Ísland vekur athygli umheimsins

Björk, hvalveiðar og hinn stórkostlegi forseti okkar eru ekki það eina sem vekur athygli umheimsins á því sem er íslenskt. Hagkerfi Íslands hefur náð athygli og vakið öfund vítt og breitt um heiminn. Á meðan hagvöxtur, allt að því ekkert atvinnuleysi og stanslaus og hröð bæting lífskjara er jafnvel talið til "vandamála" meðal þeirra sem þola ekki Sjálfstæðisflokkinn og hægrimenn, þá skrifa erlend stórblöð um Ísland með bæði undrun og aðdáun. 

"The economy of the small island in the North Atlantic has been growing rapidly since the Independence party liberalised the financial and housing sectors and opened the country to outside investment."

(Þeir sem vilja efasemdir um heilsu hins íslenska hagkerfis geta smellt á fréttina sem þessi orð eru tekin úr.) 

Vaxandi samkeppnishæfni íslenska hagkerfisins hefur einnig vakið athygli, og þótt Íslendingar séu svartsýnastir allra á ástand eigin heimalands.

Á næstu tveimur misserum eða svo, og að því gefnu að skattar haldist a.m.k. jafnháir og þeir eru í dag, fæðast yfir 1000 störf í fjármálageiranum á Íslandi, eða svo segir véfréttin okkur. Actavis verður hugsanlega keypt innan skamms enda er fyrirtækið búið að sýna æðisgenginn vöxt undanfarin ár. Marel og Össur sýna fá merki gjaldþrots, og íslenskur útvegur hefur ekki verið mikið nefndur í fjölmiðlum upp á síðkastið, sem er líklega til marks um að hann stendur ágætlega.

Neyðarástand íslensks landbúnaðar er viðvarandi. Deilur um ráðstöfun ríkisins á eigum sínum og orkufyrirtækjum fer fyrir brjóstið á mörgum. Loðdýrarækt og fiskeldi hafa ekki reynst vera vaxtarbroddar hins íslenska hagkerfis. Íslenskt heilbrigðiskerfi ber við fjársvelti um leið og það tekur við sívaxandi fjármunum hins opinbera á meðan það slæst við biðlista eftir brýnum aðgerðum.

Allt ber að sama brunni: Ef þú lætur markaðinn sjá um sig sjálfan, þá sér hann um að spjara sig og vel það. Það eina sem ríkið gerði "fyrir atvinnulífið" var að minnka afskipti sín af því. Ávextir þessa vaxandi iðjuleysis hins opinbera falla nú til jarðar sem aldrei fyrr, og þeir sem týna þá upp eru Íslendingar af öllu tagi.

Ísland er e.t.v. bara lítil eyja með mjög fáa íbúa. Engu að síður eru, á Íslandi, rekin tvö fullburða símfyrirtæki,  a.m.k. þrjú flutningafyrirtæki, þrír stórir viðskiptabankar, ógrynni sparisjóða, fjögur olíufélög, hellingur af tryggingafélögum og aragrúi smásöluverslana í misstórum keðjum. Hvernig er hægt að krefjast minnkandi frjálsræðis og hækkandi skatta þegar dekrið við hinn íslenska neytanda er svo mikið sem raunin er í dag?

Dekur sem getur bara aukist ef ríkið dregur sig enn frekar saman. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband