Sunnudagur, 20. september 2009
Vík frá, þú óhæfa vinstristjórn!
Grein mín úr Morgunblaðinu 19. september 2009:
Furðulegt er að fylgjast með því algjörlega aðhaldsleysi stjórnarandstöðu og fjölmiðla sem sitjandi ríkisstjórn er veitt. Er Ísland eitthvað nær því að komast út úr erfiðleikum sínum? Nú er hafinn landflótti, skattar eru hækkaðir, ekki er skorið niður í ríkisrekstrinum, gjaldmiðlahöft halda áfram að lama útflutningsgreinarnar og skuldabyrði landsmanna aukin með þjóðnýtingum á skuldbindingum fyrrverandi einkafyrirtækja. Hvenær á að segja stopp?Það dylst vonandi fáum að bæði forsætis- og fjármálaráðherra landsins hafa beðið mjög lengi eftir því að fá að vera við stjórnvölinn. Til þess var fjölmiðlum, forseta Íslands og æstum múg beitt með aðferðum sem verður mjög athyglisvert að lesa um í sögubókum framtíðar. Tækifærismennskan var einstök þegar pólitískum óstöðugleika var bætt ofan á þann efnahagslega. En gott og vel. Breytinga var krafist af stórum hluta þjóðarinnar. Hver var uppskeran? Hún var ein óhæfasta ríkisstjórn Íslandssögunnar, og hún situr enn.
Þeir eru til sem segja að ríkisábyrgð á skuldbindingum banka í einkaeigu, stjórnlaus vöxtur hins opinbera seinustu árin og aukið eftirlits- og reglugerðafargan hafi verið eins konar afsprengi aukins frelsis, eða frjálshyggju, á Íslandi. Þeir hafa rangt fyrir sér. Frá Brussel streymdu fyrirmæli sem skylduðu ríkið út í stórkostlega útþenslu á eftirlitsstarfsemi sem hefur reynst vera marklaust fjáraustur. Markaðsaðhaldi var skipt út fyrir ríkiseftirlit. Áhættan var verðlaunuð þegar hún bar árangur, en þjóðnýtt þegar henni skeikaði. Þetta er andstæða kapítalismans, sem menn hallmæla nú sem aldrei fyrr.
Leiðin úr ánauð er vörðuð hugarfari sem fagnar framtakssemi einstaklinga, notkun eigin fjár til að skapa auð og gjaldþrotum þeirra sem veðja á vitlausan hest á hinum frjálsa markaði. Til að koma á slíku fyrirkomulagi þarf að afnema ríkisábyrgðir, afnema höft á viðskiptum við útlönd, minnka hið opinbera lóð á hálsi hins frjálsa markaðar og snarlækka skatta. Hafa núverandi stjórnvöld skilning á þessu? Nei. Þau eru á leið í hina áttina þá sem afnemur ábyrgð einstaklinga með öllu og dregur sífellt meira af auði og orku landsmanna í átt að ráðuneytunum.
Ísland þarf nýja ríkisstjórn. Sú óhæfa, og vinstrisinnaða, sem núna situr, þarf að víkja. Verði það ekki raunin, þá mun Ísland ekki eiga sér viðreisnar von um langa hríð.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.