Kæra foreldri: Þú berð enga ábyrgð lengur

Sem foreldri snýst dagskrá mín mikið til um börnin. Þau þurfa nærandi og saðsamar máltíðir, afþreyingu, tómstundir, nesti, félagsskap, nærveru, hrein föt sem passa og hæfa veðurfarinu, hlýju, nætursvefn, hvíld, klippingu, þrif og að neglurnar séu klipptar og snyrtar, svo fátt eitt sé nefnt.

Allt annað - vinnan, félagslíf og tómstundir sem fullorðinn, innkaup, útréttingar og fleira þarf einfaldlega að mæta afgangi. Einfalt, í raun.

Eða hvað?

Kannski er ég að ofhugsa þetta. Ég gef börnum mínum vítamín, svo dæmi sé tekið (og hugsa að jafnvel þótt bara brot af þeim lifi af magasýrurnar þá geri það þó það). Það er mótað í litla bangsa með jarðaberjabragði eða álíka. Þessir bangsar eru læstir inni í glasi með barnalæsingu og svolitla leikni þarf til að opna það. Yngra barn mitt elskar bragðið af þessum böngsum. Það er frábært. 

En hvað ef barnið kemst í þessa bangsa? Fer að háma þá í sig? Þá er vissulega hætta á ferðum en hvað er til ráða?

Ríkisútvarp Útvaldra Viðhorfa (RÚV) er með svarið:

Helena [Líndal Baldvinsdóttir, sérfræðingur í eiturefnafræði hjá Eitrunarmiðstöð Landspítalans] segir alvarleg tilfelli hafa komið upp meðal annars þar sem börn hafa komist í melatónín í hlaupformi.

„því miður er það að aukast að við erum að fá tilkynningar frá foreldrum að börnin þeirra hafa innbyrt töluvert magn af þessu.“ Eitranirnar geti verið sérstaklega alvarlegar ef járn er í blöndunni. „Það verið mjög alvarlegar eitranir.“

Þá segir Helena að fólk þurfi að hafa í huga að umbúðir utan um vörur sem þessar geti verið mjög ótraustar.

„Þótt það sé barnalæsing á umbúðunum á lyfjunum þá er alltaf eitt og eitt barn sem getur opnað.“

Því gildi um vítamín jafnt og önnur lyf að geyma þau þar sem börn hvorki ná til né sjá.

Auk þess myndi hún ráðleggja fólki að sleppa því að eiga bætiefni í sælgætisformi til á heimilum þar sem börn eru.

„Já, ég myndi ekki mæla með því að gefa börnum þessi sykurhúðuðu vítamín. Það er ekki góð leið.“

Hérna er á ferð bland í poka. Hið góða ráð að halda ýmsum efnum utan seilingar fyrir börn er sjálfsagt að minna á. En hitt - að einfaldlega hafa engin slík efni á heimilinu - er slæmt. Heimili okkar eru troðfull af efnum sem er hættuleg í of miklu magni eða jafnvel mjög litlu magni. Sem dæmi má nefna sápur, uppþvottatöflur og ýmis hreinsiefni.

Eigum við að sleppa því að hafa þessi efni á heimilinu því börn gætu komist í þau og gætu innbyrt þau?

Gott og vel, segjum að foreldrar fylgdu þeim ráðum. Geta þeir núna sleppt því að kenna börnum á hin ýmsu efni og hættur við þau? Geta börnin núna ráfað eftirlitslaus um heimilið og stungið hverju sem er upp í sig því allt er orðið svo öruggt? 

Hvar eru foreldrarnir í þessari sviðsmynd? Í sófanum? 

Afsakið mig en svona tal er algjör veruleikaflótti. Hættur heimsins eru endalausar og þótt foreldrar hætti að kaupa vítamínbangsa, uppþvottatöflur og hreinsiefni þá er lítið unnið til lengri tíma. 

Best er að útskýra, ræða hluti og vera til staðar.

En til að skilja það er sennilega best að hætta að lesa fréttir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Ég stenst ekki mátið að deila hér ráðlegginum frá Helenu Líndal og Hjalta Má Björnssyni, bráðalækni: 

Við mælum með því að enginn noti kókaín og helst sem minnst af áfengi. Kjósi einhver að neyta þessara vímuefna er þó sérstaklega ráðlagt að nota þau alls ekki saman.

"Áfengi og kókaín: Banvæn blanda", Heimildin 28. janúar 2023. 

Wilhelm Emilsson, 21.4.2023 kl. 04:19

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Wilhelm,

Þetta er alveg ljómandi gott ráð! Ég sakna þess kannski að menn skilji ekki áfengið og kókaínið eftir á glámbekk fyrir börn. Mögulega duga barnalæsingar ekki í öllum tilvikum.

Geir Ágústsson, 21.4.2023 kl. 06:06

3 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Lífið, bæði fyrir börn og fullorðna, er fullt af freistingum! . . . En án gríns þá er ég sammála þér um það að boð og bönn og barna--og fullorðins--læsingar leysa ekki öll vandamál. Við þurfum að læra að lifa með freistingunum og þá er gott að ræða hlutina og að hafa vini eða foreldra til staðar. En stundum lærir maður ekki fyrr en maður rekur sig illilega á. Lærdómur og sársauki eru nátengd, þótt það sé kannski talið gamaldags viðhorf á þessum prógressívu og woke tímum.

Wilhelm Emilsson, 21.4.2023 kl. 07:04

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Wilhelm,

Á mínu heimili er 5 ára dóttir mín vítamín-löggan: Passar að brói fái 2 bangsa og hún fær 1. Skammtar þessu sjálf úr opnu boxinu. Hefur beðið um fleiri en fengið skýringar á því. Fattar jafnvel frekar en ég að hún hafi ekki fengið sinn bangsa. 

En svo dettur henni í hug að teikna á gólfið eða tæma handsápuna á vaskinn. Við erum ennþá að vinna í því en það kemur.

Geir Ágústsson, 21.4.2023 kl. 15:56

5 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Frábær saga, Geir. smile

Wilhelm Emilsson, 21.4.2023 kl. 18:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband