Hægristjórnin sem hækkaði skatta (blaðagrein)

Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu í dag. 

Hægristjórnin sem hækkaði skatta

Menn segja að hægristjórn sé við völd á Íslandi. Stjórnin ætlar jú að lækka skatta, greiða niður skuldir og af mikilli náð og miskunn leyfa einkaaðilum að starfa á fleiri sviðum. Þótt sumt af þessu eigi við er samt óhætt að segja að skrefin í frelsisátt séu hænuskref á meðan skrefin í helsisátt séu stærri.

Nýleg dæmi má nefna. Tilkynnt hefur verið að sumir sem greiða lág þrep virðisaukaskatts eigi nú að greiða há þrep. Þetta er skattahækkun, og í mörgum tilvikum umtalsverð. Því er að vísu lofað að hið háa þrep verði lækkað, en bara eftir langan tíma og mjög lítið. Eftir stendur að lágt þrep varð hátt. Nær hefði verið að færa hin háu þrep að þeim lágu ef hægristjórnin ætlaði sér að standa undir nafni.

Annað dæmi snýr að þyngra og kostnaðarsama regluverki fyrir fyrirtæki, með tilheyrandi verðhækkunum, óhagræði og skrifræði. Nafn regluverksins er vissulega hljómfagurt í eyrum einhverra - „jafnlaunavottun“ - en allir vita að hér eru stjórnmálamenn að skreyta sig á kostnað almennings. Enginn verður betur settur nema embættismenn, en þeir fitna þegar aðrir horast.

Enn eitt dæmið er umræða um vegatolla á þjóðvegum sem liggja til höfuðborgarsvæðisins. Ofan á eldsneytis- og bifreiðagjöldin, sem renna ekki nema að hluta til vegaframkvæmda- og viðhalds, á að bæta tollum. Ríkisvaldinu væri nær að gefast upp og selja þjóðvegina til einkaaðila. Þeir munu stilla af framboð og eftirspurn í gegnum hæfilega verðlagningu og um leið tryggja að nýir viðskiptavinir geti notið góðra vega. Þess í stað ákveður ríkið að bæta tollum ofan á skatta. Eplið skal borgað þrisvar áður en neytandinn fær að taka bita.

Loks má nefna andstöðu yfirvalda við það að fleiri en hið opinbera heilbrigðiskerfi á Íslandi og þjónustuaðilar heilbrigðisþjónustu erlendis fái að hýsa og sjá um íslenska sjúklinga. Ríkið vill frekar senda sjúklinga út á gang myglaðra spítala eða út úr landi í flugvél en hleypa þeim í sjúkrarúm í eigu einkaaðila á Íslandi. Hugsjónin stendur í vegi fyrir velferð sjúklinga, og skattgreiðendur eru látnir fjármagna hana.

Hægristjórn segja menn. Dæmin segja aðra sögu. Ef ætlun stjórnarliða er að aðgreina sig frá stjórnarandstöðunni við næstu kosningar er ljóst að þeir þurfa að hugsa sinn gang. Hvers vegna ættu kjósendur að kjósa vinstrimenn í fötum hægrimanna þegar þeim stendur til boða að kjósa vinstrimenn í sínum eigin klæðum?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband