Bloggfærslur mánaðarins, október 2017

Eru allir viðskiptablaðamenn milljónamæringar?

Ég var staddur á flugvelli í gær og sá þar auglýsingu frá viðskiptablaði hér í landi. Auglýsingin var eitthvað á þá leið að ef þú vilt vita meira um hvað er á seyði á mörkuðum, vernda eigur þínar, fjárfesta betur og þess háttar þá ættir þú að gerast áskrifandi.

Mér varð þá hugsað: Eru allir viðskiptablaðamenn milljónamæringar?

Þeir hafa aðgang að mikið af gögnum og vinna við að greina þau gögn rétt. Þeir komast í tæri við álit helstu spekinga. Þeir gera ekki annað, frá morgni til kvölds, en að spá í hegðun markaða, greina orsakir og afleiðingar og setja sig djúpt inn í undirliggjandi hneigðir.

Þeir hljóta allir því að vera milljónamæringar. 

En það eru þeir ekki. Og þeir þykjast ekki vera það. Þeir segja fréttir og vita ekki meira um viðfangsefni fréttanna á morgun en veðurfréttamaðurinn þótt auðvitað byggi þeir upp reynslu og þekkingu sem hjálpar þeim að giska á samspil ýmissa þátta. 

Hins vegar er til önnur stétt sem lítur öllu stærra á sig. Það eru stjórnmálamenn. Þeir þykjast geta séð atburði í framtíðinni fyrir sér. Þeir þykjast geta sett lög og reglur sem hafa svo fyrirsjáanlegar afleiðingar að það þarf ekkert að efast um að öll vandamál leysist á morgun. 

Stjórnmálamenn setja sig á háan hest. Þeir eru með minni þekkingu á viðfangsefnum sínum en viðskiptablaðamennirnir en telja sig um leið geta spáð fyrir um framtíðina með óyggjandi hætti. Þeir eru með lélegri forsendur en viðskiptablaðamenn til að greina atburðarrásir hagkerfis og samfélags en hika samt ekki við að troða afskiptasömum armi ríkisvaldsins djúpt ofan í kok allra sem flækjast fyrir framtíðaráformum þeirra. 

Ef allir viðskiptablaðamenn eru ekki milljónamæringar hvernig stendur þá á því að við umberum afskiptasemi stjórnmálamanna? Það ætti að blasa við að það skiptir engu máli hversu mikla þekkingu, reynslu, sérhæfingu og menntun viðkomandi hefur - frjálst samfélag er hvort í senn ófyrirsjáanlegt og aðlögunarhæft. 


Látum Bónus selja flugvélaeldsneyti

Bónus, sem margir versla í um leið og þeir bölva eigendum verslananna fyrir okur, bjóða sama vöruverð um allt land. Þess vegna stendur Bónus-verslunin við hliðina á Costco tóm, en allar aðrar eru mjög uppteknar.

Ríkisvaldið er með allskyns hugmyndir um verðlag á hinu og þessu. Þar á meðal innanlandsflugi.

Mér finnst mjög nærtækt að ríkisvaldið hætti að skipta sér af innanlandsflugi og raunar öllum öðrum rekstri. Það þýðir að sjálfsögðu að reglur rýmkist, skattar lækki og skilyrðum fækki. Biðtíminn eftir blússandi samkeppni einkaaðila yrði ekki langt fram undan. Flugvélaeldsneyti yrði verðlagt á markaðsforsendum og af því yrði því alltaf nægt framboð sem mætir nægri eftirspurn.

Er eftir einhverju að bíða?


mbl.is Tveir milljarðar í „köld svæði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir flokkar sammála um eitt

Margir flokkar eru í framboði og stefnir í að margir ætli að ná mönnum inn á þing. Þetta er þvert á það sem ég spáði, sem var að kjósendur væru orðnir þreyttir á smáflokkum sem örvænta fljótt í mótbyr og myndu fylkja sér á bak við færri en stærri flokka. En sjáum hvað setur.

Það er eitt sem sameinar alla flokka: Þeir vilja allir hækka ríkisútgjöld með einum eða öðrum hætti. Þó eru mismunandi áherslur.

Sumir flokkar vilja að ríkið haldi áfram að greiða myndarlega af skuldum sínum án þess að skera niður neitt að ráði í ríkisrekstrinum. Þeir vilja að ríkið hafi efni á útgjöldum sínum, bæði í nútíð og framtíð. Vegna mikils hagvaxtar segja þeir að það sé bæði hægt að lækka skatta og auka ríkisútgjöld. Það er rétt, en hversu lengi? 

Sumir flokkar tala ekkert um skuldir hins opinbera og bara um að það þurfi að auka ríkisútgjöld. Fjármögnun þeirrar aukningar er eitthvað á reiki en til að eyða meira þarf að skattleggja meira, safna skuldum eða bæði.

Það er dapurlegt að þetta sé það eina sem allir flokkarnir eru sammála um, þ.e. að ríkisútgjöld þurfi að aukast. Það væri óskandi að fleiri flokkar sæju að allt sem er frelsað úr klóm ríkisins þrífst og dafnar. Sem dæmi má rekstur símfyrirtækja. Væri ekki óskandi að nemendur, sjúklingar og ökumenn gætu líka notið blússandi samkeppni þar sem verð lækkar en gæði aukast? Að fleiri sjúklingar en sjóndaprir og barmlitlir geti leitað til einkaaðila í samkeppnisrekstri? Að fleiri nemendur en háskóla- og framhaldsskólanemar geti valið á milli skóla í faglegri samkeppni?

Það eru blikur á lofti í útlöndum og hætt við að góðærið breytist hratt í niðursveiflu, sama hvað líður sterkri stöðu íslenska hagkerfisins. Er enginn að undirbúa slíkar breytingar?


mbl.is Fjögurra flokka stjórn líklegust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Besti framkvæmdastjóri landsins: Bjarni Benediktsson

Íslendingar bera óhóflega mikið traust til hins opinbera um leið og þeir kvarta yfir öllum hugsanlegum þáttum í opinberum rekstri. Þetta er einkennilegur geðklofi sem er vel þess virði að skoða aðeins.

Íslendingar virðast ekki treysta einkaaðilum til að reka sjúkrarúm (bara hjúkrunarheimili og hótel), lækna mein (nema meinið sé nærsýni eða skert heyrn), framkvæma eftirlit (nema með bifreiðum), mennta börn (nema með Rudolf Steiner-aðferðafræðinni), passa börn (nema barnapían sé 13 ára unglingsstúlka), reka vegi (nema þeir séu neðansjávar), borga sanngjörn laun (nema maður sé karlmaður), selja áfengi í smásölu (bara heildsölu) og skipuleggja hverfi (nema það sé sumarbústaðahverfi).

Allt kostar þessi opinberi rekstur og í fjarveru samkeppni kostar hann miklu meira en hann þyrfti. Samt er borið við fjárskorti. Allur hinn opinberi rekstur er í einu stóru fjársvelti þótt hið opinbera hirði megnið af allri verðmætasköpun landsmanna þegar allt er talið með. Ef Bónus hækkar mjólkina um fimmkall ætlar allt um koll að keyra. Okur, er hrópað! En ef ríkið „sækir“ milljarð hér og milljarð þar er það umborið enda tilgangurinn sá að bæta upp fyrir „fjársvelti“ einhvers afkimans í opinberum rekstri.

Það má af þessu ráða að sérhver einstaklingur sem situr í stóli forsætisráðherra er á sérhverjum tímapunkti talinn vera besti framkvæmdastjóri landsins og þá alveg sérstaklega ef honum tekst að hækka verðlagið á allri þjónustu ríkisins. Hallarekstur ríkisins er talinn vera merki um skynsamlega stjórn fjármála.

Framkvæmdastjórar einkafyrirtækja eru hins vegar álitnir mun síðri jafnvel þótt þeir selji grimmt af eftirsóttri vöru eða þjónustu og skili hagnaði. Hagnaðurinn er jafnvel fordæmdur og talinn til merkis um okur.

Titilinn „besti framkvæmdastjóri landsins“ er í dag í höndum Bjarna Benediktssonar. Honum tókst að forða sér frá milljónatapi í bankahruninu svokallaða og hlýtur skammir fyrir. Núna lætur hann ríkissjóð tútna út á kostnað skattgreiðenda og allir mótframbjóðendur hans, himinlifandi með vaxandi skattheimtu hins opinbera, eiga í mesta basli með að lofa enn meiri útgjöldum komist þeir í sæti besta framkvæmdastjóra landsins.

Já, leyfum einkaaðilum að senda logandi heitan geisla inn í augu fólks og lækna það af nærsýni. Nei, ekki leyfa einkaaðilum að vefja votu gifsi utan um handleggsbrot og bíða eftir að það storkni.

Já, kjósum þann sem lofar því að eyða mestu af fé okkar. Nei, ekki umbera hagnað einkafyrirtækis sem við eigum viðskipti við af fúsum og frjálsum vilja.

Til hamingju, forsætisráðherra. Þú ert besti framkvæmdastjóri landsins – að mati almennings og mótframbjóðenda þinna!


Boginn spenntur í botn

Ríkið skuldar ennþá stórfé og borgar milljarða á ári í vexti.

Ríkisreksturinn hefur aldrei kostað meira.

Allar áætlanir fram í tímann gera ráð fyrir áframhaldandi hagvexti og uppsveiflu. 

Háværar kröfur eru um enn meiri ríkisútgjöld, t.d. frá LHÍ,  og íþróttafólki. Allir á bótum vilja auðvitað hærri bætur og hærra frítekjumark. Allir sjúklingar vilja betri meðferðir. Allir námsmenn vilja ódýrari kennslubækur og ritföng. Allir foreldrar vilja sleppa ódýrar frá barneignum sínum og umsjón með börnum sínum á skrifstofutíma. Allir sem hafa valið sér starfsframa sem borgar illa vilja styrki til að framfleyta sér, en krefjast þess um leið að þeir styrkir séu kallaðir "laun"

Skattgreiðendur munu auðvitað þurfa að borga brúsann. Hér er nánast ómögulegt að skilja á milli skattgreiðenda. Ef heildarútgjöld ríkisins eru há og fara vaxandi þá er skattbyrðin í heild sinni há og þarf að aukast og allir skattgreiðendur munu þurfa að finna fyrir því. 

Nú þegar eru í gildi nánast allar af 100 skattahækkunum þáverandi vinstristjórnar. Núverandi ríkisstjórn hefur síður en svo trappað þær niður svo máli skiptir (og jafnvel lagt til fjölgun á sköttum, t.d. í formi vegatolla sem bætast þá við eldsneytis- og bifreiðagjöldin). 

Boginn er í stuttu máli spenntur alveg í botn og það er mjög lítið svigrúm til að takast á við umskipti.

Það má vel vera að íslenska hagkerfið standi vel, að skuldir séu viðráðanlegar og að útflutningsgreinarnar séu bjartsýnar. 

Ísland er hins vegar ekki einangrað hagkerfi. Í Bandaríkjunum eru blikur á lofti. Fjölmörg af stærstu hagkerfum heims eru tæknilega gjaldþrota. Það mun eitthvað gerast í náinni framtíð sem mun minna okkur rosalega á haustið 2008. Er þá ekki betra að skulda lítið, hafa sveigjanlegt og aðlögunarhæft hagkerfi, grannan ríkisrekstur og vel undirbúinn almenning? Jú. Ekkert slíkt er samt í pípunum. Þess í stað er lofað og lofað. Allir stjórnmálaflokkar lofa og lofa þótt sumir lofi meiru en aðrir. 

Þetta er hættuleg þróun og ég vara mjög við henni. 


mbl.is Eykur áhættu í hagkerfinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað vilt þú fá út úr kosningunum?

Senn er kosið.

Hvað vilt þú fá út úr kosningunum? 

Það er ákveðinn lúxus að kjósa núna. Ríkisreksturinn þenst út og dælir fé í alla afkima sína og þar á meðal í afborgarnir skulda, kaupmáttur er á rjúkandi uppleið og það er meira að segja erfitt að öfundast því jöfnuður mælist sá mesti í heimi á Íslandi. 

Menn þurfa því að kjósa út frá einhverju öðru en almennu árferði, ósk um betri hagstjórn eða vilja til að koma opinberum skuldum frá. 

(Auðvitað er hægt að óska sér enn hraðari niðurgreiðslu opinberra skulda, því að ríkið einkavæði frekar en það þenji út ríkisreksturinn og því að ríkið komi sér úr öllum rekstri, þar á meðal peningaframleiðslu. Ég geri samt ekki ráð fyrir að margir hugsi á þessum nótum.)

Ég sé fyrir mér þrenns konar óskalista:

  1. Það er eitthvað sem mig vantar og stjórnvöld eiga að skaffa það.
  2. Það er eitthvað sem ég vil öðrum, og stjórnvöld eiga að sjá til þess.
  3. Ég vil bara fá svigrúm til að athafna mig fyrir mig og aðra.

Fyrir 1. lið má hugsa sér eftirfarandi óskir:

  • Ég skulda of mikið og ríkið á að hjálpa mér.
  • Ég eyði um efni fram og ríkið á að hjálpa mér.
  • Ég vil að einhver hár kostnaður sem ég greiði lækki og að ríkið geri það að verkum.

Fyrir 2. lið má hugsa sér eftirfarandi óskir:

  • Aðrir en ég eiga að borga meira í skatt.
  • Ég er í rekstri en vantar viðskiptavini og ríkið á að gefa peninga til fólks sem kaupir þjónustu mína.
  • Það er einhver að græða mikið og á að græða minna (a.m.k. minna en ég).

Fyrir 3. lið er enginn óskalisti. Allar skattalækkanir eru góðar, færri reglur eru betri en fleiri og það sem er ekki bannað á að vera leyfilegt þótt það sé ekki sérstaklega úrskurðað sem löglegt.

Ætli flestir stjórnmálaflokkar séu ekki að eltast við 1. og 2. lið. 


Ósátt(ur)? Farðu annað!

Það þykir vera tilefni til fréttaskrifta að starfsmannavelta hjá einkafyrirtækinu Costco á Íslandi sé há.

Þetta er samt ekki vandamál annarra en stjórnenda. Þeir munu leysa það. Kannski hækka þeir laun, lengja kaffipásur, kaupa vélmenni, bjóða bónusgreiðslur, kaupa kökur með kaffinu, gefa fólki verðlaunapeninga eða fína titla, bjóða upp á námskeið og endurmenntun, veita stóra starfsmannaafslætti eða henda í starfsmannapartý mánaðarlega.

Kannski gefast stjórnendur upp og loka einfaldlega búllunni.

Það kemur í ljós.

Kannski hækkar verslunin verð til að borga betur. Hættan er þá sú að neytendur fari annað. 

En svo gerist það reglulega að opinberir starfsmenn eru ósáttir. Þeir vilja hærri laun, styttri vinnuviku, fleiri námskeið eða styttri starfsaldur. Stéttarfélög þeirra hefja samningaviðræður við eina aðilann sem fær að ráða þá í vinnu á landinu. Málamiðlun lætur standa á sér. Þá er hvað gert? Jú, farið í verkfall! Samfélagið er sett á hliðina. Börn eða sjúklingar eru send út á götu. Opinberir starfsmenn ætla ekki að gefa sig! Þeir eru jú að semja!

Blaðamenn setja ekkert út á þetta. Þeir tala um að ríkisvaldið eða sveitarfélögin hafi ekki gengið nógu langt til að koma til móts við kröfur opinberra starfsmanna. Loks tekst að semja. Skattgreiðendur eru látnir borga enda eru engir valkostir við rekstur í umhverfi ríkiseinokunar.

Lífið heldur áfram en allir töpuðu, meira að segja hinn litli hópur sem fékk sínu framgengt en þarf nú bara að borga meira í skatta í staðinn, til að fjármagna eigin samningasigur. 


mbl.is Gríðarleg starfsmannavelta hjá Costco
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flestir tekjuhópar á Íslandi borga lítinn sem engan tekjuskatt

Sífellt er klifað á því að það sé hægt að skattleggja þá ríkustu meira. En verður það gert?

Myndin hér að neðan er tekin úr mjög fróðlegu myndbandi

skattar

Hvað sýnir myndin? Jú, að einstaklingur þarf að vera í fjórða tekjuhæsta hópi Íslendinga til að borga í raun eitthvað í tekjuskatt. Fimm tekjulægstu hóparnir borga ekkert eða beinlínis þiggja tekjuskatt, sem tekjur!

Ríkasta tíundin borgar langmest allra. Hún er svo fámenn að sérstakur hátekjuskattur á hana skilar ekki nema um 3% af samanlögðum tekjuskattstekjum ríkissjóðs. 

Fjölmennasti hópur skattgreiðenda eru miðstéttarfólk. Ef ætlunin er að auka skattheimtu vegna tekna svo einhverju máli skiptir þarf að skattleggja þetta fólk sérstaklega. 

Sé ætlunin ekki að auka skattheimtu heldur bara valda sársauka sem skiptir engu máli fyrir rekstur ríkissjóðs en sýnir táknrænt að auðsköpun er óvinsæl þá má auðvitað snarhækka hátekjuskattinn.

Meirihluti tekjuhópa á Íslandi borgar lítið sem ekkert í tekjuskatt. Þannig verður það áfram eftir kosningar, sama hvaða flokkar verða valdir. Sumir flokkar hafa það samt að sérstöku kosningamáli að flæma ríkustu skattgreiðendurnar út úr landi eða peninga þeirra inn í felustaði. Það eru slæmar fréttir. Eða kunna ekki allir söguna af vinunum tíu sem fóru reglulega út að borða saman? 


mbl.is Skilar 70% meira en 2009
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað með að einfalda regluverkið í staðinn?

Íslensku bankarnir eiga mikið fé og þetta hefur nú runnið upp fyrir stjórnmálamönnum. Þeir vilja krækja í þetta fé og eyða í kosningaloforð.

Sé það svo að íslenskir bankar eiga meira fé en sambærileg fyrirtæki í sambærilegum hagkerfum er hagfræðin með auðskiljanlega útskýringu: Það er erfitt eða ómögulegt að stofna til samkeppni við bankana.

Því hvað gerist þegar það blasir við að Jói skósali græðir meira en aðrir? Jú, fleiri skósalar opna! Hvað gerist ef einhver græðir fúlgur á sölu tannbursta? Fleiri byrja að selja tannbursta!

En bankarnir græða og græða og nýir bankar eru hvergi sjáanlegir. Hvernig stendur á því?

Bankar víða um heim hafa komið sér mjög þægilega fyrir innan hins hlýja faðms ríkisvaldsins. Bankarnir stinga upp á reglum fyrir eigin starfsemi sem ríkið tekur upp. Reglurnar eiga að nafninu til að tryggja stönduga banka sem falla ekki og fara vel með fé annarra. Raunin er auðvitað önnur í mörgum tilvikum. Niðurstaðan er svo, fyrirsjáanlega, að það er erfitt og allt að því ómögulegt að stofna til samkeppni við bankana sem fyrir eru.

Á Íslandi virðist regluverkið vera óvenjulega strangt. Í Danmörku er til að mynda að finna ógrynnin öll af agnarsmáum bönkum sem stóðust fjármálakreppuna árið 2008 með glæsibrag á meðan sá stærsti þeirra, Danske Bank, þurfti ítrekaða aðstoð yfirvalda (sem að nafninu til stóð öllum bönkum til boða en allir vissu í raun að var ætluð einum banka). Margir bankar sáu líka í gegnum grímu yfirvalda - sem bjóða jú aldrei neitt nema fá eitthvað í staðinn - og sögðu nei takk við opinberri aðstoð

Svo já, fyrst kvarta menn yfir vaxtaokri á Íslandi, svo kvarta menn yfir því að bankarnir séu of veikir og eigi á hættu að lenda á skattgreiðendum, og svo á bara að blóðmjólka þá ofan í ríkishirslurnar, á kostnað viðskiptavinanna auðvitað. 

Er ekki hreinlegra að leyfa bara samkeppni í staðinn með því að einfalda regluverkið og jafnvel afnema að mestu leyti? Og auðvitað leggja niður Seðlabanka Íslands. 


mbl.is 240 milljarða arðgreiðslur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífeyrissjóðirnir til bjargar! En á kostnað hvers?

Það vantar ekki hugmyndirnar til að koma fjármagni lífeyrissjóðanna í umferð.

Þeir eiga að fjármagna innviði. Þeir eiga að fjárfesta í hlutabréfum fyrirtækja. Þeir eiga að fjármagna skuldir hins opinbera - bæði ríkis og sveitarfélaga. Nú er lagt til að þeir fjármagni nýsköpun sem er vægast sagt áhættusamur rekstur.

Afsakið orðalagið en þetta er fáránlegt tal.

Það væri annað ef menn gætu hreinlega tekið út fé sitt í lífeyrissjóðunum og notað t.d. til að greiða niður skuldir eða fjárfesta eftir eigin höfði. Það er ekki hægt. Þetta er bundið fé frá sjónarhóli þeirra sem greiða í sjóðina. Þetta er skyldusparnaður sem ríkið beinir í ákveðinn farveg. Þetta er fé sem er tekið af fólki og því lofað að það verði endurgreitt - seinna. 

Lífeyrissjóðir eiga fyrst og fremst að reyna varðveita kaupmátt peninganna. Stundum er það best gert með því að fjárfesta í stöndugum fyrirtækjum eða kaupa opinberar skuldir en stundum með því að einfaldlega kaupa gullstangir sem standa óhreyfðar í öruggri geymslu.

Lífeyrissjóðina á að láta alveg í friði og sveigjanleika sjóðsfélaga gagnvart þeim á að auka. Þeir eiga að vera í samkeppni við allar aðrar mögulegar leiðir til að ávaxta eða varðveita sparnað fólks í stað þess að vera áskrifendur að peningum launþega. 

Vissulega munu sumir sleppa því að spara upp til efri áranna sé gefinn kostur á því, en hvað með það? 

Vissulega munu sumir keppast við að koma sér upp skuldlausu húsnæði og losna undan oki bankanna og eiga í staðinn lítinn sparnað, en er eitthvað að því?

Vissulega munu sumir fjárfesta á þann hátt að allt fé þurrkast upp. Aðrir munu svo fjárfesta þannig að sparnaðurinn margfaldast. Er ekki í lagi að leyfa slíka tilraunastarfsemi og gefa svo fólki kost á því að læra af reynslunni og finna nýjar leiðir til að ávaxta peninga?

Sumu munu einfaldlega fjárfesta í góðmálmum og treysta á að þeir varðveiti kaupmátt sparnaðarins eins og þeir hafa alltaf gert, alla tíð. 

Stjórnmálamenn: Látið lífeyrissjóðina í friði, og skerið í leiðinni á áskrifendastöðu launþega gagnvart þeim.


mbl.is Vill lífeyrissjóðina í nýsköpun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband