Bloggfærslur mánaðarins, júní 2019

Sá sem telur sig vera fórnarlamb verður það

Hópur einstaklinga lendir á flugvelli. Af ýmsum ástæðum þarf hann að gangast undir vegabréfaskoðun. Hópurinn móðgast. Maður gengur að hópnum og í gríni þykist ætla taka viðtal við einhvern. Hópurinn móðgast. 

Allar útskýringar eru ófullnægjandi. Menn voru hér móðgaðir!

Hvaða hópur er þetta sem móðgast svona auðveldlega?

Möguleikarnir eru svo margir!

Kannski konur sem hata karla.

Kannski samkynhneigðir sem finnst vera brotið á sér af þessum luralegu öryggisvörðum á flugvellinum.

Kannski vel launaðir kvenmenn í þægilegum innivinnum sem vilja vinna minna en fá meira í laun.

Kannski Íslendingar í Danmörku sem eru orðnir þreyttir á að heyra brandara um þorramat og brennivín.

En eitt er víst: Sá sem lætur auðveldlega móðga sig gerir sig um leið að fórnarlambi. Þar með er ekki sagt að engin raunveruleg fórnarlömb finnist, en það er óþarfi að framleiða slík að óþörfu. 

Íslendingur í Danmörku á að þola brandara um þorramat og einstæðar mæður. Dani á Íslandi á að þola brandara um svínakjöt og áfengisneyslu. Tyrki á Íslandi á að þola vegabréfaskoðun.


mbl.is Hefnd fyrir móttökurnar í Leifsstöð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bækur sem þú ættir að lesa, hvenær sem er!

Það er gott og blessað að sjúga í sig innantóman skáldskap eða endursagnir af hugsunum annarra um steina og grjót en stundum er hægt að gera betur.

Ég les kannski ekki mikið sem stendur en vil benda á nokkrar bækur sem hafa haft varanleg áhrif á mig, til hins betra!

Sú nýjasta á listanum er bókin Pseudoarbejde: Hvordan vi fik travlt med at lave ingenting. Hún kom út í Danmörku í fyrra (og er að ég held bara til á dönsku sem stendur) svo þú þarft að geta tæklað dönskuna, en ég mæli með því að prófa! Boðskapurinn í stuttu máli: Mikið af vinnuafli samfélagsins í dag sóar tíma sínum í ekkert og gæti annaðhvort gert betur eða farið fyrr heim. Höfundar eru tveir: Annar er yfirlýstur hægrimaður og hinn yfirlýstur vinstrimaður. Þeim fannst báðum ástæða til að skrifa þessa bók og eyða mörgum orðum í hana.

Sú bók sem hefur haft hvað mest áhrif á skilning minn á samfélaginu og samfélagsumræðunni er Hagfræði í hnotskurn (e. Economics in One Lesson). Hún er stutt, ódýr, sígild, fæst á íslensku og er auðlesin. Það er nákvæmlega engin ástæða til að lesa hana ekki.

Ein áhrifaríkasta bók sem ég hef lesið (og hið sama gildir um nánast alla sem hafa lesið hana) er Atlas Shrugged. Þetta er yfir 1000 blaðsíðna skáldsaga en sæmilega skrifuð og troðfull af siðferðislegum boðskap sem veitir ekkert af nú á tímum afstæðishyggju og hugmyndafræðilegrar upplausnar. 

Séu menn í leit að sparki í andlegt rassgatið á sér get ég mælt með öllu eftir Murray N. Rothbard, og menn geta valið úr safni hans frá þykkum bókum til hvassyrtra greina. Nú á tímum hagfræðilegs ólæsis og oftrúar á áætlanir ríkisvaldsins er kannski sérstaklega hægt að mæla með What Has Government Done to Our Money? og Anatomy of the State

En ef þú ætlar virkilega að hvíla heilann í sumar og láta þér nægja afþreyingu og léttmeti get ég líka mælt með bókum. Lestu eitthvað um Skúla skelfi. Þú lærir - þrátt fyrir allt - meira en þú heldur!


mbl.is Þessar bækur ættir þú að lesa í fríinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árás á Íran undirbúin?

Nú á greinilega að róa árum að því að geta gert innrás í Íran.

Hvað á að gera við Ísrael og Palestínu?

Er Rússland ógn við Vesturlönd?

Ég mæli með því að fólk heimsæki Youtube-síðu Scott Horton og hlusti á sem mest þar. Það gæti komið á óvart!


mbl.is Telja erlent ríki að baki árásunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hringið í Uber og Lyft!

Af hverju er bæði verið að hvetja fólk í Reykjavík til að taka strætó OG halda fyrirtækjum eins og Uber og Lyft frá götum borgarinnar?

Þetta er mótsögn, svo vægt sé til orða tekið.

Fyrirtæki eins og Uber og Lyft (og fleiri) hafa beinlínis viðskiptalíkan sem gengur út á að fólk komist á milli staða án eigin bíls. Uber gerir þetta meira að segja með blússandi tapi, á kostnað fjárfesta þess sem dæla fé sínu í hugsjón. Sömu sögu er ekki hægt að segja um skattpínda Reykjavíkurbúa sem eiga engan annan kost en að halda úti bíl, keyra á holóttum götum og borga margfalt fyrir neyð sína.

Þessi blússandi hræsni er núna orðin að markaðssetningartæki fyrir Meniga, sem er flott fyrirtæki en komið á villigötur með misskildri góðmennsku sinni.


mbl.is Veita afslátt af fargjöldum í strætó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tæknilegt vandamál sem má auðveldlega losna við

Af hverju er hið opinbera að standa í því að hirða sorp og lóga því? 

Er þetta ekki bara tæknilegt vandamál sem má bjóða út og koma til tæknifólks? 

Stjórnmálamenn eru upptekið fólk sem þarf að sitja marga fundi, halda margar ræður og lesa margar skýrslur. Það hefur einfaldlega ekki tíma til að setja sig inn í sorphirðumál og ættu að sjá sóma sinn í að koma þessu máli öllu af borði sínu og í hendur einkaaðila.


mbl.is Sorpurðun í uppnámi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað með vinnuleiða?

Kulnun er stundum í umræðunni, bæði á Íslandi og í öðrum vestrænum ríkjum. Allir vita að hún er vegna álags, ekki satt? Það sem færri vita er að kulnun þarf ekki bara að vera afleiðing álags. Það er líka hægt að brotna andlega saman af því að leiðast of mikið í vinnunni eða finnast vinna sín vera tilgangslaus.

En slíkt heyrir til undantekninga, er það ekki? Jú, kannski. Margir hafa ekkert á móti því að láta sér leiðast. Vinna er bara vinna, hvort sem hún hefur tilgang eða ekki. Það þarf ekki að láta alla fundina angra sig, eða tilgangslausu pappírsvinnuna. 

Þetta á þó ekki við um alla. Það er talað um bore-out þegar fólk brennur saman andlega af leiða eða tilgangsleysi á vinnustaðnum. Íslenska orðið kulnun getur allt eins átt við um vinnuleiða eins og vinnustress. 

En hvernig stendur á því að í mörgum fagstéttum líður stórum hluta starfsmanna eins og þeir séu ekki að gera neitt sem skiptir máli? Fyrir því geta verið margar ástæður. Í bankaheiminum er eftirfylgni við opinbera löggjöf svo fyrirferðamikill þáttur af starfinu að það er ekkert eftir sem skiptir máli. Hið sama gildir um tryggingafélög. Hjá hinu opinbera fer auðvitað stór hluti tímans í vitleysu. Það eru margar mismunandi ástæður fyrir því að mörgum finnst vinnan þeirra ekki skipta miklu máli.

Eftir stendur að besta leiðin til að blása til gagnárásar við gervi-vinnu er að gera sér grein fyrir að hún er til staðar, t.d. með því að lesa bækur eða teiknimyndasögur eða horfa á bíómyndir um efnið. Nú eða lesa bók um skilvirkni og berjast við skrýmslið innan eigin vinnustaðar. 


mbl.is Kulnun viðurkenndur sjúkdómur af WHO
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stúlkan sem stefnir í atvinnumanninn

Aðgerðasinninn og skróparinn Geta Thunberg er hætt í skóla. Hún fer varla að setjast á skólabekk aftur með yngri krökkum og lepja þar upp bóknám. Hún verður ríkur ræðuhaldari og móðir hennar og umboðsmaður verður sömuleiðis efnuð.

Gott og blessað, segi ég nú bara.

Menn borga Hillary Clinton og Al Gore og Michelle Obama og fleirum stórar fjárhæðir fyrir ræðuhöld því þetta er frægt fólk. Það hefur þannig séð ekkert markvert að segja, en það er frægt, og það selur miða.

Velkomin í klúbbinn, Greta Thunberg. Vonandi dregur svartsýni þín fyrir hönd Jarðar og mannkyns ekki of mikið úr þér - þín og móður þinnar bíða stórar fjárhæðir ef þú heldur rétt á spöðunum!


mbl.is Tekur ár frá skóla fyrir jörðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband