Tímabært að ljúka hrun-málum fyrir næsta hrun

Enn eru í gangi dómsmál vegna viðburða og gjörninga í tengslum við bankahrunin 2008. Það fer að verða tímabært að ljúka þeim og búa til pláss í dagskrá dómstólanna fyrir ákærur í tengslum við næsta hrun.

Næsta hrun? Já. Það verður að sumu leyti ólíkt því seinasta en að sumu leyti svipað.

Meginástæða næsta hruns verður nákvæmlega sú sama og hins fyrra: Gríðarleg aukning á peningamagni í umferð, í viðleitni til að halda vöxtum lágum, hefur leitt til offjárfestinga og of mikillar skuldsetningar. Heilu hagkerfunum er nánast haldið á lofti með ódýrum lánum. Þau hagkerfi munu ekki þola nema örfáar kommur af vaxtahækkunum áður en skuldirnar verða óbærilegar.

Vaxtahækkanir eru um leið óumflýjanlegar. Til að halda vöxtum niðri þarf í sífellu að auka peningamagn í umferð. Þetta setur gríðarlegan þrýsting á kaupmátt gjaldmiðla - meira og meira magn peninga er að elta svipað magn af vörum og þjónustu sem þýðir að kaupmátturinn gefur eftir. Minnkun kaupmáttar getur verið vægari til skemmri tíma ef megnið af hinum nýju peningum leitar á svipaðar slóðir, svo sem í hlutabréf, húsnæði og opinberar skuldir. Til lengri tíma er samt ekki hægt að fela verðbólguna sem er afleiðinga peningaprentunarinnar. Þá fer almenningur að kvarta undan dýrtíð, bankar hætta að veita lán nema gegn verðtryggingu af einhverju tagi (ýmist sjálfvirkri eða í gegnum breytilega vexti, sem taka flugið).

Næsta hrun kemur líklega fram í kjölfar greiðslufalls einhvers af stóru ríkissjóðunum, t.d. Ítalíu eða Spánar eða jafnvel Bandaríkjanna. Þó getur verið að stór banki fari á hliðina og hrindi hruni af stað eins og seinast. 

En sama hvar næsta hrun hefst verða afleiðingarnar kunnuglegar fyrir Íslendinga: Útflutningsmarkaðir kólna, íslenska krónan tekur dýfu með tilheyrandi útblæstri á skuldum landsmanna, ferðamenn hætta að koma og formanni Sjálfstæðisflokksins verður kennt um allt saman.


mbl.is Mál Glitnismanna til aðalmeðferðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haukurinn

Sæll Geir,

Gott að heyra að maður er ekki einn um að vera uggandi yfir þróuninni í efnahagskerfinu.

Eitt vildi ég þó gera smá athugasemd við, þ.e. áhrif gengisfalls á straum ferðamanna. Er það ekki rétt skilið, að það er einmitt fall íslensku krónunnar sem hefur opnað ferðamannamarkaðinn talsvert upp á gátt? Er það ekki einmitt það, að fall krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum gerði það skyndilega viðráðanlegt fyrir stærri hóp ferðamanna en áður, þegar tekið er mið af hinu háa verðlagi þarlendis og kostnaði við ferðalög þangað?

Ég er mun meira uggandi yfir því að ég tel að þetta nýja gullegg landsmanna, ferðamannaiðnaðurinn, falli hreinlega úr tísku - einmitt af því að það er nánast orðið á allra manna færi að fara til Íslands og það því ekki lengur 'ekslúsívt'. Innviðir landsins og stefnumótun á ferðamannasviði hafa heldur ekki getað haldið í við hina stórauknu sókn erlendra ferðamanna til Íslands. Það sem áður fyrr gerði landið áhugavert fyrir ferðamenn, svo sem kyrrð, friður, ósnortin náttúra, frelsi, o.s.frv. er að mestu leyti eitthvað sem tilheyrir liðinni tíð.

En hey, hvað veit ég...

Haukurinn, 17.1.2018 kl. 11:23

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Sæll Haukur,

Þú getur alltaf treyst á mig til að hafa áhyggjur af efnahaginum! Sérstaklega þegar hann stendur á brauðfótum.

En jú það er rétt að gjaldmiðill sem reglulega flytur kaupmátt úr vösum launþega og í vasa útflutningsaðila/ferðaþjónustu gagnast sömu útflutningsaðilum/ferðaþjónustuaðilum. Kaupmáttur Íslendinga hættir að vera svissneskur og verður serbískur. Sparnaður Íslendinga gufar upp. Skuldirnar hækka. 

Kannski íslensk ferðaþjónusta hefði vaxið yfirvegað ef Íslendingar hefðu verið með traustari gjaldmiðil, og þá er ég ekki að tala um evru eða dollar sem eru bæði gjaldmiðlar í frjálsu falli, en af því þeir falla samsíða þá tekur enginn eftir því. 

Geir Ágústsson, 17.1.2018 kl. 11:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband