Enn ein 'landið tekur að rísa' grein SJS

Enn ein "landið tekur að rísa"-blaðagrein Steingríms J. Sigfússonar, ofurráðherra, birtist í Fréttablaðinu á föstudaginn. Þar er hagvísum, sem virðast ranglega benda til efnahagsbata, blandað saman við eitt og annað sem hefur komið íslenska hagkerfinu til góða þrátt fyrir efnahagsstjórn Steingríms og félaga. Rangfærslurnar eru margar og því vissara að taka þær skipulega fyrir.

Gögn Hagstofunnar sýna svo ekki verður um villst að atvinnuþátttakan fer nú vaxandi á ný. Þetta gefur góð fyrirheit fyrir komandi mánuði.

Atvinnuþátttaka fer vaxandi já, enda er varla annað hægt. Þeir sem geta skráð sig sem öryrkja eða ellilífseyrisþega hafa klárað þá skráningu og komnir út úr tölfræðinni.  Þeir sem geta flúið land hafa flúið land. Ýmis ytri skilyrði hafa verið "hentug" fyrir hið íslenska hagkerfið, svo sem hátt fiskverð, fjölgun ferðamanna í land hinnar verðlausu krónu í höftum, fjárfestingar í virkjunum og stækkun iðnfyrirtækja sem ríkisstjórnin hefur einfaldlega ekki náð að koma í veg fyrir, og svona mætti lengi telja. Ríkisstjórnin notaði 3 ár til að knýja hagkerfið alveg niður á hnén, og á 3 árum hefur tekist að botna alla hagvísa. Geta þeir annað en skánað núna? Varla.

Mikil uppbygging hefur átt sér stað í ferðaþjónustu og fjölmörg gistirými bæst við víða um land. Annatíminn í ferðaþjónustunni er byrjaður og kallar það á mörg störf í fjölmörgum þjónustugreinum. Líklegt er að aukinn fjöldi erlendra ferðamanna sé nú þegar byrjaður að hafa áhrif á gengi krónunnar.

Enn er íslensku krónunni haldið í höftum og höftin gefa svo stjórnmálamönnum tæki og völd til að þvinga niður kaupmátt launþega á Íslandi og gera þá að ódýru vinnuafli fyrir erlenda ferðamann. Hið afmyndaða hagkerfi gjaldeyrishaftanna er núna orðin að gróðrarstíu fyrir allskyns "bólur", t.d. í fjölgun gistirýma fyrir hina erlendu ferðamenn. Hinn rótgróni hluti ferðamannaiðnaðarins á Íslandi var kominn langt á leið með að tryggja góða nýtingu og bókun á aðstöðu sinni yfir allt árið. Núna á að offjárfesta í gistirýmum fyrir þá 2 mánuði á ári þegar launalágir Evrópubúar hafa efni á að skreppa með ódýrum flugmiðum til Íslands til að lifa þar á loftinu.

 Krónan hefur styrkst undanfarið – það mun hafa áhrif til lækkunar á verðbólgu. Auk þess hefur olíuverð einnig gefið eftir á erlendum mörkuðum og því ætti bensínverð að geta lækkað frekar á næstunni vegna þessa. Verðbólguhorfur hafa því batnað talsvert síðustu vikur.

Hérna þakkar Steingrímur sjálfum sér fyrir hluti sem hann getur hvorki gert betri né verri. Olíuverð hefur farið lækkandi já, en það er tímabundin niðursveifla. Steingrímur hefur skrúfað upp svo marga skatta, og sett á svo marga nýja, að hann á sennilega mestan heiðurinn af hinni íslensku verðbólgu. Að hún svo gefi eftir vegna utanaðkomandi þátta er þrátt fyrir Steingrím, en ekki vegna hans.  

Þetta gerir Steingrímur svo líka í næstu efnisgrein, þar sem hann þakkar sér fyrir að þorskunum er að fjölga og verð á þeim að hækka.

Steingrímur toppar svo sjálfan sig þegar hann skrifar:

 Fleiri skráningar í Kauphöllina eru fyrirhugaðar á næstunni sem fjölgar kostum lífeyrissjóða og annarra fjárfesta.

Já, eftir því sem Steingrímur J. losar fleiri fyrirtæki úr krumlum ríkisbankans, þeim mun meira er hægt að fjárfesta. Lífeyrissjóðir hafa varla haft aðra kosti til fjárfestingar en að lána ríkinu fyrir hallarekstri. Gjaldeyrishöftin hafa komið sér mjög illa fyrir íslenska lífeyrissjóði. Allt er þetta vegna Steingríms. Hann er ástæða þess að kostir lífeyrissjóða eru fáir og lélegir.  

 Fjölmargir hagvísar úr ólíkum áttum staðfesta að batinn og forsendur hans eru traustari en margir hafa talið allt til þessa. Þar með dregur úr óvissu. Aukinn stöðugleiki er því að mínu mati að færast yfir þjóðlífið. Tal um mikla óvissu nú er því sérkennilegt þegar hagtölur eru skoðaðar og sérstaklega þegar litið er til baka og haft í huga út úr hvaða aðstæðum við erum hægt og bítandi að vinna okkur. Óvissan um þróun mála í Evrópu og heimsbúskapnum er helsta áhyggjuefnið nú um stundir. Við það fáum við Íslendingar hins vegar litlu ráðið.

Sagði ég að Steingrímur hefði toppað sig? Mér skjátlaðist. Núna toppaði hann sig. Eftir að hafa þakkað sér fyrir fjölmargt sem er engan veginn honum að þakka bendir hann á að ýmislegt annað sé ekki undir hans stjórn. En það er það. Óvissan um þróun mála í Evrópu verður til dæmis nátengdari Íslandi ef Evrópusambandið fær að innlima okkur í sig. Það ferli er á ábyrgð margra, þar á meðal Steingríms.

Grein Steingríms virðist hafa fengið verðskuldað litla athygli, enda eru greinar hans farnir að líkjast hver annarri. Fyrst var landið "tekið að rísa", síðan var Ísland "komið í var" og núna "birtir til". En í raun og veru hefur hagkerfið orðið sjúkara og sjúkara og minnstu teikn um að einhver hafi fengið vinnu notuð til að mála rósrauða mynd af blóðrauðu svöðusári. 

Núna er bara einn vetur til kosninga. Guði sé lof! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll.

Ekki skil ég hvernig þú nennir að lesa greinar eftir ofurráðherrann, mér dettur ekki í hug að hlusta á manninn eða lesa starfkrók eftir hann enda hefur hann gengisfelt sjálfan sig niður í núll með því sem hann hefur sagt og gert undanfarið. Þegar maður neyðist til að hlusta á manninn fer um mann óþægindahrollur enda maðurinn svo einstaklega illa að sér í efnahagsmálum að ekki er nema vona að hér sé allt meira eða minna í steik þegar svona maður er ráðherra. Samhengið milli atvinnuleysis annars vegar og hárra skatta og stórs opinbers geira er vel þekkt.

Annars veit maður ekki hve mikið af þessum er komið frá Steingrími, eru ekki fingraför Indriða á þessu? Hvernig geta menn annars verið hagfræðingar og sósíalistar í leiðinni? Ég sé þetta engan veginn fara saman.

Annars vil ég minna á orð Steingríms frá 2007 ef ég man rétt, þá gat hann vel hugsað sér að koma upp netlöggu. Sennilega til að koma í veg fyrir að hérlendis væri hægt að horfa á klám. Því miður var hann ekki krossfestur fyrir þessi orð sem er sorglegra en orð fá lýst. Aumingi eins og ég ætti kannski að vera ánægður að Steingrímur skuli vilja vernda mig gegn hinu illa klámi og kannski seinna hræðilegum hugmyndum um minna ríkisbákn? Það verður auðvitað að passa upp á aumingja eins og mig.

Næsta snilld frá Alþingi eru forvirkar rannsóknarheimildir. Þær verða auðvitað misnotaðar - hvort sú misnotkun kemst í hámæli eður ei :-(

Helgi (IP-tala skráð) 27.6.2012 kl. 00:05

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Sæll,

Mig vantaði nú reyndar bara lesefni á klósettið þennan föstudag og því fór sem fór.

En já það er orðið erfitt að greina á milli áróðurs og greinarskrifa hjá þessum manni, sem er augljóslega kominn í mikla nauðvörn.

Geir Ágústsson, 27.6.2012 kl. 09:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband