Fortíðin heillar

Samband íslenskra auglýsingastofa (SÍA) lýsir yfir áhyggjum af því að geta ekki lengur keypt ódýrar auglýsingar sem eru sendar til skylduáskrifenda.

Það mætti halda að þar sem RÚV er ekki með dreifikerfi þá sé alveg ómögulegt að auglýsa! Sem sagt, öll önnur lönd heims nema Ísland.

Kvabbið í SÍA ber ekki að taka alvarlega. Hvað með það þótt fólk sé hætt að nenna línulegri dagskrá troðfullri af auglýsingum og kjósi frekar Netflix og Youtube? Hugsið í lausnum!

Þetta viðhorf er dæmigert fyrir risaeðlur sem skilja ekki gangverk hins frjálsa markaðar. Á hverjum degi eru fyrirtæki að fara á hausinn og önnur eru stofnuð. Margar vörur eru að verða úreltar og aðrar að koma í þeirra stað. Margar tegundir starfa eru að leggjast af og aðrar að verða til. 

Fyrirtæki á Íslandi borga ekki fólki til að standa úti á götu með auglýsingaskilti. Þess í stað ráða þau sérfræðinga í samfélagsmiðlum í markaðsdeildir sínar. Fyrirtæki senda sjaldnast gíróseðla með pósti og kjósa í staðinn að senda innheimtubeiðnir beint í heimabanka fólks. 

Íslenskar auglýsingastofur hafa sýnt og sannað að þær geta náð til fólks, með og án RÚV. RÚV er risaeðla og tími hennar er liðinn. 

Mun eldra fólk ekki lengur hafa neitt til að hlusta á eða horfa á þegar RÚV leggst af? Sjáum hvað setur. Eldra fólk er með nægan frítíma og oft ágæta greiðslugetu. Ég er viss um að það megi seðja þörf þess fyrir upplýsingar og afþreyingu.

Mun miðaldra fólk stara tómum augum á svarta sjónvarpsskjái þegar RÚV leggst af? Nei, ætli það sé nú ekki þegar hætt að horfa á RÚV.

Munu forvitnir krakkar missa af möguleikanum til að læra um lífið og tilveruna í gegnum dýralífsþætti og Stundina okkar? Ég held nú síður. Dóra landkönnuður er hundrað sinnum betra barnaefni en nokkuð sem er í boði á RÚV. Á Netflix eru fleiri heimildaþættir en RÚV hefur nokkurn tímann geta boðið upp á.

Munu tilkynningar um neyðarástand ekki ná til almennings án RÚV? Þá hafa menn gleymt því þegar einhver jarðskjálftinn dundi yfir Ísland og RÚV hélt áfram að sýna fótboltaleik (eða var það formúlukappakstur?) á meðan fréttamenn Stöðvar 2 voru komnir á vettvang. 

Munu allar gamlar upptökur sem sýna fyrstu ár íslensks sjónvarps eyðileggjast og gleymast? Nú veit ég ekki betur en að það sé tilfellið nú þegar. Miklu frekar er þörf á að koma verðmætum upptökum á stafrænt form og hætta að eyða plássi í að geyma visnaðar segulræmur sem ekkert tæki getur spilað hvort eð er. 

Nei og aftur nei, RÚV er óþarfi. Leggjum það niður. 


mbl.is Slæmt ef RÚV færi af auglýsingamarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband