Hótelgeirinn hefði átt að bregðast við fyrr

Á Íslandi ríkir mjög flókið skattaumhverfi fyrir fyrirtæki, svo flókið að ráðgjafar úti í bæ geta gert sér mat úr því að kortleggja hvað fyrirtæki borga í skatt. Þetta er greinilega svo flókið verk að til þess þarf sérstaka, sérmenntaða og sérþjálfaða starfsmenn.

Í grunninn er eitt virðisaukaskattsþrep en frá því eru fjölmargar undanþágur og undantekningar. Á meðan einn aðili getur stundað vátryggingastarfsemi án virðisaukaskattsálags þarf annar aðili að bæta 24% við gjaldskrá sína áður en viðskiptavinurinn fær reikninginn.

Ferðaþjónustan hefur vissulega notið góðs af þessu og geta byggt sig upp í skjóli lægri skattheimtu. En hélt hún í alvörunni að það gæti gengið endalaust? Greinilega, því ekki man ég eftir því að neinn ferðaþjónustuaðili hafi sagt neitt til að krefjast þess að aðrir gætu notið sömu góðu kjara. Hún kvartaði þegar gistináttagjaldið var sett á, en þagði þegar aðrir voru undir smásjá ríkisins á sama tímabili. 

Enginn úr ferðaþjónustunni hefur sagt eitthvað í þessum stíl:

"Stjórnmálamenn, sjáið hvað gengur vel í ferðaþjónustunni! Hún er samkeppnishæf við ferðaþjónustu í öðrum ríkjum! Að hluta má þakka því hinum lága virðisaukaskatti. Leyfið nú öðrum atvinnugreinum að njóta sömu kjara! Við skulum sitja við sama borð! Þá geta aðrar greinar líka vaxið og dafnað!"

Nei, ferðaþjónustan sagði ekki orð. Núna fær hún flengingu og mátturinn verður dreginn úr henni (sérstaklega úti á landi). 

En ferðaþjónustan er ekki ein um að misreikna íslenska pólitík, þar sem skattþrep eru alltaf samræmd upp á við, að hæsta mögulega skattþrepi. Nei, tímaritaútgefendur, íþróttahreyfingar, ökukennarar og fasteignaleigur, svo eitthvað sé nefnt, eru í sama leik. Þar njóta menn undanþága frá himinháum virðisaukaskatti en þegja þunnu hljóði á meðan ferðaþjónustan er sett í bás með öðrum sem greiða níðþungan virðisaukaskatt. 

Atvinnulífið heldur vissulega úti ýmsum samtökum eins og SA, SI og FA. Þaðan kemur oft ýmislegt gott. Forstjórar fyrirtækjanna þurfa samt að gera sig sýnilegri og tala út frá daglegum raunveruleika sínum, sem er sá að skattar kæfa, svæfa og flæma á brott á meðan efnahagslegt svigrúm laðar að sér viðskiptavini, viðskipti frá útlöndum og launahækkanir til starfsfólks.

Nú á að slátra ferðaþjónustubeljunni. Hver er næstur?


mbl.is Hótel verða rekin með tapi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Antonsson

Það er ekki rétt hjá þér að ferðaþjónustan láti ekki heyra í sér. Einstaklingar í rekstri er að tísta hér og þar, oftast bak við mörg tjöld. Hér er Morgunblaðið að birta frétt úr atvinnulífinu. Lítið heyrist frá Saf, samtökum ferðafyrirtækja, en samtök eru mörg og almennt er verið að vekja athygli á að góðæri í ferðaþjónustu mun ekki standa lengi. Jafnvel þótt ferðamenn slæðist enn hingað í miklum mæli. Aukningin er aðallega frá ferðamönnum sem hefur verið bannað að fara til USA, Arabaríkja og Rússlands vegna hryðjuverkaógnar. En að mestu að þakka fjölgun flugfélaga og stækkun á flugstöð.

Forætisráðherrann hefur ekki rekið fyrirtæki sjálfur, heldur því fram að ekkert muni breytast. Trúlega breytist fylgi flokksins, þrátt fyrir hræðsluna við "Jóhönnuflokkana" sem voru með skattahækkanir mánaðarlega." Ríkisstjórnarflokkarnir geta þá sameinast fyrir kosningar í enn einn miðju flokkinn. Frjálshyggjumenn verða varla sýnilegir nema hann spretti upp eins og Trump.

Á tveimur árum hefur orðið 30% gengissig, launahækkun um 20% hækkun, stórfeld hækkun lífeyrissjóðsgjalda, hækkun gistináttagjalds, hækkun virðisauka um meir en 100%.

Sigurður Antonsson, 26.4.2017 kl. 10:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband