Heimanám, já eða nei?

Einhver umræða á sér nú stað á Íslandi um ágæti heimanáms. Menn virðast strax vera komnir í tvær skotgrafir sem er miður.

Sjálfur ólst ég upp við heimanám og stundum svolítið mikið af því, bæði í grunnskóla og menntaskóla (háskólinn er eiginlega bara eitt stórt heimanám). 

Það gerði mér gott að þurfa fylgjast með því sem var sett fyrir og taka vinnu heim sem var unnin á mína ábyrgð og ég þurfti að standa skil á í skólanum. Þessa æfingu fékk ég í grunnskóla og hún nýttist mér mjög vel í áframhaldandi námi. 

Stundum þurfti ég að biðja um aðstoð heima og þannig ómeðvitað upplýsti ég foreldra mína (aðallega mömmu) um stöðu mála og hvað ég væri að eiga við í skólanum.

Á þessum tíma var hins vegar engin geymsla sem tók við mér eftir frekar stutta skóladaga. Ég fékk mikið svigrúm en  ábyrgðin var líka meiri. Ég var lengi vel í tvísetnum grunnskóla svo ég þurfti stundum að vakna snemma og stundum ekki en það kenndi mér líka bara að taka ábyrgð á því sjálfur - fylgjast með stundatöflunni og haga aðstæðum eftir því. 

Þetta eru kostir heimanáms. 

Í dag er krökkum haldið í skóla í 7-8 klst á dag. Minn 12 ára skólastrákur hérna í Danmörku er í skólanum frá kl. 8 til 15 flesta daga. Þetta eru langir dagar. Hann þarf lítið að spá í því hvenær hann eigi að vakna - við förum öll á fætur á sama tíma hér og komum okkur út. Hann tekur sjaldan svo mikið sem eitt blað með heim því ekkert er heimanámið. Komi það hins vegar upp að hann þurfi að gera eitthvað heima þá er það hið mesta áfall fyrir hann. Heimatími er frítími í hans höfði og undantekningar eru varla leyfðar í hans höfði. 

Ég veit voðalega lítið hvað hann er að eiga við í skólanum. Seinasta haust kom upp úr dúrnum að honum hefði hrakað mjög mikið í stærðfræði eftir heimanámslausan veturinn á undan. Þá varð ég að gera átak hérna heima og kynna heimatilbúið heimanám til leiks. Staðan er ekkert sérstök í mörgum fögum en ég fæ ekki kennarana til að hjálpa mér. Þeir eru bundnir við verkefni og stundatöflu frá morgni til síðdegis og hafa engan tíma til að gera eitthvað auka. 

Strákurinn veit sjaldnast hvenær hann er með heimanám. Hann fylgist ekkert með því. Komi heimanám fáum við hérna heima skilaboð um það. Ég veit ekki hvort næsti vetur verði öðruvísi (þegar hann fer í elstu deildina) en mig grunar að svo verði ekki. Danir vilja klára alla vinnu á skrifstofutíma og allt nám í skólatíma, gjarnan með aðstoð kennara sem gefur upp svörin ef maður réttir um hendi.

Þetta eru ókostir við fjarveru heimanáms eins og ég sé það.

Lengri skóladagar gera skólana í raun að einum stórum leikskóla þar sem er skipulögð dagskrá fyrir krakkana og eftir að skóla lýkur er ekkert á könnu þeirra sem tengist náminu. Það er ekki hægt að verja börn svona endalaust fyrir ábyrgð. Ef ekkert er frelsið er ekki hægt að ætlast til þess að fólk taki ábyrgð.

Persónulega finnst mér því að allir skólakrakkar eigi að fá heimanám en að það þurfi um leið að vera mátulega erfitt og mátulega tímafrekt og ekki endilega daglegt brauð. Það er mikið uppeldisgildi í heimanámi en mér finnst líka að krakkar eigi sem fyrst að læra að stundum þarf bara að leggja svolítið á sig til að öðlast skilning, án aðstoðar kennara. Sé þeirri lexíu frestað verður áfallið bara mun meira seinna þegar út í lífið er komið og enginn sér að maður rétti upp hendi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skólakerfið í heild sinni (að 10. bekk a.m.k.) er alger sóun á peningum. Krakkar læra fátt af viti sem þeir gætu ekki gert sjálfir á eigin spýtur og í samvinnu við annað reynslumeira fólk.

https://www.facebook.com/jeffreytucker.official/photos/a.593078180731159.1073741825.466540190051626/1203130183059286/?type=3&theater

R. S. (IP-tala skráð) 22.9.2016 kl. 16:55

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Skólinn þjónar nú a.m.k. því hlutverki að geyma börnin á meðan maður skreppur í vinnuna. 

Geir Ágústsson, 22.9.2016 kl. 18:43

3 identicon

Það er rétt. Foreldrarnir vinna eins og mjólkurkýr í áratugi, borgandi 70% skatta. Á meðan þjónar skólakerfið aðallega þeim tilgangi að geyma börnin eins og þú segir. Sem þýðir: Heilaþvo börnin til að verða "löghlýðnu skattgreiðendur" - mjólkurkýr - framtíðarinnar.

R. S. (IP-tala skráð) 22.9.2016 kl. 20:16

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Þeir eru jú margir sem telja það vera blautan draum allra að vinna láglaunastarf myrkranna á milli til að hafa efni á því að senda börn í skóla. Að "vinna heima" er ekki lengur raunhæfur valmöguleiki. Lífskjör okkar hafa að því leyti rýrnað frá því sem áður var. 

Á meðan verða skólarnir eini vettvangur barna til að eignast vini og læra aga (þótt lítill sé). Maður þarf að hugsa þetta svona. Eftir 10. bekk tekur námið við. Menntaskólar eru fyrir löngu búnir að létta námið hjá sér fyrir nýnema til að krakkarnir eigi möguleika á að komast áfram. 

Geir Ágústsson, 23.9.2016 kl. 06:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband