Fiskeldi sem byggðastefna

Svo virðist sem fiskeldi sé aftur komið í tísku. Nú vilja öll þorp með aðgang að sjó sjá risastór fiskeldisker fyrir utan hafnir sínar og trúa því að þeim muni fylgja mikill auður.

Stjórnmálamenn og hið opinbera taka þátt í kapphlaupinu og veita eldisleyfi á veikum grundvelli. Á meðan Landsvirkjun þarf að eyða mörgum árum í að fá leyfi fyrir hverju einasta mastri virðist vera auðvelt að fá að fleygja þúsundum tonna af lifandi fiskum út í sjó - fiskum sem framleiða úrgang og sleppa út í náttúruna. 

Þeir sem eiga hagsmuna að gæta af stangveiði eru varla virtir viðlits. Þeirra aðvörunarorð eru að engu höfð. Nú skal fiskeldi komið á!

Svona viðhorf hins opinbera er ekki nýtt á nálinni. Þegar iðnbyltingin var að hefjast á Bretlandi á sínum tíma risu strompar sem spúðu kolaryki yfir nærliggjandi svæði, hús og dýr. Bændur reyndu að mótmæla og draga þá sem menguðu fyrir dómstóla og krefja þá um miskabætur fyrir skemmdarverk á eignum sínum. Þetta þótti stjórnmálamönnunum vera ómögulegt ástand. Iðnaður var jú það sem koma skal og of strangar kröfur á mengun yrðu hamlandi fyrir hann. Í stað þess að finna gott jafnvægi á milli mengunar og skaðabóta var ákveðið að mengandi iðnaður væri samfélagsleg nauðsyn. Mengunin varð því gríðarleg og fór algjörlega úr böndunum á sumum svæðum.

(Stjórnmálamenn sáu svo að sér seinna og komu á lögum sem áttu að takmarka mengun. Þeim datt ekki í hug að gefa bara landeigendum aftur lagatæki til að sækja til saka þá sem eyðilögðu eignir þeirra.)

Sagan endurtekur sig þótt hún taki vissulega á sig mismunandi myndir. Nú skal mengandi fiskeldi leyft. Þeir sem reyna að gæta eigna sinna og hagsmuna eru hunsaðir. Þegar allt er komið í klessu verða sett lög sem eiga að lágmarka skaðann af fiskeldinu. Þá verður það of seint. 


mbl.is Nýjar frekar en rótgrónar stofnanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband