Þegar Siggi frændi kemur í heimsókn

Fólk virðist almennt heltekið af þeirri ranghugsun að það eigi heimili sín.

Viltu fá Sigga frænda í heimsókn og bjóða honum gistingu? Hættu nú alveg! Ertu með leyfi? Eru salernisaðstaða þín boðleg? Hvernig er hreinlætisástandið í eldhúsi þínu? Þú þarft að fá opinberan starfsmann til að taka þetta út.

Eða hvað? Nei, Siggi frændi má kannski alveg gista hjá þér. Hann borgar jú bara í bjór og grillkjöti. 

Hvað með Tolla túrista? Má hann gista hjá þér? Þú hefur engan áhuga á að skemmta honum eða borða grillkjötið hans en Tolli vill borga í reiðufé fyrir greiðann. Hættu nú alveg! Ertu með leyfi? Eru salernisaðstaða þín boðleg? Hvernig er hreinlætisástandið í eldhúsi þínu? Þú þarft að fá opinberan starfsmann til að taka þetta út.

Þá kemur einhver og segir að hliðartekjur af útleigu húsnæðis eigi að vera skattskyldar og að hótel standi í ósanngjarnri samkeppni við heimagistingu. Gott og vel, segjum fólki að telja fram tekjur og samræmum kröfur til hótelreksturs að venjulegu heimilishaldi. 

Er málið þá ekki dautt? Eða er ríkisvaldið hérna að láta hagsmunaaðila ráðskast með sig til að minnka við sig samkeppnina? Svona eins og það gerir í tilviki leigubíla og banka?

Skamm, ríkisvald!


mbl.is Eftirlit með heimagistingu hert
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nú þegar ferðamönnum fækkar er sjálfsagt að ganga hart eftir því að greiddir séu skattar og gjöld af Airbnb og álíka gistingu.

Gistinóttum á hótelum mun við það fækka minna en ella og íbúðir á langtímaleigumarkaði mun fjölga verulega.  

Þannig mun afkoma hótela versna minna auk þess sem framboð á leiguhúsnæði eykst væntanlega með hagstæðara leigugjaldi. Þetta er góð stjórnun. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 15.6.2019 kl. 22:17

2 identicon

En það vill svo til að ég, og margir aðrir, kusum okkur ríkisvald sem við vildum að sæi til þess að hótelið væri með brunavarnir, leigubíllinn með farþegatryggingu og skoðaðar bremsur og kjúklingurinn ekki af sorphaugunum. Þegar þú finnur nægilega marga sem vilja ekki þessi þægindi þá getið þið kosið stjórnvöld sem afnema reglurnar. Það mun örugglega fjölga hótelum, leigubílum og kjúklingaréttum fyrir þig og vini þína. Þú gætir jafnvel látið drauma þína um fyrirhafnarlaust ríkidæmi frjálshyggjunnar rætast og notað þetta nýja frelsi og regluleysi til að selja Tóta túrista gistingu á hóteli sem ekki er til.

Vagn (IP-tala skráð) 15.6.2019 kl. 23:20

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Það blasir við að hagkerfi okkar er að breytast: Minni miðstýring, deilihagkerfi, aðlögunarhæfni, sjálfvirkni og allskonar.

Það blasir við að löggjafinn er ljósárum á eftir þessari þróun og flækist yfirleitt fyrir. Heimagisting var t.d. á gráu svæði, lenti svo í gríðarlegu og kostnaðarsömu flækjustigi og er núna orðin að lögreglumáli í stórum stíl. Fólk sem vill gera allt samkvæmt lögum var lengi vel í óvissuástandi og endaði á að fara á bak við kerfið.

Það fer yfirvöldum heldur ekki vel að reyna stilla af eftirspurn eftir einu á kostnað annars. Það er til saga frá Sovétríkjunum sálugu sem segir að yfirvöld hafi ákveðið að barnamatur ætti að vera ódýr og vodka dýr. Niðurstaðan var að enginn gat hagnast á barnamat og hann fékkst því hvergi, en vodka var hægt að fá hver sem er.

Og svo má benda á að 99% af öllu eftirliti fer fram hjá mér og þér. Þú skoðar dagsetninguna á mjólkurfernunni. 

Það má alveg úthýsa eftirliti og koma í hendur einkaaðila í samkeppni. Það eftirlit þarf þá að vera fyrirsjáanlegt, gegnsætt og byggjast á skýrum kröfum. Þetta er gert í tilviki bíla svo dæmi sé tekið. 

Geir Ágústsson, 16.6.2019 kl. 09:41

4 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Þetta snýst ekki um neitt annað en að vernda hóteliðnaðinn fyrir einstaklingum sem vilja leigja húsnæði sitt til ferðamanna.

Þorsteinn Siglaugsson, 16.6.2019 kl. 16:47

5 Smámynd: Theódór Norðkvist

Það má leysa þetta með því að vissulega skattleggja útleigu í heimahúsum, en leyfa heimilum að draga frá skattstofninum allan kostnað við húsnæðið. Þar með vezti og ólöglegar verðbætur. Þannig væri engun mismunun í gangi.

Theódór Norðkvist, 16.6.2019 kl. 17:14

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Það er nú bara þetta með skattinn eins og leiðbeiningabæklinga: Hlutir þurfa að vera einfaldir, gengsæir, rökréttir og læsilegir og þá fylgir fólk fyrirmælum upp til hópa. 

Geir Ágústsson, 16.6.2019 kl. 23:13

7 Smámynd: Haukurinn

Æ Geir,

"Og svo má benda á að 99% af öllu eftirliti fer fram hjá mér og þér. Þú skoðar dagsetninguna á mjólkurfernunni."

Hvað svo sem manni má finnast um skattlagningu af heimilisgistingu, deilihagkerfi, osvfrv. þá finnst mér þú hér vera kominn út í stórfellda einföldun. Í fullkomnum heimi já, þá getur vel verið að hinn upplýsti maður geti sjálfur séð um eftirlitið að stóru leyti og að aðhald markaðarins tryggi það að framleiðendur hagi sér á réttan hátt, en heimurinn er bara ekki fullkominn. Að sama skapi og það eru til mörg dæmi þess að embættisvaldið auki verk sín, fjárveitingar og völd jafnt og þétt, þá er mígrútur dæma um einkarekin fyrirtæki sem eru tilbúin að gera ýmsa óverjandi og varhugaverða hluti í framleiðslu vara og þjónustu. Þrátt fyrir þá vörn sem viðurlög valdhafa eiga að veita neytendum - og oft starfsmönnum þessara fyrirtækja.

Ég er annars alltaf glaður að það skuli fyrirfinnast gagnrýnir frjálshyggjumenn, líkt og þú ert gott dæmi um, en ég er jöfnum höndum líka glaður að það (ennþá) finnast gagnrýnir félagshyggjumenn - svo lengi sem fólk ræðir málin á sanngjarnan og málefnalegan hátt og út frá gildum rökum. En það verður líka að passa að umræðunni verði ekki snúið upp í óraunhæfar hugsjónir um hvernig heimurinn, mennirnir og samspil þessa eru.

Kærar kveðjur að norðan,

Haukurinn

Haukurinn, 18.6.2019 kl. 07:53

8 Smámynd: Geir Ágústsson

Haukur,

Heiður og ánægja að sjá þig hér!

Í lítilli bók sem var gefin út í kjölfar hrunsins 2008 er margt gott að finna:

https://www.aha.is/byrg-arkver

Þar er meðal annars fjallað um áhrif opinbers eftirlits á okkar eigin hegðun. Er hægt að treysta því að ríkið vakti bankana og tryggi að þeir hegði sér vel? Frábært! Ég læt þá fá aleiguna mína! Mun ríkið grípa mig ef bankarnir fara á hliðina? Frábært! Ég þarf ekkert að óttast og þarf ekkert að hugsa! Er allt regluverkið svo þungt og dýrt að bankarnir þurfa ekki að búa við markaðsaðhald og samkeppni? Skítt með það! Þeir eru jú undir svo vökulu eftirliti að samkeppni er óþarfi og jafnvel til vansa!

Í fjarveru opinbers eftirlits hefur hinn upplýsti maður hefur ekki bara valkostina 1) Ekkert eftirlit, 2) Eigið eftirlit. Á öllum mínum starfsferli hef ég unnið við að hljóta vottanir framkvæmdar af óháðum eftirlitsaðilum sem gefa út skýrslur og skirteini sem kúnnarnir vilja sjá að sé í lagi. Það getur vel verið að starfsmenn Matvælaeftirlitsins og annarra opinberra stofnana séu heilagir alvitrir englar en engu að síður hafa margir framleiðendur séð ástæðu til að sópa fé í óháða eftirlitsaðila og biðja um blessun þeirra til að ná til viðskiptavina. 

Ég hvet fólk a.m.k. til að draga úr ofurtrú á opinberu eftirliti. Slíkt hefur komið mörgum um koll og af því opinbert eftirlit hefur yfir sér dýrðlingablæ koma gallar þess kannski ekki fram fyrr en það er orðið of seint.

Geir Ágústsson, 18.6.2019 kl. 08:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband