Excel-skjöl án veruleikatengingar

"Hagsveiflunni sem staðið hefur yfir undanfarin ár mun ljúka á þessu ári, en ný uppsveifla mun hefjast árið 2020."

Ekki veit ég hvernig loftræstikerfi bankanna eru hönnuð en það er ljóst að þau hleypa ekki nægu súrefni inn í vinnurýmin.

Það sem er að gerast á heimsvísu er eitthvað allt annað en uppsveifla, og nei það er ekki Donald Trump að kenna. Sökudólgarnir eru seðlabankar heimsins sem hafa sprautað okkur með ódýru og nýprentuðu lánsfjármagni sem þröngvar vöxtum niður, hvetur til skuldsetningar, letur sparnað og lætur óarðbær fjárfestingaverkefni virka arðbær, á pappír.

Til að undirbúa sig sem best fyrir hrun þessarar spilaborgar á ríkisvaldið á að reyna skera sig sem lausast frá öllum fjárhagslegum skuldbindingum, þar með talið opinberum skuldum, skuldaábyrgðum, eignarhaldi á bönkum og ábyrgðum á innistæðum.

Einstaklingar sem eiga sparnað eiga að reyna koma honum í eitthvað haldbært, svo sem góðmálma eða niðurgreiðslu skulda.

Þeir sem skulda ættu að reyna hagræða skuldum sínum þannig að þær séu sem minnstar á neysluvarningi og kreditkortum þar sem þær bera vexti en veita enga ánægju, svo sem húsaskjól.

Það er ekkert blússandi góðæri framundan, hvorki árið 2019 né 2020, heldur er framundan massív leiðrétting á fjármálamörkuðum sem fær árið 2008 til að líta út eins og hiksta.


mbl.is Spá nýrri uppsveiflu árið 2020
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Eignarhald á banka er ekki skuldbinding heldur öfugt. Þess misskilnings gætir í umræðu um eignarhald á bönkum að ríkið sé með því að taka á sig einhverja "áhættu". Þá gleymist að bankar eru hlutafélög með takmarkaða ábyrgð og hluthafar þeirra bera því ekki ábyrgð á skuldum þeirra, alveg óháð því hvort sá hluthafi sé ríkið eða einhver annar.

Ríkið er ekki heldur í ábyrgð fyrir innstæðum, frekar en öðrum skuldum banka sem það á eða á ekki, enda er slík ríkisábyrgð bönnuð. Auk þess, ef ríkið væri raunverulega í ábyrgð fyrir innstæðum í bönkum, væru það frekar rök með því að ríkið skyldi eiga þá banka, fremur en á móti.

Guðmundur Ásgeirsson, 28.1.2019 kl. 15:15

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Almennt eru tengsl ríkis og fjármálaviðskipta almennt alltof þéttofin.

Það á ekki að vera erfiðara að stofna banka en saumastofu.

Gjaldþrot banka á ekki að hafa meiri áhrif á ríkið en gjaldþrot hverfisbarsins. (Einhverjir viðskiptavinir þurfa að gera aðrar ráðstafanir, en þar við situr.)

Hvað varð um ríkissjóði þeirra ríkja sem hlaupu undir bagga með gjaldþrota bönkum á árunum 2008-2009? Þau eru enn gríðarlega skuldug.

Þetta með ríkisábyrgð á innistæðum er ekki skýrara mál en svo að ef sérstakar aðstæður koma upp getur ríkið ábyrgt innistæður. Gerði Jóhanna Sigurðardóttir ekki einmitt það?

Geir Ágústsson, 30.1.2019 kl. 13:46

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Nei, það er nefninlega engin (formleg) ríkisábyrgð á innstæðum.

Vinstristjórnin reyndi vissulega að gangast í ábyrgð á skuldbindingum innstæðutryggingasjóðs vegna Icesave. Það var leitt til lykta fyrir EFTA-dómstólnum á þann veg að ríkið væri ekki fjárhagslega ábyrgt fyrir innstæðutryggingakerfinu heldur bæri það einungis ábyrgð á því að koma slíku kerfi á fót í samræmi við reglur þar að lútandi.

Yfirlýsing Geirs H. Haarde haustið 2008 var líka mjög nákvæmlega orðuð á þann veg að hún fól ekki í sér neitt beint loforð um fjárhagslega ábyrgð ríkissjóðs, heldur sagði hann bara sannleikanum samkvæmt frá því að innstæður í bönkunum væru tryggðar, sem þær voru, af tryggingasjóði innstæðna sem er sjálfseignarstofnun án ríkisábyrgðar.

Svo gengu íslensk stjórnvöld enn lengra og veittu kröfum vegna innstæðna forgang í slitabúin með svokölluðum "neyðarlögum". Þeir sem nutu einkum góðs af því voru tryggingasjóðir Bretlands og Hollands, sem fengu á endanum allar sínar kröfur greiddar að fullu. Ekki á grundvelli ríkisábyrgðar heldur beint frá slitabúi bankans á grundvelli neyðarlaganna.

Já innstæðum var bjargað, en án (formlegrar) ríkisábyrgðar.

Hvort það er hægt? Já eflaust, en svo er annað mál hvort slíkt sé heimilt ef það felur í sér ríkisaðstoð sem er almennt bönnuð í EES.

Guðmundur Ásgeirsson, 30.1.2019 kl. 21:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband