Viðurnefnastjórnin

Sú ríkisstjórn sem núna situr virðist laða að sér viðurnefni, fyrir utan að vera kennd við konurnar sem réðu því hverjir féllu á vígvellinum. Vandræðastjórnin er eitt slíkra viðurnefna en mörg önnur koma til greina að mínu mati. 

Til dæmis mætti kalla hana höfuðborgarstjórnina því hún virðist helst falla í kramið hjá borgabúunum. Skítt með fiskiþorpin sem núna sjá fram á snöggan dauðdaga. 

Það mætti kalla hana baktjaldastjórnina enda sífellt að koma upp á yfirborðið einhver leyndarmál þar sem brallað var á bak við tjöldin, um allt frá eigin ráðherrum ríkisstjórnarinnar til stjórnsýslubrota í meðhöndlum hælisleitenda.

Þetta er líka stjórn ófyrirsjáanleika. Menn sem töldu sig hafa skrifleg loforð um eitthvað, og voru að hefja undirbúning að framkvæmd þeirra loforða, lenda skyndilega aftast í röðinni.

Skríðsbröltstjórnin er líka ákaflega viðeigandi enda virðast vera til nóg af milljörðum til að moka í stríð en ekki króna í kassanum til að byggja skóla.

Háskólamannastjórnin (betra nafn óskast) gæti lýst því viðhorfi ríkisstjórnarinnar að eina námið sem virði er í sé háskólanám.

Nú veit ég að innan ríkisstjórnarinnar eru eldklárir einstaklingar sem kunna að taka ábyrgð og láta hendur standa fram úr ermum, og þekki einn ráðherranna persónulega af slíku, en innan sömu stjórnar eru líka ólæsir og ótalandi ráðherrar, og hefur mannval því sjaldan spannað slíka breidd á hæfileikarófinu. Kannski mætti því fyrst og fremst kalla ríkisstjórnina bland í poka“, sumt er súrt og annað sætt, og sumt er óætt. 


mbl.is „Það er alveg sérstaklega furðulegt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Starfsleyfin

Það er enginn skortur á fréttum um þá eyðileggingu sem yfirvöld leggja á hagkerfið og atvinnulífið með endalausum kröfum um leyfi fyrir hinu og þessu, og þá sérstaklega í Reykjavík. Þú mátt baka köku fyrir vinnufélagana þína en ef þú setur hana á lítið borð við gangstétt og vilt selja hana þá þarftu slíkan hafsjó af leyfum að engum dettur í hug að reyna. 

Það ætti nú að vera frekar auðvelt að fjarlægja þetta kverkartak af atvinnulífinu þrátt fyrir allskyns innflutt regluverk. Sumt er skrifað í lög, sem tekur tíma að breyta, en sumt í reglugerðir, sem veirutímar kenndu okkur að má breyta nánast frá degi til dags. 

Það er rætt í Evrópu að hið svokallaða græna hagkerfi sé fast í leyfisveitingum. Skiljanlega. Evrópa er leiðandi í einu og bara einu: Reglugerðum. 

Kannski er ráð að hætta að grýta eigin höfn. 


mbl.is 200 daga bið eftir því að opna bakarí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmiðlar og raunveruleikinn

Hér fyrir neðan er mynd. Á henni er samanburður: Hvað telur meirihluti þátttakenda í könnun (í bandarísku samhengi) vera ákveðið hlutfall, og hvert er hið rétta hlutfall. Þessi mynd segir sögu, sem er sú að við vitum í raun mjög lítið um okkar raunveruleika. Og hvernig stendur á því?

unnamed

Kannski er hægt að benda á fjölmiðla hérna. Eru þeir að bera á borð heimsmynd sem er allt önnur en raunveruleikinn? Auðvitað. Fréttir snúast um að ýkja vandamál, ekki lýsa þeim. Frétt um að fátækt í heiminum hafi minnkað er léleg söluvara. Frétt um að læsi kvenna sé á uppleið í heiminum er varla lesin.

En þetta eru bara vitlausir Bandaríkjamenn að svara könnun! Við í Evrópu erum upplýstari en þetta! Við vitum hversu stórt hlutfall samfélagsins er samkynhneigt, og hvaða hlutfall kvenna í heiminum kann að lesa sér til gagns!

Gott og vel, upplýsti Evrópubúi, skelltu þér þá í eitt af mörgum prófum Gapminder og sjáðu hversu illa þú fellur. Þar er hægt að prófa sig í þekkingu á fátækt, sjálfbærnimarkmiðum, umhverfisvernd og hvaðeina. 

Upphafsmaður þess konar prófunar á almennri vanþekkingu almennings á mikilvægum staðreyndum, Hans Rosling heitinn, stríddi oft háskólanemendum sínum á því að þeir vissu minna en sá sem giskaði af handahófi á svörin, nefnilega simpansinn. Ekki til að letja nemendur sínar, heldur hvetja. 

Ég held að það sé hollt og gott að endurskoða raunverulegt vitneskjustig sitt á heiminum. Neysla á fréttum er mögulega leið til að minnka slíkt vitneskjustig, þótt neysla á fréttum sé um leið mikilvæg af ýmsum ástæðum.

En ekki láta plata þig.


Skattarnir

Einu sinni var starfrækt á Íslandi flugfélag sem seldi ódýra flugmiða en lagði á himinhá bókunargjöld. Þau gjöld komu ekki fram í leitarvélunum og það var því hægt að lokka fólk inn til að hefja bókunarferlið og jafnvel þótt því fylgdi gremja að sjá allt í einu bókunargjöldin birtast þá héldu margir eflaust áfram með bókunina, enda ferlið hafið.

Yfir þessu kvartaði fólk auðvitað og flugfélagið hvarf á spjöld sögunnar af ýmsum ástæðum. Íslendingar geta verið alveg sæmilega sólgnir í gegnsæi og samkeppni.

Eða þar til kemur að því að veita yfirvöldum aðhald.

Um daginn sagði forsætisráðherra að ríkisstjórnin væri að leita að aðhaldi á tekjuhlið ríkissjóðs sem er orðalag sem þýðir skattahækkanir. Ekki datt blaðamönnum í hug að biðja um skilgreiningu á þessu aðhaldi á tekjuhlið. Forsætisráðherra kann að boða skattahækkanir á hundrað mismunandi vegu án þess að kalla það skattahækkanir.

Ofan á allskyns skatta - tekjuskatt, virðisaukaskatt, fjármagnstekjuskatt og svona mætti lengi telja - bætast oft við ýmis gjöld: Úrvinnslugjöld, vörugjöld, aðflutningsgjöld, umbúðagjöld, umsýslugjöld.

Setji þjóðgarðsvörður lítið skilti við vinsælan foss getur hann innheimt bílastæðagjöld án þess að veita nokkuð í staðinn.

Það mætti halda að skattgreiðandinn sé meðhöndlaður eins og laukur: Í stað þess að skera 75% af honum strax þá eru lögin á honum tekin eitt í einu eftir því sem skattgreiðandinn fer í gegnum daginn. Skattlögð laun borga skattlagðan varning og skattlagða þjónustu. Gjöldin hlaðast ofan á sérhvern hlut sem skiptir um hendur. Alls staðar og allt í kring.

Ekki kemur til greina að einfalda þetta flókna kerfi tekjuöflunar fyrir hið opinbera því þá missa stórir hópar opinberra starfsmanna sína bita.

Nú fyrir utan að ef hið opinbera léti eingöngu tekjuskatta duga og gerði allt annað skattfrjálst þá sæi fólk með berum augum að hið opinbera hirðir, þegar allt kemur til alls, þrjá fjórðu af launum okkar og blekkingin væri afhjúpuð. Betra að stilla tekjusköttum í hóf en mjólka svo sérhver viðskipti um skatta og gjöld sem fólk nennir ekki að spá í.

Og því fer sem fer. Forsætisráðherra kemst upp með að tala um aðhald á tekjuhlið, blaðamenn segja ekkert og fólk situr heima og vonar að aðhaldinu verði beint að einhverjum öðrum: Landsbyggðinni, fyrirtækjum, reiðhjólafólki eða reykingamönnum. 


Hagsmunir heildarinnar?

Þegar yfirvöld réttlæta skattahækkanir með því að vísa til hagsmuna heildarinnar þá blasir við að ekki er verið að huga að hagsmunum heildarinnar.

Því það er heildin sem er að borga meira fyrir það sama eða minna en áður. 

Auðvitað hafa mismunandi skattahækkanir mismunandi áhrif. Þegar ríkið vill minnka reykingar þá skattleggur það tóbak. Þegar ríkið vill að iðnaðarmenn fái fleiri verkefni þá lækkar það virðisaukaskattinn.

Ríkisvaldið hækkar núna skatta á fiskveiðar, væntanlega til að minnka fiskveiðar eða innlenda fiskvinnslu ef marka má minnisblöðin sem ríkisstjórnin lét framleiða en las ekki.

En þarf ekki að fjármagna hið opinbera svo það geti sinnt öllum sínum nauðsynlegu verkefnum? Jú, auðvitað þarf að gera það, en þarf hið opinbera að vasast í öllu sem það vasast í í dag? Auðvitað ekki. Það er hægt að finna mörg dæmi um vel rekna starfsemi sem hið opinbera sinnir á Íslandi en einkaaðilar sinna í öðrum þróuðum ríkjum eða svæðum innan þeirra. Hið opinbera getur meira að segja greitt fyrir þjónustu án þess að veita hana og innleiða þannig örlítinn vott af samkeppni, svo sem í tilviki grunnskóla eða heilbrigðisþjónustu. 

En að báknið í dag sé hin fullkomna stærð á hinu opinbera sem þenjist út á hárréttum hraða og taki til sín sanngjarna skattheimtu er auðvitað ekki rétt.

Ef ríkisvaldinu, eins stórt og það er nú þegar, vantar meira af sjálfsaflafé íslensks almennings og fyrirtækja þá er það fyrst og fremst til að fjármagna kosningabaráttu ríkjandi flokka, og hagsmunir heildarinnar eru algjört aukaatriði. Reikningsdæmið gæti verið eitthvað á þá leið að sjávarþorp sem verða að eyðifjörðum fæli frá færri kjósendur en aflast í kaffihúsum Reykjavíkur, eða eitthvað álíka. 

Bara stjórnmál, stjórnmálanna vegna. Skítt með heildina. 


mbl.is Skiljanlegt að fólk mótmæli frumvarpinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir sem trúðu því að Biden væri heill og að stjórna

Það blasti við frá upphafi kosningabaráttu Joe Biden í embætti forseta fyrir kosningarnar 2019 að hann væri hvorki andlega til staðar né hæfur til að stjórna. 

Þegar á þetta var bent á sínum tíma var það yfirleitt túlkað sem stuðningsyfirlýsing við Donald Trump. Slíkt er ástandið á umræðunni. Það er ekki hægt að vara mann við því að detta ofan í holu án þess að vera ásakaður um að vera eitthvað eða vilja eitthvað.

En glæpurinn liggur ekki hjá Joe Biden, sem er hrumur maður sem veit ekki hvort hann á að beygja til vinstri eða hægri. Glæpurinn liggur hjá þeim sem börðust á hæl og hnakka í fjögur ár að fela ástand hans og starfrækja skuggastjórn þar sem einhverjir allt aðrir en kjörinn forseti voru raunverulega við stjórnvölinn. Skrifuðu undir tilskipanir fyrir hans hönd, földu andlegt og líkamlegt ástand hans og ráku bandaríska alríkið eftir uppskrift sem sjálfur forsetinn vissi varla af.

Allt verður þetta auðvitað rannsakað. Áhyggjur mínar liggja ekki í málinu sem slíku heldur í trúgirni þeirra sem trúðu lygunum - í fjögur ár!

Af því að fjölmiðlar og fjölmiðlafulltrúar sögðu þeim að trúa. Trúa í blindni. Trúa þvert á það sem blasti við eins og flugeldasýning, dag eftir dag, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár.

Ég held því ekki fram að allt sem ég trúi í dag sé sannleikurinn. Ég trúði á sínum tíma á réttmæti þess að siga sprengjum og hermönnum á íbúa Írak og þeirra þáverandi forseta með yfirvaraskeggið og finnst sjálfsagt að biðjast afsökunar á þeim dómgreindarbresti. Síðan þá hef ég reynt að fara varlega í stuðningsyfirlýsingum mínum, sem eru frekar fáar. 

En ég er gapandi hissa á því að ástand Joe Biden hafi verið talið gott af svona mörgum svona lengi. 

Hverju öðru er fólk að láta ljúga að sér og það trúir því það þorir ekki öðru eða treystir í alvöru ennþá þeim sem báru á borð allar hinar lygarnar? Biden, sprauturnar, skattar til að breyta veðrinu, karlar í kvennaklefa - listinn er endalaus.


mbl.is Þekkti ekki einu sinni George Clooney
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

That will be 1000 kroners

Ég get tekið undir áhyggjur margra af íslenskri tungu. Sífellt algengara er að afgreiðslufólk geti ekki talað við mann á íslensku. Þetta á ekki bara við um starfsfólk hótela eða í afgreiðslum ferðamannastaða.

Þegar ég flutti til Danmerkur á sínum tíma og var að leita að vinnu þá var mér sagt að ég yrði að tala dönsku. Það var því ekki annað í stöðunni en að læra hana á meðan ég vann afleysinga- og hlutastörf. Kannski er öldin önnur núna. Starfsfólkið í matvöruversluninni handan við hornið er að miklu leyti ótalandi á dönsku. Það kann að bjóða kvittun og segja hvaða upphæð þurfi að greiða en minnstu frávik frá slíkum samskiptum enda hratt í ensku. Því miður. Sem betur fer er þetta samt undantekningin, ekki reglan.

En í stað þess að örvænta er hægt að spyrna við fótum og alveg frábær byrjunarstaður er Netútgáfa Snerpu. Hún er safn texta án höfundarréttar, fyrst og fremst Íslendingasögur, þjóðsögur, fornsögur og einnig Biblían. Hýsing efnisins er framlag Snerpu til varðveislu menningararfs þjóðarinnar að eigin sögn.

Sjaldan hefur einföld vefsíða fært notendum sínum jafnmiklar gersemar á einu bretti. Ég hef leitað þangað inn í mörg ár og vona að ég geti haldið því áfram um alla framtíð.

Ósnjallur maður
hyggst munu ey lifa,
ef hann við víg varast.
En elli gefur
honum engi frið,
þótt honum geirar gefi.

Svona er ort í Hávamálum og boðskapurinn sá að menn forðist ekki dauðann með því að forðast vopn. Það mætti kannski segja það sama um veirur sem menn reyndu að forðast á kostnað samfélagsins svo misserum skipti, og sumir féllu fyrir takmörkununum og sprautunum frekar en að hætta á veiruna.

Enn eru þær aðrar er þjóna skulu í Valhöll, bera drykkju og gæta borðbúnaðar og ölgagna. Svo eru þær nefndar í Grímnismálum: 

Hrist og Mist
vil eg að mér horn beri,
Skeggjöld og Skögul,
Hildur og Þrúður,
Hlökk og Herfjötur,
Göll og Geirahöð,
Randgríð og Ráðgríð,
og Reginleif.
Þær bera einherjum öl.

Þessar heita valkyrjur. Þær sendir Óðinn til hverrar orustu. Þær kjósa feigð á menn og ráða sigri. Gunnur og Rota og norn hin yngsta er Skuld heitir ríða jafnan að kjósa val og ráða vígum.

Svona er valkyrjum lýst í Gylfaginningu og virðist vera sem valkyrjurnar í ríkisstjórninni séu óþægilega trúar uppruna hugtaksins þegar þær handvelja hverjir fái að lifa og deyja innan hagkerfisins og jafnvel stjórnsýslunnar.

"O, tarna var ljóta nóttin," sagði prinsessa. "Mér hefur varla komið dúr á auga alla nóttina. Hamingjan má vita, hvað hefur verið í rúminu! Ég hef haft eitthvað hart undir mér, svo ég er bæði blá og marin um allan kroppinn. Þvílík skelfing!"

Nú gátu þau séð að þetta var sönn prinsessa, þar sem hún hafði orðið vör við baunina í gegnum tuttugu dýnur og tuttugu dúnsængur. Svo hörundsár gat engin verið nema sönn prinsessa.

Þetta er hluti af íslenskri þýðingu á ævintýri H.C. Andersen um prinsessuna á bauninni. Því miður gerast í dag margir prinsessur sem sjá ástæðu til að kvarta yfir minnstu óþægindum en gleyma stóru málunum.

Minnumst þess næst þegar afgreiðslumaður rukkar um upphæð á ensku að íslenska fjársjóðskistan er djúp og rík og þökk sé Snerpu og fleiri slíkum líka mjög aðgengileg.


Ríki í ríkinu og að segja frá

Hvernig er slæmt ástand gert betra?

Hvernig verður nauðsynlegum breytingum komið á?

Hvernig á að laga gölluð kerfi?

Er það með því að útskýra í skýru máli, oft og ítrekað, hvað er að og hvað þurfi að gerast?

Er það með því að koma gagnlegum ábendingum á viðeigandi aðila?

Er það með því að mæta á marga fundi með ráðandi öflum og þrýsta á breytingar?

Það fer eftir ýmsu, svo sem því hvort einhver sé að hlusta eða hafi áhuga á breytingum og umbótum.

Þegar fyrrverandi lögreglustjóri talar um ríki í ríkinu og að ábendingar hverfi inn í svarthol þá blasir við að ekkert muni lagast í íslenskum löggæslu- og landamæramálum, sem fléttast um leið inn í innflytjendamál. 

Þegar venjulegt fólk, ennþá að jafna sig eftir hnífstungu fyrir utan gluggann hjá sér um hábjartan dag, talar um langvarandi ástand áreitis og ofsókna af hendi innfluttra siðblindingja þá veit maður að yfirvöldum er alveg skítsama. 

Yfirvöld komast auðvitað upp með margt. Kosningar á fjögurra ára fresti eru um leið tímabil þar sem er hægt að valta yfir almenning í heil fjögur ár án afskipta. Ríkin í ríkinu eru mörg, frá Tryggingastofnun til ríkislögreglustjóra, og ósnertanleg. 

Kannski þurfa bara fleiri að tjá sig og tjá sig hærra, en kannski er það tilgangslaust. Væntingar okkar til yfirvalda eru einfaldlega of litlar. Við erum fljót að æða í unglinginn við kassann í Bónus ef við sjáum rangt verð á mjólkurfernu á kvittuninni en segjum ekkert þegar innfluttir þrjótar áreita konurnar okkar, dag eftir dag. Við látum strax í okkur heyra ef samlokan á bensínstöðinni er talin óhóflega verðlögð en höldum rækilega í okkur þegar karlmannslíkamar troða sér inn í sturtuklefana með dætrum okkar.

Kannski er niðurstaðan því bara sú að við fáum nákvæmlega það sem við eigum skilið: Ríki í ríkinu, svarthol, ósnertanlega opinbera starfsmenn og stjórnmálamenn á þingi og í sveit sem raða sér í tilgangslausar nefndir til að hækka launin sín, á kostnað almennings.


mbl.is #78. - Kallar eftir afsögn ríkislögreglustjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er Trump-geðhvarfssýkin núna?

Á nánast hverjum degi má sjá hjá nánast hverjum einasta fjölmiðli einhvers konar gagnrýni á Donald Trump, forseta Bandaríkjanna. Oft er margt gott að finna í slíkri gagnrýni og raunar væri óskandi að aðrir leiðtogar fengju álíka aðhald. Stundum er gagnrýnin samt frekar innihaldslaus og ætlað að búa til lokkandi fyrirsagnir, en látum það liggja á milli hluta.

Núna er Trump að reyna troða í gegnum þingin þar í landi fjárlagafrumvarpi sem lækkar skatta og einhver ríkisútgjöld en eykur hallareksturinn. Ég hafði búist við því að þeir sem þjást illilega af Trump-geðhvarfssýkinni væru alveg brjálaðir núna en ég hlýt að hafa misst af því brjálæði í amstri dagsins. Hvar eru hagfræðingarnir sem benda á að hallarekstur á opinberum fjármálum er skaðlegur, ýtir undir verðbólgu og hátt vaxtastig, og leggur þungar byrðar á kynslóðir framtíðar?

Finnast slíkir hagfræðingar?

Hvar eru þeir sem segja að ef Trump vill lækka skatta að þá þurfi hann að minnka heildarútgjöld hins opinbera enn meira svo hallareksturinn aukist ekki?

Hvar eru þeir sem benda á að lækkun ríkisútgjalda sé góðra gjalda verð en að það þurfi að byrja þar sem fitulagið er þykkast?

Hérna er á ferðinni gullnáma fyrir þessa hefðbundnu gagnrýnendur Trump, þá með Trump-geðhvarfssýkina og raunar marga aðra líka. Gullnáma full af gagnrýni sem er meira innihald en umbúðir. 

Hvar er hún?

En á meðan ég leita er gott að vita af bandaríska þingmanninum Thomas Massie, flokksbróður Trump, gjarnan uppnefndur Mr. No því hann er réttu megin í eiginlega öllum málum, og sem fer vægast sagt í taugarnar á Trump fyrir að skrifa af mikilli skynsemi um þessa vegferð ríkisstjórnar hans, svo sem að skattalækkanir Trump komi sér fyrst og fremst vel fyrir ríka vinstrimenn. Sem skýrir kannski af hverju gagnrýnin er jafnlítil og mér virðist hún vera.


Sprautan lifir

Mig langaði eiginlega bara að setja inn í færslur tímans að á þessari stundu er ennþá á heimasíðu hins íslenska landlæknisembættis hvatning til aldraðra, óléttra og sjúkra að láta sprauta í sig baneitruðu efni sem minnkar engar sjúkdómslíkur (eykur þær ef eitthvað er), getur valdið ófrjósemi og hraðri krabbameinsmyndun, hefur verið tengt við ófrjósemi og stíflar í sumum tilvikum æðarnar og veldur blóðtöppum, svo eitthvað sé nefnt.

sprautan2024-2025

Já, það er sitthvor hluturinn, vísindin og Vísindin.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband