin í augu þeirra sem geta ekki hugsað sér að rekstur geti gengið vel.

Útgerðin borgar gríðarlega skatta. 

Margar útgerðir berjast í bökkum.

Arðgreiðslur sem hlutfall af veltu er lægri í sjávarútvegi en að meðaltali í öðrum greinum. 

Veiðigjöldin eru ríkisafskipti.

Magntakmarkanir ríkisins eru það raunar líka, en það er önnur saga. 

Geir Ágústsson, 3.1.2018 kl. 19:21

3 identicon

Á sama hátt og leigusali sér um viðhald útleigðrar eignar sér ríkið um viðhald auðlindarinnar.

Ríkið skiptir sér hins vegar ekkert af því hvernig handhafi aflaheimilda nýtir þessar heimildir ekki frekar en að leigusali skiptir sér af hvernig leigjandi nýtir sér hina leigðu eign meðan gengið er eðlilega um hana.

Annars er veiðigjaldið ekki húsaleiga. Það er hins vegar rekstrarkostnaður eins og húsaleiga.

Ásmundur (IP-tala skráð) 3.1.2018 kl. 19:57

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Samlíkingar þínar ná engri átt.

Veiðigjaldið er hreinn aukaskattur á tilteknar tegundir fyrirtækja, handahófskenndur, torskilinn og ófyrirsjáanlegur.

Veiðigjaldið er ekki eyrnamerkt ákveðnum útgjöldum, svo sem hafrannsóknum, heldur er mokað í ríkissjóð og notaður til að fjármagna kosningaloforð stjórnmálamanna sem jafna saman eyðslu á fé annarri og eigin dugnaði. 

Geir Ágústsson, 3.1.2018 kl. 20:50

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Geir.

Þetta er í kjarna eiginlega alveg rétt hjá þér.

Og þá hló marbendill þegar sérsakir talsmenn samkeppni náðu saman með sjálfskipuðum talsmönnum smárri útgerðarstaða um kröfuna að stórhækka veiðileyfigjöld.

Slík krafa kemur í raun frá stórútgerðinni, því hún tryggir henni í raun algjör yfirráð yfir auðlindinni. 

Fákeppni og byggðaauðn.

Og þetta sér frjálshyggjumaður eins og þú Geir, en ekki allir hinir samfélagseitthvað sem æpa á íþyngjandi auðlindaskatt.

Takk fyrir góðan pistil, og góðar athugasemdir.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 3.1.2018 kl. 22:43

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Ómar,

Þakka þér sömuleiðis fyrir endurgjöfina og hrósið.

Já, þegar þú segir það þá tek ég eftir því að stóru útgerðirnar hafa sig lítið frammi í umræðunni um veiðigjöld. Þeim finnst kannski betra að tjá sig í gegnum SFS. Litlu útgerðirnar eru hins vegar í blússandi baráttu fyrir lífi sínu og standast ekki að tjá sig milliliðalaust.

En vittu til, þegar stjórnmálamennirnir eru búnir að þjappa allri útgerðinni saman á 3-4 þéttbýlisstaði munu þeir töfra upp allskyns björgunaraðgerðir fyrir hin deyjandi sjávarpláss. Byggðakvótinn er bara byrjunin. Upp munu spretta menningarhús, niðurgreidd fjölbýlishús, nýjar ríkisstofnanir og hvaðeina. Unga fólkið mun alveg sjá í gegnum brellurnar og halda sig í góðri fjarlægð frá þessum stöðum. Þeir sem eldri eru, og eiga e.t.v. allt sitt sparifé í fasteignum sem eru að fuðra upp í verði, komast hvergi. Stjórnmálamenn hafa þarna fundið eilífðarvandamál sem krefst endalausra björgunaraðgerða.

Þetta er draumastaða hins afskiptasama stjórnmálamanns. 

Geir Ágústsson, 4.1.2018 kl. 07:36

7 identicon

Að sjálfsögðu eiga veiðigjöld ekki að vera eyrnamerkt ákveðnum útgjöldum, ekki frekar en húsaleiga. Veiðigjöld eiga að endurspegla sannvirði þeirra verðmæta sem í aflaheimildum felast.

Of lág veiðigjöld leiða til spillingar. Þá fellur til illa fengið fé sem td nýtist til að greiða niður tap dagblaðs sem er haldið úti í áróðursskyni gegn hagsmunum þjóðarinnar. Of lág veiðigjöld valda því að mikið fé safnast óverðskuldað á fáar hendur og rennur að miklu leyti til skattaskjóla erlendis til stórtjóns fyrir þjóðarbúið.

Of lág veiðigjöld stuðla að stöðugt vaxandi ójöfnuði. Að ríkið skuli beinlínis valda slíku meðan önnur ríki velta fyrir sér leiðum til að minnka ójöfnuðinn er með ólíkindum. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 4.1.2018 kl. 12:12

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Ásmundur.

Eiginlega held ég að þú sért á launaskrá hjá þeim sem hag hafa.  Öll rökfærsla þín, sem og frekari skrif benda til þess.

Til dæmis, ef þú þjáðist af heilagri réttlætiskennd, en þáðir ekki laun, þá vissir þú alveg að útgerðin hefur ekkert með skattaskjól að gera, en þær þá fáu hömlur sem eru til staðar, vilja húsbændur þínir losna við með fullri aðild að frjálshyggjubandalaginu, kennt við ESB.

Sem reyndar á ekkert skylt við þau frjálshyggjuviðhorf sem Geir síðuhöfundur heldur á lofti, og gerir mjög vel.

Þú Trumpar rökin, ábendingar Geirs, sem eru bæði réttmætar sem og rökstuddar, um að ofurskattlagning séu í þágu stórútgerðarinnar, svarar þú með lykkju sem segir, að staðreynd sé óreynd, að ef þú drepir ekki byggðarlög, og hina aldalöngu hefð þeirra að gera út á nálægð mið, þá stuðli það að ójöfnuði.

Órökum sem gera Trump að gáfumenni, það er miðað við þín kostuðu rök.

Það sorglega er, að hin kostaða umræða sér ekki rökveila þína.

Drepum hið smáa, drepum landsbyggðina.

Allt í nafni félagshyggju og jafnaðarmennsku, eða hvaða röksemdir Samfylkingin notar þessa dagana.

En hinn úthrópaði frjálshyggjumaður kannast við sannleikann, og bendir á hann, sá sannleikur er ekki kostaður af auðvaldinu, ekki frekar en í ICEsave stríðunum.  Þar sem einarðir frjálshyggjumenn stóðu staðfestan vörð um hag og hagsmuni þjóðarinnar.

Segir ýmislegt um andheiminn sem við upplifum í dag.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 4.1.2018 kl. 12:29

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Get ekki verið meira sammála þér Geir.

Ef aðstæður leyfa, og virknin sé til staðar, þá mun þessi pistill þinn, sem orðar margt af því sem ég hef hugsað, vera mér akur röksemdanna.

Við gerum jú út á ólík mið, þó við eigum snertimengi virðingarinnar.

Megi þögnin vera þinn óvinur, megi þú aldrei Trumpvæðast.

Bara vera þú sjálfur, og hafa kjarkinn og hvötina til að tjá þig.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 4.1.2018 kl. 12:32

10 identicon

Ómar, þetta eru engin rök hvorki hjá þér né Geir.

Að það sé nauðsynlegt að hafa veiðigjöld svo lág að þjóðin fær nánast engan arð af auðlindinni er auðvitað galið. Að stór fyrirtæki græði óhemju mikið vegna þessa nær auðvitað ekki nokkurri átt. Aukagróðinn er í reynd þjóðareign sem útgerðin hefur tekið eignarnámi með stuðningi ríkisvaldsins.

Vanda minni fyrirtækja er hægt að leysa á annan hátt en að sólunda eðlilegum arði þjóðarinnar til eigenda stórra útgerðarfyrirtækja. Kannski geyma útgerðarfyrirtækin ekki mikið í skattaskjólum en eigendur þeirra gera það í stórum stíl. Þeir fá þann arð sem þjóðinni ber að fá.

Rök Geirs eru frjálshyggjurök sem löngu er búið að hrekja. Á sama tíma og hann vill sem minnst ríkisafskipti vill hann að ríkið tryggi útvöldum einkarétt að auðlindinni. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 4.1.2018 kl. 16:57

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Ásmundur.

Það er hvorki mér eða Geir að kenna að þú sért illa læs á texta.

Varðandi rök stórútgerðarinnar sem segir að hin meintu frjálshyggju rök Geirs sé búið að hrekja, þá er vitglóra orða þinna svipuð og þegar Búi sagði 1988, að apartheid hinna hvítu væri í raun jafnrétti kynþátta, en hinir svörtu sem vildu ekki aðlagast hinum hvítu með til dæmis hjónaböndum, eða vinna á sama vinnustað, eða nota sömu almenningssamgöngutæki, nema þá á afmörkuðum stað, þeir væru í raun hinir sönnu rasistar.

Og vísaði þar með í afleiðingar apartheid stefnunnar, að hinir svörtu íbúar landsins voru því sem næst ósýnilegir nema við þrif og önnur erfiðisstörf.

Þú vitnar í orð Geirs, sem eru ekki hans orð, þú vitnar í afleiðingar ofurskattlagningar, og segir að það séu frjálshyggjurök, sem er alveg rétt, en sú frjálshyggja, að hygla hinum stóru og Örfáu, finnur þú hvergi stað í orðum Geirs.

Þú ert frjálshyggjumaðurinn Ásmundur.

Geir er hinn skynsemi.

En ég veit að það er erfitt að kyngja því.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 4.1.2018 kl. 17:11

12 Smámynd: Geir Ágústsson

Ómar og Ásmundur,

Þetta er greinilega heitt umræðuefni. Ég verð að taka undir með Ómari að Ásmundur skautar nettilega framhjá öllum athugasemdum við veiðigjald, og sér í lagi hækkandi veiðileyfagjald: Að það styrki stöðu stærstu útgerðanna, að það sjúgi lífið úr landsbyggðinni, að það hafi í raun engan annan tilgang en þann að þjóðnýta hagnað sem myndast eftir mikla vinnu og útsjónarsemi, að það leggist frekar handahófskennt á útgerðir eftir reiknireglum sem enn er verið að fínpússa, og að þetta sé í raun ekkert annað en öfund í dulbúningi.

Ásmundur segir á móti að þetta sé hagnaður sem myndast af nýtingu þjóðareignar (sem hefur enga lögfræðilega merkingu, svo því sé haldið til haga), og að sá hagnaður sé óréttlátt að enda í vasa útvalinna aðila. Það vantar samt að útskýra hvernig þessi hagnaður er að myndast, og af hverju hagnaður af útgerð er undantekningin frá reglunni þegar litið er til annarra ríkja. 

Ásmundur segir einnig að ég boði hér valdboð ríkisvaldsins - að ríkisvaldinu sé hér beitt til að banna, með nauðung, aðgang að fiskinum í sjónum. Ég skal alveg viðurkenna að ég skil ekki tilkall ríkisvaldsins til sjávarins. Ekki er ríkið að segja bændum hvað á að rækta á hvaða skika, hversu mikið, og af hvaða tegund. Hér legg ég til algjöra einkavæðingu hafsvæðisins. 

Sú málamiðlun, að ríkið ákveði aflamagn og gefi út framseljanlegar heimildir til að sækja það, er í besta falli málamiðlun, en hún er þó það góð sem slík að útgerð á Íslandi er skattgreiðandi en ekki ölmusaþegi eins og útgerðir víðast hvar í heiminum. 

Geir Ágústsson, 4.1.2018 kl. 22:07

13 Smámynd: Ómar Geirsson

Það er alltaf gaman að finna samhljóman með hardcore frjálshyggjurökum Geir, og ekki skal ég gera lítið úr þeim rökum að ríkið hafi eitthvað með það að gera að mynda meintan einokunarhagnað af útgerð með takmörkunum sínum á afla, og síðan gefa þeim takmörkunum verðgildi.

Þekki öll þau rök og hef oft tekið slaginn við átrúnað hins stóra, hvort sem hann er í einkaeign, eða sósíaleign.

En þessi rök eru einfaldlega röng, og Sovétið féll ekki vegna skorts á markaðsupplýsingum, heldur vegna þess að vanvirti styrk og kraft einstaklingsins.  Án markaðar framleiddi hinn smái, frændur mínir og frænkur okkar frá Sumarhúsum, megnið af landbúnaðarafurðum Sovétsins, þrátt fyrir öll stærðarhagkvæmisrök stórkapítalismanna, og nítíu og eitthvað prósent af aðföngum.

Ég get vísað í kennslubækur frá byrjun áttunda áratugarins þar sem hálærðir hagprófessorar skildu ekkert í hnignun hagkerfis stórfyrirtækjanna, og bjuggu til bullrök til að réttlæta kenningar sínar um hagkvæmi hinna stóru eininga, en ég þarf þess ekki Geir.

Þú eiginlega gerir það á mannamáli.

Enda af ættlegg Bjarts frá Sumarhúsum.

Hafðu þökk fyrir.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 4.1.2018 kl. 22:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband