Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2023
Miðvikudagur, 19. apríl 2023
Samsæriskenning: Raforkuskortur á Íslandi er meðvituð aðgerð
Mér var að detta í hug samsæriskenning - kenning um samsæri. Ég trúi henni ekki sjálfur en komi í ljós að hún er rétt þá kæmi það mér ekki á óvart. Annað eins hefur nú gerst og að áhrifamikil öfl hittist á fundi og leggi á ráðin til að maka eigin krók á kostnað fjárhags og heilsu almennings.
Kenning mín er svohljóðandi: Raforkuskortur og skerðingar á rafmagni á Íslandi eru leiðir til að afla tekna fyrir ríkissjóð.
Byrjum á því sem blasir við:
Landsvirkjun er að framleiða gríðarlegar arðgreiðslur í ríkissjóð að því marki að ráðherra ríkisfjármála kallar þær lykilþátt í ríkisfjármálum næstu ára. Með öðrum orðum: Galtómur ríkissjóður þarf á þessum arðgreiðslum að halda.
Landsvirkjun fær ekki að virkja, þ.e. eyða milljörðum í að byggja upp innviði rafmagnsframleiðslu á Íslandi, þ.e. draga á hagnað sinn til að fjárfesta. Það er í boði ríkisins. Annað sem er í boði ríkisins er aukin raforkunotkun og slit á vegum með því að liðka fyrir sölu rafmagnsbíla. Hvoru tveggja stuðlar að raforkuskorti. Hvoru tveggja þrýstir á hærra raforkuverð. Hærra raforkuverð þýðir aukinn hagnaður Landsvirkjunar. Tilviljun? Kannski. Það, eða óvitaskapur. Hvort er verra?
Landsnet, sem er hið opinbera fyrirbæri sem dreifir hinu sjaldgæfa rafmagni, framleiðir líka argreiðslur í opinbera sjóði. Landsnet lokkaði stóra raforkunotendur á Austfjörðum til að skipta út olíu fyrir rafmagn og hefur svo þurft að svíkja afhendingu á því rafmagni ítrekað undanfarin misseri, og fyrirséð að það haldi áfram. En það gerir ekkert til. Þeir notendur borga ekki hæsta raforkuverðið í skiptum fyrir óstöðuga raforku. Bjarni Jónsson rafmagnsverkfræðingur bendir á að hægagangur í framkvæmdum til að losa um fyrirsjáanlega flöskuhálsa hafi leitt til mikilla vandræða og útgjalda.
En með því að framkvæma ekki og búa til skort og hærra verð er hægt að skila hagnaði og arðgreiðslum. Þetta gildir í tilviki Landsvirkjunar og Landsnet. Varan - raforkan - er skert í bæði framleiðslu og dreifingu og þeir sem framleiða og dreifa fá fyrir vikið meira í vasann sem ríkið getur svo hirt. Hvatinn til að auka framleiðslu og koma henni til viðskiptavina er öfugur: Því minna sem er framleitt og þeim mun meira sem er hvatt til aukinnar notkunar og því verr sem gengur að koma framleiðslunni til viðskiptavina, því meiri hagnaður. Lykilþættir í afkomu ríkissjóðs njóta góðs af.
Er þetta ekki alveg ljómandi góð samsæriskenning?
Ég ítreka að ég trúi því ekki að einhver aðili sitji á bak við tölvuskjá og kalli á þessar þjáningar fyrir fólk og fyrirtæki. En ef svo er þá kæmi það mér ekki á óvart.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þriðjudagur, 18. apríl 2023
Daglegt brauð fyrirtækja verður frétt
Sveitarfélagið Árborg sagði í dag upp ráðningarsamningum við 57 starfsmenn sveitarfélagsins um leið og tilkynnt var um 5% launalækkun æðstu stjórnenda, bæjarstjóra og sviðsstjóra. Hljómar eins og eðlileg hagræðingaraðgerð og er daglegt brauð hjá venjulegum fyrirtækjum. En af því við erum að tala um hið opinbera þá ratar svona lagað í fréttir.
Kannski er það skiljanlegt. Ég meina, hvenær segir hið opinbera upp? Fremst í flokki hagræðingaraðgerða hjá hinu opinbera er að fjölga starfsmönnum hægar. Auka útgjöld aðeins minna en áður. Minnka vöxtinn á bákninu frekar en minnka báknið.
Ég hef oft setið í umhverfi hagræðingaraðgerða. Starfsmönnum var þá ekki fækkað um nokkra hér og nokkra þar heldur var gefin út ákvörðun um að fækka starfsmönnum um 10%, 20%, 25%. Þetta gekk jafnvel of langt og mikilli reynslu og þekkingu hent út. En svona er þetta. Daglegt brauð á vinnumarkaði raunveruleikans.
Kannski hið fréttnæma hérna sé að það þarf bara 57 uppsagnir á opinberum starfsmönnum til að rata í fréttirnar.
Árborg segir upp 57 starfsmönnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 17. apríl 2023
Má segja börnum hvað sem er núna?
Það virðist eitthvað hafa breyst í viðhorfi okkar til barna. Einu sinni átti að vernda þau, umfram allt. Vernda þau fyrir ofbeldi, klámi, misnotkun, heilaþvotti, áróðri og hvað það nú nefnist (með heiðarlegri undantekningu í tilvist jólasveins eða jólasveina og jafnvel tannálfa). Þau ættu að fá að þroskast á eigin forsendum, hljóta menntun og læra umburðarlyndi svo eitthvað sé nefnt. Læra að dæma einstaklinga á eigin verðleikum en ekki eftir einhverjum flokkunum. Eða svo hélt ég.
Þessu er kannski öfugt farið núna. Núna er einstaklingurinn ekkert nema einkenni hans. Hvaða kyn hann er eða telur sig vera. Hvaða hörundslit hann ber. Þú ert ekki maður eða kona sem kemur fram við fólk á ákveðinn hátt. Nei þú ert af tilteknu kyni með tiltekinn húðlit og afkomandi tiltekins fólks með tiltekna sögu.
Ég er þannig ekkert annað en gagnkynhneigður, hvítur, miðaldra karlmaður, og í vinnu þar að auki. Af því leiðir að ég get ekki tjáð mig um ýmislegt, svo sem réttarríkið og lagarammann og hvernig hann hefur áhrif á einhverja sem eru ekki gagnkynhneigðir, hvítir, miðaldra karlmenn, í vinnu.
En gott og vel. Ég þarf auðvitað alls ekki að tjá mig um aðstæður eins né neins nema sjálfs míns. Sem faðirs. Sem skattgreiðenda. Sem einfara að eðlisfari sem nýt þó góðs félagsskapar við hvert tækifæri.
En aldrei dytti mér í hug að raska hugarró barna minna með því að opna á heim þar sem allt er mögulegt ef maður einfaldlega fær hugdettuna. Að þau séu allt í einu af öðru kyni. Að ofbeldi sé í lagi fyrir utan aðstæður sjálfsvarnar. Að það megi stela ef manni einfaldlega langar til þess. Ég á stelpu sem hefur kallað sig strák og yrði sjálfsagt í einhverjum samfélögum gripin í viðtöl af einhverjum félags- eða kynjafræðingi sem er ekki til staðar næsta dag þegar hún kallar sig stelpu aftur, eins og eiginlega alla daga. Mikið yrði auðvelt að steikja í henni heilann í réttum aðstæðum rangs fólks.
Ég rakst á athyglisverðan texta um daginn:
Via the DSM-5, which is the 2013 update of The Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders, Fifth Edition, published by the American Psychiatric Association, the prevalence rate of gender dysphoria is between 0.005 percent to 0.014 percent for males, and 0.002 percent to 0.003 percent for females.
In 2022, Pew Research puts that rate at 5% of all young adults!
Hvernig stendur á þessu? Voru geðlækningar bara eitthvað bull fram til ársins 2013 og stökkbreyttust svo í hinn heilaga sannleika fljótlega eftir það? Eða var ekkert að marka þær nokkurn tímann? Eða er ekkert að marka það sem kom síðar?
Hvar eru mörkin? Þau eru önnur en áður, ég næ því. Börn rekast fyrir tilviljun á myndbönd á netinu sem óharðnaðir unglingar þurftu að ræna úr myndbandaleigum á sínum tíma. 5 ára dóttir mín dró einhvern veginn að sér f-orðið úr leikskólaumhverfi sínu. Tímarnir breytast. En að kynin gerðu það um leið eru fréttir fyrir mér. Ég hélt einhvern veginn að 0,005 prósentin væru ennþá góð og gild.
Það sem ég læri af þessu er að ég sem foreldri þarf núna að vera meira vakandi en áður. Meira spyrjandi um það efni sem börnum mínum er sýnt í leik- og grunnskóla. Vera meira á verði þegar blásið er í sérstakar átaksvikur. Sem íbúi í litlu sveitarfélagi í Danmörku hef ég ekki séð nein hættumerki ennþá en þau luma handan við hornið og ef þau láta sjá sig er mér að mæta.
Bæjaryfirvöld tjá sig vegna pistils kennarans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Mánudagur, 17. apríl 2023
Ruslaborgin
Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins telur að urðun á rusli sé stórt vandamál í Reykjavík. Of mikið sé urðað. Allt þetta rusl leiðir til losunar á lofttegundum.
Manni sýnist kannski að hér sé fjarlægðin frá ráðhúsinu orðin of mikil því íbúar telja mögulega að annað vandamál sé stærra: Að rusl sé yfirleitt sótt.
Tunnurnar hafa minnkað, sorphirðugjaldið hækkað, ruslabílunum fækkað og sífellt færri hlutir sem mega enda í ruslatunnunni og þarf að keyra hingað og þangað um bæinn á sífellt færri móttökustöðvar.
Eða svo mér er sagt. Og sé það svo þá er bara komið enn eitt dæmið um opinberan rekstur sem hækkar í kostnaði og minnkar í gæðum.
Víða um heim er rusl talið vera mikilvægt hráefni, ýmist í eitthvað sem má nýta í annað á verðmætaskapandi hátt (án niðurgreiðslna) eða til orkuöflunar. Danir flytja til að mynda inn rusl til orkuframleiðslu.
Íslendingar telja hins vegar að gríðarlega smámunasöm flokkun á því örlitla magni sem 370 þúsund hræður framleiða af rusli vera ógn við loftslag Jarðar. Þeir sóa því gríðarlegum verðmætum í að keyra með ruslið hingað og þangað, pakka því saman í skip sem sigla með það á hjara veraldar til að enda þar í ofnum eða efnablöndum.
Gefið, auðvitað, að það sé yfirleitt hægt að losna við ruslið, sem er nú kannski sú þjónusta sem íbúar þurfa fyrst og fremst á að halda.
Vill koma böndum á ruslrekstur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 16. apríl 2023
Fjölmiðill vaknar úr rotinu
Síðan í upphafi seinasta árs hefur verið bent á að ýmis gögn frá íslenskum heilbrigðisyfirvöldum um bólusetningar og spítalainnlagnir hafi mögulega breyst án haldbærra skýringa. Jafnvel mætti færa rök fyrir því að átt hefði verið við gögnin til að fegra frammistöðu bólusetninga gegn COVID-19 (sem við vitum í dag að voru gagnslausar og jafnvel lækning verri en sjúkdómurinn, sérstaklega fyrir ungt fólk).
Á þetta var bent í pistlum á netinu og í Morgunblaðinu. Engum blaðamanni fannst vera ástæða til að skoða málið betur.
Núna, rúmlega ári síðar, birtist lítil frétt á DV um þetta hugsanlega hneyksli.
Því ber auðvitað að fagna en þetta leiðir hugann að öðru: Fyrir utan áróðurskennda heimildaþætti Ríkisútvarps Útvaldra Viðhorfa (RÚV) um heimsfaraldurinn svokallaða er ekki að sjá að nein samantekt sé í vinnslu vegna undanfarinna þriggja ára. Það á einfaldlega að sópa öllu þessu undir teppið.
Í slíkri samantekt þarf ekki að vera neinn ásökunartónn. Það mætti einfaldlega kalla slíka samantekt gagnaöflun fyrir sagnfræðinga framtíðarinnar ef menn treysta sér ekki í naflaskoðunina núna (mögulega vilja sumir komast á eftirlaun áður en beinagrindurnar í skápnum eru afhjúpaðar). En hún þarf að verða til. Frétt DV, eins eftir á og hún er, er vitnisburður um slíkt. Fleiri fjölmiðlar þurfa að vakna úr rotinu. Og auðvitað yfirvöld, en það þykir mér ólíklegt að muni nokkurn tímann gerast.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 15. apríl 2023
Skólakerfið kallar á einsleitni, ekki fjölbreytileika
Ég er fyrrum nemandi í íslenska grunnskólakerfinu. Ég sat í bekk með meira og minna sama fólkinu frá 6 ára til 13-14 ára aldurs (þar til fólk gat valið að fara í hægferð, miðferð og hraðferð í kjarnafögunum). Bekkurinn minn var mjög fjölbreyttur. Sumir nenntu engu og trufluðu kennslu og urðu svo að mjög færum tónlistarmönnum, sölumönnum og frumkvöðlum. Sumir voru mjög samviskusamir og báru saman einkunnir - stefndu á 10 í öllum fögum. Örfáir voru í sérkennslu vegna lesblindu. Við vorum nördar, íþróttafólk, tónlistarmenn og einstaklingar á jaðri þess að gerast glæpamenn, öll í sama bekk í fjölda ára. Rík og fátæk, grönn og feit, rauðhærð og dökkhærð. Öll undir styrkri stjórn konu yfir miðjum aldri sem lést nýlega - kona sem á stóran hlut í uppeldi okkar hreinlega.
Svona bekkur gæti aldrei gengið í dag. Stórt hlutfall strákanna væri á lyfjum. Búið væri að sannfæra nokkra veikgeðja einstaklinga í bekknum um að þeir væru í röngum líkama - ruglingur sem hrjáir vissulega sum börn áður en þau komast á kynþroskaaldur en greiðist svo úr í langflestum tilfellum þegar strákar verða skotnir í stelpum og öfugt, eða strákar verða skotnir í strákum og stelpur í stelpum eins og líkamar þeirra eru. Minnkandi áhersla á lestur hefði tekið frekara nám þeirra eirðarlausustu úr sambandi til lífstíðar. Við sem lögðum mikið á okkur til að fá góðar einkunnir værum skömmuð fyrir að vilja monta okkur og níðast á þeim með námsörðugleika.
Við værum undir stanslausum þrýstingi að hafa skoðanir á einhverju sem krakkar hafa engan áhuga á og vitaskuld sömu skoðanir.
Fjölbreytileikinn væri einfaldlega minni sem og umburðarlyndi fyrir mismunandi eiginleikum og hvötum okkar sem einstaklinga.
Foreldrar þora auðvitað ekki öðru en að spila með. Þeir vilja jafnvel ekki vita hvað fer fram innan veggja skólanna (nema hugsanlega hvort þar séu að vaxa myglusveppir í öllum áróðrinum). Þeim er sagt að setja börn sín á lyf og fagna því þegar ung börn koma heim með styttur af typpum og píkum.
Einsleitni, ekki fjölbreytileiki, er krafan í dag. Þeir sem halda öðru fram eru að slá ryki í augun á þér. Þá er stundum gott að ganga með gleraugu, eins og ég geri gjarnan.
Fordæma viðhorf Helgu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 13. apríl 2023
Hvar er hneykslið?
Eitthvað af leynilegum gögnum bandarískra yfirvalda hefur verið lekið. Hvað finnst fréttamönnum fréttnæmt við það? Jú, persóna þess sem lak gögnunum! Byssuóður, trúaður tölvuleikjaspilari! Greinilega einhver bjáni en samt ekki meiri bjáni en svo að honum tókst að krækja í þessi gögn.
En gott og vel. Hvað var í þessum gögnum? Það fer eftir því hvern þú spyrð en á einum stað les ég að þar hafi verið fjallað um starfsemi NATO-hermanna í Úkraínu sem nær langt aftur í tímann.
Nú vita allir sem vilja að hermenn frá NATO-ríkjunum berjast nú á jörðu niðri í Úkraínu - mögulega örfáir sérsveitarmenn og mögulega stærri sveitir NATO-hermanna (sem má teljast líklegt vegna þess að BBC og CNN hamast við að reyna segja hið gagnstæða, jafnvel korteri áður en annað var afhjúpað). Takmarkið í mörg ár hefur jú verið að knésetja Rússland með ýmsum aðferðum.
En þetta þykir ekki fréttnæmt. Nei, þess í stað fjalla fréttir um persónur þeirra sem afhjúpa leyndamál af þessu tagi en ekki að á bak við tjöldin eru NATO-hermenn í leynilegum erindagjörðum djúpt inni í átökum og neita svo fyrir það.
Maður vonar bara að það takist að leka fleiri gögnum og gera sæmilega aðgengileg svo almenningur geti fengið að vita hvað fer fram á bak við tjöldin án hans vitneskju og bak við verndarvegg hinna svokölluðu fjölmiðla og að almenningur spyrni við fótum. Þá er mögulega hægt að afstýra heimstyrjöldinni sem suma dreymir um.
Maðurinn á bak við lekann nafngreindur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 12. apríl 2023
Dagamunur
Sumir stjórnmálamenn mega eiga það: Eftir að hafa sólundað fé í allskonar fyrir alla þarf að lokum að taka ábyrgð og grípa til aðgerða þar sem verður minna fyrir alla (nema mögulega suma).
Þetta er ekkert fagnaðarefni en jafnast á við aðgerðir í venjulegu heimilisbókhaldi, eða svo ég vitni í nýlega grein eftir vinkonu mína:
Á heimasíðu Nýsköpunardags hins opinbera er spurt: Lumar þú á sparnaðarlausn sem nýtist í opinberum rekstri?
Sjálfsagt er að bjóða upp á slíkar hugmyndir og þarf ekki að leita lengra en í rekstur heimilisbókhaldsins. Í fyrsta lagi þarf að passa að útgjöld séu lægri en tekjur. Í öðru lagi að forðast að taka lán nema nauðsyn krefji, t.d. fyrir stærri fjárfestingar, og muna svo að greiða af þeim lánum í framhaldinu, og þá með tekjum en ekki nýjum lánum. Neyslulán eru slæm hugmynd nema í algjörri neyð. Ekki treysta á að vinna í happadrætti þegar fjárhagsáætlanir eru gerðar. Verðsamanburður getur borgað sig.
Hagnýtar lausnir sem eru nothæfar og þá helst til lengri tíma eiga að njóta forgangs umfram glingur og sýndarmennsku, en svolítið skraut má kaupa ef það er afgangur.
Ekkert nýtt, frumlegt, róttækt eða ómögulegt. Bara einfalt viðbragð við breyttum aðstæðum.
Það verður svo sannarlega dagamunur í illa reknu sveitarfélagi Árborgar. En ég spyr mig: Verður munur á gömlum degi og nýjum í Reykjavík? Á þeim Degi sem vill helst bara klippa borða og hinum sem boðaði breytingar? Tíminn leiðir það í ljós, þ.e. næsti Dagur.
Uppsagnir óhjákvæmilegar í Árborg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 11. apríl 2023
Viljum við verja loftslagið eða náttúruna?
Þetta hljómar mögulega eins og furðuleg spurning en ég spyr: Viljum við verja loftslagið eða náttúruna?
Það er ekki bara ég sem spyr. Sumir vísindamenn eru að spyrja sömu spurningar. Hvers vegna? Jú, því okkur er nú sagt að við þurfum að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir sólar- og vindorku. Kannski ekki jafnmikið á Íslandi og víða annars staðar, en áform eru þó uppi um að teppaleggja íslenska náttúru með vindmyllum og sýnist sitt hverjum um það.
Í athyglisverðri grein, The Rising Chorus of Renewable Energy Skeptics, er fjallað um áhrif þessara áforma um sól og vind og orkuskipti almennt (t.d. rafmagnsbílana) á náttúruna. Hráefnaþörfin er jú gríðarleg og sum hráefnanna er ekki auðvelt að finna. Stundum þarf gríðarlega orku- og hráefnanotkun til að vinna þessi hráefni úr jörðinni.
Hér eru þrjú sláandi dæmi úr greininni (í lauslegri þýðingu minni):
Sérhvert rafknúið ökutæki inniheldur um það bil 75 kíló af kopar eða þrisvar sinnum meira en hefðbundið ökutæki. Ein vindmylla inniheldur að jafnaði 500 kíló af nikkel. Það nikkel þarf 100 tonn af kolum sem má nýta til stálframleiðslu til að hreinsa. Og sérhver kristölluð sílikon sólarplata inniheldur 20 grömm af silfurpasta. Það tekur 80 tonn af silfri til að framleiða um það bil gígavött af sólarorku. ...
Michaux gerði nýlega mikilvægan útreikning á því hvað þyrfti til að skipta út kerfi sem rekið er af jarðefnaeldsneyti með endurnýjanlegum orkugjöfum sem byggist á neyslutölum frá 2019. Umfang er yfirþyrmandi. Bara til að skipta um 46.423 virkjanir sem reknar eru af olíu, kolum, gasi og kjarnorku þyrfti reisa 586.000 virkjanir sem reknar eru af vindi, sól og vetni. Það er 10 sinnum meira en núverandi kerfi vegna lítils orkuþéttleika endurnýjanlegra orkugjafa. ...
Síðan 400 f.Kr. grófu ýmsar siðmenningar upp 700 milljónir tonna af málmum (allt frá bronsi til úrans) fyrir árið 2020. En svokölluð græn umskipti munu krefjast námuvinnslu á 700 milljónum tonna fyrir árið 2040 eingöngu ...
Hráefnin leynast oft undir friðuðum svæðum og náttúruperlum og því spyrja menn sig eðlilega að því hvort við viljum frekar: Loftslag með aðeins minni koltvísýringi, eða ósnortna náttúru.
Auðvitað eru orkuskipti í sjálfu sér ekki slæm og mannkynið hefur oft farið í gegnum orkuskipti (t.d. eru Indverjar nú að fara úr þurrkaðri mykju til kolaorku). Menn hafa bent á að íslenskar hitaveitur voru orkuskipti úr kolum og olíu í jarðhita og almennt taldar vera vel heppnaðar framkvæmdir. Kjarnorka sem leysir af olíu og kol er líka lausn sem minnkar álag á auðlindir Jarðar og losun á flestu því sem menn vilja losa minna af. Fyrir ríki eins og Danmörku, sem á mjög takmarkaðar náttúruauðlindir og er án fallvatna og jarðhita, er vindurinn og sólin mögulega skásta leiðin til að færa orkuframleiðsluna nær notendum (og norsku fallvötnin og þýsku kolaorkuverin eru svo notuð sem varaafl).
En við erum að tala um eitthvað annað hérna. Við erum að tala um hreina og beina árás á náttúruna, og til hvers? Til að Evrópubúar geti orðið fátækari og orkusnauðari en aðrir heimshlutar ríkari og orkumeiri? Kannski það sé í raun áætlunin en seld okkur á fölskum forsendum.
Annars er ég með ráð fyrir þá sem vilja verða aðeins grænni: Níska á fé og tíma. Ég tími ekki að kaupa nýjar tölvur (lítið mál að finna þær notaðar) og finnst rekstur á bíl vera rán um hábjartan dag. Þess vegna bý ég nálægt vinnustað mínum og hjóla allt. Síðan er engin ástæða fyrir 100 kg mann að borða tvær heilar máltíðir á dag svo ein dugir oftast. Kannski ég sé grænni en flestir af þeim sem tala hátt um hið græna!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 10. apríl 2023
Umpólun heimsins
Við höfum kannski flotið svolítið sofandi að feigðarósi en skulum bara átta okkur á því núna: Vesturlönd eru að sökkva og önnur að rísa.
Sem fyrsta sönnunargagn vil ég benda á myndina hér að neðan sem sýnir breytingar á stærstu hagkerfum heims undanfarin ár.
Takið eftir að allt sem er grænt (Evrópa) og Bandaríkja-blátt er á niðurleið og allskonar annað á uppleið, þar á meðal ríkin sem mynda hið svokallað BRICS samstarf, eða stefna á að ganga í það samstarf. Ríki innan þess samstarfs, auk annarra, hafa nú uppi áform um að hætta að einhverju leyti notkun Bandaríkjadollars í milliríkjaviðskiptum og veikist þá sú leið Bandaríkjanna til að fjármagna endalaus stríð og önnur útgjöld með peningaprentun sem leiðir til verðbólgu á kostnað annarra heimshluta.
Sem annað sönnunargagn vil ég benda á að allar viðskiptahindranir Vesturlanda gegn Rússlandi undanfarin ár hafa engu skilað. Rússar finna sér bandamenn í öðrum heimshlutum, þar á meðal Kína og Suður-Ameríku.
Sem þriðja sönnunargagn má benda á ofuráherslu vestrænna yfirvalda á ímyndaða óvini. Veiran var bara einn af mörgum og Rússland sá seinasti. Þessir meintu óvinir eiga að réttlæta endalaust fjáraustur í allskyns aðgerðir, frá grímum og sprautum og aðgerðum gegn hamfarahlýnun til skriðdreka og annarra hertóla. Á meðan veslast hagkerfi Vesturlanda upp og þau síga aftur úr öðrum heimshlutum. Enn er svo bætt í með því að hleypa endalaust af betlurum inn í velferðarkerfin og gera þau gjörsamlega ónothæf fyrir skattgreiðendurna sem fjármagna þau.
Þetta getur bara endað illa eins og í öllum öðrum sögulegum tilvikum heimsvelda sem þöndu sig of mikið út með verðbólgu og ímynduðum ógnum, á kostnað borgaranna.
Hvað er til ráða? Það veit ég ekki. En að kjósa skilar engu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)