Óútfylltu tékkarnir

Hinar ýmsu opinberu einingar virðast vera að gefa út marga óútfyllta tékka þessa dagana.

Fyrst má nefna hátíðarfundinn á Alþingi þar sem það er beinlínis játað að tékkinn hafi verið óútfylltur.

Síðan er það auðvitað bragginn frægi í Reykjavík sem verður væntanlega orðinn að valkosti við Kolaportið áður en langt um líður (sem húsnæði fyrir sölu á notuðum hlutum og DVD-diskum).

Borgarlínan má ekki gleymast. Þá hugmynd er nú verið að selja fyrir um 70 milljarða en endanlegur verðmiði verður sennilega tvöfalt eða þrefalt hærri áður en fyrsti sporvagninn rúllar af stað (í samkeppni við litlar og sjálfkeyrandi rútur sem sækja fólk heim að dyrum og skutla að dyrum vinnustaðarins).

Allt gerist þetta á meðan skuldir og ábyrgðir á herðum skattgreiðenda eru enn gríðarlegar og stutt í næsta hrun á fjármálamörkuðum (sennilega verður það ekki bankahrun eins og það seinasta heldur ríkissjóða- og gjaldmiðlahrun, en almenningur fær að þjást sama hvað).

Ekki finnst mér íslenskir fjölmiðlar veita þessu fjáraustri mikið aðhald svona almennt séð (þótt þeir gramsi aðeins í hinum og þessum málum). Þeir hafa kannski bara gefist upp. Skattgreiðendur eru líka sofandi. Þeir óttast sennilega allir að ef skattar lækka þá hverfi niðurgreiðslan sem þeir sjálfir njóta góðs af. Sá skuldugi óttast að vaxtabæturnar lækki. Sá menningarlegi óttast að miðar á tónleika Sinfóníuhljómsveitarinnar hækki í verði. Verktakinn óttast að hið opinbera hætti að ausa fé yfir hann sjálfan. Sá lasni óttast að sjúkrarúmið hans lokist. Fæstir gera sér grein fyrir því að hið opinbera er ekki velunnari þeirra heldur er það mafíósi sem gerði alla samkeppnisaðila útlæga og snarhækkaði verðlagið á öllum sínum þjónustum.

En kannski mun opinber eining einhvern tímann ganga fram af skattgreiðendum og fjölmiðlafólki. Einu sinni var stungið upp á því að grafa göng til Vestmannaeyja og hlógu þá flestir. Nú er talað um að reisa sporvagnakerfi í veðurbarinni Reykjavíkurborg og enginn hlær. Einhvers staðar þarna á milli liggja mörk þess umborna og hins fáránlega.


mbl.is Engin kostnaðaráætlun lá fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held að Steini Briem ætti að skoða The Index of Economic Freedom.

Þar er Danmörk ansi ofarlega.

Kapitalisti (IP-tala skráð) 25.9.2018 kl. 10:03

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Það hefðu fleiri gott af því að líta aðeins út fyrir þann þrönga sjóndeildarhring sem íslenskir fjölmiðlar, og raunar margir vestrænir, teikna upp fyrir okkur.

Geir Ágústsson, 25.9.2018 kl. 17:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband