Miðvikudagur, 12. mars 2025
Áhugamenn
Það kemur ekki sjaldan fyrir að ég hugsi með mér að stjórnmálastéttin á Íslandi sé mönnuð að miklu leyti af áhugamönnum, þ.e. fólki sem veit ekki alveg hvað það er að gera, hvernig á að skila af sér vinnu og hvernig á að taka skynsamlegar ákvarðanir. Auðvitað á ekki að taka einstaka fréttir af eintaka klúðri of langt og byrja að alhæfa um alla byggt á klúðri fárra, en að nokkrar fréttir á viku fái mig til að hugsa svona kemur mér einfaldlega á óvart.
Kannski laða stjórnmálin að sér of marga sem hafa enga reynslu í atvinnulífinu eða raunhagkerfinu þar sem samskipti þurfa að vera í lagi og samvinna sömuleiðis því annars tapast mikið fé og mikill tími.
Kannski er of auðvelt að gerast stjórnmálamaður á Íslandi - of margir lausir stólar miðað við mannfjölda. Sveitastjórnarstólarnir eru margir og ráðherraembættin mörg. Allir hafa svo sína aðstoðarmenn og ráðgjafa, skrifstofustjóra og varamenn. Ég sé fyrir mér skipurit með 100 einstaklingum þar sem 40 af þeim sitja í stjórnendastöðum, 20 þeirra mynda stoðdeildir og eftir standa 40 einstaklingar til að halda uppi öllu saman.
En þarf ekki lög og reglur? Ekki viljum við ringulreið! Það þarf að gefa út leyfi og halda úti eftirliti svo menn byggi ekki svalir sem hrynja eða steiki kjúklinginn of lítið, ekki satt?
Gott og vel, en hérna missir kerfið líka marks. Fólk úti í bæ er látið hamast svo mánuðum og árum skiptir að sækja um allskyns leyfi sem engu skipta á meðan á öðrum stað rís risavaxinn veggur sem skyggir á heilt fjölbýlishús. Fyrirtæki eru kaffærð í eftirlitsmönnum á meðan hvergi sést til lögreglumanns.
Stækkunarglerið er á einu auganu en leppur á hinu og kerfið labbar í hringi í kringum sjálft sig.
Það væri kannski til ráða að fækka töluvert öllum þessum stólum og stofnunum, fækka reglum og færa þær nær heilbrigðri skynsemi og krefjast þess að frambjóðendur sýni starfsferilskrár sínar þegar þeir sækjast eftir kjöri. Mig grunar að að gæti bætt aðeins úr áhugamennskunni sem virðist ríkja núna.
![]() |
Töldu það ekki sitt að upplýsa bæjarstjórann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Mánudagur, 10. mars 2025
Þöggunartilburðir
Ennþá leynast þeir á bak við hóla og hæðir þessir sem vilja þagga niður í skoðunum annarra. Það er eins og sumt fólk laði að sér allskyns vísindi og sannindi og verði nánast vitstola við að sjá einhvern tjá sig á annan hátt. Engin leið er fyrir þetta fólk að hrista af sér þessi vísindi og sannindi, sama hvað sönnunargögnin gegn þeim vísindum og sannindum hrúgast mikið upp (veirusprauturnar sem lækning verri en sjúkdómurinn hérna augljóst dæmi).
Um daginn varð ég fyrir frumlegri tilraun til að þagga niður í mér sem rann vitaskuld út í sandinn enda ríkir í Danmörku málfrelsi (að fólk ritskoði sjálft sig af ótta við álit annarra er annað mál). Ég varð þrátt fyrir það hugsi. Þessi tilraun gekk út að reyna kalla mig allskyns nöfnum, frá kynþáttahatara til stuðningsmanns Pútíns og fleira slíkt, og náði til uppnefna um efni sem ég hef ekki skrifað um svo mánuðum skiptir, svo einhver vann heimavinnuna sína vel. En hvað ef tilraunin hefði tekist? Væri heimurinn betri? Einni rödd færra í umræðunni? Einum færri til að rífast við í athugasemdum?
Nei, auðvitað ekki. Raunar hefur þöggun af ýmsu tagi að mörgu leyti rústað opinberri umræðu og leitt til þess að fjölmargir valkostir við hefðbundna fjölmiðla hafa sprottið upp til að fylla skarðið. Morgunblaðið hefur að mestu leyft frjálsa tjáningu á þessu svæði sem betur fer en margir aðrir miðlar hafa bæst við og auðgað umræðuhefðina á Íslandi (sama hvað mönnum finnst um innihaldið). Menn geta hrópað sig hása af reiði yfir allri þessari frjálsu tjáningu en hún er þarna og verður ekki svo auðveldlega tröðkuð niður, sérstaklega ekki þegar í raun allir geta orðið miðlar án hindrana.
Í stað þess að reyna þagga niður í öðrum gæti verið gagnlegra að annaðhvort hunsa þá eða takast á við þá með málefnalegum rökum. Þessu gerðu menn sér grein fyrir þegar var loksins búið að steypa af stóli þrúgandi einræðiskonungum og draga úr áhrifum frekar íhaldssamrar kirkju miðalda.
Ég þoli alveg uppnefnin og jafnvel fúkyrðin en ef það er reynt að þagga niður í óvinsælum skoðunum þá skipti ég skapi, og jafnvel þótt þögguninni sé beint að röddum sem ég er gjörsamlega ósammála. Því málfrelsið er ekki frelsi til að segja frá vinsælum skoðunum, heldur vörn fyrir þá sem hafa óvinsælar skoðanir.
Föstudagur, 7. mars 2025
Frétt: Foreldri hefur ekki fengið að sjá börnin sín í marga mánuði þrátt fyrir úrskurð
Í frétt á DV er sagt frá foreldri sem hefur ekki fengið að sjá börnin sín í marga mánuði þrátt fyrir úrskurð um annað.
Eða eitthvað sem margir vinir og kunningjar mínir kalla venjulegan virkan dag.
En þeir eru feður. Þeirra mál rata ekki í fréttir. Í mörg ár hefur félag um foreldrajafnrétti bent á framkvæmd yfirvalda í forræðismálum og og hvernig hið opinbera beitir sér, eða beitir sér ekki þegar það ætti að beita sér, til að stuðla að föðurleysi barna.
Þetta hefur hingað til ekki þótt fréttnæmt en núna er það móðirin sem verður fórnarlamb kerfisins og þá er slegið í stóra fyrirsögn.
Um leið leiðir þetta hugann að aðeins stærra samhengi: Þeim fjölmörgu fréttnæmu málum sem blaðamenn gætu hæglega tekið upp á arma sína, fengið út á það mikla athygli og jafnvel verðlaun, og væri um leið þjóðþrifaverk að fjalla ítarlega um. Mál sem hanga lágt á trénu og er auðvelt að týna ef einhver þorir: Aðskilnaðarstefna yfirvalda fyrir fráskilda feður og börn þeirra, bruðl með almannafé, byrlunarmál á Efstaleiti (mál sem hefur loksins komist lengra en bloggsíðurnar), baktjaldamakk með lóðir Reykjavíkur (að einhverju leyti komið fram), dauðsfallafaraldur í kjölfar mRNA-sprautnanna og margt annað.
Kannski þarf bara að finna í öllum þessum dæmum karlmann sem braut á konu. Sýslumann af karlkyni sem neitaði konu um umgengni við barn. Lækni af karlkyni sem skaddaði konu með sprautu. Karlmann sem skipulagði byrlun á kvenmanni. Er það málið? Eða hvaða aðrar kröfur gera blaðamenn til að leggja í umfjöllun á viðkvæmu máli?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 6. mars 2025
Borgarstjórn: Ekki fleiri leikskóla í Reykjavík
Reykjavíkurborg vill reyna að banna einkafyrirtækjum að byggja og reka eigin leikskóla. Slíkt gæti jú leitt til betri kjara fyrir menntaða leikskólakennara og það er vandamál. Slíkt gæti veitt börnum leikskólapláss í stað þess að hafa ekki slíkt og það er vandamál. Slíkt gæti fært umsjón á börnum úr höndum opinberra starfsmanna og í hendur starfsmanna einkafyrirtækja og það er vandamál.
En það er skortur á kennurum. Það er eitt. Það er skortur á leikskólakennurum og það er stærsti vandi leikskólanna í dag, segir mennta- og barnamálaráðherra. En bíddu nú við, ef einkaframtakið má ekki hækka laun og laða að sér fleiri menntaða leikskólakennara hvernig á þá að fjölga þeim?
Heldur ráðherra að fjöldi menntaðra leikskólakennara sé föst stærð? Svona eins og sumir ráðherrar halda að fjöldi menntaðra hjúkrunarfræðinga sé föst stærð. Manneskja sem afgreiðir í bókabúð í dag gæti alveg orðið að hjúkrunarfræðing eða leikskólakennara á morgun. Margir menntaðir sérfræðingar hafa flúið fagið sitt vegna álags og lágra launa. Einkaframtakið gæti lokkað þá til baka með betri kjörum og þar með minnkað álagið á aðra.
Lausnir einkaframtaksins geta verið og eru gríðarlega mikilvægar en þetta þarf að skoða út frá öllum þáttum og að hér skapist ekki tvöfalt kerfi, og það er alveg ljóst að það þarf að stíga hér inn, segir mennta- og barnamálaráðherra. Tvöfalt kerfi já? Börn sem hafa fengið leikskólapláss og þau sem hafa ekki fengið það. Þetta er tvöfalda kerfið í dag. Er verra að hafa tvöfalt kerfi þar sem öll börn fá leikskólapláss, en hjá mismunandi aðilum?
En kannski er afstaða barnamálaráðherra ekki skrýtin heldur miklu frekar afhjúpun á eldrauðum sósíalista sem vill ekki að hið opinbera missi neina spóna úr aski sínum, heldur ekki þá vanræktu. Flokkur fólksins? Já, þess sem er fast heima hjá sér, tekjulaust, með barn á leikskólaaldri sem fær ekki leikskólapláss því ríki og borg gera allt sem í valdi þeirra stendur til að hamla fjölgun menntaðra leikskólakennara.
![]() |
Leikskólar fyrst og fremst fyrir börn, ekki foreldra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 5. mars 2025
Velkomin aftur, lýðheilsuvísindi
Skæður flensufaraldur gengur nú yfir Danmörku. Mér var sagt í skóla dóttur minnar að í einum bekk hefðu bara verið 8 börn af rúmlega 20 einn daginn og afgangurinn lasinn heima. Fjölmiðlar fjalla um þetta, fjölda smita og fjölda innlagna. Ekki hefur skollið á neitt svipað í fimm ár.
En hvað er til ráða, að sögn blaðamanns sem vísar sennilega til yfirvalda? Svarið kom mér satt að segja á óvart, á jákvæðan hátt:
Ef maður vill forðast að smitast, ætti maður að vera heima ef maður er veikur, og ef maður vinnur með öðrum, ætti maður að muna eftir góðri hreinlæti og að lofta út.
**********
Hvis man vil undgå at blive smittet, skal man blive hjemme, hvis man er syg, og hvis man arbejder med andre mennesker, skal man huske god hygiejne og at lufte ud.
Hreinlæti og lofta út! Ekki orð um að fara í sprautu eða setja á sig grímu eða búa til handahófskenndar fjarlægðatakmarkanir.
Þeir sem lögðu til að lofta út á veirutímum fengu ekki mikla áheyrn. Hreinlætið gekk aðeins of langt með sprungna húð og opna sem saug í sig sýkingar út af öllu sprittinu, en góður og reglulegur handþvottur er gott mál, líka utan veirutíma. Síðan er þetta með að smitast. Oft er það óumflýjanlegt þegar agnarsmáar loftbornar veirur eru í loftinu. Það er því eins gott að undirbúa líkamann og vona það besta.
Við höfum kannski lært okkar lexíu. Allar fugla- og svínaflensurnar dvelja stutt við í fjölmiðlum. Áríðandi viðvaranir yfirvalda fá enga áheyrn. Grímurnar eru komnar aftur þar sem þær eiga heima: Á andlit lítils hluta ferðalanga frá Asíu.
Þeir sem græddu milljarða á veirutímum þurfa að finna upp á nýrri blekkingu til að hafa okkur að féþúfu aftur. Nema fjármögnun stríðs hafi verið næsta blekking. Vel gert, alþjóðleg stórfyrirtæki!
Miðvikudagur, 5. mars 2025
Öfgahægriflokkinn, einmitt það já
Samkvæmt íslenskum blaðamanni er um fimmtugur til fjórðungur Þjóðverja öfgahægrimenn. Þetta þýðir að ferðalangar í Þýskalandi komast varla hjá því að eiga viðskipti og samskipti við öfgahægrimenn. Kannski er það leigubílstjórinn, þjónninn á veitingastaðnum, pulsusalinn eða sá sem seldi þér minjagrip á götumarkaði. Öfgahægrimenn hvert sem litið er!
Svipaða sögu má segja í Frakklandi, Hollandi, Ungverjalandi, Austurríki og víðar. Evrópubúar orðnir helteknir af hægriöfgastefnu! Öfgastefnu! Andstæða hinnar hógværu miðju eða villta vinstrisins sem er aldrei talið fara út í öfgar þótt það vilji skattleggja prump og sneiða kynfærin af ókynþroska börnum.
Auðvitað er þetta ekki rétt. Þjóðverjar eru ekki að fjórðungi til öfgahægrimenn. Þeir eru bara almennir borgarar, rétt eins og íslenskir blaðamenn. Borgarar með áhyggjur og áherslur, sem borga skatta og finnst þeim kannski vera að borga of mikið í skatta. Vilja halda í sinn bíl og sína steik og að stelpur þurfi ekki að keppa við stráka í líkamlegu atgervi. Vilja halda jólamörkuðum árekstrar- og hnífstungulausum, svo ekki sé talað um nauðganalausum. Hafa kannski áhuga á velferðarkerfi sem hefur efni á eigin þegnum.
Svona nokkuð eðlilegar áherslur og áhyggjur, finnst mér. Heilbrigði skynsemi ef eitthvað er.
Nú þekki ég ekki nærri því öll stefnumál AfD nema af afspurn. Ég veit ekki hvort þar á bæ sé boðuð sala á ríkisfyrirtækjum, lækkun skatta, einkavæðing á ríkiseinokunarfyrirtækjum, frjáls verslun og hófsamar reglugerðir. Ég veit að flokkurinn boðar harða innflytjendastefnu. En ég samþykki ekki að fjórðungur Þjóðverja sé orðinn að öfgahægrimönnum sem kjósa öfgahægriflokk. Miklu frekar held ég að hér sé á ferð vinnandi fólk sem er að rembast við að láta enda ná saman og óttast vaxandi glæpi. Þetta fólk er einfaldlega að kjósa flokk sem vill taka á slíkum áskorunum.
Því ef AfD er öfgahægriflokkur hvaða orð ætla blaðamenn þá að nota þegar þeir fjalla um Þýskaland seinni heimstyrjaldar?
![]() |
Áfram samdráttur í sölu á Teslum eftir ummæli Musk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 4. mars 2025
Fylgi Sjálfstæðisflokksins
Um daginn hélt Sjálfstæðisflokkurinn landsfund. Slíkur viðburður er vægast sagt risastór samkoma þar sem færri komast að en vilja. Þar er skipað í málefnanefndir sem færri komast að en vilja. Þar er kosið í stjórn flokksins og oft hart tekist á, þá bæði á sjálfum landsfundinum en líka í félögum flokksins sem tilnefna fulltrúa á landsfundinn. Lýðræðisveisla í öllu sínu veldi, og með öllu sem slíkri veislu fylgir, gott og skítt.
Þessi hefð flokksins nær áratugi aftur í tímann og aftur í tíma þar sem flokknum gekk vel en líka illa. Markmiðið er að vera flokkur sem berst fyrir hagsmunum hinna vinnandi stétta en líka flokkur sem býr til öryggisnet fyrir þá sem missa fæturna, án þess samt að láta það net flækjast í vinnandi fólk og toga það á hafsbotn. Auðsköpun og vöxtur, en líka bakland og umhyggja, ef svo mætti segja.
Þessi flokkur er í dag að rembast við að vera 20% flokkur og ekki finnst mér að ný stjórn flokksins sé að fara breyta miklu þar.
Nema fyrir eitt atriði: Alveg stórkostlegt hæfileikaleysi ráðandi afla í Reykjavík og í Stjórnarráðinu.
Í Reykjavík hefur fimm flokka svokallaður meirihluti ákveðið að rústa fjárhag borgarinnar endanlega. Þá meina ég endanlega. Sjálfstæðisflokkurinn er nú þegar farinn að sjá viðbrögð kjósenda við slíkum áformum.
Í Stjórnarráðinu blasir nánast við að Flokkur fólksins mun þurrka sjálfan sig út og að allskyns loforð ríkisstjórnarinnar eru smátt og smátt að breytast í skýrslur sem enda ofan í skúffu. Nýjasta nýtt þar er að eftir mikla yfirlegu yfir opinberum fjármálum, byggða á þúsundum athugasemda um leiðir til sparnaðar þar, hefur tekist að finna leiðir til að spara í ríkisútgjöldum um 1% á ári, að mér skilst, sem er dropi í hafið fyrir ríkissjóð sem skuldar svimandi fjárhæðir og safnar töluvert hærra hlutfalli í skuldir á hverju ári.
Sjálfstæðismenn þurfa því ekki að gera neitt til að auka fylgi sitt. Ekki að tala um áherslur. Ekki að minna á hugsjónir. Ekki að tala um að báknið þurfi að víkja og heilbrigð skynsemi að snúa aftur, svo sem í því að moka körlum úr kvennaklefum eða hvetja til friðar frekar en átaka. Nei, Sjálfstæðismenn geta hallað sér aftur og sjá fylgi sitt aukast í boði annarra flokka. Einfalt mál. Sama gildir raunar fyrir aðra flokka í minnihluta.
Ef ég ætti veðmálasíðu myndi ég setja lágan stuðul við að Sjálfstæðisflokkurinn í bæði borg og ríki fái yfir 30% fylgi í næstu kosningum.
Þetta er í raun magnað en um leið sorglegt. Þetta þýðir að Sjálfstæðisflokkurinn þarf í raun ekki að skerpa á áherslum sínum, gera sig að raunverulegum valkosti við miðjumoðið og tala um hugsjónir frekar en daður við skoðanakannanir.
Hugsjónabaráttu hægrimanna frestað um ófyrirséðan tíma.
En ég vil nú samt hvetja til bjartsýni. Flokkar sem vilja eyða sjálfum sér eru orðnir þó nokkrir undanfarin ár, og virðist enn fjölga, og fjórflokkurinn að nálgast sífellt meira. Það er formúla sem við skiljum, þrátt fyrir allt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 2. mars 2025
Heilbrigð-skynsemi stefnan
Þá er komin ný forysta í Sjálfstæðisflokknum og þótt ég sé ekki flokksbundinn og hef ekki verið í áratugi þá hef ég alltaf ákveðnar taugar til flokksins og minnist oft áranna þar sem ég skrifaði fyrir vefrit Heimdallar sem þá var og hét, frelsi.is.
Frambjóðendur til trúnaðarstarfa hafa allir talað á einn veg: Flokkurinn hefur týnt rótum sínum og þarf að finna þær aftur og verða á ný breiðfylking sem getur með góðri samvisku talað um að vilja báknið burt og vinna fyrir allar stéttir. Nú þegar flokkurinn er í minnihluta ætti slíkt að vera auðvelt og ekki annað að sjá en að meirihlutinn ætli að gera starf stjórnarandstöðu eins auðvelda og hægt er. Það í sjálfu sér ætti að skila atkvæðum án áreynslu.
En gefur nýr formaður strax tilefni til svartsýni?
Ég ætla ekki að draga Sjálfstæðisflokkinn út á ystu nöf í sitt hvora áttina, sagði Guðrún og vísaði til annars vegar Viðreisnar til vinstri á hægri vængnum og Miðflokksins til hægri á sama væng. Ég ætla að vera breiðfylking.
Mér sýnist það. Hvaða hugsjónir liggja að baki því að ætla sér fyrst og fremst að vera stór flokkur?
Hvað er það við Miðflokkinn sem staðsetur hann lengra til hægri en Sjálfstæðisflokkinn?
Þetta var mögulega alveg glötuð yfirlýsing.
Flokkar geta orðið stórir með tvennum hætti:
- Að lofa öllu fyrir alla og vona að kjósendur hafi gleymt öllum svikunum í næstu kosningum. Mér dettur hér í hug þýskir miðjuflokkar.
- Að halda á lofti skýrri og róttækri hugsjón sem er mögulega meðal sem bragðast illa í einhvern tíma en skilar sér í breytingum til batnaðar yfir lengri tíma. Mér dettur hér í hug borgarstjórinn Davíð Oddsson á sínum tíma, og jafnvel forsætisráðherrann Davíð Oddsson, og forseti Argentínu í dag, Javier Milei.
Ef Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú þegar ákveðið að mörg góð stefnumál Miðflokksins, sér í lagi í innflytjendamálum, séu of langt til hægri, þá er strax búið að taka feilspor.
Ég tek eftir því í bandarískri umræðu að sumir vilja síður tala um hægri-vinstri og frekar að tala um heilbrigða skynsemi, og þá sem eru á móti henni.
Auðvitað eiga karlmenn ekki að keppa við kvenmenn í íþróttum, eða deila með þeim búningsklefa!
Auðvitað eiga landamærin ekki að vera hriplek!
Auðvitað á að taka á óráðsíunni í opinberum fjármálum og minnka skattheimtuna!
Auðvitað á fyrst og fremst að eyða auðlindum og verðmætaframleiðslu í eigin þegna og þá sem eiga um sárt að binda innanlands frekar en allt aðra!
Ekki hægri-vinstri, heldur heilbrigð skynsemi og andstæða hennar.
Ég vona að mér skjátlist um að glænýr formaður hafi nú þegar sent flokkinn á framhald í eyðimerkurgöngu sinni en vona þá að hún hafi góða að til að leiðrétta sig.
![]() |
Ég ætla að vera breiðfylking |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 26. febrúar 2025
Stækkkunargler á stærri vanda
Ímyndum okkur mann með sjúkdóm. Það sést lítið á honum að hann sé þjakaður af sjúkdómi. Ekkert að litarhaftinu. Hann virðist vera orkumikill. Þegar hann segir læknunum að það sé eitthvað að þá trúa þeir honum ekki og senda hann heim. Á hverjum degi nær sjúkdómurinn til fleiri og fleiri líkamshluta.
Dag einn fellur hann til jarðar og þarf að fara á sjúkrahús og jafnvel gjörgæslu. Hann tórir en er nú orðinn svo alvarlega veikur að baráttan verður löng.
Ímyndum okkur svo annan mann. Hann fær sama sjúkdóm en bregst öðruvísi við og verður strax mjög lasinn og fær strax þá athygli sem hann þarf á að halda til að komast aftur á rétta braut.
Svona sé ég fyrir mér íslenska hagkerfið þegar ég les um vandræði Landsvirkjunar með að fá nauðsynleg leyfi. Fyrirsagnir taka fyrir vandræðin, ráðherra leggur strax fram frumvarp til að liðka til í reglugerðarfrumskóginum og meira að segja Hæstiréttur sýgur málið beint til sín úr héraðsdómi til að sjá hvað í ósköpunum er á seyði. Þegar sjúkdómurinn sem skrifræðið er fyrir samfélagið nær til Landsvirkjunar verða áhrifin svo stór og augljós að allir stökkva til.
Berum þetta saman við eiganda litla fyrirtækisins. Hann fær líka sínar neitanir, sínar beiðnir um að fylla út og sækja um hitt og þetta og sínar heimsóknir frá yfirvöldum sem rukka hann vel fyrir greiðann. Hann hefur þurft að hætta við áform eða seinka þeim gegn ærnum kostnaði.
En höfum eitt á hreinu. Vandamál hans eru þau sömu og Landsvirkjunar en af því að samfélagið, sem samanstendur aðallega af smærri þátttakendum, virðist vera lifandi og heilbrigt þá gerir enginn neitt. Ekki fyrr en það er orðið of seint auðvitað.
Það væri óskandi að stjórnmála- og blaðamenn skildu þetta.
![]() |
Leyfismálin valda orkuskorti á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 25. febrúar 2025
Innblástur frá dönskum fasistum (jafnaðarmönnum)
Íslendingar hafa undanfarin án haldið úti galopnum landamærum þar sem barnaþuklarar og ofbeldismenn fá að hreiðra um sig við strætóskýli og skólalóðir til að fylgjast með ungum stelpum og elta þær heim.
Ekki slæmt, er það? Íslendingar eru jú umburðalyndir og mannvinir miklir.
En sumum þykir þetta vera orðið gott. Útlendingahatarar, fasistar og rasistar fara þar fremstir í flokki. Þeir vilja ekki opin landamæri og endalaust flæði peninga í þjónustu og uppihald á fólki sem hefur lítið fram að færa og þeim mun meira að taka. Rasistarnir og fasistarnir vilja mögulega frekar huga að gamla fólkinu og þeim sem eiga um sárt að binda meðal félaga sinna í samfélaginu. Fasistinn er alveg úr takt við pólitíska rétthugsun, svo mikið er víst.
En kemur þá til bjargar danski fasistinn! Yfirleitt kallaður jafnaðarmaður og er við völd í fasistaríkinu Danmörku.
Hann segir:
Danmörk ætti ekki að taka á móti fleiri útlendingum en við getum samþætt. Það er afar mikilvægt að við höfum getu og orku til að samþætta þá mörgu sem hafa komið til Danmerkur frá löndum í Miðausturlöndum og Afríku og hafa enn þörf fyrir samþættingu.
**********
Danmark skal ikke modtage flere udlændinge, end vi kan integrere. For det er helt afgørende for, at vi har evne og overskud til at integrere de mange mennesker, der igennem tiden er kommet til Danmark fra lande i Mellemøsten og Afrika, og som fortsat har et integrationsbehov.
Skamm, rasisti! Þú nefnir þarna Miðausturlönd og Afríku sérstaklega! Þarf ekki að samþætta Pólverjana og Indverjana og Bretana og Íslendingana og aðra líka?
Greinilega ekki. Þeir fylla ekki fangelsin. Kannski það sé ágætt viðmið.
En það sem ég vil koma á framfæri hérna er að íslenskir fasistar og rasistar þurfa ekki að leita langt eftir innblæstri. Danskir fasistar og rasistar eru við völd í Danmörku og nokkuð vinsælir þegar kemur að innflytjendamálum. Lykillin er bara að kalla sig jafnaðarmann sem vill verja samfélag sitt.
Auðvelt og skilvirkt og auðskiljanlegt. Og vonandi þverpólitískt, nú þegar er búið að sópa Vinstri-græna og Pírata út úr Alþingishúsinu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)