Bloggfærslur mánaðarins, september 2016

Hverjir eiga að ráða landamærum Bretlands?

Bretar ætla að segja sig úr Evrópusambandinu og standa vonandi við þann ásetning.

Ýmis öfl innan sambandsins vilja samt gera það ferli sem sársaukafyllst og erfiðast fyrir Breta. 

Sumir telja að viðskiptahindranir eigi að rísa við Bretland, sennilega áþekkar þeim og sambandið beitir á önnur ríki utan sambandsins (ef EES-ríkin eru undanskilin, að hluta). 

Sumir telja að landamæri Bretlands eigi áfram að vera opin öllum íbúum Evrópusambandsins. Það má teljast ólíklegt að Bretar loki á útlendinga. Þeir munu áfram vilja vinnandi hendur og erlenda fjárfestingu en e.t.v. loka á þá sem eru bara á eftir bótum og húsnæði. Þetta dugir ekki þeim sem vilja losna við ónytjunga sína úr eigin landi og moka yfir í velferðarkerfi annarra sambandsríkja. 

Úrsögn Bretlands verður prófraun á það hversu mikið "samband" Evrópusambandið er og hvort það líkist ekki miklu frekar sambandsríki þar sem úrsögn er mætt með valdi (svipað því og Suðurríki Bandaríkjanna urðu fyrir þegar þau vildu segja sig frá Washington). 

Styrkleiki Evrópu var um langa hríð (fleiri aldir) pólitísk samkeppni. Evrópa samanstóð af gríðarlegum fjölda ríkja, furstadæma, borgríkja og þess háttar. Þessi pólitíska sundrung var mikill suðupottur tilraunastarfsemi í auðsköpun (meðal annars). Að vísu fylgdi þessari pólitísku sundrungu líka stríðsbrölt, a.m.k. fram á 19. öld. Þökk sé hinni pólitísku sundrungu var auðveldara en ella fyrir Martin Luther að finna skjól fyrir ofsóknum kaþólsku kirkjunnar. Hollendingar sérhæfðu sig í bankastarfsemi og stóðu sig betur en aðrir og uppskáru ríkulega. Fleiri dæmi má týna til en boðskapurinn ætti að blasa við. 

Nú er hætt við að stöðlun Evrópuríkja leiði til stöðnunar þeirra - efnahagslegrar sem og á öðrum sviðum mannlífsins. Og enginn fær að hætta sársaukalaust. 


mbl.is Gætu beitt neitunarvaldi gegn Bretum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugsið um börnin!


mbl.is Börn í öllum ræðum Páls
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Killary Clinton

Vinnufélagi minn talar aldrei um Hillary Clinton. Hann talar um Killary Clinton. Af hverju? Jú, af því hennar háværustu gagnrýnendur hafa verið að hrynja niður eins og flugur undanfarin misseri. Af einhverjum ástæðum veldur gagnrýni á hana eða trúnaðarstaða sem tengist henni því að fólk verður líklegra til að fremja sjálfsvíg eða lenda í dauðaslysum

Hefðbundnir fjölmiðlar segja lítið um þetta og kannski skiljanlega. Í Evrópu mælist frambjóðandi Demókrata alltaf með 80-100% fylgi, sama hvað. Hillary hefur verið kölluð "teflon-kandídatinn" - öll gagnrýni virðist einfaldlega renna af henni eins og fita af teflon-pönnu.

Bandaríkjamenn standa frammi fyrir erfiðu vali í forsetakosningum sínum. Hillary Clinton er valdagráðugur stríðssjúklingur sem vill innleiða sósíalisma og fasisma í Bandaríkjunum á sama tíma. Donald Trump er óútreiknanlegur gasprari sem stígur á allar tær, vill reisa múra í kringum landið og koma á viðskiptahindrunum. Meira að segja þriðji frambjóðandinn sem mælist með eitthvað fylgi - Gary Johnson - hefur á sér orðspor íhaldsmanns í dulargervi frjálshyggjumanns. 

Killary Clinton óttast ég samt langmest af öllum. 


mbl.is Hillary Clinton snýr aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svo lögin séu uppfyllt, já?

„Það vantar hundruð leikskólakennara til starfa svo lög um leikskóla séu uppfyllt“ segir formaður Félags stjórnenda leikskóla. 

Þetta eru athyglisverð ummæli.

Formaðurinn segir ekki að það vanti hundruð leikskólakennara til að reka leikskólana, sjá um börnin eða tala við foreldrana. Það vantar hundruð til að uppfylla lögin. Og þetta tvennt er ekki endilega það sama. 

Tæknilega þýðir þetta að það vantar hundruð manns með þá menntun og þau réttindi sem lögin krefjast svo fólk geti starfað á leikskóla, a.m.k. til lengri tíma.

Eflaust væri hægt að moka allskonar fólki inn í leikskólana svo ekki þurfi að senda börn heim. Þá gæti Gunna, 18 ára menntaskólanemi, e.t.v. tekið síðdegisvakt eftir að skóla lýkur, en Siggi, 25 ára háskólanemi, tekið morgunvaktina á þeim dögum þar sem hann er ekki í fyrirlestrum. Heimavinnandi mæður gætu tekið miðjan daginn á meðan þeirra eigin börn eru á öðrum leikskóla eða í skóla. Öll vinna yrði vitaskuld unnin undir handleiðslu þrautþjálfaðra leikskólakennara sem væru alltaf til staðar fyrir börnin og þekkja þau út og inn, en sjálf vinnan - að leika við börnin, fóðra þau, skeina þeim og sinna þeim, færi fram af her fólks með allskonar bakgrunn.

En nei, þetta eru ekki fyrirmæli laganna. Lögin segja að leikskólakennari í dag skuli vera öðruvísi menntaður og þjálfaður en sá fyrir 20 árum. Hann þarf að hafa háskólapróf og kunna á króka og kima skrifræðisins hjá hinu opinbera. 

Auðvitað var það alla tíð markmið leikskólakennara að skapa skort á starfsfólki á leikskólum með því að bæta rækilega í lagaskyldur á menntun, þjálfun og réttindi. Það er eina leið opinberra starfsmanna til að bæta kjör sín. Fórnarlömbin hlaðast hins vegar upp - börn sem fá ekki vist og foreldrar sem komast ekki í vinnuna.

Væri kannski ráð að endurskoða lögin svo leikskóla megi manna?


mbl.is Vantar hundruð leikskólakennara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar heyrnaskertir þurftu að bíða

Árið 2006 birtist lítil frétt í Fréttablaðinu þar sem lesendum var tjáð að biðlistar hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands heyrðu nú sögunni til, hvorki meira né minna, og eitthvað sem er varla hægt að segja um mörg önnur svið heilbrigðiskerfisins.

Hvernig stóð á bidlistarþví að biðlistar eftir heyrnartækjum hurfu? Fréttin veitir örlitla innsýn í það: Kostnaðarþáttur einstaklingsins hafði „aukist“ og fjármagn hafi „myndast“ eftir reglugerðarbreytingu tæpum þremur árum áður.

Á mannamáli þýddi reglugerðarbreytingin einfaldlega að ríkið afnám einokun sína af viðskiptum með heyrnartæki. Einkaaðilar urðu til sem náðu til sín vel borgandi viðskiptavinum, þ.e. þeim sem gátu keypt sig út úr biðröð hins opinbera, og flöskuhálsar, biðlistar og önnur óþægindi hurfu á örfáum misserum.

Talsmenn ríkiseinokunar á heilbrigðisþjónustu segja gjarnan að aukin aðkoma einkaaðila muni leiða til þess að þeir ríku kaupi sig „fram fyrir“ í röðinni. Hvað ef þeir ríku mynda einfaldlega aðra röð og stytta þannig hina sem hinir efnaminni þurfa að standa í, eða hreinlega útrýma henni? Eru þá ekki allir betur staddir?

Reynsla heyrnaskertra bendir a.m.k. til þess og aldrei hafa sjónskertir þurft að standa í röð svo hví ekki að leyfa einstaklingum með athyglisbrest að njóta sömu þjónustu?


mbl.is 636 fullorðnir bíða greiningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarandstaðan í vörn

Stjórnarandstaðan er skiljanlega í mikilli vörn eftir að meirihluti fjárlaganefndar gaf út skýrslu um embættisafslöp fyrrverandi fjármálaráðherra.

Hún segir að þessi nefnd hafi ekki unnið innan verksviðs síns. Þó ber henni að fjalla um "fjár­mál ríkis­ins, fjár­veit­ingar, eignir ríkis­ins, láns­heimildir og ríkis­ábyrgðir og lífeyris­skuld­bindingar ríkis­sjóðs" samkvæmt lögum

Hún segir að fyrri nefnd hafi komist að ákveðinni niðurstöðu og að þar með sé málinu lokið. En hvað ef nýjar upplýsingar hafa komið fram, eða ný tenging á milli fyrri upplýsingabrota? Má þá ekki fjalla um það? 

Hún segir að nefndin sé notuð í pólitískum tilgangi og að það sé ekki við hæfi. En er nefndin ekki skipuð stjórnmálamönnum sem ýmist eru í meirihluta eða minnihluta á þingi? Er stjórnarandstaðan allt í einu utan við stjórnmálin? Í nefndinni var meirihluti fyrir því að skrifa skýrslu. Má þá ekki skrifa þá skýrslu?

Stjórnarandstaðan (eða þeir flokkar sem standa að henni í dag) er búin að láta rannasaka eldgamlar einkavæðingar banka trekk í trekk. Hún flæmdi þrjá seðlabankastjóra úr embætti. Hún dró Landsdóm upp úr hattinum til að knésetja einn forsætisráðherra á meðan öðrum ráðherrum sömu ríkisstjórnar var hlíft. Hún er í sífellu að biðja um nefndir, rannsóknir, úttektir og kannanir til að skoða allt milli himins og jarðar, oft í þeim tilgangi að svæfa mál sem henni líkar ekki við. Um leið og spjótin beinast að henni sjálfri er allt alveg ómögulegt.

Það er eitt að vera í vörn en að vera líka í hrópandi ósamræmi við sjálfan sig er e.t.v. óþarfi. 

Á Alþingi eru stunduð stjórnmál, og þar takast á stjórn og stjórnarandstaða. Það er sennilega rétt að halda því til haga. 


mbl.is Nefndin notuð í pólitískum tilgangi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vofir bæði vinstristjórn og Kötlugos yfir Íslandi?

Hér gefur að líta litla grein eftir mig sem birtist í Morgunblaðinu seinasta laugardag. Myndina má stækka með því að smella á hana. 

morgunbladid_10-Sep-2016


Ríkisstjórnin sem gerði illt verra

Hún mátti eiga það, ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms, að hún tók við erfiðu búi. Hún má líka eiga það að hún gerði illt ástand verra. 

Skýrsla meirihluta fjárlaganefndar er vonandi bara byrjunin. Nú hlýtur að taka við ítarlegri rannsókn þar sem týndu fundargerðir þáverandi fjármálaráðherra verða grafnar upp (í eiðsvörnum viðtölum við viðstadda fundargesti af því er að skipta). Lærdómur hennar verður vonandi sá að ríkisvaldinu megi ekki hleypa nærri gjaldþrota fyrirtækjum því það endar oftar en ekki á að þjóðnýta þau og varpa byrðunum á herðar skattgreiðenda. Útlendingar sitja brosandi á hliðarlínunni á meðan og þakka fyrir hagnaðinn. 

Alþjóðafjármálakerfið hrundi haustið 2008. Í kjölfarið hefði átt að koma skörp leiðrétting og uppsveifla fljótlega í kjölfarið. Í staðinn hrundi íslenska hagkerfið árið eftir í boði stjórnvalda. 


mbl.is Tugmilljarða meðgjöf með bönkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fröken ívilnanasamningar

Eftir Ragnheiði Elínu Árnadóttur liggja einhver furðulegustu ummæli nokkurs þingmanns og ráðherra Sjálfstæðisflokksins nokkurn tímann (að mínu mati) - tekin héðan:

„Ég ætla að fullyrða það hér og nú að þetta mál og þessi samningur hefði fengið nákvæmlega sömu afgreiðslu í tíð þriggja síðustu iðnaðarráðherra, þeirra Katrínar Júlíusdóttur, Oddnýjar Harðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar“

Það á því e.t.v. ekki að koma henni á óvart að lenda neðarlega í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Kjósendur sem vilja vinstrimenn á þing geta kosið vinstriflokkana. 

Elín Hirst hlaut einnig lélega kosningu í prófkjöri en hún hefur verið með duglegri þingmönnum að stinga upp á ríkisútgjöldum og á e.t.v. betur heima í öðrum stjórnmálaflokki.

Raunar væri það best fyrir alla að vinstrimenn störfuðu í vinstriflokkum, hægrimenn í hægriflokkum og miðjumenn í miðjuflokkum. Því miður er aðgreiningin ekki alltaf svo skýr. Meira að segja Sjálfstæðisflokkurinn hegðar sér oft eins og vinstriflokkur ef maður ber hann saman við hægriflokka annarra Norðurlanda. Það kemur e.t.v. ekki á óvart enda eru íslensk stjórnmál mun vinstrihneigðari en þau á hinum Norðurlöndunum ef Grænland er e.t.v. undanskilið. Þess vegna tekst illa að koma á norrænu fyrirkomulagi í t.d. heilbrigðisgeiranum. Á Íslandi láta menn sovéska ríkiseinokunarmódelið duga sem fyrirmynd. 


mbl.is Ragnheiður Elín kveður stjórnmálin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandamálin við skattheimtu í flóknu skattkerfi

Skattkerfi eru víða flókin og erfið í framkvæmd. Þetta veldur mörgum tegundum af vandræðum.

Í fyrsta lagi getur heiðarlegt fólk sem gjarnan vill greiða alla skatta í topp lent í vandræðum með að gera það því skattkerfið er svo flókið að fólk getur einfaldlega ekki komist að því hvað það á að borga í skatt. Ágætur vinnufélagi minn hérna í Danmörku sagði mér einu sinni að hann þyrfti að fá endurskoðanda á hverju ári til að fara yfir gögnin hans og að það færi í taugarnar á honum að geta ekki reiknað út sína eigin skattbyrði.

Í öðru lagi er eftirlit með skattheimtu allt í senn þungt, tímafrekt og dýrt. Oft er miklu fé eytt í að fylgjast með skattheimtunni. Í Danmörku gera vinnufélagar mínir nú grín að því að vegna einhverra mistaka hjá hinu opinbera þarf nú að eyða 7 milljörðum danskra króna til að rekja 7 milljarða af töpuðu skattfé. Er þá ekki betur heima setið en af stað farið?

Í þriðja lagi eru flókin skattkerfi alltaf full af holum. Engu máli skiptir hvað hið opinbera gerir til að reyna loka holunum - alltaf eru til duglegir lögfræðingar sem gera ekki annað en að þefa þær uppi og nýta fyrir skjólstæðinga sína. Hér er ég ekki að tala um lögbrot heldur löglegar leiðir til að lágmarka eða a.m.k. takmarka skattheimtuna.

Í fjórða lagi geta þeir sem vilja brjóta lög nýtt sér alla ringulreiðina og komist hjá skattgreiðslum með ýmsum aðferðum, bæði löglegum og ólöglegum. Fórnarlömbin eru fyrstu og fremst þeir sem eru heiðarlegir en lenda í ítrekuðum fyrirspurnum tortrygginna skattayfirvalda og þurfa að gera grein fyrir öllu með smásmugulegum hætti - nokkuð sem er ekki á færi allra nema mestu sérfræðinganna.

Best væri auðvitað að ríkisvaldið væri svo lítið og afmarkað að skattheimta væri varla nokkur. Næstbest er að átta sig á því að einfalt, gegnsætt, hófsamt og undanþágulaust skattkerfi er að sama skapi skilvirkast og réttlátast. Um leið skilur það ekki eftir sig slóð af vel meinandi fórnarlömbum meðal þeirra sem vilja vera löghlýðnir en vita ekki hvernig á að fara að því.


mbl.is Greiddu 155 milljónir fyrir Panamagögn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband