Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2023
Mánudagur, 10. apríl 2023
Tækifæri í greiðsluþroti Reykjavíkur
Ef fer sem horfir fer Reykjavíkurborg í greiðsluþrot bráðum. Það ætti ekki að koma neinum á óvart. En kannski leynast tækifæri í slíku?
Það er stórhættulegt að leyfa kjósendum í vesturbæ Reykjavíkur að stjórna borginni. Þar þjappast allir vinstrimennirnir saman, margir hverjir á opinberri framfærslu, og kjósa vinstrimenn yfir alla aðra borgarbúa þvert á vilja þeirra. Þetta heitir lýðræði og allt í lagi með það en lýðræði er ekki fullkomið og gallana mætti sníða af því. Til dæmis til að tryggja jafnt atkvæðavægi hverfa svona eins og menn gera í tilviki landshluta í þingkosningum.
Skoðum aðeins borgina og nágrannasveitarfélögin sem ég hef gróflega hólfað niður.
Það væri kannski rökrétt að sameina Seltjarnarnes og Reykjavík vestan Elliðaánna (svæði 1). Leitt fyrir íbúa Seltjarnarness en landfræðilega mjög nærliggjandi. Um leið er búið að loka af vesturbæinn svo ráðhúsið geti ekki lengur seilst í vasa austurhlutans til að fjármagna gæluverkefnin, eins og gráðugur krakki. Borgin þarf ekki byggingaland og vill það jafnvel ekki. Það er jú alltaf hægt að þétta byggðina!
Austan Elliðaánna væri mögulega hægt að stofna nýtt sveitarfélag og bræða Mosfellsbæ saman við það (svæði 2). Svokölluð Austur-Reykjavík. Nú þegar stóru vinnustaðirnir, sem eru ekki á vegum hins opinbera eða ríkisfyrirtækja, eru flúnir til Kópavogs og Garðabæjar er engin þörf á að keyra Miklubrautina niður í bæ nema á 17. júní.
Kópavogur og Garðabær (svæði 3 og 4) eru bæði byggð fólki sem kýs fjárhagslega ábyrgð (sérstaklega eftir að Álftanes gufaði upp sem sjálfstætt sveitarfélag). Kannski þessi sveitarfélög, auk lítils bita af Reykjavík, gætu runnið saman án þess að kalla hörmungar yfir íbúa.
Hafnarfjörður (svæði 5) hefur alltaf verið svolítið sérstakur og þarf eiginlega að fá að vera það áfram. Þar hafa menn líka tilhneigingu til að kjósa stjórnmálamenn sem kafsigla sveitarfélaginu og varla þorandi að hleypa þeim í hirslur Kópavogsbúa og Garðbæinga.
Ég veit að íslensk lög gera sundrungu sveitarfélaga svo gott sem ómögulega en það er jú bara spurning um að breyta löggjöfinni.
Hætta á greiðsluþroti að óbreyttu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 9. apríl 2023
Nürnberg-siðaramminn: Gleymdur og grafinn
Nürnberg-siðaramminn (Nuremberg Code) eru siðareglur sem menn settu sér í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar og áttu að greypa í stein í eitt skipti fyrir öll bann við tilraunastarfsemi á mönnum nema gegn upplýstu samþykki og með allskyns varnöglum.
Ég hef séð sannfærandi rök færð fyrir því að veirutímar hafi brotið og jafnvel þverbrotið öll eða flest ákvæði þessa siðaramma. Nýlega las ég bók sem tók jafnvel svo djúpt í árina að kalla núverandi ástand samfélags okkar Fjórða ríkið, og verður samlíkingin við Þriðja ríki nasistanna ekki öllu sterkari (eftir að hafa lesið bókina sé ég ekkert að þeirri samlíkingu).
Það er kannski söguleg tilviljun að seinasti saksóknari Nürnberg-réttarhaldanna hafi látist á tímum þar sem öllum lærdómi hans saksóknaratíma er nú varpað í ruslið. Nú skal á ný gera tilraunir á fólki án upplýsts samþykkis og án möguleika fyrir tilraunadýrin að draga sig úr tilrauninni. Þau skulu þvert á móti þvinguð í tilraunirnar eða hótað atvinnumissi og þaðan af verra ef þau láta ekki sprauta sig ítrekað og oft til dauða sem með heppni er skyndilegur en ekki afleiðing langvarandi, sársaukafullra aukaverkana sem engar bætur fást fyrir og engar skýringar eru veittar á.
Nú eru brjáluðu læknarnir sem sækja í gull og gersemar lyfjafyrirtækjanna aftur komnir við stjórnvölinn. Þeir fá yfirvöld til að bjóða fram almenning sinn, hermenn og jafnvel ungabörn og sprauta í þetta fólk nýstárlegu glundri á neyðarleyfum sem fengust gegn því að banna meðferðir með vel þekktum lyfjum og aðferðum. Upplýst samþykki er ekki veitt. Þvert á móti er blekkingum beitt og jafnvel þegar þær eru afhjúpaðar er ekkert viðhafst og sprautukallið látið óma í öllum fréttatímum og blaðamannafundum. Reiknginn fá svo fórnarlömbin, bæði reikninginn frá lyfjafyrirtækjunum og reikninginn fyrir að missa starfsgetu, ættingja, vini og fyrir eigin útför.
Kannski það sé því við hæfi að seinasti saksóknari Nürnberg-réttarhaldanna sé núna kominn í kistu og ofan í jörðina. Það væri honum væntanlega óholl lífsreynsla að sjá allt sitt ævistarf gufa upp fyrir framan augun á sér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Laugardagur, 8. apríl 2023
Blaðamaður hjá hinu opinbera: Moggabloggið er algjör ruslakista
Moggabloggið, þ.e. þeir sem skrifa á blog.is sem rekstraraðili Morgunblaðsins á og rekur, er ruslakista að mati blaðmanns á framfæri hins opinbera. Þar kemur sjaldnast eitthvað fram sem vitglóra er í. Eða yfirleitt aldrei, svo því sé haldið til haga, og liggja eflaust faglegar og vandaðar rannsóknir að baki slíkri fullyrðingu.
Og hverjir eru að fóðra þessa ruslakistu með rusli? Sem stendur eftirfarandi fólk (20 efstu):
Ekki kemur fram hvort blaðamanni finnist fleiri rými tjáningar og skrifta vera ruslakistur. Mögulega er það svo.
Tilefni, eða innblástur, yfirlýsingar hins opinbera starfsmanns er ein færsla á einni síðu. Ég hef ekki lesið þá færslu enda er slíkt óþarfi til að leggja mat á hrokafulla yfirlýsingu um stóran vettvang fjölbreyttra skoðana fjölbreytts fólks sem að auki dregur að sér fjölda lesenda á hverjum degi. Hvað ætlar hinn opinberi starfsmaður að kalla þá sem sækja í ruslakistuna? Þvottabirni? Flækingshunda? Það fylgir ekki sögunni en eitthvað hlýtur sá hópur sem nærist úr ruslakistum að kallast.
Kannski það fari í taugarnar á blaðamanni með áratugi af blaðamennsku á bakinu að sjá að fleiri en lítill hópur með einsleitar skoðanir fái að tjá sig, og jafnvel enn verra en það: Að einhver kynni sér þá tjáningu. Liðnir eru dagar lesendabréfa sem birtust í litlum dálkum prentmiðlanna. Hvaða blábjáni sem er getur nú tjáð sig, í ruslakistum. En sú skelfing!
Athyglisvert er að hinn reyndi blaðamaður, á opinberu framfæri, með víðtækt aðgengi að stórum áhorfendahópi, nýti sér aðra ruslakistu til að tjá sig: Fésbókina. Þar er jafnvel enn auðveldar að tjá sig en í ruslakistu Morgunblaðsins. Nennir enginn að fylgjast með útsendingum viðkomandi á öðrum vettvangi? Spyr sá sem ekki veit, því sá sem spyr hætti fyrir meira en 20 árum síðan að sjá ástæðu til að eyða tíma í að kynna sér reglubundið skoðanir viðkomandi blaðamanns. Það dugir að renna yfir fyrirsagnir á miðlum atvinnurekanda hans til að vita hverjar þær eru. Önnur ruslakista það.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Laugardagur, 8. apríl 2023
Réttindi til að skeina sér
Við erum kannski ekki komin þangað ennþá en dag einn þurfum við mögulega að sækja um réttindi til að skeina okkur sjálfum. Af hverju? Jú, það er hægt að skeina sér vel og illa, það er hægt að nota of mikinn klósettpappír og eyða upp skógum jarðar en líka of lítinn og þurfa þá að menga höfin með sterkum sápum og hreinsiefnum þegar kemur að þvotti.
Mjög reglulega þykir íslenskum blaðamönnum fréttnæmt að lögregla hafi rekist á marga dyraverði án þar til gerðra réttinda til að starfa sem dyraverðir. Þetta virðist vera gamalt vandamál, en í tilkynningu frá 2012 kvartar lögreglan mjög yfir þessu réttindaleysi í að skoða skilríki og stöðva slagsmál á skemmtistöðum. Þar kemur meðal annars fram:
Til að fá útgefið dyravarðaskírteini hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu skulu umsækjendur vera að minnsta kosti 20 ára og hafa ekki gerst sekir um ofbeldis- eða fíkniefnabrot. Leggja skal fram sakavottorð því til staðfestu. Erlendir ríkisborgarar skulu leggja fram sakavottorð frá sínu heimalandi.
Um þetta er fjallað í reglugerð um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald en í henni er hlutverk dyravarða jafnframt skilgreint. Ef rekstraraðilar virða fyrrnefnd ákvæði ítrekað að vettugi geta hinir sömu búist við viðurlögum, t.d. sviptingu eða afturköllun rekstrarleyfis.
Maður veltir því fyrir sér hvort allsgáðir fyrrverandi glæpamenn séu ekki einmitt bestu dyraverðirnir. Þeir hafa jú verið hinum megin við borðið, ekki satt?
Hvað um það. Hérna sé ég rof á milli yfirvalda og venjulegs fólks, eitt af mörgum. Ár eftir ár eftir ár er lögreglan að rekast á dyraverði án svokallaðra dyravarðaskírteina og samt heldur fólk áfram að sækja skemmtistaði. Það er eins og öllum sé nákvæmlega sama, og ég leyfi mér að segja að það sé skiljanleg afstaða. Væri kannski ráð að finna allskonar hindranir og óþarfa eins og þennan og hreinlega þurrka úr lögum og reglugerðum?
Eða erum við frekar að stefna í átt að skeiniskílríkinu?
Dyraverðir á sex stöðum án réttinda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 6. apríl 2023
Drepa bílaframleiðendur ökumenn? Valda kjósendur verðbólgu?
Höfum nokkra hluti alveg á hreinu:
Byssur drepa ekki. Byssumenn drepa með byssum.
Fíkniefnasalar drepa ekki. Neytendur fíkniefna drepa sig með neyslu sinni. Fíkniefnasalar eru að þessu leyti skárri en lyfjaframleiðendur sem sannfæra yfirvöld um að þvinga eitri sínu í almenna borgara.
Bílaframleiðendur drepa ekki ökumenn og vegfarendur. Það gera ökumenn bíla.
Framleiðendur uppþvottatafla drepa ekki börn. Börn sem gleypa þær eru að skaða sig sjálf (en á ábyrgð fullorðinna sem skildu þær eftir á glámbekk).
Þetta þýðir ekki að sölumenn eiturlyfja megi ekki kalla sölumenn dauðans eða álíka, til einföldunar og jafnvel í áróðursskyni. Bílar eru lífshættuleg tæki. Byssur eru það líka. Fullur ökumaður og reiður byssumaður gera bíla og byssur að drápstólum - með hegðun sinni. Foreldrar sem skilja litríkar uppþvottatöflur eftir á stöðum sem hnýsin börn komast í eru að skaða börn af gáleysi.
Fulltrúalýðræði er áhugaverður vinkill í þessu. Kjósendur kjósa stjórnmálamenn sem með umboð þeirra í farteskinu rústa hagkerfinu. Eru kjósendur ábyrgir eða fulltrúarnir? Hérna finnst mér mörkin skolast svolítið til. Kjósendur láta selja sér sömu snákaolíuna ítrekað, og niðurstaðan er fyrirsjáanleg. Er þá hægt að segja að kjósendur séu ábyrgir fyrir verðbólgunni, hallarekstrinum, skuldunum, vanrækslunni og bruðlinu innan hins opinbera? Það vil ég meina.
Kjósendur valda því verðbólgu og efnahagslægðum og magna jafnvel upp stríð. Er það ósanngjarn úrskurður?
Játar að hafa banað leikara The Wire | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 5. apríl 2023
Vantar Seðlabanka Íslands ekki fleiri sérfræðinga?
Nú hefur komið í ljós að svokölluð tímabundin ráðning í óauglýsta stöðu sérfræðings í loftslagi og sjálfbærni, fyrir milljón á mánuði, var bara fegrunaraðgerð á ímynd bankans á kostnað skattgreiðenda.
Maður veltir því fyrir sér hvort bankann vanti ekki fleiri svokallaða sérfræðinga, og tilbúinn að fara á svig við lög og reglugerðir til að koma slíkum inn?
Með sérfræðing í að atast í prentaranotkun starfsmanna og segja þeim að nota strætó, sem þeir munu aldrei gera, þá opnast dyrnar fyrir allskonar aðra ráðgjöf sem enginn fer eftir.
Kannski vantar sérfræðing í klæðaburði. Seðlabankastjóra er mikið hrósað fyrir sinn en hvað með aðra starfsmenn bankans? Eru rúllukragapeysur í tísku? Má vera í bláum buxum og rauðum jakka? Má vera í svörtum skóm með brúnt belti? Hér þarf bankinn að hafa allt á hreinu.
Kannski vantar einhvern til að segja öllum hvað þeir eru fordómafullir. Hvar eru minnihlutahóparnir? Hver er stefna bankans í ráðningum á fólki með röng kynfæri, eða engin kynfæri? Bankinn er hér blindur og heyrnalaus í áherslum sínum í dag (eitthvað með peningastefnu og verðbólgu) og þarf að nútímavæðast.
Kannski vantar einhvern til að fylgjast með því hvað mörg kyn eru eiginlega á starfsmannaskrá bankans. Eru þau öll með? Öll 72 kynin? Í hvaða hlutföllum? Hérna þarf allt vitaskuld að vera jafnt. Um leið þarf að tryggja að hann, hún, kván og hvorugt séu ávörpuð rétt.
Kannski þarf bankinn að komast inn í nútímann þegar kemur að því að reka fólk fyrir fyrra líferni eða eitthvað sem einhver segir að einhver hafi einhvern tímann gert, sagt, hugsað eða viljað. Vantar ekki sérfræðing hérna til að leiðbeina starfsmönnum Seðlabanka Íslands?
Dyrnar eru kannski að opnast og því um að gera að búa sig undir að fá milljón á mánuði fyrir að geta hengt jakkann á stólbakið og eytt deginum á kaffihúsi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 4. apríl 2023
Niðurgreidd, tollavarin, lögvernduð starfsemi - ekki það
Það má alveg dást vel og lengi að frumkvöðlaanda og drifkrafti Íslendinga. Þeim tekst einhvern veginn alltaf að finna leiðir til að búa til verðmæti þótt hið opinbera sé mjög upptekið af því að niðurgreiða taprekstur og ofur-skattleggja verðmætasköpun.
Hvern hefði til dæmis grunað að Íslendingar yrðu snillingar í framleiðslu á áfengi? Ekki er sú framleiðsla niðurgreidd, ekki nýtur um skattaafslátta og ekki nýtur hún verndar gegn samkeppni. Þvert á móti. Áfengi, og þá sérstaklega sterkt áfengi, er skattlagt í slíkum mæli að svokallaður heimamarkaður ætti varla að vera til staðar, en heimamarkaður er oft sá stökkpallur sem fyrirtæki þurfa á að halda til að komast á erlenda markaði.
Þetta tekst þrátt fyrir hindranir og afskipti ríkisins, ekki vegna.
Á sama tíma skrapa botninn þær atvinnugreinar sem njóta mestrar verndar og stuðnings. Spáir enginn í því hvað íslenskir bændur gætu gert ef þeir yrðu skornir úr snöru niðurgreiðslu, tollverndar og viðskiptafrelsis? Nei, sennilega ekki, og síst af öllu bændur. En minn grunur er sá að ef íslenskur landbúnaður yrði að fullu gefinn frjáls þá gæti íslenska lambið orðið að eftirsóttasta bitanum í stærstu borgum heims.
Við komumst sennilega aldrei að því, og borgum fyrir það, rækilega og bókstaflega.
Íslenskur vodki valinn sá besti af GQ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 3. apríl 2023
Afsökunarsamfélagið
Íslenskur Toppfótbolti, ÍTF, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna gagnrýni á auglýsingu Bestu deildanna sem frumsýnd var á kynningarfundi Bestu deildar karla í síðustu viku. Af hverju ekki? Einhver sagði eitthvað um kynjajafnrétti og þrátt fyrir að menn hafi lagt ýmislegt á sig til að forðast gagnrýni þá dugði það ekki til. Þá þarf vitaskuld að biðjast afsökunar og lofa því að gera eitthvað annað.
Við erum annars vegar orðin svo upptekin af kynfærum fólks að ekkert annað kemst að. Við erum hins vegar orðin svo upptekin af því að kynfæri þýði ekkert - segi ekkert til um kyn til dæmis - að ekkert annað kemst að. Og einhvern veginn kemst hvoru tveggja að, endalaust og ítrekað.
Mér var einhvern tímann kennt að meta fólk að verðleikum. Ertu góð manneskja eða slæm? Góð í vinnunni eða léleg? Kurteis eða ókurteis? Fyndin eða ófyndin? Þetta hefur einhvern veginn mótað mig og um leið gert mig gamaldags, úr takt við tímann, a.m.k. ef maður fær heimsmynd sína frá fjölmiðlum og þeim sem komast að í þeim.
Um leið þarf að biðjast afsökunar á öllu mögulegu: Gömlum og nýjum þáttum og bíómyndum, málverkum og bókmenntum, svo eitthvað sé nefnt. Úrelt! Dónalegt! Fordómafullt!
Maður veltir því fyrir sér hvort það séu ekki þeir sem hæst góla um umburðarlyndi og fordómaleysi sem eru einmitt hið andstæða: Þeir fordómafyllstu og síst umburðarlyndir.
Svara gagnrýni um ójafnt kynjahlutfall | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 19:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 3. apríl 2023
Þetta brjálaða álag
Hið opinbera á Íslandi er djúpt sokkið í skuldafen, vanrækslu á innviðum, biðlista og óráðsíu. Sérstaklega á þetta við um ríkisvaldið og Reykjavík og ekki skrýtið að hið opinbera tileinki hreinlega heilan degi til nýsköpunar í opinberum sparnaði.
Það mætti því ætla að verið sé að skera niður, fækka starfsmönnum, forgangsraða verkefnum, endurhugsa áætlanir, hlúa að því sem þarf að laga frekar en blása í nýjar töfralausnir og gera ýmislegt annað sem hægir á lántökum og skattahækkunum og lágmarkar skerðingar í grunnþjónustu.
En nei, það er öðru nær. Úr starfsauglýsingu hjá Reykjavíkurborg:
Við bjóðum upp á:
- Fyrsta flokks vinnustað og vinnuumhverfi
- Tækifæri til að móta og þróa starfið og verkefnin
- Verkefni sem stuðla að því að einfalda og bæta líf starfsfólks og borgarbúa
- Krefjandi og skemmtileg verkefni
- Sálrænt öryggi og skapandi menningu
- Góða liðsheild og góð samskipti
- Samkennd og virðing
- Þekkingarumhverfi
- Áherslu á jafnrétti og fjölbreytileika
- 30 daga í sumarleyfi
- 36 stunda vinnuviku
- Sveigjanleika á vinnutíma
- Heilsu- og samgöngustyrk
- Sundkort
- Menningakort
Kaldhæðinn maður gæti umorðað listann einhvern veginn svona:
- Við vitum ekkert hvað þú átt að gera. Þú finnur út úr því
- Þú þarft ekki að gera mjög mikið. Vinnuvikan er stutt og fríin eru löng
- Þú getur unnið þegar þú nennir. Það er enginn að bíða eftir neinu frá þér
- Starfið snýst um að vera svolítið skemmtilegur og fjölbreyttur og halda uppi fjörinu
- Langtímamarkmiðin eru loðin og fjarlæg og óþarfi að hafa áhyggjur af þeim
- Við tryggjum þér allskonar aðgang að afþreyingu og afslöppun enda verður þú með nægan frítíma
Ekki slæmt fyrir sveitarfélag á hvínandi kúpunni. Á ekki að henda í umsókn?
Sunnudagur, 2. apríl 2023
Úr hringrás í hringavitleysu
Mikið er nú lagt á okkur til að koma á svokölluðu hringrásarhagkerfi, þar sem hráefni eru nýtt og endurnýtt eins mikið og hægt er til að hægja á þörf okkar fyrir ný hráefni. Sem dæmi má nefna að áldósin getur orðið að varahlut í bíl, dagblöðin geta orðið að eggjabökkum og matarúrgangur getur orðið að áburði.
Þetta hringrásarhagkerfi virkar samt ekki og ætti miklu frekar að kalla hringavitleysuhagkerfi.
Hringrásarhagkerfið var miklu frekar í gangi á árum áður. Rusli var safnað og það flokkað af fagmönnum. Sumt var urðað, þ.e. úrgangi breytt í jarðveg. Sumt var þvegið, svo sem gosflöskurnar sem voru úr gleri, nema þær sem voru brotnar niður og notaðar sem hráefni í eitthvað annað. Stundum má nota úrgang til orkuframleiðslu. Vöruflutningar snérust um að koma varningi til fólks og úrvinnsla úrgangs snérist um að nýta hann í nærumhverfinu.
Í dag er öldin önnur. Núna eru skip fyllt með úrgangi af ýmsu tagi og honum siglt á fjarlægja áfangastaði. Pappírinn fer til Svíþjóðar. Plastið til Englands. Eða eitthvað slíkt. Stórir og hagkvæmir ruslabílar eru orðnir að flota minni bíla sem sækja hver sinn úrgang. Fólk þarf að keyra langar leiðir á móttökustöðvar með takmarkaðan opnunartíma til að losna við ruslið sem er þess á milli að taka upp pláss í upphituðu húsnæði.
Hringrásarkerfið er orðið að hringavitleysu og verðmiðinn hefur hækkað töluvert í kjölfarið, nú fyrir utan að það er orðið mjög erfitt fyrir fólk að losna við ruslið.
Unga fólkið í dag telur sig vera miklu umhverfisvænna en eldri kynslóðir. Það er rangt.
Hinu opinbera er ekki hægt að treysta fyrir mörgu öðru en að tryggja langar biðraðir fólks sem er að reyna fylla út flókin eyðublöð til að geta stundað löglega starfsemi. Það svíkur okkur í innviðamálum, heilbrigðismálum og menntamálum og svo sannarlega þegar kemur að því að sækja rusl og farga á skynsamlegan hátt.
Kannski er komin þörf á að hugleiða nýjar lausnir.