Villandi fyrirsögn og hræðsluáróður

Nú á að hræða fólk með smálánunum. Fyrirsögn er skrifuð: Smálán fara yfir fasteignalán sem hlutfall skulda.

Þetta má auðveldlega skilja sem svo að fólk skuldar meira í smálán en fasteignalán. Auðvitað er það ekki rétt og kemur fram þegar fréttin er lesin. Fyrirsögnin er villandi.

Síðan kemur í ljós að vandamálið er ungt fólk sem skuldar nokkur hundruð þúsund krónur í neysluskuldir. Það þarf nú að leita sér hjálpar og sennilega þarf það að taka að sér aukavaktir og vinna mikið í sumar til að komast yfir hjallann en það er alveg geranlegt.

Er til betri lexía fyrir þetta unga fólk? Margt fullorðið fólk sem kemur hvergi nærri smálánum er oft ekki komið í þrot fyrr en það hefur safnað mörgum milljónum í skuldir sem er öllu erfiðara að eiga við.

Smálán eru auðvitað ekki sniðug. Þau bera háa vexti - gjarnan himinháa - og eru gerð eins freistandi og hægt er. Um leið má spyrja sig að því hvort þau veiti ekki rækilega lexíu. Það mætti líka velta fyrir sér hver hinn valmöguleiki smálánaþeganna er. Götulán frá næsta fíkniefnasala sem notar frekar handrukkara en innheimtuþjónustur til að rukka?

Fjármálalæsi fæst með tvennum hætti: Skipulegri hugsun og aga annars vegar, og reynslu hins vegar. Sviptum ekki ungt fólk möguleika á að afla sér reynslu með nokkur hundruð þúsunda króna skuldasöfnun núna frekar en nokkur milljón króna skuldasöfnun seinna.


mbl.is Smálán fara yfir fasteignalán sem hlutfall skulda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þessi starfsemi er ólögleg og á að meðhöndla sem slíka.

Guðmundur Ásgeirsson, 14.2.2018 kl. 08:44

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Já það er nú það, þegar hlutir eru ólöglegir er ekki víst að þeir gufi upp. Það má jafnvel hugsa sér að ástand versni við það að eitthvað sé gert ólöglegt, eða að lögbanni sé viðhaldið. Löglegir valkostir eru þá bannaðir sem eðli málsins samkvæmt skilur bara eftir ólöglega valkosti. 

Í Danmörku eru þættir í sjónvarpi sem heita "Luksusfælden" (http://www.tv3.dk/luksusfaelden). Fólk skráir sig þá í von um að fá hjálp, en gegn því auðvitað að opinbera allt heimilisbókhald sitt í sjónvarpi. Margir þar eru vissulega með mörg smálán á bakinu en það er yfirleitt ekki það sem er að kæfa fjárhaginn heldur hitt að búa í of dýru húsnæði, reka of marga bíla og eyða of mikið í skyndibita og skó, og vanrækja afborganir og safna vöxtum, og auðvitað vinna of lítið til að geta staðið undir lífsstílnum. 

Ég held að menn ættu frekar að fræða en banna.

Geir Ágústsson, 14.2.2018 kl. 09:22

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

"Löglegir valkostir eru þá bannaðir..."

Sérðu ekki þversögnina í þessari fullyrðingu?

Guðmundur Ásgeirsson, 14.2.2018 kl. 09:32

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Já, kannski hefði verið betra að segja:

"Fólk sem ætlar að gera ákveðna hluti neyðist til að brjóta lög."

Geir Ágústsson, 14.2.2018 kl. 09:34

5 identicon

Jú þessi starfsemi myndi bara víst svo gott sem hverfa, ef hún yrði gerð ólögleg með skilvirkum.

Ólíkt t.d. fíkniefnasölu, Þá væri aldrei hægt að reka sambærilega okurlána starfsemi í undirheimunum.

Ef þessi starfsemi væro rekinn í undirheimunum þá hefði lánveitendi t.d. ekki hafa neina lagalega heimild til að skuldfæra af bankareikning lánþega, heldur þyrfti að beita hótunum og ofbeldi sem myndi flótlega koma lánveitanda í fangelsi.

Pall þ (IP-tala skráð) 15.2.2018 kl. 21:55

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Pall.

Lastu ekki fyrstu athugasemdina? Það þarf ekkert að "gera" þessa starfsemi ólöglega því hún er það nú þegar og hefur verið það frá 2013.

Það hlýtur að vera umhugsunarefni hvernig þessi starfsemi geti yfir höfuð þrifist í ljósi þess að lántakendurnir virðast aldrei vera borgunarmenn til að endurgreiða lánin, hvað þá okurvextina sem krafist er.

Ath. þessi fyrirtæki eru ekki bankar sem geta prentað pening með útláni sér að kostnaðarlausu og svo bara afskrifað hann ef lánið fæst ekki endurgreitt, heldur eru þau að lána út "eigið fé" sem þýðir að ef það fæst ekki endurgreitt er það raunverulega tapað.

Hveru miklu "eigin fé" er hægt að tapa áður en fyrirtækið fer á hausinn? Eða eru þetta kannski bara "frontar" og þvottastöðvar fyrir illa fenginn ágóða af skipulagðri glæpastarfsemi? Svona gæti þvottavélin virkað:

1) Einhver hefur illa fengið fé sem þarf að þvætta. Hann greiðir það sem hlutafé inn í smálánafyrirtæki. Féð er því næst lánað út til annars aðila sem er með í plottinu, en hann notar það svo til að "kaupa þjónustu" af þriðja aðila sem er líka með í plottinu. Lánið er aldrei andurgreitt, en þriðji aðilinn er núna kominn með "hreint" fé í sínar hendur.

2) Einhver hefur illa fengið fé sem þarf að þvætta. Annar sem er með í plottinu stofnar smálánafyrirtæki. Það lánar fyrrnefnda aðilanum fé á okurvöxtum, sem hann endurgreiðir með illa fengna fénu. Smálánafyrirtækið greiðir ágóðann af lánveitingunni (illa fengna féð) út til hluthafa sinna sem arð og þeir fá þannig "hreint" fé í sínar hendur.

3) Með því að láta illa fengið fé ganga til skiptis fram og til baka í gegnum þvottavélina sbr. liði 1) og 2) er hægt að halda dæminu gangandi eins lengi og þarf, án þess að smálánafyrirtækið verði gjaldþrota. Markmiðið er alls ekki að hagnast á lánastarfsemi heldur að þvætta óhreina peninga, sem er líklega mun arðbærari starfsemi heldur en lánveitingar til einstaklinga sem ekki geta staðið í skilum með endurgreiðslur lánanna.

Þetta er eina rökrétta skýringin sem ég kann á þessum "rekstri". Hingað til hefur ekkert þessarra fyrirtækja reynt að þræta fyrir hana.

Guðmundur Ásgeirsson, 16.2.2018 kl. 17:11

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Ekki skal ég fullyrða um hvernig glæpamenn þvo peninga sína. Sumir stofna sólbaðsstofur þar sem er bara tekið við reiðufé í sjálfssölum. Sumir sækja í rafmiðlana. Sumir framkvæma flóknar fléttur.

Danmörk er troðfull af löglegum smálánafyrirtækjum sem auglýsa sig stíft. Manni sýnist þau vera nokkuð vinsæl. En fólk safnaði neysluskuldum áður en þau komu fram og munu finna leiðir til að gera það ef þau hverfa. Það er gott að það er til löglegur valkostur við glæpamenn í útlánastarfsemi sem nota þjónustu handrukkara. 

Geir Ágústsson, 16.2.2018 kl. 18:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband