Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Snýr Skattmann aftur í dag?

Í áramótaskaupinu 1989 var atriði sem margir muna eftir enn þann dag í dag. Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi fjármálaráðherra, birtist þar áhorfendum í hlutverki Skattmanns, klæddur í búning Leðurblökumannsins (Batman) og söng um skattlagningu sína á meðan hann lokaði fyrirtækjum, rændi veski af ekkju og innsiglaði vinnuvél.

Á þessum árum var vinstristjórn við völd á Íslandi undir forystu Framsóknarflokksins. Hún var dæmigerð vinstristjórn skattahækkana og óráðsíu í fjármálastjórn hins opinbera, svipuð þeirri sem nýverið lét af völdum í Reykjavík. Sjálfur Skattmann hafði verið duglegur við að „skattleggja alla, konur og kalla“ og orðinn frægur fyrir. Hlutverk hans sem fjárhirðir ríkisins var ekki öfundsvert, enda erfitt að kreista fé út úr hagkerfi í niðursveiflu. Hann gerði samt sitt besta.

Nú eru 16 ár liðin síðan Sjálfstæðisflokkurinn tók við forystuhlutverki sínu í ríkisstjórn á Íslandi. Langlífasta góðæri í sögu íslenska lýðveldsisins hófst skömmu síðar og varir enn. Nú er svo komið að margir hafa vanist því, álíta það sem sjálfsagðan hlut og finnst jafnvel nóg um! Þar af leiðandi eru sumir byrjaðir að hugleiða vinstristjórn sem getur hægt á hjólum hagkerfisins og skapað neyðarástand fyrri tíma.

Hið íslenska vinstri nú á dögum er í engum aðalatriðum frábrugðið því sem leiddi til fæðingar Skattmanns í skaupinu 1989. Ef Íslendingar vilja breyta til er þeim í lófa lagt að krefjast þess að skattalækkanir og einkavæðingar hins opinbera gangi enn hraðar fyrir sig. Þannig fá allir, bæði launþegar og hið opinbera, meira fé til ráðstöfunar. Eitt er ljóst: Áramótaskaupið er ekki orðið það leiðinlegt að við þurfum að umbylta öllu þjóðfélaginu til að skapa góðan efnivið í það næsta!

Ólafur Ragnar Grímsson er e.t.v. fluttur á Bessastaði, en hið íslenska vinstri mun ekki eiga í neinum vandræðum með að fylla stöðu Skattmanns, fái það kost á því. Ég vona að íslenskir kjósendur búi yfir nægilegri skynsemi til að koma í veg fyrir það.

Þessa grein, auk fleira góðgætis, er einnig að finna á Ósýnilegu höndinni. 


Svarti markaðurinn stendur fyrir sínu

Þegar ríkið falsar verð á varningi eða þjónustu, t.d. með sköttum, tollum og ýmsum höftum á viðskipti með varninginn, þá kemur svarti markaðurinn oftar en ekki til bjargar. Í Danmörku, þar sem ég bý, sér svarti markaðurinn fólki fyrir gosi, nammi og bjór sem heiðvirðir búðareigendur neyðast til að selja á himinháu verði vegna skatta og opinberra gjalda. Á Íslandi er gos og nammi tiltölulega ódýrt, en áfengi og sígarettur, svo ekki sé talað um fíkniefni, rándýrt. Svarti markaðurinn sprettur upp þegar eftirspurn er til staðar en verðlag er falsað - upp á við!

Þessu er öfugt farið þegar verð er falsað niður á við, t.d. í mennta- og heilbrigðiskerfinu þar sem þjónustan er að mestu gjaldfrjáls fyrir notendur (a.m.k. langt undir markaðsverði). Andstæða svarta markaðarins eru biðlistar. Þegar verðlag er falsað niður á við myndast eftirspurn sem er ekki hægt að sinna.

Millivegurinn er svo markaður þar sem verð helst í hendur við framboð og eftirspurn. Sé meiri eftirspurn en framboð þá hækkar verð sem aftur minnkar eftirspurn og jafnvægi næst. Þegar framboð er meira en eftirspurn lækkar verð, framboð eykst og jafnvægi næst. Jafnvægið "næst" að vísu ekki því framboð og eftirspurn er alltaf á fleygiferð í takt við breyttar venjur, mismunandi þörf fyrir eitthvað á mismunandi tíma og innkomu eða brottfall veitenda og seljenda.  Leitnin er samt alltaf í jafnvægi þar sem allir sem vilja fá, og það sem er ekki eftirspurn eftir síast út af markaði.

Íbúar Sovétríkjanna héldu sér á floti á hinum svarta markaði í umhverfi alræðis ríkisins og opinberra afskipta af verðlagi á öllu. Í smækkaðri mynd gilda sömu lögmál alltaf og alls staðar.


mbl.is Smyglvarningur á Grundartanga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver lofar skattahækkunum í kosningabaráttu?

Hér er sniðug grein eftir fyrrum ritstýru Vefþjóðviljans, Sigríði Andersen, þar sem meðal annars segir: 

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri var spurð út í þessar skattahækkanir [R-listans í Reykjavík] í sjónvarpsfréttum og svaraði fréttamanni með annarri spurningu: „Þekkir þú einhver dæmi þess, að þeir sem eru að bjóða sig fram til kosninga lofi skattahækkunum?"

Ef undan eru skildir Vinstri-grænir þá hittir Ingibjörg naglann gjörsamlega á höfuðið hérna. Hver lofar skattahækkunum í kosningabaráttu? 

Við skulum samt ekki velkjast í vafa um það sem bíður Íslendinga ef vinstrimenn ná völdum á Íslandi. Það skiptir í raun engu máli hvað stjórnarandstaðan segir, því verkin tala, og verk vinstrimanna í Reykjavík eru þar hrópandi skýr og ekki til að mistúlka. Verk vinstrimanna á Alþingi eru ekki síðri vísbending um það sem koma skal, ef vinstrimenn ná völdum: Þeir kjósa þar samviskusamlega gegn nær öllum skattalækkunum (eða sitja hjá), og með herkjum með þeim örfáu sem teljast ekki tæknilega gallaðar, rangt tímasettar eða beint að vitlausum hópum (t.d. þótti niðurfelling eignaskattsins, sem aldraðir í eigin húsnæði hafa hagnast mikið á, ekki henta rétta fólkinu að mati vinstrimanna).

Atkvæði til vinstrimanna er æpandi og blikkandi ljósaskilti sem á er letrað: Hækkaðu skattana á mig og mína, kæri stjórnmálamaður, og takmarkaðu fjárráð mín yfir uppskeru míns eigin brauðstrits, því ég hef ekki vit á því að styðja við góð mál milliliða- og þvingunarlaust! 

Nema viðkomandi haldi að það séu einhverjir aðrir sem muni blæða í hagkerfi og samfélagi hækkandi skatta? Think again! 


Er VG þversagnakenndasti flokkur Íslands?

Má til með að benda á reiðipistil sem fjallar um þversagnakenndar kosningalofræður Vinstri-grænna, a.m.k. nokkura af helstu spámönnum þeirra.

Menn hafa verið að verja sinnaskipti ýmissa vinstrimanna á seinustu árum, t.d. þegar kemur að frjálsu útvarpi og afnámi banns við bjórsölu á Íslandi. Auðvitað hafa stjórnmálamenn og aðrir "leyfi" til að skipta um skoðun. Ég vona bara að Steingrímur J. og félagar geri það aðeins oftar en margir aðrir! Ef Steingrímur J. þykir bjórinn góður (betri í dag en í gær) þá er honum í lófa lagt að hætta að leggjast gegn því að bæta aðgengi sitt og allra annarra að honum. Meiri sinnaskipti bið ég ekki um, en þó einhver. Ef Steingrímur J. í dag er hrifnari af bruggun bjórs en virkjun fallvatna (ólíkt því sem gilti þegar Steingrímur kaus gegn bjórsölu og með virkjunarframkvæmdum í efrihluta Þjórsár) þá lái ég honum það í sjálfu sér ekki. Sinnaskipti eru ekki alslæm.

Ég hef verið vændur um að "styðja" ríkisframkvæmdirnar við Kárahnjúka af því ég hef nú póstlagt atkvæðaseðil sem á stendur listabókstafurinn D. Slíkan stuðning er ekki að finna hjá mér. Margir hafa áhyggjur af ástandi umhverfismála ef Sjálfstæðismenn halda völdum á Íslandi. Ég skil áhyggjur allra sem hafa áhyggjur af stjórn og yfirráðum stjórnmálamanna yfir einhverju. Gildir það bæði um Elliðaárnar (hvers árbakka ég lék mér á þegar ég var að vaxa úr grasi í Árbænum) og heilbrigðiskerfið, svo eitthvað sé nefnt. Þess vegna er ég einarður stuðningsmaður þess að fjarlægja sem mest af völdum stjórnmálamanna á sem flestum sviðum (raunar öllum, en það er önnur saga).

Í kaldhæðni íslenskra stjórnmála þýðir það að ég kýs stjórnmálaflokkinn sem er valdamestur allra á Íslandi í dag. Ástæðan er sú að hann er sá eini sem leggur þunga í einkavæðingar og skattalækkanir og þarf að múta samstarfsflokkum sínum með bitlingum til að fá atkvæði til slíkra mála.


Það sem er EKKI kosið um

Á laugardaginn verður kosið um ýmislegt og auðvitað er aðaláherslan mismunandi milli kjósenda. Sumir vilja t.d. halda áfram að njóta skattalækkana, en aðrir hafa meira áhuga á skattahækkunum (settar fram í formi útgjaldatillaga fyrir ríkisvaldið). Það sem er ekki kosið um er ansi uppörvandi listi, sem gæti e.t.v. litið svona út:

  • Atvinnuleysi.
  • Skuldir ríkissjóðs.
  • Dræmt útlit í efnahagsmálum.
  • Rekstrarvandræði t.d. sjávarútvegs og annarra atvinnugreina.
  • Samdrátt í tekjum heimila.
  • Hækkandi skatta.
  • Fjölgun skatta. 
  • Samdrátt í þeirri þjónustu sem ríkið krefst þess að viðhalda einokun sinni á.
  • Fækkun nemenda á framhalds- og háskólastigi.
  • Dræmt og hrörnandi úrval vöru og þjónustu.
  • Samdrátt kaupmáttar almennings og þá sérstaklega  þeirra tekjulægstu.
  • Samdrátt á kaupmætti bóta- og ellilífeyrisþega.
  • Staðnaðan hlutabréfamarkað.
  • Versnandi samkeppnisstöðu Íslands.

Svona má eflaust halda áfram lengi. Þess í stað er, að mati margra, kosið um eftirfarandi atriði:

  • Meiri innflutningsútgjöld en útflutningstekjur allra Íslendinga (vöruskiptahalli).
  • Meiri fjárfestingar Íslendinga erlendis en útlendinga innlendis (viðskiptahalli).
  • Tannheilsu barna (sem versnaði skyndilega þegar ný og fullkomnari tækni var tekin í notkun til að finna skemmdir).
  • Hvernig tekjur sumra hafa hækkað hraðar en annarra.
  • Misræmi í hlutfalli kynfæra í þægilegum skrifstofustörfum hjá ríki og einkafyrirtækjum.
  • Ráðstöfun ríkisvaldsins á landi sínu og fyrirtækjum, t.d. að láta ríkisorkufyrirtækin virkja á landi sem ríkið gaf sjálfu sér.
  • Ekki nægilega hraða aukningu á fjármunum til skóla og spítala.
  • Jónínu Bjartmarz.
  • Ekki nægilega hraðar skattalækkanir á tekjur og varning til að koma í veg fyrir að hækkun launa og aukin sala á hásköttuðum varning leiði til hækkandi skattbyrði.
  • Stýrivexti og tímabundin verðbólguskot.

Uppáhaldið mitt á þessum lista eru tveir síðustu punktarnir. Skattar eiga að sjálfsögðu að lækka svo hratt að aukin velta og breyttar neysluvenjur leiði ekki til hækkandi reiknaðrar skattbyrðar eða aukinnar innheimtu ríkisins í krónum talið. Ríkið á einnig að koma sér af gjaldmiðlamarkaðinum, leggja niður Seðlabankann og einkavæða krónuna svo þessar eilífu upp- og niðursveiflur gengis geti heyrt sögunni til.

Á heildina litið samt frekar óspennandi kosningar því öll gömlu klassísku krísumálin eru orðin að mikilli leit að kosningamálsnál í góðærisheystakk. 


Meira um hagvöxt og losun koltvísýrings

Gapminder er stórskemmtilegt verkfæri. Þeir sem vilja fræðast meira um það er bent á þennan mjög svo fróðlega og athyglisverða fyrirlestur eftir einn af höfundum Gapminder (fyrirlestur sem ber hið kitlandi nafn, "Debunking third-world myths with the best stats you’ve ever seen").

Hagvoxtur_vs_CO2_2  Á myndinni hér til vinstri sést þróun á losun koltvísýrings á íbúa í nokkrum löndum á seinustu 30 árum borin saman við tekjur á íbúa þessara landa. Tölfræði af þessu tagi getur verið varasöm til að draga of stórtækar ályktanir af, sérstaklega í ljósi þess hversu skammt aftur í tímann hún nær. Hins vegar er gaman að spá í spilin, og sérstaklega þegar þau spil sýna ekki sömu mynd og samfélagsumræðan.

Bandaríkin: Nokkuð stöðug losun koltvísýrings á íbúa seinustu 20 ár (eftir umtalsverða minnkun á árum sem sennilega tengjast olíukreppunni miklu á 7. áratugnum). Bandaríkin hafa búið við mun töluverðan hagvöxt og stöðuga fólksfjölgun á þessum árum, ólíkt því sem víða gengur og gerist í Vestur-Evrópu.  

Kanada: Svipuð þróun og hefur átt sér stað í Bandaríkjunum, þó með töluvert hægari vexti í tekjum á íbúa.

Frakkland: Minnir um margt á þróunina í Bandaríkjunum, nema hvað losun á íbúa hefur minnkað hraðar og tekjur á íbúa vaxa mun hægar.

Danmörk: Stingur svolítið í stúf í þessu úrtaki, því hér virðist fara saman stöðug aukning í tekjum á íbúa (í takt við eða ívið meira en í Kanada, þó sjáanlega hægar en í Bandaríkjunum), en mikil minnkun í losun, sérstaklega á seinustu 10 árum. Danir, ólíkt Frökkum, hafa ekki eytt sínum útblæstri með því að reisa kjarnorkuver, en vaxandi orkuþörf hefur að hluta verið mætt með vindmyllum og að hluta með aðkeyptri orku frá austri.

Kína: Kína fylgir hefðbundnu munstri lands sem er að rífa sig upp úr fátækt og iðnvæðast af miklum krafti. Ódýr orka í formi kola og olíu er notuð til að skjóta landinu inn í aukna velmegun, og líklegt að sú þróun haldi áfram enn um sinn (nema hagvextinum verði fórnað til að minnka losun).

Ég leyfi mér auðvitað að túlka ýmislegt hérna frjálslega, og játa að ég hef mismikla þekkingu á hagsögu hinna ýmsu ríkja. Þó ætla ég að fullyrða að margt af því sem tölfræði Gapminder inniheldur er á skjön við þá mynd sem almenningur fær frá fjölmiðlum. Til dæmis kom mér flatur vöxtur á útblæstri á mann í Bandaríkjunum svolítið á óvart, sérstaklega ef haft er í huga að auðsköpun þar á sér stað af miklum krafti og mun meiri krafti en t.d. í Danmörku, sem þó hefur verið hvað best statt allra Vestur-Evrópuríkja á seinustu áratugum (Danir þéna nú u.þ.b. 75% af því sem Bandaríkjamenn gera, miðað við um 90% árið 1975).


Skiljanlegt hik almennings

Almenningur er eðlilega hikandi þegar kemur að því að taka frumkvæði til að minnka losun koltvísýrings. Flestir eiga bíl sem tvímælalaust er þarfasti þjónn nútímamannsins. Flestir kaupa matvæli í góðum umbúðum því þannig matvæli enda síðar óétin og rotnuð í ruslinu. Vesturlandabúar búa við góð lífskjör og vilja síður kasta þeim á borð veðurspáa og tölvulíkana. Hundruð milljóna manna eru að kola- og olíubrenna sig upp á stig góðra lífskjara og sakna fátæktarinnar ekki nóg til að vilja snúa því ferli við.

Hvernig stendur þá á því að margir segja að við verðum að "gera eitthvað" til að sporna við losun koltvísýrings? Af hverju þetta misræmi á kröfum í orði og gjörðum í verki? Almenningur hinna ríku landa telur sennilega að það sé hægt að gera "eitthvað", en bara á vettvangi stjórnmálanna. Sumir halda sennilega að ríkisstjórnir heims sitji á hinni leyndardómsfullu tækni sem gerir mannkyni kleift að halda í hin góðu lífskjör þótt orkunotkun sé minnkuð með valdboði. Aðrir halda að aðgerðir hvers og eins muni ekki "duga" til að "hafa áhrif" á núverandi uppsveiflu í bæði fjölda sólbletta og hækkun hitastigs sem á sér stað víða um heim.

Gamla góða slagorð græningja, "act local, think global", er dáið. Núna er það orðið að, "act global, or not at all".

Niðurstaðan er því sú að enginn gerir neitt í neinu, en allir tala um nauðsyn þess að gera allt í einu - með valdboði!


Skiljanlegt hik ríkjandi stjórnvalda

Ríkjandi stjórnvöld í löndum heims eru skiljanlega hikandi við að gera eitthvað til að "sporna við losun" á koltvísýringi vegna bruna jarðefnaeldsneytis. Ástæðan er sú að ódýr orka er nauðsynleg til að skapa hagvöxt og orka sem fæst með notkun annarra orkugjafa en olíu, kola og gass er víðast hvar dýr. Þetta vita allir, en það eru bara ríkjandi stjórnvöld sem fá refsingu kjósenda þegar hagvöxturinn hefur verið kæfður eða hann minnkaður. Stjórnarandstaða hvers lands á mun auðveldar með að "krefjast aðgerða". Hið sama gildir um samtök sem standa utan við kosningaslagi lýðræðisríkjanna.

Hagvoxtur_vs_CO2 Á myndinni hér til vinstri (heimild) sést (t.d. með því að smella á myndina til að stækka hana) samband tekna á íbúa og losunar hvers íbúa á CO2 í langflestum löndum heims. Stærð punktanna þýðir íbúafjöldi í hverju landi. Þetta er samband sem hefur gilt í a.m.k. 25 ár og Ísland með sín fallvötn og jarðgufu virðist ekki vera nein undantekning á reglunni.

Ef menn vilja stöðva losun á CO2 þá er afleiðingin mjög sennilega sú að auðsköpun stöðvast. Allavega yrði mjög erfitt fyrir nokkurn mann að halda öðru fram þegar gögnin eru til staðar og myndin sem þau gefa svo hrópandi skýr. 

Auðvitað er alltaf að koma fram ný tækni, og auðvitað mun markaðsöflunum á endanum takast að finna upp tækni sem skiptir skítugri og vandmeðfarinni olíu út fyrir eitthvað meðfærilegra. Kannski mun takast að búa til hagkvæmar eldsneytissellur sem byggja á vetnistækni. Kannski mun nýting sólarorkunnar einn daginn verða hagkvæm fyrir aðra en ríka Vesturlandabúa. En þangað til sá dagur rennur upp er ekki skynsamlegt að fórna velferð mannkyns á bál ofstækis í orkumálum.

Ísland fyrir 1000 árum var skógi vaxið frá fjalli til fjöru, korn var ræktað og geitur og uxar voru hluti af húsdýraflóru bænda. Blómaskeið ríkti víða í Evrópu. 500 árum síðar kólnaði, fólki fækkaði og hinar "myrku miðaldir" tóku við. Núna er aftur byrjað að hlýna. Af hverju er þá heimurinn skyndilega að farast? 


mbl.is Ban Ki-moon hvetur til stefnumótunar í loftslagsmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fylgir öllu gamni alvara?

Ekki eru þær sérstaklega vinalegar kveðjurnar sem ég fæ í kjölfar örlítilla skrifa minna á Ósýnilegu höndina, þar sem ég óska Íslendingum til hamingju með að geta haldið frídag 1. maí til að hitta mann og annan og njóta ávaxta kapítalismans. Hildur Edda Einarsdóttir gengur manna (og kvenna) lengst: "Vill ekki einhver gera okkur öllum þann stóra greiða að skjóta alla frjálshyggjumenn?"

Auðvitað meinar stúlkan þetta ekki bókstaflega (geri ég ráð fyrir), en hið dapurlega er samt að nákvæmlega þetta viðhorf ríkir ennþá hjá rauðliðum (ekki bara á Íslandi) þótt draumur alræðisríkisins sé nú að martröð (m.a. með falli Járntjaldsins). Í Danmörku og Þýskalandi ganga rauðliðar um með kyndla og kveikja í og ráðast á eignir, fólk og lögreglu. Á Kúbu og í Norður-Kóreu eru andstæðingar hins pólitískt viðtekna skotnir, pyntaðir eða sviptir öllu frelsi. Í Sovétríkjunum sálugu földu menn skoðanir sínar ef þær voru of frjálslyndar að mati yfirvalda, einfaldlega vegna þess að annars yrði Hildum þess tíma að ósk sinni!

Hvernig stendur á því að gagnrýni á þrúgandi ríkisvaldið og lepphunda þess (verkalýðsfélög meðal annars) er svona óvinsæl í eyrum vinstrimanna? Þykir þeim sárt að vita til þess að án hins frjálsa markaðar (frjáls = frjáls frá ríkinu) væri lítið um það sem við köllum lífsgæði, frítími og ráðrúm til að sitja heima í góðum stól og nota háþróaða tölvutækni til að skrifa um aftökur á frjálshyggjumönnum?

Hildur böðull bendir samt réttilega á að frjálshyggjumenn eru ekki hrifnir af því að ríkisvaldið afvopni almenning og einoki möguleikann á að verja eignir og einstaklinga fyrir árásum og ofbeldi. Þeir sem vilja kynna sér þetta viðhorf ættu að skella sér hingað. Þeir sem vilja ekki kynna sér þetta viðhorf geta látið sér íslenska dægurmálaumræðu og Hildir hennar nægja.

Já og úr því ég er staddur á hinni ágætu vefsíðu, Mises.org, er e.t.v. rétt að endurtaka lokaorðin úr ágætri grein þar um 1. maí ("Why Not Capital Day?"):

We are blessed to live in this time and place, since the American Dream is truly within reach. Of course, the dream itself is as far away as it has always been. It's just that the expansion of capital allows us to get there faster and easier than ever before. It's time we ended this misnamed celebration of labor day, and recognized what it is that truly makes our life easier: capital.

Happy Capital Day! 


Galli samkeppnislaga í hnotskurn

"Forsvarsmenn Atlantsolíu segja gömlu olíufélögin gera atlögu að fyrirtækinu með því að lækka verð næst bensínstöðvum fyrirtækisins á meðan landsbyggðin er látin greiða hærra verð. Forráðamenn Atlantsolíu hafa falið lögmönnum sínum að skoða réttarstöðu sína vegna þeirrar stöðu sem fyrirtækið hefur búið við undanfarið, að því er segir í tilkynningu."

Hér birtist okkur klassískt dæmi um áhrif samkeppnislaga: Fyrirtæki byrja að beita þeim gegn keppinautum sínum sem í raun eru ekki að gera annað en standa í samkeppnisrektri, þ.e. að reyna draga viðskiptavini frá samkeppnisaðila og til sín. Þar sem enginn er keppinauturinn gera þau ekki hið sama, þ.e. standa í samkeppnisrekstri. Hvað er skrýtið og óeðlilegt við það, og hvað kemur það löggjafanum við hvað hver rukkar fyrir hvað og hvar?


mbl.is Atlantsolía sakar gömlu olíufélögin um að gera atlögu að fyrirtækinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband