Drepa bílaframleiðendur ökumenn? Valda kjósendur verðbólgu?

Höfum nokkra hluti alveg á hreinu:

Byssur drepa ekki. Byssumenn drepa með byssum.

Fíkniefnasalar drepa ekki. Neytendur fíkniefna drepa sig með neyslu sinni. Fíkniefnasalar eru að þessu leyti skárri en lyfjaframleiðendur sem sannfæra yfirvöld um að þvinga eitri sínu í almenna borgara.

Bílaframleiðendur drepa ekki ökumenn og vegfarendur. Það gera ökumenn bíla.

Framleiðendur uppþvottatafla drepa ekki börn. Börn sem gleypa þær eru að skaða sig sjálf (en á ábyrgð fullorðinna sem skildu þær eftir á glámbekk).

Þetta þýðir ekki að sölumenn eiturlyfja megi ekki kalla sölumenn dauðans eða álíka, til einföldunar og jafnvel í áróðursskyni. Bílar eru lífshættuleg tæki. Byssur eru það líka. Fullur ökumaður og reiður byssumaður gera bíla og byssur að drápstólum - með hegðun sinni. Foreldrar sem skilja litríkar uppþvottatöflur eftir á stöðum sem hnýsin börn komast í eru að skaða börn af gáleysi.

Fulltrúalýðræði er áhugaverður vinkill í þessu. Kjósendur kjósa stjórnmálamenn sem með umboð þeirra í farteskinu rústa hagkerfinu. Eru kjósendur ábyrgir eða fulltrúarnir? Hérna finnst mér mörkin skolast svolítið til. Kjósendur láta selja sér sömu snákaolíuna ítrekað, og niðurstaðan er fyrirsjáanleg. Er þá hægt að segja að kjósendur séu ábyrgir fyrir verðbólgunni, hallarekstrinum, skuldunum, vanrækslunni og bruðlinu innan hins opinbera? Það vil ég meina. 

Kjósendur valda því verðbólgu og efnahagslægðum og magna jafnvel upp stríð. Er það ósanngjarn úrskurður?


mbl.is Játar að hafa banað leikara The Wire
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

 Dæmi eru um að bílaframleiðendur hafi með rangri hönnun banað ökumönnum af gáleysi. Ford Pinto og fyrsta gerðin af Ford Escort voru illræmdir slysavaldar vegna þess að til þess að spara rými var bensíngeymirinn hafður í bláhorninu aftast á bílnum. 

Fjöldi fólks fórst eða slasaðist þegar ekið var aftaná þessa bíla og eldur kviknaði í geyminum. 

Einn fórst hér á landi á Reykjanesbraut. Escort hans snerist í hálku og lendi með afturhornið framan á aðvífandi bíl með þeim afleiðingum að það kviknaði í bensíngeyminum og bílstjórinn brann inni í bílnum. 

Ford Pinto fór í sögubækurnar sem einhver misheppnaðist bíll, sem framleiddur hefur verið í Bandaríkjunum, en ný, stærri og endurbætt gerð af Escort var framleiddur í Bretlandi við góðan orðstír. 

Ómar Ragnarsson, 8.4.2023 kl. 13:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband