Einokunargeðklofinn

Íslendingar elska einokun, hata hana og elska að hata hana um leið og þeir biðja um hana.

Þannig vilja Íslendingar að ljósmæður séu ríkisstarfsmenn en bara á meðan þær sætta sig við kjör sín og halda áfram að taka á móti börnum. Hins vegar hefur enginn beðið um ríkisvæðingu smiða, rafvirkja og pípara því allir vita að það er ávísun á biðraðakerfi og verkföll meðal þeirra.

Þannig vilja Íslendingar að ríkið eitt megi selja áfengi þótt það þýði dauða hverfiskaupmannanna á kostnað stórmarkaða með bílastæði nálægt næstu áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Um leið sakna margir hverfiskaupmannanna og kvarta yfir löngum bílferðum í næstu verslun.

Þannig vilja Íslendingar að ríkið eitt eigi vegina og haldi áfram að vanrækja þá en að flugsamgöngur í umsjón einkaaðila haldi áfram að kosta minna og þægindin í fluginu að aukast.

Þannig vilja Íslendingar að bankakerfið fái að starfa undir verndarvæng ríkisstofnunar sem hefur beinlínis það markmið að rýra kaupmátt peninga okkar og láta innistæður liggja undir skemmdum á bankareikningum. Fatahreinsanir, sem taka líka við verðmætum okkar, eiga hins vegar að passa óaðfinnanlega vel upp á flíkurnar sem þær fá inn og helst að skila þeim af sér í betra ástandi en áður.

Þannig sætta Íslendingar sig við rándýrar sjúkratryggingar sem bjóða upp á biðraðir, sumarlokanir, vinnutap, lélegan húsakost og stressað starfsfólk á tvöfaldri vakt. Um leið verða þeir brjálaðir ef bílatryggingin hækkar örlítið í verði og skipta hiklaust um tryggingafélag til að spara þúsundkall á mánuði.

Þessi geðklofi er að sumu leyti skiljanlegur. Stanslaus áróður um ágæti hins opinbera dynur á okkur frá stjórnmálamönnum, ríkisfjölmiðlum og klappstýrum ríkiseinokunar. Um leið er geðklofinn óskiljanlegur því einkaframtakið er svo áberandi miklu betra að mæta kröfum okkar um þjónustu, gæði og verðlag. Starfsmenn gleraugnaverslana, farsímafyrirtækja, bifreiðaverkstæða og stórmarkaða fara ekki í verkföll. Samt sækir fólk um vinnu hjá þessum fyrirtækjum og þiggur fyrir þau laun, og viðskiptavinir streyma að til að kaupa og gera verðsamanburð og kvarta hiklaust ef þeir rekast á útrunna skyrdós í kælinum.

Það er engin ástæða fyrir ríkið til að vasast í rekstri af neinu tagi. Það er hægt að tryggja aðstoð við fatlaða, umönnun sjúklinga og kennslu á krökkum með öðrum hætti en rekstri fjárfreks, miðstýrðs, þumbalegs og ósveigjanlegs opinbers kerfis. Öll fyrirtæki þurfa ræstingarþjónustu en flest bjóða þá þjónustu út til sérhæfðra aðila. Öll þurfum við lækna og kennara á lífsleiðinni og eigum að fá að kaupa þjónustu þessara fagstétta og annarra á frjálsum markaði.

Geðklofi veldur þeim sem þjást af honum miklum og alvarlegum óþægindum og það er erfitt að lifa eðlilegu lífi með þann geðsjúkdóm. Í samhengi stjórnmálanna er geðklofi hins vegar áunnið ástand sem má losa sig við með einfaldri hugarfarsbreytingu. Eigum við ekki að leyfa okkur þann lúxus?

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í dag og er aðgengileg áskrifendum blaðsins hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Starfsmenn gleraugnaverslana, farsímafyrirtækja, bifreiðaverkstæða og stórmarkaða fara ekki í verkföll."

Félagar í VR, um 30 þúsund manns í um 100 starfsgreinum, fara sem sagt ekki í verkfall núna um áramótin.

Og félagar í VR hafa aldrei farið í verkfall.

Þorsteinn Briem, 21.7.2018 kl. 12:51

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Þú bendir réttilega á að verkalýðsfélög skapa hættu á átökum. Eigendurnir geta sem betur fer haldið búðum sínum opnum sama hvað.

Geir Ágústsson, 21.7.2018 kl. 13:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband