Tækifæri til að skera heilbrigðisstarfsmenn úr snörunni

Þeir sem mennta sig markvisst til að verða starfsmenn hjá rekstri sem ríkisvaldið einokar (beint eða óbeint) eru geðklofa hópur einstaklinga.

Að hluta til stefnir það auðvitað, meðvitað eða ómeðvitað, á öruggt starf með góðum lífeyrisréttindum og miklum réttindum þegar kemur að ráðningum og uppsögnum. 

Að hluta til vill það bara láta gott af sér leiða og gildir þá einu hvort við þeim taki ríkisvald eða einkafyrirtæki að loknu námi. Sá sem brennur fyrir kennslu á grunnskólabörnum eða aðhlynningu sjúklinga lætur ekki rekstrarformið flækjast fyrir sér.

Síðan eru það þeir sem halda að öllu sé best borgið innan hins kæfandi faðmlags ríkisvaldsins. Þetta mætti jafnvel heimfæra á flesta lækna og hjúkrunarfræðinga því fáir lýsa þeir yfir ókostum ríkisrekstursins, og meira að segja ekki þegar stefnir í harða kjarabaráttu og hættuástand vegna niðurnídds húsnæðis og tækjabúnaðar. Samt vita þeir alveg af augnlæknunum, lýtalæknunum og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum sem starfa í bullandi samkeppnisrekstri en geta engu að síður boðið upp á aðgang að og meðhöndlun með notkun bestu fáanlegu tækni á viðráðanlegu verði.

En núna blasir við mikið tækifæri. Vinsældir ríkisstjórnarinnar eru í botni en það gerir ekkert til því enn eru 2 ár í kosningar og fyrirsjáanlegt að ríkisstjórnarflokkarnir missi meirihluta sinn ef fer sem horfir. Kjarabarátta verkalýðsstéttanna virðist ætla að lama samfélagið að stóru leyti. Það er engu að tapa!

Ríkisstjórnin ætti að keyra á gríðarlega umfangsmiklar einkavæðingaraðgerðir og festa þær í lög, fjárlög og hvaðeina og koma stórum bitum ríkisrekstrarins út á hinn frjálsa markað. Sé þetta gert hratt og vel mun einkareksturinn vera búinn að ná sér vel á strik fyrir næstu kosningar. Um leið mætti lækka alla skatta gríðarlega. Þá verður næstu ríkisstjórn - hugsanlega vinstristjórn - mikill vandi á höndum að ætla sér að sópa öllu til baka með tilheyrandi skattahækkunum og þjóðnýtingu á einkafyrirtækjum. 

Núna er tækifæri. Verður það nýtt?


mbl.is Mun ekki kasta eldivið á bálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll.

Ég efast stórlega um að þeir sem mennta sig til starfa í t.d. menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu séu, á unga aldri, mikið að velta fyrir sér lífeyrisréttindum. Svo er það nú þannig að þeir sem mennta sig sem læknar eða hjúkrunarfræðingar eiga sjálfsagt í mörgum tilvikum auðvelt með að fá starf við sitt hæfi víða í heiminum. Af lýðfræðilegum ástæðum er útlit fyrir að mun fleiri heilbrigðisstarfsmenn þurfi á Vesturlöndum á komandi árum og áratugum. Ekki allir sjá heiminn í gegnum gleraugu andúðar á hinu opinbera.

Hitt er rétt með einkavæðingaraðgerðirnar, í þær á að ráðast sem fyrst og í sem mestu mæli. Leggja má niður mörg ráðuneyti eins og t.d. ráðuneyti menntamála og efnahags- og viðskipta svo tvö dæmi séu tekin. Leggjast menntun og viðskipti í landinu af ef þessi ráðuneyti hverfa?

Stóri vandinn er sá að aðilar vinnumarkaðarins sem og þeir sem stýra og stýrðu hinu opinbera eru afar illa að sér í efnahagsmálum eða láta óskhyggjuna stýra sínum gjörðum.

Hinn efnahagslega veruleika flýjum við aldrei nema tímabundið og mun heimsbyggðin læra þá lexíu fljótlega hvort sem hún vill það eða ekki og verður sú lexía sársaukafull fyrir marga.

Hvað þarf að gera til að laun og kaupmáttur hérlendis aukist? Það er í reynd afar einfalt en samt ógerlegt í framkvæmd vegna þeirra sem málum ráða og þeirra hugmyndafræði. Til að hækka laun almennings þarf að:

- skera niður á fjárlögum um ca.25% á ári í 4-6 ár

- lækka skatta verulega og leggja af reglur og stofnanir sem hamla verðmætasköpun og viðskiptum

- einkavæða sem mest án þess þó að ganga á áunnin réttindi

- laða að erlend fyrirtæki og fjárfesta með lágum sköttum, gjöldum og lítilli skriffinnsku, slíkt myndi auka eftirspurn eftir starfsafli sem aftur myndi ýta upp launum hérlendis

Annars þyrftu stjórnmálamenn ekkert endilega að ráðast í miklar einkavæðingaraðgerðir til að auka kaupmátt fólks, nóg væri að lækka skatta svolítið og þá myndi kakan stækka, stjórnmálamenn fengju meira fé til að útdeila og kaupa sér velvild með og almenningur hefði einnig meira á milli handanna.

Á 7. áratugnum lækkaði Kennedy forseti hæstu skatta úr 91% í 70%. Á árunum 1961-68 stækkaði bandaríska efnahagskerfið um 42% og hlutdeild hinna ríku í skattgreiðslum fór úr 11,6% í 15,1%. Er þetta tilviljun?

Í forsetatíð Reagan (1981) var hæsta skattþrepið lækkað í 28% úr 70% í þrepum. Skatttekjur af tekjuskatti einstaklinga voru 28% hærri 1989 en 1981. Á árunum 1978-1982 stækkaði bandaríska efnahagskerfið um 0,9% að meðaltali á ári. Skattalækkanir Reagan voru samþykktar 1981 eins og ég gat um að ofan. Á árunum 1983-86 stækkaði bandaríska efnahagskerfið um 4,8% að meðaltali á ári. Tilviljun?

Helgi (IP-tala skráð) 6.5.2015 kl. 06:52

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Burtséð frá tölfræði úr öðrum löndum þá ætti eftirfarandi að blasa við:

- Sá sem hefur rekstur á sinni könnu sem er beint eða óbeint varinn fyrir samkeppni mun óneitanlega haga rekstri sínum öðruvísi en sá sem þarf að nýta hverja krónu vel til að veita góða þjónustu á hagstæðu og skila hagnaði.

- Og gildir þá einu hvort viðkomandi þjónusta snúist um að skipta um smurolíu eða skera upp brjósthol.

- Sá sem þarf að sjá á eftir stórum hluta verðmætasköpunar sinnar í skattheimtu mun óneitanlega ekki hafa sömu hvata til að auka verðmætasköpun sína og sá sem heldur eftir stærri hluta verðmætasköpunar sinnar.

- Sá sem getur lifað á kostnað annarra mun miklu síður hefja líf á eigin kostnað en sá sem getur ekki lifað á kostnað annarra.

- Sá sem er bundinn af mikið af reglum og lögum mun ekki leggja jafnmikið á sig í endalausri tilraunastarfsemi í rekstri og þjónustu en sá sem hefur meira svigrúm.

- Sá sem eyðir verðmætum sem aðrir skapa eyðir þeim á annan hátt en sá sem ber ábyrgð á eyðslu eigin verðmæta.

Þetta, og nokkrar svipaðar ábendingar, segja miklu meiri sögu en einstaka tölfræði, þótt tölfræði geti vissulega verið skemmtileg

Geir Ágústsson, 7.5.2015 kl. 10:12

3 identicon

Sæll aftur.

Ég sé nú ekkert efnislegt svar í þessu hjá þér - meira bara svona almennt chat.

Ég held að í grunninn séum við sammála en mér finnst frekar einkennilegt að kalla einstaklinga sem mennta sig t.d. til starfa í heilbrigðis- og menntakerfinu hóp geðklofa einstaklinga (þó ég þykist vita að þú meinir þetta ekki bókstaflega). Ég veit ekki hvort hægt er að kenna því fólki um núverandi rekstrarform á heilbrigðis- og menntakerfinu? Eru þá verkfræðingar sem vinna hjá hinu opinbera hálf-geðklofa? Þó t.d. nám í læknisfræði sé krefjandi nám er ekki þar með sagt að þeir sem þar fara í gegn séu vel að sér í efnahagsmálum. Hvaða ályktun getum við dregið um þá verkfræðinga sem starfa fyrir ISIS?

Ég er sammála þér með einkavæðingu eins og ég nefndi að ofan. Þjóðfélög víða um heim munu fá óblíða lexíu í þörf þess að einkavæða á komandi árum.

Tölfræðin sem ég vitnaði í fannst mér eiga heima hér sem áminning um það að með því að lækka skatta vænkast hagur allra. Tölurnar frá forsetatíð Carter og Reagan eru afar sterk vísbending þar um og raunar nýlegt dæmi. Mörg önnur keimlík dæmi má auðvitað tína til og þetta dæmi þitt um fylgni er ferlega hallærislegur útúrsnúningur og raunar í mótsögn við þín skrif.

Ef ríkið myndi ríða á vaðið og lækka vsk, tekjuskatt og fyrirtækjaskatt niður í 9% í fyrstu atrennu yrði hér efnahagsleg sprenging. Erlend fyrirtæki myndu sjá sér hag í því að fjárfesta hér sem myndi ýta launum á landinu upp. Einhverra hluta vegna benda verkalýðsforkólfar ekki á þennan möguleika. Það verða án efa gerðir verðbólgusamningar með tilheyrandi hækkun lána. Stéttafélögin hér eru að vinna gegn hagsmunum félagsmanna sinna. UAW gerði það svo sannarlega.

Hluti vandans er að hér fer ekki fram umræða um það hvað við viljum að ríkið geri. Álögur á almenning eru ákveðnar út í loftið því þær eru ekki í samræmi við fjárþörf hins opinbera sem einfaldlega neitar að standa við sumar sínar skuldbindingar. Opinbera lífeyris- og heilbrigðiskerfið eru flaggskip þeirra mistaka.

Skilningur þorra þjóðarinnar efnahagsmálum er alveg við frostmark og þess vegna er hægt að ljúga alls kyns vitleysu að fólki varðandi efnahagsmál. Þar liggur vandinn.

Helgi (IP-tala skráð) 10.5.2015 kl. 07:38

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Sæll Helgi,

Rétt athugað hjá þér að mitt "svar" við þínum vangaveltum fór meira út í að verða að sínum eigin vangaveltum.

Annars finnst mér þetta umhugsunarvert (ef bara eitt lítil sannleikskorn finnst í þessu):

"En illgjarnari menn en Týr gætu einnig varpað fram annarri tilgátu. Það fer ekki framhjá neinum að vinsældir ríkisstjórnarinnar eru í algerri lægð og er jafnvel talað um að lögð verði fram vantrauststillaga. Með því að keyra fram verkföll og illindi á vinnumarkaði má ganga langt til að þurrka út þann bata sem þó hefur orðið í íslensku efnahagslífi og grafa þar með enn frekar undan ríkisstjórninni."

http://www.vb.is/skodun/116848/

Geir Ágústsson, 11.5.2015 kl. 09:38

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Og nei, ég meina ekki geðklofa-greininguna bókstaflega. Nú umgengst ég t.d. töluvert fólk sem sinnir strákunum mínum á meðan ég er í vinnu (leikaskóla- og grunnskólakennarnar). Þetta er upp til hópa hugsjónafólk sem menntaði sig af áhuga og ástríðu til að sinna sinni vinnu. En um leið má því vera ljóst að launakjörin eru þau sem hið opinbera skammtar þeim, og að fáar aðrar dyr eru opnar með þeirra þjálfun og menntun. Hið opinbera getur því meðhöndlað það öllu frjálslegar en þeir sem geta skipt oftar um vinnu eða eiga auðveldar með að "umskóla" sig í annan bransa. Og það er e.t.v. súr raunveruleiki þegar t.d. launin virðast lítið haggast nema með starfsaldri. 

Geir Ágústsson, 11.5.2015 kl. 09:41

6 identicon

Sæll aftur.

Áhugverð þessi teóría sem þú vitnar í 11.05 (kl. 09:38). Ég held að það sé bara ansi mikið til í henni.

Helgi (IP-tala skráð) 25.5.2015 kl. 00:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband