Getur þú matað ungabarn með gröfu?

Blessaður stöðugleikinn já.

Hvernig er hann nú tryggður?

Er það með því að breyta verði á fjármagni fyrir alla með einu pennastriki úr miðstjórnarskrifstofu í Reykjavík? Á sú breyting að endurspegla þarfi útgerðar, launþega, banka, ferðaþjónustu eða iðnfyrirtækja?

Er það með því að tugþúsundir launþega fari upp (eða niður) í launum eftir nokkra fundi í Reykjavík?

Er það með því að hræra í skatt- og bótakerfinu með tilheyrandi fjármagnsflutningum frá einum hópi til annars?

Menn gætu allt eins reynt að mata ungabarn með gröfu. Skammturinn er ákvarðaður í Excel og honum troðið á einu bretti ofan í ungabarnið. Sé hann of stór kafnar barnið. Sé hann of lítill er barnið ennþá svangt en fær ekki meira.

Það er verið að fínstilla úrverk með byggingakrana. Ein röng hreyfing eða ófyrirséð aðgerð og allt fer í klessu. Allt!

Það getur vel verið að hlutir fari ekki á hliðina þegar verðlagi á fjármagni eða launatöxtum tugþúsunda einstaklinga er breytt á einu bretti. Engu að síður hefur allt afleiðingar. Kannski skríður atvinnuleysi upp fyrir einhverja hópa sem eiga enga málpípu á fundum í Seðlabanka Íslands. Kannski hættir eitthvað fyrirtæki við að búa til nýja stöðu. Kannski vega jákvæðar afleiðingar upp þær neikvæðu þannig að fleiri einstaklingar hagnist en tapi. 

Risavaxnar miðstjórnaraðgerðir munu samt hafa afleiðingar - neikvæðar fyrir suma og jákvæðar fyrir aðra.

Það er ekki hægt að mata ungabarn með gröfu. Það er betra að nota skeið og gefa marga litla skammta þar til ungabarnið er mett. Að sama skapi er betra að hver og einn launþegi semji um eigin kaup og kjör og að ríkisvaldið hætti afskiptum af verði fjármagns.

Hvað sem því líður er gott að kjarasamningar eru að komast í höfn. Betri er slæmur raunveruleiki sem má aðlagast að en óvissa undir pilsfaldi verkalýðsfélaganna.


mbl.is Telur stöðugleikanum ólíklega ógnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband