Sambúð með 100 manns

Ímyndaðu þér að þú værir í sambúð. Fyrir utan maka þinn og þín eigin börn væru á sama heimili 100 aðrar manneskjur. Þetta væri vissulega stórt heimili en fjöldinn líka mikill.

Þessi hópur þarf að ákveða hverjir þrífa klósettið, versla inn, taka til, þrífa gólf, þurrka af, þvo föt og ganga frá þeim, hjálpa börnum að bursta tennur og útbúa nesti, sækja, skutla og setja bensín á bílinn.

Í svona miklum fjölda er hætt við að einhverjir reyni að komast hjá því að vinna sín verk. Um leið ætlast þeir sömu til að aðrir vinni sín verk. Þetta fólk kemst stundum upp með það. Þetta eru þeir lötu sem uppskera meira en þeir sáðu. Þeir njóta sömu lífskjara og aðrir en í skiptum fyrir minni vinnu.

Um leið væru aðrir sem leggðu meira á sig en aðrir svo sambúðin gangi vel fyrir sig. Þeir týna upp rusl sem þeir sjá jafnóðum þótt slíkt eigi að vera í verkahring annarra. Þeir þrífa aðeins meira en verkskipulagið mælir fyrir. Þeir borga aðeins meira til sameiginlegu innkaupanna en aðrir. Þetta eru þeir sem uppskera minna en þeir sáðu. Þeir njóta sömu lífskjara og aðrir en í skiptum fyrir meiri vinnu.

Skyndilega dettur einhverjum í hug að sambúð með svona mörgu fólki gangi ekki upp. Það þurfi að setja upp milliveggi og innan þeirra búa smærri hópar sem þurfi að skipta verkum sínum upp á nýtt. Skyndilega blasir það betur við hverjir gera meira en ætlast er til og hverjir gera meira. Þeir duglegu heimta meiri umbun og að þeir lötu fái minna en aðrir. Það blasti síður við í 100 manna sambúðinni hverjir voru hinir duglegu og hverjir voru hinir lötu. Núna blasir það við öllum.

Verkalýðsfélögin eru að reyna steypa launþegum saman í 100 manna sambúðina. Það mun draga úr starfsorku þeirra duglegu en þeir lötu verða alsælir. Allir fá meðallaun hópsins í heild sinni. Þeir duglegu geta ekki unnið sig upp. Þeir lötu hafa minni ástæðu til að rífa sig upp af rassgatinu.

Væri ekki best ef fólk fengi bara að semja um sín eigin kaup og kjör?


mbl.is Reyna að ná breiðri samstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Atvinnurekendum er að sjálfsögðu frjálst að greiða hærri laun en kjarasamningar kveða á um, sem eru lágmarkstaxtar.

Og margir greiða hærri laun til að geta ráðið betra starfsfólk en annars væri tilbúið að vinna hjá þeim.


Hér á Íslandi er samningafrelsi og samið er um kaup og kjör.

Hægt er að fara hér í verkfall til að knýja á um hærri laun og betri kjör en að sjálfsögðu vilja sumir afnema allan verkfallsrétt og að atvinnurekendur ráði einir hvaða kaup og kjör eru í boði hverju sinni.

Laun hafa hækkað mikið hérlendis undanfarin ár vegna þess að launþegar hafa farið í verkföll eða hótað verkföllum.

Í verkalýðsfélögunum eru greidd atkvæði um hvort fara skuli í verkfall og kjarasamninga.

 
Kaupmáttur launa hefur einnig aukist mikið hérlendis síðastliðin ár, þar sem meira hefur verið til skiptanna í þjóðfélaginu en áður, aðallega vegna stóraukinnar ferðaþjónustu, sem margir öfgahægrimenn fyrirlíta og kalla grasatínslu.

Þorsteinn Briem, 20.9.2018 kl. 07:32

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Ég heyrði eini sinni frá einni ágætri konu: "Forstjórinn sagði að ég væri komin í hæsta þrep launataxtanna og hann geti ekki hækkað launin mín meira."

Í staðinn hækkaði hann bílastyrk hennar þótt hún hafi ekki ætlað sér að keyra meira. 

Einu sinni var sagt við mig: "Þú ert á hæsta taxta miðað við þitt starf. Þú getur ekki fengið hærri laun."

Ég hætti og fann aðra vinnu þar sem launataxtar voru meira til viðmiðunar en ákvörðunar.

Þessar verkalýðsstéttir eru fastar í sama farinu. Fyrirtæki sem þurfa að hlíta kjarasamningum laða ekki til sín fjárfesta og nýja sýn á hlutina.

Friðsælu stéttirnar, ef svo mætti kalla, gera launakannanir og það er svo undir hverjum og einum að semja um sín laun.

Óróleikastéttirnar eru fastar í rússíbanareið þar sem annaðhvort þarf að hækka laun allra, eða enginn fær neitt.

Geir Ágústsson, 20.9.2018 kl. 07:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband