Bloggfærslur mánaðarins, september 2016

Falla heimsins gæði ókeypis á yfirvöld?

Ekki skilja allir hvernig lækkandi eða staðnaðar skattprósentur og jafnvel afnám skatta getur leitt til þess að skattheimta ríkisvaldsins eykst.

Ástæðan er samt einföld í eðli sínu: Þegar yfirvöld stöðva ágang sinn á verðmæti annarra skapast fleiri verðmæti en áður og lægri skattprósentur geta þannig skilað hærri fjárhæðum. Sneiðin sem er tekin minnkar hlutfallslega en kakan er orðin stærri og því meira í hverri sneið en áður.

Nú ætla ég ekki að hrósa ríkisstjórninni alltof mikið fyrir að hafa verið dugleg að lækka skatta. Þar má ganga miklu, miklu lengra og það án þess að neinar breytingar séu gerðar á rekstrarfyrirkomulagi heilbrigðisþjónustu, vegagerðar og menntamála svo eitthvað sé nefnt.

Yfirvöld hafa þó náð að knýja fram afnám vörugjalda og stefna á afnám tolla (af öllu öðru en matvælum að vísu, en það er a.m.k. góð byrjun).

Yfirvöld hafa líka unnið eftir fyrirsjáanlegri verkáætlun. Það minnkar óvissu og um leið tiltrú fjárfesta á að fjármunir þeirra verði ekki gerðir upptækir með einum eða öðrum hætti.

Það má því eiginlega segja að stjórnvöld sem aðhafast lítið séu skárri en þau sem aðhafast mikið. Betra er sofandi ríkisvald en ríkisvald með mörg járn í eldinum. 

Sumir halda að sú efnahagsuppsveifla sem er í gangi á Íslandi hafi fallið af himnum ofan með ferðamannastraumnum og fiskveiðum. Þeir um það. Ég mæli samt með því að þeir sem trúa á himnesk inngrip í líf mannanna snúi sér frekar að trúarbrögðunum og láti hagfræðina eiga sig. 


mbl.is Tekjur ríkissjóðs jukust milli ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flókin vísindi soðin saman í eina formúlu

Öll umræða um breytingar á loftslagi jarðar ætti í raun að vera gríðarlega flókin vísindaleg umræða sem fáir nema þeir hörðustu gætu sett sig inn í.

Hún ætti að snúast um samspil geimgeisla, sólgosa, skýjafars, losunar manna á hinum ýmsu lofttegundunum, losunar eldfjalla og hvera á sömu lofttegundum og öðrum, áhrifa hinna ýmsu lofttegunda á hegðun lofthjúpsins og gróðurfars og sjávar, reglunar lofthjúpsins og sjávarins, hafstrauma, náttúrulegra langtíma- og skammtímasveiflna, tölfræði, óvissu, líkanasmíði, einfaldana á líkönum, reiknigetu og mælingarnákvæmni, svo eitthvað sé nefnt.

Umræðan ætti að fara fram á þeim forsendum að ekki sé búið að afla allra gagna, smíða líkön sem geta spáð nægilega nákvæmt fyrir um framtíðina og skort á skilningi á ýmsum þáttum sem hafa áhrif á loftslag jarðar.

Umræðan ætti einnig að vera hógvær - að menn viðurkenni að enn sé verið að rannsaka málið en að vissulega sé búið að afla þekkingar á ákveðnum sviðum sem má ræða út frá (en þar sem einhugur er fjarri því raunin á fjölmörgum sviðum).

Menn ættu einnig að segja það skýrt að verið sé að ræða út frá empírískum kenningum og að slíkar kenningar séu háðar mikilli óvissu. 

En hvað gera menn? Menn stinga allri viti borinni umræðu ofan í skúffu og segja:

Hitastig jarðar er línulegt fall af styrkleika koltvíoxíðs í andrúmsloftinu.

T[°C] = k[°C]/[ppm]*CO2[ppm] 

... þar sem k er tala sem er búið að ákvarða.

Aukist styrkleiki C02 hækkar hitastigið. Nái menn að minnka losun CO2 ná menn einnig að temja hitastigið. Eða svo er okkur sagt. 

Þetta er auðvitað gert til að stjórnmálamenn og blaðamenn og talsmenn þrýstihópa fái það á tilfinninguna að þeir skilji hin flóknu vísindi sem þeir gera auðvitað ekki (frekar en nokkur maður í raun).

Að vísindamenn séu ekki hreint og beint sármóðgaðir yfir þessari meðferð á vísindalegu viðfangsefni er ofar mínum skilningi. 


mbl.is Bandaríkin og Kína skrifa undir Parísarsamkomulagið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiðtogar ræða á röngum forsendum um vandamál sem þeir skilja ekki

Leiðtogar G20-ríkjanna koma saman í Kína í dag til að ræða stefnur og aðferðir við efnahagsstjórn þannig að styrkja megi alþjóðahagkerfið.

Gangi þeim vel! 

Gallinn er sá að þarna ætla leiðtogar að ræða vandamál á röngum forsendum og komast að röngum niðurstöðum. Þeir skilja ekki vandamálin og munu bara gera illt verra.

Vandamálið er jú leiðtogarnir sjálfir og þau miklu völd sem þeir hafa. Þessi völd nota þeir til að reisa viðskiptahindranir og sólunda fé skattgreiðenda í hernað, bætur, styrki og annað sem bætir í vandamálin í stað þess að leysa þau.

Lausnin er ekki að leiðtogarnir geri meira á morgun en í dag heldur að þeir geri minna. Þeir þurfa að draga úr völdum sínum og hins opinbera og leyfa frjálsum markaði að ná andanum og geti þvert á landamæri án heimatilbúinna hindrana. 

Leiðtogafundir eru sennilega ágæt leið til að ná mönnum í sama herbergi og skiptast á skoðunum. Verst að höfuðlausar hænur gætu sennilega gert betur þegar kemur að því að leysa vandamálin sem blasa við. 


mbl.is Stærstu efnahagsmálin til umræðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkurinn og frjálshyggja

Í dag hafa flokksbundnir Sjálfstæðismenn í Reykjavík einstakt tækifæri til að blása lífi í veikar glæður frjálshyggjunnar innan Sjálfstæðisflokksins. Ég vona að þeir nýti það tækifæri. 

Af nægu er að taka meðal frambjóðenda í prófkjöri flokksins í Reykjavík. Ég vona að flokknum beri gæfa til að velja þá sem hafa hugsjónir frelsisins að leiðarljósi og kjarkinn til að berjast fyrir þeim. 

 


Eru byggingarvörur arðbærasta smásöluvara á Íslandi?

Í byrjun árs 2015 voru vörugjöld afnumin af byggingarvörum. Einnig hefur virðisaukaskattur lækkað síðan þá og gengi krónunnar styrkst. Einhverjir hafa reiknað út að miðað við allt þetta ætti verð á byggingarvörum að hafa lækkað um a.m.k. 15% en jafnvel enn meira.

Menn spyrja sig hvað varð um lækkunina.

Það er freistandi að álykta að smásöluaðilar með byggingarvörur hafi einfaldlega hækkað álagningu sína sem nemur lækkun skatta og styrkingu krónunnar. Ekki veit ég hvort það er rétt eða ekki en hitt veit að sé það rétt þá gerist nokkuð á hinum frjálsa markaði. Í fyrsta lagi eykst hagnaður smásöluaðila byggingarvöru. Fjárfestar taka eftir þessu og byrja að leggja fé til þessarar smásölu og þá ýmist kaupa hlutabréf í þessum fyrirtækjum eða stofna til samkeppnisrekstur. Fé er jú alltaf í leit að bestu ávöxtun og sé hún betri hjá byggingarvörusöluaðilum en öðrum er tekið eftir því.

Hin aukna samkeppni leiðir til aukinnar samkeppni um neytendur og þeir upplifa því fljótlega lækkandi verðlag. Ávöxtun fjárfesta jafnast út og verður svipaðri ávöxtun fjárfesta í öðrum iðnaði. Jafnvægi næst.

Þetta er hins vegar bara einn möguleiki. Annar er sá að eftirspurn eftir byggingarvörum hafi aukist, t.d. vegna aukinna umsvifa byggingarverktaka eða aukinnar endurnýjunar hjá fólki. Þetta setur þrýsting á smásöluaðilana sem setur þrýsting á heildsala þeirra og framleiðendur sem finna þá fyrir svigrúmi til að hækka verð hjá sér, sem hækkar verð á hráefni þeirra sem eykur hagnað hráefnisframleiðenda. Aðrir hráefnisframleiðendur sjá þetta og byrja að aðlaga sína vinnslu að þörfum byggingarvöruframleiðenda. Samkeppni eykst og verð lækkar.

Það er nánast sama hvernig þessu dæmi er snúið: Ef hinn frjálsi markaður fær að starfa óáreittur verða hækkanir til skamms tíma alltaf að lækkunum til lengri tíma. Tímabilið þarna á milli er einfaldlega aðlögun markaðarins að breyttum aðstæðum.

Einn ein ástæða óbreytts eða jafnvel hækkandi verðlags á byggingarvörum getur verið kerfið sjálft. Kannski er dýrara en áður að fá að flytja inn, t.d. vegna þess að aukin umsvif festast í gjaldeyrishöftum eða einhverju regluverki. 

Ef einhver tekur eftir því að hagnaður Húsasmiðjunnar, BYKO og Múrbúðarinnar er að aukast mikið er bara tímaspursmál þar til markaðurinn bregst við. Ef ástæður verðlagsþróunarinnar liggja annars staðar er næstum því öruggt að ríkisvaldið er blóraböggullinn. 


mbl.is 15% lækkun ekki skilað sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að eiga fyrir náminu

Það er gott að LÍN upplifi nú fækkun á umsóknum um námslán frá ríkinu. Það bendir til þess að fleiri hafi nú efni á því að sjá fyrir sjálfum sér. Efnahagsástandið er líka betra en það hefur verið í 10 ár og auðveldara fyrir ungt fólk að skrapa saman aur fyrir veturinn. 

Námsmenn vinna yfirleitt ekki fulla vinnu nema á sumrin. Það þýðir að þeir geta nýtt sér uppsafnaðan persónuafslátt og borgað nánast enga tekjuskatta af sumarlaununum. Þeir geta því safnað peningum og sleppt því að taka lán. Að hugsa sér ef skattar væru yfirleitt og almennt lægri og jafnvel nálægt núllinu! Þá gætu mun fleiri en ungir námsmenn leyft sér að eiga fyrir framfærslu sinni í stað þess að sökkva sér í skuldafen, t.d. vegna húsnæðis- eða bílakaupa!

Yrði það ekki stórkostleg búbót fyrir samfélagið - að fólk ætti yfirleitt fyrir hlutunum í stað þess að borga himinháa skatta og vonast svo til að "fá eitthvað til baka" í formi allskyns styrkja, bóta og niðurgreiðsla?

Nú fyrir utan að það er hundleiðinlegt að skulda LÍN. 

Það besta við að námsmenn eigi fyrir náminu er að ég tel að það bæti val þeirra á námi. Námsmaður sem er að reyna hámarka afraksturinn af þeirri fjárfestingu sem nám er hlýtur að velja frekar nám sem skilar honum vinnu og tekjum en sá sem lítur á niðurgreidd námslán sem einhvers konar réttmæta heimtingu á fé annarra. Vonandi. 


mbl.is Færri sækja um námslán hjá LÍN
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband