Meira um hagvöxt og losun koltvísýrings

Gapminder er stórskemmtilegt verkfæri. Þeir sem vilja fræðast meira um það er bent á þennan mjög svo fróðlega og athyglisverða fyrirlestur eftir einn af höfundum Gapminder (fyrirlestur sem ber hið kitlandi nafn, "Debunking third-world myths with the best stats you’ve ever seen").

Hagvoxtur_vs_CO2_2  Á myndinni hér til vinstri sést þróun á losun koltvísýrings á íbúa í nokkrum löndum á seinustu 30 árum borin saman við tekjur á íbúa þessara landa. Tölfræði af þessu tagi getur verið varasöm til að draga of stórtækar ályktanir af, sérstaklega í ljósi þess hversu skammt aftur í tímann hún nær. Hins vegar er gaman að spá í spilin, og sérstaklega þegar þau spil sýna ekki sömu mynd og samfélagsumræðan.

Bandaríkin: Nokkuð stöðug losun koltvísýrings á íbúa seinustu 20 ár (eftir umtalsverða minnkun á árum sem sennilega tengjast olíukreppunni miklu á 7. áratugnum). Bandaríkin hafa búið við mun töluverðan hagvöxt og stöðuga fólksfjölgun á þessum árum, ólíkt því sem víða gengur og gerist í Vestur-Evrópu.  

Kanada: Svipuð þróun og hefur átt sér stað í Bandaríkjunum, þó með töluvert hægari vexti í tekjum á íbúa.

Frakkland: Minnir um margt á þróunina í Bandaríkjunum, nema hvað losun á íbúa hefur minnkað hraðar og tekjur á íbúa vaxa mun hægar.

Danmörk: Stingur svolítið í stúf í þessu úrtaki, því hér virðist fara saman stöðug aukning í tekjum á íbúa (í takt við eða ívið meira en í Kanada, þó sjáanlega hægar en í Bandaríkjunum), en mikil minnkun í losun, sérstaklega á seinustu 10 árum. Danir, ólíkt Frökkum, hafa ekki eytt sínum útblæstri með því að reisa kjarnorkuver, en vaxandi orkuþörf hefur að hluta verið mætt með vindmyllum og að hluta með aðkeyptri orku frá austri.

Kína: Kína fylgir hefðbundnu munstri lands sem er að rífa sig upp úr fátækt og iðnvæðast af miklum krafti. Ódýr orka í formi kola og olíu er notuð til að skjóta landinu inn í aukna velmegun, og líklegt að sú þróun haldi áfram enn um sinn (nema hagvextinum verði fórnað til að minnka losun).

Ég leyfi mér auðvitað að túlka ýmislegt hérna frjálslega, og játa að ég hef mismikla þekkingu á hagsögu hinna ýmsu ríkja. Þó ætla ég að fullyrða að margt af því sem tölfræði Gapminder inniheldur er á skjön við þá mynd sem almenningur fær frá fjölmiðlum. Til dæmis kom mér flatur vöxtur á útblæstri á mann í Bandaríkjunum svolítið á óvart, sérstaklega ef haft er í huga að auðsköpun þar á sér stað af miklum krafti og mun meiri krafti en t.d. í Danmörku, sem þó hefur verið hvað best statt allra Vestur-Evrópuríkja á seinustu áratugum (Danir þéna nú u.þ.b. 75% af því sem Bandaríkjamenn gera, miðað við um 90% árið 1975).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband