Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2018

Kirkjan: Fyrsti íslenski skattheimtumaðurinn

Á Íslandi eru margar kirkjur. Þær eru auðvitað samkomustaður kristinna manna. Um leið er íslenska kirkjan fyrsti íslenski skattheimtumaðurinn. Áður en kristni var viðtekin og tíundin tekin upp var ekki skattheimta á Íslandi. Framkvæmdavaldinu var dreift og í höndum goðanna, og bændur gátu valið á milli goða til að verja sig fyrir glæpamönnum og tala máli sínu á Alþingi. 

Á þessum tíma ríkti það sem sumir kalla stjórnleysi á Íslandi, þ.e. það var ekkert ríkisvald. En stjórnleysi var það heldur ekki. Íslendingar voru án ríkisvalds í lengri tíma en Bandaríkin hafa verið uppi sem ríki í dag. Það var ekki fyrr en höfðingjar fóru að breiða út tíundina og viða að sér skatttekjum að framkvæmdavaldið fór að safnast á færri hendur og var loks afhent Noregskonungi.

Það var með öðrum orðum innleiðing fyrsta íslenska skattsins, tíundarinnar, að samþjöppun valds fór að taka við dreifðu valdi.

Þetta er áhugavert efni sem aðrir hafa gert ágæt skil, meðal annars hérna (David Friedman) og hérna (Thomas Whiston). Kirkjan sem slík er samkomustaður kristinna manna. Kirkjan sem opinber stofnun hefur sögulega séð verið hamar til að berja á almúganum með.


mbl.is BBC fjallar um íslenskar kirkjur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í guðanna bænum, einkavæðið heilbrigðiskerfið!

Menn eru vonandi á þessari stundu að setjast alvarlega yfir áætlanir um að einkavæða heilbrigðiskerfið. Það gengur ekki að einstaka stéttir heilbrigðisstarfsmanna geti ítrekað stefnt heilsu og lífi fólks í bullandi hættu. 

Auðvitað er ekki farið vel með þessar stéttir. Heilbrigðisstarfsfólk vinnur eðli málsins samkvæmt aðallega vaktavinnu, en oft eru þær vaktir langar og of fámennar og valda miklu álagi á starfsfólk. Um það er að ég held ekki deilt. En vitið hvað - svipað ástand gildir um starfsfólk í malbikun, lögregluþjóna, öryggisverði, flatbökusendla, flugfreyjur og verkamenn í sumum verksmiðjum. Það er ekki fyrr en þetta fólk kemst í stéttarfélög eða í guðatölu með opinberum starfsmönnum sem hafa völd til að beita ofbeldi og vinnustöðvun að vandamálin byrja að skjóta upp kollinum, fyrir alla!

Ríkisvaldið á ekki að þurfa hafa þúsundir starfsmanna á sinni könnu sem safna innistæðulausum lífeyrisskuldbindingum og taka samfélagið í gíslingu á nokkra ára fresti.

Ríkið á að geta sinnt öllu því sem það lofar að sinna án þess að hafa einn einasta fastráðna starfsmann á sinnu könnu fyrir utan nokkra ritara sem sjá um að millifæra verktakagreiðslur á verktaka hins opinbera. 

Helst á ríkið auðvitað að gera miklu minna en það gerir í dag - helst ekki neitt - en á meðan stjórnmálin snúast um að veita Sigga eitthvað fyrir skattfé Bigga er hægt að gera það án opinberra starfsmanna. Og nú fer að verða áríðandi að koma á slíku fyrirkomulagi.


mbl.is „Vaknið ríkisstjórn!“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljósmæður eru ekki vandamálið

Ljósmæður standa nú í baráttu við ríkið. Kröfur þeirra eru sagðar yfirdrifnar. Sjálfar tala þær um leiðréttingu en ekki launahækkun. Uppsagnir blasa við. Óléttar konur hafa áhyggjur. Forsætisráðherra hefur uppi stór orð. Hvað er til ráða?

Það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að ljósmæður eru ekki vandamálið. Þær eru opinberir starfsmenn sem hafa sérmenntað sig til að starfa fyrir ríkið og geta ekki fundið aðra atvinnurekendur. Hið sama gildir um hjúkrunarfræðinga, lækna, meinatækna og kennara. Starfsfólk í þessum stéttum getur ekki farið eitthvað annað ef það er ósátt við kjörin (nema henda menntun sinni og reynslu og gerast flugliðar). Ríkið veit þetta vel. Og þótt allir tali um slæm kjör í þessum stéttum er framboð af fólki engu að síður svo mikið að ríkið þarf engu að kvíða.

Vandamálið er rekstrarformið: Ríkiseinokunin. 

Ljósmæður ættu að sjálfsögðu að vera verktakar eða starfa hjá einkareknum fyrirtækjum sem semja við bæði heilbrigðisstofnanir og einstaklinga. Hið sama ætti að gilda um alla aðra þjónustu sem ríkið veitir í dag fyrir fé skattgreiðenda. Ríkið ættu að bjóða hana út eða hætta með öllu að bjóða hana og láta það eftir einkaaðilum. 

Þetta veitir sveigjanleika sem ríkið hefur ekki í dag. Einkaaðilar hafa hvata til að þróa nýjungar og úrræði til að lækka kostnað en um leið bæta þjónustuna. Hið opinbera sleppur við að safna í lífeyrissjóði fyrir allan þennan fjölda sem starfar hjá hinu opinbera í dag (eða skuldbinda sig án þess að safna í sjóði). Starfskjör einstakra hópa hætta að setja samfélagið á hliðina og verða að einföldu samningsatriði milli veitenda og þiggjenda. 

Er eftir einhverju að bíða? Er ekki einmitt frábært tækifæri í dag til að bjóða út vinnu ljósmæðra?


mbl.is Uppskrift að óstöðugleika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kostnaður og aðhald

Ísland er hluti af varnarbandalagi. Út á það þarf svo sem ekki að setja. Ísland er herlaust en Rússland er það ekki. Ekki viljum við að Pútín sendi eins og einn Jörund hundadagakonung til Íslands sem hertekur landið með nokkrum fallbyssum, er það?

Varnarbandalagið er hins vegar ekki bara það. Það er líka pólitískt bandalag sem hefur þanið út hlutverk sitt langt umfram að bara verja landamæri. Að hluta má kenna stjórnmálaástandinu í Bandaríkjunum um. Þar starfa öflugir hópar sem vilja endilega að Bandaríkin stundi vopnaskak um víða veröld af ýmsum ástæðum, sumum yfirlýstum og öðrum ekki. Stundum tekst að lokka varnarbandalagið með í þær vegferðir, t.d. í Líbýu (til að koma í veg fyrir að landið hætti að nota dollar í olíuviðskiptum sínum) og fyrrum Júgóslavíu (af mannúðarástæðum). Þannig geta Bandaríkin sparað sér einhverja hermenn og jafnvel einhvern kostnað. 

Reikningurinn fyrir þessu brölti er hins vegar orðinn himinhár og Bandaríkin hafa borgað megnið af honum. Núna vilja sumir segja stopp. Og það er gott.

Ef íslenskir skattgreiðendur fá að borga fyrir bröltið er líklegra en ella að þeir verði tortryggnari á tilgang þess og hvetji íslensk yfirvöld til að beita neitunarvaldi sínu innan þess (eitthvað sem margir bjuggust við að Vinstri-grænir myndu gera í tilviki Líbýu, en úr því rættist ekki). Hið sama gildir um Dani, Þjóðverja og aðra. Það ætti að veita ákveðið aðhald og halda aftur af hernaðaraðgerðum bandalagsins.

Ef íslenskir skattgreiðendur og stjórnmálamenn þurfa að hætta að líta á varnarbandalagið sem tekjulind og þess í stað sem útgjaldalið er hugsanlegt að þeir einbeiti sér frekar að raunverulegri verðmætasköpun.

Bandaríkjaforseti talaði í sinni kosningabaráttu um að draga úr stríðsrekstri um víða veröld. Í verki hefur það tal reynst frekar innantómt, en kannski hann sé með bakþanka. Með því að senda reikninginn vegna varnarbandalagsins í auknum mæli á aðila þess er vonandi að fæðast eðlilegt aðhald sem heldur varnarbandalaginu innan skilgreinds hlutverks síns: Að verja, frekar en gera árás.


mbl.is Spennuþrunginn fundur NATO í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vítamínsprautur

Margar íslenskar jarðir eru að komast í eigu erlendra fjárfesta. Þetta eru góðar fréttir. Þessir fjárfestar koma með peninga til að byggja upp. Þeir hafa í hyggju að þéna á fjárfestingu sinni en stundum þarf að eyða miklum peningum til að græða þá (og stundum tapast öll fjárfestingin og endar á brunaútsölu).

Það væri frábært ef Ísland gæti orðið að lúxusáfangastað fyrir ferðamenn. Slíkir ferðamenn eru tilbúnir að borga fyrir klósett. Þeir kúka síður á bera jörðina. Þeir vilja góðan mat og vín með. Þeir vilja herbergi með útsýni en um leið að það útsýni sé ósnortin náttúra. 

Á tímabili leit út fyrir að yfirvöld ætluðu að reyna stöðva erlenda fjárfestingu í jörðum. Það hefði verið slæm hugmynd. Við vitum öll hvaða ríki það eru sem stöðva erlenda fjárfestingu: Fátæk ríki.

Framtíð íslensks ferðamannaiðnaðar er björt ef greinin fær að laða að sér efnaða fjárfesta, innlenda og erlenda.


mbl.is 4.700 hektara jörð seld með hóteli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málpípur ríkisvaldsins?

Fjölmiðill á ríkisstyrkjum er ekki óháður. Ef hann byggir afkomu sína á opinberum fjárstuðningi byggir hann líka efnistök sín á því að hið opinbera samþykki þau.

Með því að styrkja fjölmiðla með fé skattgreiðenda er verið að gera þá að málpípum hinna viðteknu skoðana - hins pólitíska rétttrúnaðar.

Vonandi hafa fjölmiðlar bein í nefinu og mótmæla ríkisstyrkjum. Þeir ættu frekar að biðja um skattalækkanir á rekstur sinn þannig að bæði nýir og gamlir fjölmiðlar sitja við sama borð og þurfi um leið að vinna fyrir peningunum. 


mbl.is Íslenskir fjölmiðlar fá minni stuðning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leynist ofdekraður og ósjálfbjarga eilífðarkrakki á þínu heimili?

Höfum eitt á hreinu: Skólakerfið snýst ekki nema að litlu leyti um að mennta krakka - að kenna þeim hluti sem nýtast þeim í áframhaldandi námi og í lífinu almennt.

Miklu frekar snýst skólastarf um að troða öllum í sama mótið. Þeir sem passa ekki í það fá róandi lyf. Aðrir fá að stara út í loftið í tímum og láta sér leiðast. Það má ekki lengur skipta krökkum upp eftir námsáhuga, námsgetu og áhugasviðum. Það má ekki einu sinni hafa ótalandi innflytjendur í sérstökum bekkjum lengur. Finnist enn skólar sem framfylgja slíku skipulagi þá fer þeim fækkandi.

Fyrir vikið eru strákar að flosna upp úr námi sem aldrei fyrr og sjálfstraust þeirra að molna.

Foreldrar reyna auðvitað að bregðast við. Þeir hlaupa undir börnin sín og lyfta þeim upp þegar þau detta. Þeir reyna að útvega þeim vini og tækifæri. Þeir koma þeim á æfingar sem fá tímann til að líða. Þessir foreldrar hringja brjálaðir í kennarana þegar einkunnaspjaldið kemur heim. Seinna hringja þessir foreldrar í tilvonandi atvinnurekendur og mæta jafnvel í atvinnuviðtölin með börnum sínum.

Barnið þitt er hugsanlega eitthvað annað og meira en húðlatur sérvitringur en þú munt sennilega aldrei komast að því, en til vara þegar það er orðið of seint. Skólakerfið reyndi að troða því í mót og þú reyndir að halda því uppi þegar mótið braut barnið. 

Og hvað er til ráða? Nú augljóslega að hætta miðstýrðum mótunaráætlunum og leyfa skólunum að keppa sín á milli í nýjum aðferðum til að troða námsefni í hausinn á krökkunum og styrkja þá félagslega. 

Einkavæðum skólakerfið.


mbl.is Leynist lítill Einstein á þínu heimili?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt einfaldasta lögmál hagfræðinnar

Hagfræðin getur verið snúin en hana má oft einfalda án þess að missa mikið af upplýsingum.

Eitt lögmál hagfræðinnar er til dæmis: Ef þú gerir eitthvað dýrara þá minnkar eftirspurn, og ef þú gerir eitthvað ódýrara þá eykst eftirspurn.

Fyrir stjórnmálamanninn þýðir þetta: Ef þú skattleggur eitthvað færðu minna af því. Ef þú niðurgreiðir eitthvað færðu meira af því.

Ef þú skattleggur hagnað, veltu fyrirtækja, arðgreiðslur og rekstur almennt er dregið úr hagnaði, veltu, arðgreiðslum og rekstrartekjum. Fyrirtæki geta ekki borgað eins mikið í laun og önnur útgjöld. Þau geta síður herjað á nýja markaði. Sum fyrirtæki verða hreinlega ekki til - eru drepin í vömbinni áður en þau svo mikið sem fæðast.

Ef þú niðurgreiðir atvinnuleysi færðu meira af því en annars væri raunin.

Á Íslandi er blómlegt atvinnulíf en það gæti verið enn blómlegra. Á Íslandi eru mörg fyrirtæki sem borga góð laun en þau gætu verið fleiri og borgað enn betri laun. Skattbyrðin sér um að drepa það sem hefði kannski fæðst einhvern daginn. 

Fer ekki að vera kominn tími til að skera ríkisvaldið niður um 90% og leyfa því að einbeita sér að örfáum, vel skilgreindum verkefnum á meðan frjálst samfélagið sér um allt annað, t.d. kennslu barna, meðhöndlun sjúkdóma og stuðning við þá sem minna mega sín?


mbl.is Fyrirtækin að fara úr landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hið opinbera í fasteignabraski

Í Reykjavík er svo komið að borgin er orðin háð tekjum af fasteignabraski til að halda uppi loforðaflaumnum. Lóðaframboði er haldið lágu svo sem hæst verð fáist fyrir lóðirnar. Þær eru orðnar svo dýrar að það er engin leið að græða á þeim nema með því að byggja lúxusíbúðir. Byggingareglugerðin styður við þessa lúxus-væðingu húsnæðis með allskyns skilyrðum sem fáir hafa áhuga á. 

Núna er hið opinbera búið að taka enn eitt skrefið í fasteignabraski sínu með því að kaupa dauða verslunarkjarna með það í hug að selja þá seinna þegar er búið að gera þá að aðlaðandi fasteignum. Það má ekki bara afnema hindranir í dag og gera þá aðlaðandi. Nei, hér ætlar hið opinbera að beita völdum sínum til að kreista út hagnað.

En gott og vel, verslunarkjarnar úthverfanna eru að deyja. Hvað er til ráða? Ráðið er einfalt. Heimilið áfengissölu í venjulegum verslunum. Þá þarf fólk ekki lengur að keyra í Mjóddina, Spöngina, Smáralindina eða Kringluna til að kaupa bjórkippu. Það er nóg að heimsækja hverfisbúðina og versla í matinn í leiðinni.

Ég býð spenntur eftir að Reykjavíkurborg knýi á ríkisvaldið að heimila áfengissölu í venjulegum verslunum. Til bjargar hverfisbúðinni!


mbl.is Lánaheimild borgarinnar aukin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband