5 uppeldisráð Geirs

Það virðist vera vinsælt að gefa uppeldisráð og hér koma mín.

1. Það var allt betra í gamla daga: Börn þurfa að vita að það var allt betra í gamla daga. Krakkar léku sér meira, voru nægjusamari, með betra ímyndunarafl, meiri orku, fleiri vini, með meira nám í skólanum og gátu meira heima. Þau fóru sjálf að sofa á kvöldin og vöknuðu sjálf, eldsnemma, við vekjaraklukku og náðu í Moggann í bréfalúgunni, sem var auðlesinn enda betri lestrarkennsla í gamla daga. Börn horfðu varla á skjá, og það var þeirra val en ekki bara afleiðing af lélegu úrvali. Í staðinn var teiknað og krossgátur leystar. Veðrið var meira að segja betra í gamla daga.

2. Það er töff að fá sár og sérstaklega ör, svo hættu þessu væli: Þegar krakkar meiðast og fá sár er óþarfi að aðhafast nokkuð. Það er töff að vera með sár. Það er merki um að maður hafi verið að gera eitthvað sem vit er í (klifra, hlaupa eða ærslast). Læknar og hjúkrunarfræðingar þurfa ekki að koma nálægt skrámum og rispum. Nema bein séu brotin er óþarfi að gráta út af smá skeinu.

3. Ef þú ert sjálfala ræður þú þér meira sjálf(ur): Börn sem kunna ekki að hafa ofan af fyrir sjálfum sér eru stanslaust áreiti á fullorðna og fullorðnir bregðast við slíku með allskyns reglum: Tölvutími, afskipti af klæðaburði, afskipti af mætingartíma í hitt og þetta, og auðvitað strangari háttatími. Börn sem eru sjálfala við leik (sérstaklega úti) eru minna áreiti og lenda því ekki í mörgum reglum (þótt auðvitað þurfi alltaf að fylgjast með mataræði og svefntíma). Krakki sem kvartar yfir reglu þarf að átta sig á því að reglan er að hluta afleiðing eigin hegðunar. 

4. Þú átt líkama þinn og aðrir eiga sinn: Börn þurfa að læra að líkami manns er manns eigin eign sem enginn má misnota eða eiga við án leyfis, og sama gildir um líkama annarra. Þetta er þeim oft kennt í samhengi kynferðislegs áreitis en lögmálið gildir líka um ofbeldi. Ef þú lemur annan einstakling er það ígildi þess að eyðileggja hlut í eigu hans. Það að kýla í maga svarar til þess að einhver taki uppáhaldshlut manns sjálfs og grýti í jörðina. Hegðun manns sjálfs er fordæmi fyrir aðra. Ef þú ert sá sem skemmir, eyðileggur og meiðir ertu sá sem um leið heimilar að aðrir skemmi þína hluti og meiði þig. Börn skilja þetta ágætlega. Það er annað mál með unglingana sem halda að það gildi aðrar reglur um þá sjálfa en afgang mannkyns. 

5. Ef þú vilt að eitthvað gerist er best að gera það sjálfur: Foreldrar geta oft verið ótrúlega latir. Þeir nenna ekki að færa manni mat í sófann, þrífa matarleifarnar af gólfinu og vaska upp uppáhaldsglasið. Hvað er þá til ráða? Jú, gera hlutina sjálfur! Latt foreldri er oft betri uppalandi en ofvirkt foreldri. 

Núna bíð ég í ofvæni eftir að einhver lífsstílssíðan biðji um leyfi til að endurbirta þessi heilræði. Góðar stundir. 


mbl.is 5 uppeldisráð Mörtu Maríu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Geir. Þetta var fróðleg 5 ráða uppeldisfræðsla.

Ef þú ferð eftir þessum ráðum sjálfur ertu líklega alveg ágætis foreldri. En afskaplega óvinsælt foreldri hjá kerfinu, sem hefur tekið sér það óleyfilega vald, að ráðskast á óverjandi öfgakenndan hátt með foreldra og börn út um allan heim.

Það þarf ekki annað en einhverja reiða fáfróða kerlingu eða reiðan fáfróðan karl sem vill jafnvel ná sér niðri á foreldrum og börnum, til að rústa heilu fjölskyldunum án sannaðra glæpa og löglegra rannsóknaraðgerða, rétthalda, og dóms. Til sönnunar á "uppeldisglæpnum" ósannaða og kærða.

Að bera saman nútímann og þátíðina fyrir til dæmis ca. 50 árum síðan, er líklega næstum því svipað og að bera saman bronsöld og rauntímans tölvuöld. Allt er gjörbreytt. Og siðferðið týndist á græðginnar "velferðar" þróunarleiðinni. Afleiðingarnar eru í samræmi við þá týndu siðferðis leiðarljóstýru embættiskerfanna.

Öll myndin er gjörbreytt. Og því miður í of mörgum tilfellum til hins verra. Í boði "trúnaðarþöggunar" á öllum valdamestu embættanna kerfisglæpum. Bankaræningjarnir starfa meira að segja líka í slíku "trúnaðar"-leyndamála-skjóli? Vernd?

Gangi blessuðum varnarlausum börnum heimsins sem hafa lent í þessum glæpsamlegu "barnaverndarnefnda" og annarra glæpaflokka ræningjafráfærum sem best að sleppa úr þeim skelfilegu þræla-pyntingar-fangelsunum. Fangelsum alþjóðareglulegs, siðlauss, læknastimplaðs og lögmannavarðaðs samtengingar glæpakerfis.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 22.6.2018 kl. 18:05

2 Smámynd: Geir Ágústsson

"Kerfið", svo svo skal kalla, gerir tvennt:

- Bregst með dramatískum hætti við svolitlu tísti, komi það úr réttri átt

- Hreyfir hvorki legg né lið í aðstæðum þar sem heilu ættliðunum er haldið með valdi frá barni sem þarf alla þá ást og nærveru og það getur fengið

Þetta má ræða frekar seinna en eitt er ljóst: Kerfið er tvíeggja sverð.

Geir Ágústsson, 22.6.2018 kl. 19:03

3 identicon

Geir. Einmitt.

"Velferðarkerfið" út um allar jarðir og heimsálfur, með öllum sínum stríðsþjálfuðu og grunllausu kolkrabba-örmum er svikult og hættulegt tvíeggja sverð, sem bregst þeim sem verst standa og síst skyldi bregðast.

Þöggun/blekking fjölmiðla/embættiskerfisins er svikakerfisins ógnandi hótunarvopn, sem ónafngreindir lögmenn, læknar og dómarar vítt og breitt um heimsálfurnar verja á siðlausan valdníðsluhátt.

Þöggunarvaldhafarnir eru vopn siðleysis og kerfisglæpa.

Fjölmiðlar þöggunar, hálfsannleika, og blekkinga, eru hættulegri en engir fjölmiðlar.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 22.6.2018 kl. 19:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband