Stoð hagkerfis fellur frá

Sparsamir milljarðamæringar sem fjárfesta fyrir peninga sína eða koma þeim í skjól frá skattayfirvöldum eru stoðir hagkerfisins. Í stað þess að moka milljörðum sínum ofan í botnlausar hítir yfirvalda eiga milljarðamæringar að reyna verja auð sinn svo þeir geti dregið af honum þegar heppileg og arðbær fjárfestingatækifæri skjóta upp kollinum. 

Auðvitað eiga allir að fylgja lögum (nema e.t.v. stundum) en þegar því er við komið á að reyna fylgja lögum þannig að maður komi sem hagstæðast út úr því sjálfur (og auðvitað þannig að enginn tapi á því nema ríkisvaldið).

Þannig taka allir fegins hendi við ódýrari klippingu því menn halda virðisaukaskattinum utan við verðlagninguna.

Þannig taka allir fegins hendi við aðstoð frændans sem er löggiltur rafvirki en skrifar ekki reikninga á blað fyrir fjölskyldumeðlimi. 

Það eru líka til lög sem menn fylgja með ánægju jafnvel þótt lögin séu alls ekki hönnuð fyrir viðkomandi.

Þannig taka allir fegins hendi við hvers kyns bótum - vaxtabótum, barnabótum og slíku - jafnvel þótt viðkomandi sé ekki bláfátækur og þarf strangt til tekið ekki að vera löggiltur bótaþegi.

Þannig nýta menn allan persónuafslátt sinn af tekjuskattinum jafnvel þótt menn komist af án hans.

Þannig setja menn milljarða í hirslur í Liechten­stein ef lögfræðingarnir sjá ekki neina hættu á því að lögreglan heimsæki mann og svipti frelsi.

Blaðamaður sem fjallar um Ingvar Kamprad hefur mikinn áhuga á peningum hans og fjármálaumsýslu en frekar lítinn áhuga á því mikla kraftaverki sem IKEA hefur verið mörgum og er enn. Það er synd og skömm.


mbl.is Sparsamur milljarðamæringur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

...blaðamaður hafði líka áhuga á Volvóinum hans Ingvars, árg 1993.

jon (IP-tala skráð) 29.1.2018 kl. 09:23

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Efnisgreinar 1-4: Um hans persónu og sparsemi

Efnisgreinar 5-8: Um viðskipti hans og IKEA

Efnisgreinar 9-12: Um fjármál hans

Efnisgrein 13: Um stjórnmálaskoðanir hans í gamla daga

Efnisgrein 14: Um hans persónu

Ekki orð um gjafir hans og IKEA almennt til góðra málefna. Ekki orð um þá miklu alheimsvél sem IKEA er - hugvit í hönnun og framleiðslu sem teygir sig til fjölmargra ríkja. Ekki orð um áhrif IKEA á húsgagnamarkaðinn almennt. Ekki orð um það hvernig IKEA tók flugið - það má skilja á fréttinni að það hafi bara gerst af sjálfu sér þegar Ingvar sá mann skrúfa fætur af borði. 

En fréttamenn skrifa auðvitað um það sem þeim finnst áhugavert og jafnvel það sem þeir telja að lesendur hafi áhuga á, stundum.

Geir Ágústsson, 29.1.2018 kl. 10:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband