Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2016
Laugardagur, 16. apríl 2016
Leyfum Samfylkingunni að vera í friði
Hvað með það þótt Samfylkingin og fyrirrennar hennar hafi haft skrifstofur í eigu huldufélaga í marga áratugi?
Einhvers staðar þurfa vinstrimennirnir að vera til að gera áætlanir um framtíðina, ekki satt?
Ég legg til að Samfylkingin fái að eiga sín leyndarmál í friði á meðan þau eru ekki á kostnað skattgreiðenda (líklega frekar á kostnað gömlu Sovétríkjanna). Í leiðinni legg ég til að aðrir fái að njóta svipaðrar friðhelgi. Íslendingar hefðu gott af því að venja sig af eilífri forvitni af einkamálum annarra.
Í staðinn ættu Íslendingar að bæta í forvitni sína á málefnum hins opinbera. Í Danmörku voru framleiddir nokkrir þættir (af danska ríkisútvarpinu, vel á minnst) sem hétu Sóun á fé þínu (d. Spild af dine penge). Í þeim gekk blaðamaður á hina ýmsu opinberu starfsmenn og lét þá svara fyrir milljónir ofan á milljónir sem fóru í svo gott sem ekkert.
Þættirnir eru því miður ekki aðgengilegir lengur en hér má sjá lítið atriði um bekk sem kostaði milljón danskar krónur (þar af 800 þúsund í ráðgjafarvinnu). Hvað ætli séu margir slíkir bekki í Hörpu?
Segir félagið tengt Samfylkingunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Föstudagur, 15. apríl 2016
Hvað með hvalreka fyrir alla?
Af einhverjum ástæðum hafa yfirvöld beint eða óbeint lagt mikla áherslu á að á Íslandi sé framleitt mikið af afþreyingu. Já, afþreyingu sem hjálpar fólki að losna við frítímann sinn yfir einhverju áhorfi eða tölvuleikjaspilun.
Afþreyingariðnaðurinn á Íslandi nýtur endurgreiðslna, skattaívilnana og allskyns aðstoðar.
Á meðan sitja aðrir verðmætaskapandi aðilar eftir með fulla skattheimtu og þurfa jafnvel að eiga við flókið kerfi sem beinlínis hindrar verðmætasköpun þeirra.
Almennir skattgreiðendur fá heldur enga sérstaka afslætti eða endurgreiðslur.
Nei, það er talið mikilvægast að framleiða afþreyingu sem mætti í mörgum tilvikum kalla tímasóun.
Já, orðum þetta svona: Á Íslandi er ríkisvaldið duglegt að niðurgreiða eða styðja við tímasóun.
Vissulega er afþreyingariðnaðurinn mikilvægur og hann skilar líka gjaldeyri til Íslands og skapar mörg störf en ég spyr mig samt: Af hverju er afþreying svona gríðarlega mikilvæg að hún þurfi að njóta sérkjara á meðan aðrir þurfa að starfa í umhverfi himinhárrar skattheimtu þar sem hið opinbera flækist fyrir í hverju skrefi?
Hvalreki fyrir efnahagslífið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 04:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 14. apríl 2016
Stúlkur á flótta undan öllum
Þeir sem leiðast út í vændi eða velja að stunda vændi eða láta táldraga sig út í að stunda vændi gera það af mörgum ástæðum.
Stundum eru einstaklingar í vændi - yfirleitt stúlkur - fórnarlömb mansals. Mansal er hræðilegt og ber að stöðva með öllum tiltækum ráðum. Um það er varla deilt. Nánar um það seinna.
Stundum eru einstaklingar sem stunda vændi hins vegar ekki fórnarlömb mansals. Kannski vantar þeim kannski bara peninga (t.d. til að fjármagna fíkniefnaneyslu en hún er mjög dýr því fíkniefni eru víða ólögleg). Kannski eru ekki önnur störf í boði (t.d. af því hið opinbera kæfir hagkerfið með sköttum, reglum og viðskiptahindrunum).
Er einhverjum greiði gerður með því að gera einstaklinga sem stunda vændi eða viðskiptavini þeirra að glæpamönnum?
Því hvað gerist þegar einhver iðja er bönnuð með lögum?
Það er ekki eins og hún hverfi af yfirborði jarðar. Þvert á móti skýtur hún rótum í undirheimunum og þar þrífast ósvífnir einstaklingar sem leggja ýmislegt á sig til að ekki komist upp um þá.
Þegar eitthvað er bannað - hvort sem það er tóbak, áfengi, fíkniefni eða vændi - virkar það eins og vítamínsprauta fyrir undirheimana. Glæpamenn brosa í hring þegar stjórnmálamenn setja á nýtt bann við sölu eða framleiðslu á einhverjum varningi eða þjónustu.
Glæpamennirnir láta sér heldur ekki nægja að brjóta lög sem banna neyslu og sölu á einhverju. Þeir brjóta öll lög. Þeir stela, berja og hóta. Fyrir þá skiptir það litlu máli hvort þeir fái 10 ára fangelsisdóm fyrir sölu fíkniefna eða 12 ár fyrir að berja mann til óbóta svo hann kjafti ekki frá. Munurinn á því að bjóða upp á ofbeldislaus viðskipti og því að kynna ofbeldi til leiks er lítill. Sakaskráin fær svarta bletti hvort sem maður er dæmdur fyrir sölu á smygluðum sígarettupakka eða handrukkun. Fyrir þeim er lítill munur á mansali og sölu eiturlyfja því afleiðingarnar af því að vera tekinn eru svipaðar. Bæði mansal og ofbeldislaus viðskipti eru sett á sama stall og bæði þrífst betur fyrir vikið.
Íslendingar ættu að stíga stór skref í átt að mannúðlegra samfélagi og afnema bönn við sölu og kaupum á vændi og fíkniefnum. Íslendingar ættu einnig að leyfa fjárhættuspil. Svarta markaðinn þarf að aflífa með löglegum, hreinlegum og aðgengilegum hvítum markaði þar sem ofbeldi er ekki umborið. Þannig verða glæpamennirnir afvopnaðir. Um leið má ganga harðar á raunverulega glæpi eins og mansal, þjófnaði og ofbeldi.
Þetta ætti að gerast hið fyrsta til að lina hinar miklu mannlegu þjáningar sem eiga sér stað í undirheimunum.
Umfangsmikil vændissala á netinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 12. apríl 2016
Ríkisvald og bankarekstur
Stjórnmálamenn telja sig gjarnan vita betur en aðrir hvað er öðrum fyrir bestu. Þess vegna vilja þeir að ríkisvaldið eigi banka - sem flesta og sem lengst.
Þetta er að hluta til skiljanleg afstaða. Ríkisvaldið veldur miklum usla með því að starfrækja seðlabanka, tryggja innistæður og framfylgja miklu lagasafni sem á að tryggja að ekkert fari úrskeiðis. Fæstir stjórnmálamenn gera sér hins vegar grein fyrir skaðsemi af miklum umsvifum ríkisvaldsins.
Þess vegna vilja þeir líka að ríkisvaldið eigi banka sem þeir geta þá notað til að draga að einhverju leyti úr skaðsemi ríkisafskiptanna. Banka má nota til að framleiða verðbólgu sem er t.d. hægt að nota til að lækka kaupmátt launa og styðja þannig við útflutningsfyrirtæki svo eitthvað sé nefnt.
Á það hefur verið bent að á hinum svokölluðu aflandseyjum hafi lítið orðið vart við bankahrunið árið 2008. Þar þurfa bankar að keppa í trausti en ekki í því hver er bestur í samkvæmisdansinum við ríkisvaldið.
Nú er talar um að ríkisvaldið þurfi að eiga banka um mörg ókomin ár og ekkert er minnst á að draga ríkisvaldið úr framleiðslu peninga (með aðstoð og notkun viðskiptabankanna) eða breyta kerfinu sem hrundi svo eftirminnilega.
Má ekki þess í stað bara gefa landsmönnum bankana og um leið afnema innistæðutryggingar og koma ríkinu úr peningaframleiðslu og verðlagningu lánsfjár? Stjórnmálamenn eru margir hverjir vel gefnir einstaklingar en hefur reynslan sýnt að þeir kunni að stunda bankastarfsemi (Íbúðalánasjóður er hér augljóst dæmi)?
Einkavæðing bankanna tekur nokkur ár | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 11. apríl 2016
Hvað þarf að markaðssetja? Ókeypis peninga?
Með fullri virðingu fyrir því fólki sem starfar hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands þá sækir á mig spurning: Hvað þarf hún að markaðssetja?
Ég sé ekki annað í fljótu bragði en að þessi mistöð hafi það hlutverk að plástra þau sár sem óhófleg skattlagning veldur á fjárhag fyrirtækja og einstaklinga sem hefðu að öðrum kosti haft möguleika á að fjárfesta í nýsköpun.
Með öðrum orðum: Vegna reglugerðafrumskógar og skattheimtu hins opinbera þarf að veita fé skattgreiðenda í nýsköpun og rannsóknir.
Þetta mætti e.t.v. kalla vítahring en um leið vítahring sem væri auðvelt að vinda ofan af, þ.e. þegar pólitíkin hefur verið tekin út fyrir sviga.
Markaðsherferðir miðstöðvarinnar ættu annars að blasa við. Þær geta snúist um að birta sem víðast stór skilti sem á stendur: Ókeypis peningar.
Fjalar markaðsstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 9. apríl 2016
Forsetinn sem stóð í vinstristjórninni
Ólafur Ragnar Grímsson skilur eftir sig gott orðspor sem forseti að mínu mati. Hann mætti alveg sitja lengur mín vegna.
Hann stóð í hálsinum á vinstristjórn Jóhönnu og Steingríms og kom í veg fyrir að þeim tækist að hengja tugmilljarðaskuldir á háls íslenskra skattgreiðenda.
Hann er að standa í lappirnar í þeim pólitíska ólgusjó sem nú gengur yfir en fer að fjara út.
Hann hefur reynt að halda uppi orðspori Íslands erlendis eftir bankahrunið 2008 ólíkt mörgum þeirra sem hafa tjáð sig um málefni Íslands við erlenda fjölmiðlamenn seinustu daga.
Hann kann líka að eiga við fjölmiðla. Eiginkona hans er t.d. með erlent heimilisfang til að forða eigum sínum frá eignaupptöku á Íslandi og enginn hefur gagnrýnt það einu orði. Það kunna ekki allir að eiga við fjölmiðla.
Það er ákveðin kaldhæðni örlaganna að gamall sósíalisti sé sá sem hefur umfram flesta aðra staðið vörð um hið borgaralega og frjálslynda samfélag á Íslandi og kunnað að lesa stjórnarskránna þannig að hún hefur getað þjónað hlutverki sínu til fulls.
Vildi ekki vera stimpill | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 8. apríl 2016
Viðskiptatækifæri fyrir Íslendinga?
Umræðan um aflandsfélög og skattaskjól er ljómandi góð en er svolítið einhæf og snýst mikið um persónur. Það er hægt að læra miklu meira af þessu máli en það.
Til dæmis er hægt að velta því fyrir sér hvort ekki megi gera Ísland að skattaskjóli og "aflandi". Nokkur einföld skref þarf að taka til að svo verði:
- Afnema skatta á fjármagni, eignum, hlutabréfum og þess háttar
- Af sanngirnisástæðum þarf einnig að afnema skatta af launatekjum, leigutekjum og þess háttar
- Minnka ríkisumsvif og ríkisútgjöld sem nemur þessum skattalækkunum
- Koma upp einföldum lagaramma sem er samkeppnishæfur í umfangi og flækjustigi við lönd eins og Panama, Svíþjóð, Tortóla og Lúxemborg
- Afnema beina og óbeina ríkisábyrgð af rekstri banka og fjármálastofnana
- Koma íslenska ríkinu úr einokunarframleiðslu á peningum (leggja Seðlabanka Íslands niður og koma á algjöru gjaldmiðlafrelsi)
Svona fyrirkomulag hefði marga kosti í för með sér. Í fyrsta lagi þyrfti enginn Íslendingur að flytja fé úr landi til að fresta skattlagningu og forðast verðbólgu.
Í öðru lagi kæmi fé til landsins og fyrir slíka þjónustu má rukka vel og búa til vel borgandi störf.
Í þriðja lagi einfaldast allt eftirlit með skattheimtu og skráningum vegna skattskila og þannig myndast myndarlegt svigrúm til að gera opinbera starfsmenn að starfsmönnum einkafyrirtækja.
Um leið dragast lífeyrisskuldingar ríkisvaldsins saman og hlífa þannig framtíðarkynslóðum við þeirri miklu byrði sem bíður þeirra í dag.
Í fjórða lagi gufar verðbólgan upp enda mun fólk geta skipt á milli gjaldmiðla eftir því hver er stöðugastur hverju sinni og margir gjaldmiðlar keppa um hylli notenda.
Ég gleymi sennilega einhverjum kostum en eitt er víst: Þeir eru margir.
Aflands-Íslands, já takk!
Opna sjónrænan gagnagrunn í maí | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 7. apríl 2016
Skattaskjól eða ekki
"Þau Sigmundur Davíð og Anna Sigurlaug greiða rúmar 19 milljónir króna í auðlegðarskatt fyrir árið 2012."
Ekki tókst nú betur til en þetta þegar þau hjónin völdu sér "skattaskjól".
Ég legg til að næst þegar menn leggja pólitískan feril sinn í hættu með því að koma fé sínu í úr umhverfi verðbólgu og eignaupptöku (sem þeir hafa jafnvel sjálfir barist fyrir) þá verði raunverulegt skattaskjól fyrir valinu (sem gerir skattgreiðslurnar að nákvæmlega núll krónum).
Til dæmis er hægt að kaupa Rolex-úr og geyma í læstum peningaskáp heima hjá sér, nú eða listaverk með söfnunargildi. Nú eða gera bara það sama og Björk Guðmundsdóttir, söngkona: Flytja alla starfsemi til Bahama-eyja.
Fimmtudagur, 7. apríl 2016
Næstu skref
Þá er ný ríkisstjórn senn tekin við og ætlar að starfa fram á haust. Pólitískri óvissu er því frestað í bili. Því hljóta allir að fagna.
Tíminn er naumur og ríkisstjórnin ætlar því að forgangsraða og setja mikilvæg mál í meðferð þingsins sem fyrst. Það er líka gott. Með heppni verður búið að afnema fjármagnshöftin fyrir haustið.
Stjórnarliðar hafa vonandi lært svolítið á þessu. Það þýðir til dæmis ekki að vinna hægt og bítandi að einhverju markmiði. Skattar hafa t.d. lækkað alltof hægt og útgjöld ríkisins eru ennþá í hæstu hæðum. Ríkisbáknið er alltof stórt og fóðrar alltof stóran her fólks sem gerir ekkert nema kjósa vinstriflokka sem vilja stækka það ennþá meira.
Það er ekki nóg að hagræða aðeins hér og gera þjónustusamning þar. Ríkisvaldið þarf einfaldlega að fækka verkefnum sínum. Á sínum tíma framleiddi ríkið sement og rak mjólkurbúðir. Í dag á það banka og selur ilmvötn á flugvöllum. Ríkið menntar (þá sem detta ekki úr skóla), læknar (þá sem ekki eru á biðlistum), leggur vegi og á hluti í sprotafyrirtækjum. Ríkið niðurgreiðir framleiðslu afþreyingarefnis og lambakjöts. Til hvers?
Hugsanlega er of seint að minnka ríkisbáknið svo einhverju máli skiptir úr þessu og að við taki ný fjögurra ára lota skattahækkana og nýrra viðskiptahindrana. Það er viðbúið að kjósendur sjái engan mun á byrðum hins opinbera nú og þegar vinstristjórnin sat við völd og að þeir verðlauni vinstriflokkana - auk Pírata - fyrir vikið. Þetta mætti kalla fyrirsjáanlega röð atburða og má algjörlega skrifast á hægagang ríkisstjórnarinnar.
En það verða kosningar í haust. Það er spurning hvort maður leggi það á sig að kjósa í þetta skipti.
Stjórnarandstaðan er í rusli líka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 04:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 6. apríl 2016
Hinar mörgu ástæður fyrir fylgi Pírata
Píratar sópa til sín fylgi. Þeir hafa lengi haft yfir 30% fylgi og núna stefnir það í 50%. Þetta er bæði fréttnæmt og athyglisvert.
En hvernig stendur á þessu fylgi? Ég er með nokkrar kenningar.
Í fyrsta lagi eru atkvæði til Pírata atkvæði til "einhvers annars" en stjórnarflokkanna sem nú sitja og stjórnarflokka fráfarandi ríkisstjórnar. Raunar er staða fráfarandi stjórnarflokka svo slæm að það liggur við að þeir séu að þurrkast út. Farið hefur fé betra segi ég en arfleifð fráfarandi ríkisstjórnar skýrir e.t.v. ágætlega fylgi fráfarandi stjórnarflokka.
Í öðru lagi er ákveðinn stöðugleiki kominn á sem margir taka sem sjálfsögðum hlut og telja að hafi fallið af himnum ofan: Mikinn ferðamannastraum, hægt lækkandi álögur hins opinbera, horfur á afnámi gjaldeyrishafta, góða verðmætasköpun sjávarútvegs og þess háttar. Ríkisstjórnin fær engar þakkir fyrir þetta frekar en sólardagana á sumrin.
Í þriðja lagi hafa Píratar vissulegt lagt margt gott til málanna. Sérstaklega má þar nefna Helga Hrafn Gunnarsson og fráfarandi þingmann, Jón Þór Ólafsson. Þetta eru hófstilltir og yfirvegaðir menn sem koma til dyranna eins og þeir eru klæddir, lausir við dramb og yfirlæti.
Í fjórða lagi má e.t.v. skrifa fylgi Pírata á að þeir standa í raun ekki fyrir neitt. Frjálshyggjumenn geta fallist á margt í boðskap þeirra en einnig sósíalistar. Þeir eru eins og konfektmoli í konfektkassa Forrest Gump: Enginn veit hvað hann fær fyrr en hann smakkar.
Að auki er ferill Pírata ekki nægilega langur til að menn get gert sér grein fyrir efndum þeirra á óskýrum fyrirheitum. Það er þá helst að í borgarstjórn Reykjavíkur að smjörþefinn megi finna (og finnst mér persónulega að hann lofi ekki góðu - þar eru þeir einfaldlega hækja Samfylkingarinnar).
Í fimmta lagi er ákveðinn uppreisnarandi í Pírötum sem höfðar sennilega til margra. Fyrir utan nafnið er þarna Birgitta Jónsdóttir að skammast í öllu og öllum til skiptis við að vorkenna sjálfri sér. Þetta höfðar sennilega til ungs fólks sem hreinlega nennir ekki að kafa dýpra í stjórnmálin.
Fylgið á sér sem sagt margar skýringar. Nú er að sjá hvort það standist tímans tönn eða hvort það renni af þeim á meðan þeir reyna að koma sér upp framboðslistum með netkosningum á Facebook.
Píratar með 43% fylgi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)