Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Frjálshyggjumenn sem láta verkin tala

"Erhvervsledere, som ikke går ud og blander sig i debatten nu, må have en plan klar om at flytte til udlandet."

Þetta sagði bankastjóri danska fjárfestingarbankans Saxo Bank, Kim Fournais, við Nyhedsavisen um daginn. Bankinn ákvað nýlega að styrkja nýjan danskan stjórnmálaflokk, Ny Alliance, um milljón danskar krónur til að aðstoða flokkinn við að breiða út boðskap flatrar skattprósentu í Danmörku og útrýma hinu eyðileggjandi þrepaskattkerfi sem er að valda hagkerfinu miklum vandræðum. 

Danir kljást við skort á vinnuafli og það er fyrirséð að með aukinni samkeppni vegna opnun heimsmarkaðarins mun Danmörk lenda í miklum vandræðum vegna dalandi samkeppnishæfni. Í Danmörku er að finna einn sveigjanlegasta vinnumarkað Vestur-Evrópu - hérna er nánast hægt að reka og ráða frá degi til dags - og af því leiðir gott atvinnuástand, og nú er svo komið að ekki er meira vinnuafl að fá og skattkerfið refsar grimmilega þegar einhver vogar sér að taka að sér meiri vinnu (sjálfur fæ ég t.d. bara um helminginn af tímakaupi minna yfirvinnutíma útborgaða).  Bankastjórar Saxo Bank hafa áttað sig á þessu og vilja nú blanda sér í pólitíska umræðu með fjárstyrkjum til þeirra sem eru líklegir til að komast í stöðu til að breyta ástandinu.

Þetta er til mikillar fyrirmyndar. Á Íslandi eru fjölmargir stjórnendur fyrirtækja sem vita að þeir fá ekki meira vinnuafl nema með ærnum tilkostnaði, og vita líka að ef vinstrimenn komast til valda þá muni skortur á vinnuafli ekki verða vandamál því fyrirtækjum þeirra verður refsað fyrir velgengni með hærri sköttum og fleiri viðskiptahöftum. Engu að síður ákveða þessir stjórnendur að halda kjafti því þeir óttast neikvæða athygli. Stoðtækjafyrirtækið Össur ákvað til dæmis að flytja framleiðslulínu til Íslands þegar skattar á hagnað fyrirtækja voru lækkaðir í 18%.  Ef skattarnir hækka aftur mun sá möguleiki ekki lengur vera til staðar og framleiðslan flyst aftur til útlanda (með tilheyrandi kostnaði og fyrirhöfn). Af hverju blanda stjórnendur fyrirtækisins sér þá ekki í umræðuna þegar hún snýst um að hækka skatta á fyrirtæki? Að hluta, auðvitað af því fyrir fyrirtækið er spurningin bara um að flytja framleiðsluna annað, en að hluta örugglega vegna þess að óttinn við neikvæða athygli vinstrimanna er mikill. 

Frelsi gagnast öllum, en þeir sem trúa á aukin völd ríkisins leiða það hjá sér. Stjórnendur fyrirtækja vita almennt að aukið frelsi og minnkandi ríkisvald mun veita svigrúm til aukins vaxtar, hærri gróða og fleiri viðskiptatækifæra. Engu að síður eru þeir þögulir í samfélagsumræðunni. Þetta eru mistök að mínu mati nema, eins og Kim Fournais sagði, stjórnendur fyrirtækja eru með tilbúna flóttaleið til útlanda við höndina.


Ósýnilega höndin þykknar

Ósýnilega höndin heldur áfram að þykkna:

Þensla og verðbólga eru afleiðingar ríkisafskipta.

Hvernig á að „skipta“ þjóðarkökunni?

Stæk andúð mín á vinstrimönnum, sér í lagi þeim háværustu í hinu íslenska vinstri, er vonandi augljós öllum í ofannefndum pistlum. Stundum nálgast ég það að vorkenna þeim fyrir hina einlægu andúð þeirra á öllu sem kallast frjálst og óþvingað en vorkunn fá þeir samt ekki frá mér. Þeir ættu einfaldlega að vita betur og uppskera þar með andúð í staðinn.


Óvænt eða ekki?

Það að öldungadeild Bandaríkjanna, þar sem Demókratar hafa nú meirihluta, hafnaði því að hætta fjárútlátum til Írak-stríðsins finnst mörgum sennilega vera óvænt tíðindi. Demókratar, sérstaklega þeir sem nú eru í kosningabaráttu innan flokksins til að verða forsetaútnefning hans til forsetakosninga í Bandaríkjunum, hafa haft hátt um áætlanir sínar um að "enda stríðið" í Írak. Hvað gera þeir svo þegar á hólminn er komið? Samþykkja fjármögnun á áframhaldi þess!

Þetta kemur eflaust sumum á óvart, en ekki mér. Þingmenn í kosningabaráttu og þingmenn sem hafa atkvæðisrétt á löggjafarsamkundum eru tveir ólíkir hópar. Fyrri hópurinn er að reyna komast til valda og lætur frá sér allt sem fellur vel að eyrum kjósenda. Síðari hópurinn ber ábyrgð og þarf að íhuga afleiðingar gjörða sinna.

Svipað dæmi má taka af stjórnmálamönnum í stjórnarandstöðu eða kosningabaráttu sem kalla á "tafarlausar aðgerðir" gegn útblæstri CO2 í andrúmsloftið. Þingmenn í stjórn haga sér öðruvísi en stjórnarandstaða og fólk í kosningabaráttu því þeir í stjórn þurfa að bera hitan og þungan af ákvarðanatökunni. Stórtækar aðgerðir gegn bruna jarðefnaeldsneytis er fata af sandi í bílvél á ferð. Hagvöxtur, atvinnutækifæri og almenn velferð almennings líður fyrir aðgerðir gegn orkunotkun, og stjórnmálamenn sem viljandi og meðvitað skaða hagvöxtinn fá ekki endurnýjað umboð til að stjórna. 

Annars mæli ég sterklega með því að Kaninn og bandamenn hans dragi sig út úr Írak hið fyrsta. Skattgreiðendur eiga ekki að þurfa borga fyrir lögreglu í öðrum löndum, og með skynsamlegum skrefum er vel hægt að koma erlendu herliði út úr landinu (helst þannig að ekki brjótist út borgarastyrjöld meðal stríðandi fylkinga íslam þar á bæ).


mbl.is Öldungadeild hafnaði tillögu um að hætta fjármögnun Íraksstríðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland vekur athygli umheimsins

Björk, hvalveiðar og hinn stórkostlegi forseti okkar eru ekki það eina sem vekur athygli umheimsins á því sem er íslenskt. Hagkerfi Íslands hefur náð athygli og vakið öfund vítt og breitt um heiminn. Á meðan hagvöxtur, allt að því ekkert atvinnuleysi og stanslaus og hröð bæting lífskjara er jafnvel talið til "vandamála" meðal þeirra sem þola ekki Sjálfstæðisflokkinn og hægrimenn, þá skrifa erlend stórblöð um Ísland með bæði undrun og aðdáun. 

"The economy of the small island in the North Atlantic has been growing rapidly since the Independence party liberalised the financial and housing sectors and opened the country to outside investment."

(Þeir sem vilja efasemdir um heilsu hins íslenska hagkerfis geta smellt á fréttina sem þessi orð eru tekin úr.) 

Vaxandi samkeppnishæfni íslenska hagkerfisins hefur einnig vakið athygli, og þótt Íslendingar séu svartsýnastir allra á ástand eigin heimalands.

Á næstu tveimur misserum eða svo, og að því gefnu að skattar haldist a.m.k. jafnháir og þeir eru í dag, fæðast yfir 1000 störf í fjármálageiranum á Íslandi, eða svo segir véfréttin okkur. Actavis verður hugsanlega keypt innan skamms enda er fyrirtækið búið að sýna æðisgenginn vöxt undanfarin ár. Marel og Össur sýna fá merki gjaldþrots, og íslenskur útvegur hefur ekki verið mikið nefndur í fjölmiðlum upp á síðkastið, sem er líklega til marks um að hann stendur ágætlega.

Neyðarástand íslensks landbúnaðar er viðvarandi. Deilur um ráðstöfun ríkisins á eigum sínum og orkufyrirtækjum fer fyrir brjóstið á mörgum. Loðdýrarækt og fiskeldi hafa ekki reynst vera vaxtarbroddar hins íslenska hagkerfis. Íslenskt heilbrigðiskerfi ber við fjársvelti um leið og það tekur við sívaxandi fjármunum hins opinbera á meðan það slæst við biðlista eftir brýnum aðgerðum.

Allt ber að sama brunni: Ef þú lætur markaðinn sjá um sig sjálfan, þá sér hann um að spjara sig og vel það. Það eina sem ríkið gerði "fyrir atvinnulífið" var að minnka afskipti sín af því. Ávextir þessa vaxandi iðjuleysis hins opinbera falla nú til jarðar sem aldrei fyrr, og þeir sem týna þá upp eru Íslendingar af öllu tagi.

Ísland er e.t.v. bara lítil eyja með mjög fáa íbúa. Engu að síður eru, á Íslandi, rekin tvö fullburða símfyrirtæki,  a.m.k. þrjú flutningafyrirtæki, þrír stórir viðskiptabankar, ógrynni sparisjóða, fjögur olíufélög, hellingur af tryggingafélögum og aragrúi smásöluverslana í misstórum keðjum. Hvernig er hægt að krefjast minnkandi frjálsræðis og hækkandi skatta þegar dekrið við hinn íslenska neytanda er svo mikið sem raunin er í dag?

Dekur sem getur bara aukist ef ríkið dregur sig enn frekar saman. 


Náttúruvernd og jöfnuður eiga samleið

Umhverfisvernd vinstrimanna felst í því að ríkið stjórni landi og gæðum og láti hvort tveggja í friði, auk þess sem orkuöflun með "óæskilegum" orkugjöfum er skattlögð ríkulega og heft með ýmsum hætti. Vinstrimenn berjast fyrir alþjóðalögum í formi Kyoto-samkomulagsins, takmörkunum á gas-, kola- og olíunotkun og sleppa aldrei tækifæri til að boða aukin afskipti af hinum frjálsa markaði í nafni umhverfisverndar.

Það er því ánægjulegt að sjá náttúruvernd (að hætti vinstrimanna) slegið saman við "jöfnuð" þegar vinstrimenn lýsa stefnumálum sínum. Staðreyndin er nefninlega sú að aðför að orkuöflun og takmarkanir á aðgengi ódýrustu og hagkvæmustu orkugjafanna jafngildir því að hella sandi í bílvél; hagkerfið hægir á sér þegar stækkun þess er gerð erfiðari. Þegar hægist á hagkerfinu þá dregst auðsköpun saman - færri ná að vinna sig upp og enn færri vinna sig mjög hátt upp. Þeir ríku hætta að verða ríkari eða verða það mun hægar, og þeir fátæku hætta að verða ríkari eða verða það mun hægar. Tekjumunur ríkra og fátækra dregst saman að meðaltali þegar klifrið upp á við þyngist, og jöfnuður eykst.

Náttúruvernd vinstrimanna á góða samleið með því markmiði að auka jöfnuð. Gallinn er sá að baráttan bætir ekki hag neins, en svoleiðis pjatt er í sjálfu sér ekki markmið vinstrimannanna. Hið mikilvægasta er að útjafna tekjur manna, en ekki auka.


Eins manns meirihluti stjórnar?

"Fréttamenn töldu einnig að afar erfitt yrði fyrir stjórnarflokkana að starfa með eins manns meirihluta. En ekkert því til fyrirstöðu að stjórnarandstöðuflokkarnir gerðu það, þegar sá möguleiki virtist opinn. Þó er mikill munur á eins manns meirihluta tveggja flokka og eins manns meirihluta þriggja flokka."

Þegar Vefþjóðviljinn hittir naglann á höfuðið þá rýkur hann alla leið í gegnum höfuðskelina! 

Ég held vitaskuld uppteknum hætti þegar kemur að skrifum mínum á Ósýnilegu höndina og bendi hér með á nýjasta innlegg mitt þar, Þegar græningjar vissu ennþá af einstaklingnum


Umorðun

Betra væri að umorða fréttina á eftirfarandi hátt:

"Framsóknarmenn hafa áhuga á að styðja við minnihlutastjórn vinstriflokkanna sem í staðinn tekur að sér að verja landbúnaðarkerfið og landsbyggðarpólitík Framsóknar (álver, virkjanir og gæluverkefni hins opinbera í sveitum landsins)."

Framsóknarflokkurinn fer nefninlega ekki ókeypis í stjórn og mun ekki styðja við minnihlutastjórn án síns hefðbundna kröfulista. Sjálfstæðismenn hafa fengið að kynnast því vel í gegnum tíðina hvað kostar að halda Framsókn ánægðri.


mbl.is Hafa áhuga á myndun minnihlutastjórnar í skjóli Framsóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samflot með Samfylkingu: Snjall leikur fyrir Sjálfstæðismenn?

Stórvinur minn, sem kýs að kalla sig stjórnmálaspekúlant í heimildaskránni, varpaði fram eftirfarandi kenningu (eða ráðleggingu fyrir Sjallana) sem mér finnst sjálfsagt að koma áleiðis, því hún er ekki svo galin!

  1. Mynda stjórn með S
  2. S geldur fyrir það á sama hátt og framsókn
  3. S+D keyra það í gegn á tveimur þingum að gera allt landið að einu kjördæmi
  4. Hinn þegar deyjandi B deyr ENDANLEGA við það
  5. D MOKAR upp hægrifylgi frá B, S er veik
  6. D fær 45% í næstu kosningum þar á eftir og allir (þar) sáttir

 Nr. 2 leysir sig sjálft, því Samfylkingin nýtur einskis trausts og getur bara skaðað sjálfa sig með því að komast í áhrifastöður. Bónus-afleiðingar af þessu stjórnarsamstarfi gætu svo orðið: Aukinn einkarekstur í heilbrigðis- og menntakerfi (Samfylking hefur ekki lýst sig andsnúna því), uppstokkun landbúnaðarkerfisins og aukin fríverslun, sérstaklega við Evrópusambandið. 

Sjáum hvað setur. 


Ná Sjálfstæðismenn og Samfylking saman?

Mikið var nú gott að sjá Sjálfstæðisflokkinn bæta við sig. Örlítið meira fylgi til hans og örlítið fleiri dauð atkvæði og hann hefði sennilega átt möguleika á hreinum meirihluta, en svo gott varð það því miður ekki.

Ég er minnst ósáttur við Sjálfstæðisflokkinn af öllum flokkum. Þess vegna er gott að sjá að hann mun næstum því örugglega vera með í næstu ríkisstjórn. Ég er hins vegar mjög ósáttur við Framsóknarflokkinn. Stjórnin hélt velli, en nú er meirihlutinn bara upp á einn mann. Þegar um flokk eins og Framsókn er að ræða, þar sem menn skipta oft um skoðun, fara í fýlu og láta kjánalega þá er það ekki sérstaklega gott fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Ég væri til í stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Því miður er sá möguleiki frekar daufur, m.a. af eftirfarandi ástæðum:

  • Ingibjörg Sólrún þolir ekki Sjálfstæðisflokkinn og Sjálfstæðismenn þola hana ekki. Hún yrði því afar erfið í stjórnarmyndunarviðræðum.
  • Stór hluti af þingflokki Samfylkingar eru gamlar kempur úr A-flokkunum og eldrauðir inn við beinið. Þessir einstaklingar (fyrst og fremst karlmenn) munu ekki ráða við að stjórna ráðuneytum og vera seinir til að kjósa með skattalækkunum og einkavæðingum. Í besta falli væri hægt að fá þá til að sitja hjá þegar mikið liggur við í frjálsræðisbaráttunni.
  • Hægri-kratarnir eru kúgaður hópur í Samfylkingunni. Þeir Samfylkingarmenn sem kusu með álverum og orkuverum og skattalækkunum á sínum tíma hafa verið bundnir niður með reipum pólitísks rétttrúnaðar og því ólíklegir til að styðja frekari skattalækkanir og einkavæðingar (og hvað þá orkuframkvæmdir) nema með valdi (eða með gylliboðum um að fá völd).

Málefnalega eru Framsókn og Samfylking ekki mjög fjarri hvor öðrum (ef landbúnaðarstefnan er undanskilin), og sennilega gætu Sjálfstæðismenn alveg stjórnað Samfylkingunni með vel völdum ráðherrastólum ef út í það er farið. Gallinn er sá að þingflokkur Samfylkingarinnar samanstendur meira og minna af gömlum kommúnistum og sósíalistum og margir eru svarnir andstæðingar Sjálfstæðisflokksins til margra ára.

Samfylkingunni vantar sennilega kynslóðaskipti til að verða samstarfsfær fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Því miður.


Nýr speni á ríkisgyltunni fæðist

Svo virðist sem nýr speni á ríkisgyltunni sé fæddur eða oxinn út. Af gömlum spenum má nefna:

  • Almenn fáfræði Íslendinga þegar kemur að vali á miðakaupum á lista- og menningarviðburði.
  • Almenn fáfræði Íslendinga þegar kemur að því að kunna meta íslenskar landbúnaðarafurðir.
  • Óvitaskapur Íslendinga í lagningu vega, smíði brúa og borun jarðganga.
  • Getuleysi Íslendinga til að útvega peninga til menntunar og heilbrigðisþjónustu án milliliðsins Ríkisins sem sér um að útvega peningana frá hinum getulausu (og í leiðinni segja þeim að einhver annar sé að borga meira).

Nýr speni á ríkisgyltunni hefur vaxið út, a.m.k. fyrir grísina Stór Ríkisfyrirtæki. Speni sá er að ætla sér að komast "í hóp þeirra X" t.d. "stærstu" eða "bestu". Fréttin sem hnýtist við þessa færslu er annað dæmið af tveimur stórum um ágang á þennan spena. Hitt er Háskóli Íslands, sem ætlar sér ekki að komast upp í hóp 500 bestu háskóla heims, heldur þeirra 100 bestu! Þetta er ekki lítill metnaður! Metnaður sem er í engum tengslum við raunveruleikann. Metnaður sem hefur eitt og aðeins eitt markmið: Að ná til sín meira fé úr vösum landsmanna án þess að spurja landsmenn eða bíða eftir samþykki þeirra.

Nýr speni á ríkisgyltunni hefur fæðst. Sá speni er dulbúinn sem metnaður en er í raun ekkert annað en gamla góða harmkvæl ríkisstofnunar í leit að auknu fé úr sjóðum ríkisins, enda vonlaust að ætla sér að neytendur, skjólstæðingar og viðskiptavinir séu tilbúnir til að fjármagna þvæluna! 


mbl.is LSH komist í hóp fimm bestu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband