Ein leið af mörgum til að velja í stöðu

Ónefndur kunningi minn er í þeirri stöðu hjá ónefndu fyrirtæki að sjá um mannaráðningar (auk þess að bera stóra ábyrgð á rekstri fyrirtækisins). Hann hefur mjög ákveðnar skoðanir á því hvaða fólk hentar fyrirtækinu (byggðar m.a. menntun, kyni og stjórnmálaskoðunum umsækjenda). Ákveðnir einstaklingar eiga einfaldlega engan möguleika á að vera ráðnir og það af ástæðum sem sumar hverjar eru algjörlega ótengdar menntun og reynslu. Um hreina og klára mismunun er að ræða, byggða á áliti og skoðunum eins manns.

En er eitthvað út á það að setja? Hver ætlar að amast við því hvernig hann ræður starfsfólk sem getur haft mikil áhrif á afkomu fyrirtækisins, sem hann aftur ber mikla rekstrarlega ábyrgð á? Ég sé ekki að það komi nokkrum manni við.

Samfylkingin er enda núna að beita svipaðri aðferðarfræði. Ingibjörg Sólún er búin að ákveða að þrjár af sex lausum ráðherrastöðum verði skipaðar kvenmanni. Þegar hinar þrjár stöðurnar hafa verið mannaðar (karlmanni) verður því ekki lengur mögulegt fyrir karlmann í Samfylkingunni að hljóta stöðu sem ráðherra. Ingibjörg Sólrún er búin að ákveða hvers konar umsækjanda hún ætlar að ráða í starfið og útilokar alla aðra frá - fyrirfram og samviskulaust.

Aftur er ekkert út á þetta að setja. Ingibjörg Sólrún mun bera mikla ábyrgð á störfum þeirra sem hún velur í ráðherrastóla. Hún fær skellinn ef þeir gera á sig. Hún fær hrósið ef þeir standa sig vel. Ef hún telur að störf ráðherrateymis síns verði betur unnin þegar kynjahlutföllin innan þess eru jöfn þá hún um það. Ég spyr hana ekki út í grundvöll hennar eða ástæður. Ábyrgðin er hennar.

Margir hægrimenn munu gagnrýna Ingibjörgu fyrir að einblína á kynferði. Þeir um það. Margir vinstrimenn munu gagnrýna Geir H. Haarde fyrir að einblína á eitthvað annað en kynferði. Þeir um það. Ábyrgð flokksformannanna er mikil, en hún er fyrst og fremst sú að standa sig vel og velja til starfa fólk sem skilar af sér góðum verkum. Persónulega efast ég um ágæti þess að ráða út á tegund kynfæra, en það er bara mín skoðun og gaspur út í loftið því á endanum eru það aðrir sem fá skellinn ef óhæft fólk var valið í ráðherrastóla, á grundvelli kynferðis eða hvers sem er.


mbl.is Ingibjörg Sólrún: Skipting kynja í ráðherraembættum jöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér þykir þú einblína á kynferði. Hvað veistu nema Ingibjörg sé að tryggja að þegar búið er að skipa kvenfólk í þrjá ráðherrastöður er ljóst að hinar þrjár verði skipaðar karlmönnum?

hee (IP-tala skráð) 22.5.2007 kl. 14:55

2 identicon

Bíddu nú við - á sama hátt - þegar búið er að veita þremur konum ráðherrastóla verður ekki lengur mögulegt fyrir konu í Samfylkingunni að hljóta stöðu sem ráðherra. Ég skil ekki af hverju sá punktur kom ekki fram hjá þér? Er undirliggjandi hugsunin sú að eðlilegra sé að karlmenn sitji á ráðherrastóli en konur?

Lína (IP-tala skráð) 22.5.2007 kl. 14:59

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Lína: Mér fannst spegilmyndin bara svo augljós að mér fannst ekki taka því að nefna hana, en auðvitað hefur þú rétt fyrir þér að ef konurnar veljast fyrst þá lokast dyr á karlmenn.

Hildur: Ég bíð spenntur eftir að sjá það gerast, sérstaklega í ljósi þess að Ingibjörg hefur bara sagt að hún ætli að hafa "jöfn" kynjahlutföll og gefur í leið í skyn að viðræður við þingmenn um ráðherrastóla séu enn ekki hafnar.

Geir Ágústsson, 22.5.2007 kl. 15:04

4 identicon

Ég er ekki hrifin af þessum kynja kvótum. Þar sem þeir búa til misrétti milli fólks. Í opinberri stjórnsýslu. Sem er rekinn fyrir minn pening á ég heimtingu á því að hæfilekar fólks til að fara með þau störf sem í boði eru séu látnir ráða þegar manneskja er valinn í viðkomandi starf. En ekki kyn, kynhneigð, trú eða hvað annað sem menn tína til.

Það að setja upp kynjakvóta er bara til þess fallið að fólk fær ekki að njóta hæfileika sinna því það er ekki af réttu kyni. Við gætum t.d. hugsað okkur að í samfylkingunni séu 4 ákaflega hæfileikaríkar og færar konur sem vilja allar fá ráðherrastól (ég er viss um að þær eru fleyrri en fjórar). En það er því miður ekki hægt þar sem kvótinn er búinn og einhverjir karlmenn þurfa nú að komast að.

Einnig finnst mér að þessir kvótar séu settir fyrir konur eins og þær séu ekki næganlega klárar til að kokmast áfram sjálfar á sínum eigin verðleikum.  Ég held að þega til lengri tíma litið sé það ekki konum til framdráttar.

Hilmar (IP-tala skráð) 22.5.2007 kl. 15:11

5 identicon

Hilmar og Geir. Ég geri ráð fyrir því að þið séuð mjög svo á móti því að ákveðið hlutfall þingmanna eftir landshlutum er tryggt með lögum. Ef hæfustu (samkvæmt ykkar skilgreiningum) þingmannsefnin eru allir bornir og barnfæddir Reykvíkingar, þá finnst ykkur væntanlega í fínu lagi að þeir taki allar ákvarðanir, líka varðandi málefni byggðalaga sem þeir hafa jafnvel aldrei komið til?

Og ef svo vill til að hæfustu þingmanns- og ráðherraefnin (aftur samkvæmt ykkar skilgreiningum) eru allt konur, þá er ekkert því til fyrirstöðu að þær taki ákvarðanir um feðraorlof og forræðismál án þess að karlar komi þar nærri?

hee (IP-tala skráð) 22.5.2007 kl. 15:36

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Hildur, ef landið verður eitt kjördæmi (sem margir ímynda sér að sé vel raunhæft nú þegar Framsókn er út úr ríkisstjórn) og kosningar án lögþvingaðra kynjakvóta fari þannig að Alþingi fyllist af bornum og barnfæddum reykvískum konum, þá já á báða reikninga..

Eftir sem áður stendur að formaður Samfylkingar ætlar að hafa kynfæri í huga þegar hún skipar í ráðherrastóla, og það er bara allt í lagi því engin þvingandi lög neyða nokkurn mann, hvorki kjósanda né flokksbundinn Samfylkingarmann, til að lúta slíkri stjórnun (skiljist: alltaf hægt að kjósa einhvern annan flokk næst eða segja sig úr flokkum strax ef viðkomandi er ósáttur).

Geir Ágústsson, 22.5.2007 kl. 17:39

7 identicon

Ok Geir, ég get ekki annað en kallað þig einhvern mesta tæknikrata sem sögur fara af. Það væri gaman að sjá þig skilgreina í hverju hæfnin liggur til þess að stjórna þjóðfélagi. Vissulega er alltaf gerð krafa um vinnusemi og ákveðna þekkingu á sviði þjóðfélagsins, en svo hefur hingað til alltaf verið tekið tillit til þess að fólk hefur mismunandi hagsmuni, sýn og bakgrunn. Það er í raun með ólíkindum að Sjálfstæðismenn hreinlega gera í því að taka karla framyfir konur og hafa þá í meirihluta í stað þess að hafa kynjahlutföllin jöfn og sanngjörn.

En fyrst þú værir sáttur við það ef 63 konur hefðu bæði löggjafar- og framkvæmdarvald, þá sæirðu væntanlega ekkert athugavert við að þær tækju ýmiss konar ákvarðanir sem vörðuðu bara karla. Þú gætir þá bara beðið eftir því hvað þessar konur segðu og leyfðu upp á hvað þér væri uppálagt, til dæmis varðandi feðraorlof og forræði yfir börnum.

En þú hlýtur að geta skilið það að það taka sannarlega ekki allir karlar undir það sjónarmið þitt og að ég og aðrar konur myndum ekki vilja láta eintómum körlum í té vald til að ráða lögum um fóstureyðingar, dagvistunarmál, jafnréttislögum og svo framvegis. Alveg óháð þinni skilgreiningu á hæfni.

hee (IP-tala skráð) 23.5.2007 kl. 09:23

8 Smámynd: Geir Ágústsson

"Tæknikratinn" í mér neitar einfaldlega að plokka út vel valin einstaklingseinkenni og setja þau ofar öllum öðrum.

Fyrir utan að vilja að sem fæstar ákvarðanir sem varða mig séu teknar af öðrum en mér, áháð því hvaða hárlit, kynfæri eða menntun viðkomandi aðrir-en-ég hafa.

Geir Ágústsson, 23.5.2007 kl. 10:27

9 identicon

mér sýnist þú engu að síður alveg vera farinn að skilja.

 Enda neitar þú því varla að það þurfa að vera til einhver lög um forræðismál, fóstureyðingar, fæðingarorlof og svo framvegis. Hver svosem þín skoðun er á því hvernig lög séu réttlát.

hee (IP-tala skráð) 23.5.2007 kl. 10:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband