Bloggfærslur mánaðarins, mars 2023

Seinfeld eldist eins og vín

Árásirnar halda áfram. Einhvers staðar í afkimum netsins situr fólk sem hefur ekkert betra að gera og þræðir sig í gegnum gamalt og nýtt efni - þætti, leikrit, kvikmyndir - og finnur því allt til foráttu. Allt er móðgandi, fordómafullt og úr takt við hina nýju og drepleiðinlegu tíma.

Hvenær ætli Seinfeld-þættirnar komist á skotskífuna hjá þessu liði? Of seint. Vælandi hörundsára kynslóðin er búin að fella sinn dóm

Now Seinfeld falls foul of Millennials: Online commenters criticize the groudbreaking 90s comedy for its jokes on the 'Soup Nazi', same-sex relationships and most everything George Costanza says

Gott ef þessi fyrirsögn grípur ekki flesta af vinsælustu Seinfeld-þáttunum nokkuð vel. 

En hverjum er ekki nákvæmlega sama? Það er nákvæmlega ekkert hérna til að biðjast afsökunar á. Þættirnar eldast mjög vel og höfða til allra sem kunna að horfa á leikið efni. Nema þá sem elska Vini. Þetta tvennt fer illa saman, að mínu mati.

Streymisþjónustan Netflix hefur sýnt og sannað að hún lætur ekki woke-liðið stjórna sér. Ef hún bugast sprettur upp önnur. Fortíðin verður ekki þurrkuð út, og engin ástæða er til að afsaka gott grín.


mbl.is Friends ekki lengur fyndnir heldur móðgandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórn til fyrirmyndar

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir nýja fjármálaáætlun sýna skort á vilja hjá yfirvöldum til þess að taka raunverulegar ákvarðanir um aðhald og niðurskurð. Boðaðar skattahækkanir séu lítt ígrundaðar og ríkisfjárlögin verði ekki löguð með því að einblína einungis á tekjuhliðina.

Hvaða vitleysa! 

Ríkisstjórnin er þvert á móti að setja mjög gott fordæmi. Ef tekjur duga ekki fyrir útgjöldum þá er einfalt að laga það: Fá sér launahækkun! Auka tekjurnar!

Ekki svo einfalt? Jú, auðvitað. Bara að biðja um launahækkun. Yfirmaðurinn skilur aðstæðurnar. Þú þarft meiri pening og til að fá hann þarftu launahækkun.

Þessi skilaboð yfirvalda eru lesin hátt og skýrt, og þá sérstaklega af verkalýðsfélögum, hvers meðlimir þurfa meiri peninga. Verkalýðsfélögin biðja um launahækkun. Af hverju ættu þau ekki að fá hana eins og ríkisvaldið fær sína?

Ef hið opinbera getur hækkað laun sín til að brúa bil tekna og útgjalda þá ættu launþegar að geta gert hið sama.

Skilaboð: Móttekin.

Takk, ríkisstjórn.


mbl.is Aðgerðirnar dugi skammt við núverandi vanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einfalt að minnka verðbólgu

Það er enginn vandi að takast á við verðbólgu. Seðlabanki Íslands veit það þegar hann hækkar vexti og hægir á framleiðslu nýrra peninga í bankakerfinu, bæði með því að draga úr eftirspurn eftir lánum og með því að gera sparnað meira aðlaðandi. En ríkisstjórnin er ráðvillt. Hvað er til ráða?

Til að byrja með mætti lækka til muna alla skatta á varning og þjónustu. Þannig lækkar verð. Þetta ætti meira að segja reyndur ráðherra að vita þrátt fyrir að hafa búið í sápukúlunni sinni í mörg ár.

Einnig mætti grisja reglugerðafrumskóginn. Allskyns kvaðir á merkingar varnings, endurmenntun fagmanna, eyðublöð og leyfisumsóknir hækka verð á öllu mögulegu sem rýkur auðvitað beint út í verðlagið.

Tolla mætti afnema - líka þá sem kallast eitthvað annað en tollar, svo sem vörugjöld og allskyns pappírsvinnukostnað í tengslum við innflutning.

En hvað með alla þessa mikilvægu þjónustu sem hið opinbera sinnir? Þarf að skera niður þar? Nei. Hins vegar mætti hreinsa aðeins út á skrifstofunum þar sem situr fólk sem engum sinnir nema manninum á næsta skrifborði. Til dæmis mætti hætta við að ráða háskólamenntaða skýrsluframleiðendur í Utanríkisráðuneytið, enda tilgangslaus vinna. Þeir 65 - sextíu og fimm! - starfsmenn sem eru þar nú þegar ættu að ráða við utanríkisvinnu Íslendinga. 

Einu sinni sat vinstrisinnaður maður í stól fjármálaráðherra og hleypti af stokkunum átaksverkefni, Allir vinna, þar sem iðnaðarmenn og kaupendur að þjónustu þeirra sluppu tímabundið frá svíðandi skattlagningu. Þessi vinstrisinnaði ráðherra sá að skattheimtan hans jókst við þessa ráðstöfun og var himinlifandi. Getur hinn svokallaði hægrisinnaði fjármálaráðherra ekki lært eitthvað af þeim vinstrisinnaða?


mbl.is Fjármálaáætlun frestast til morguns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vísindin, eða ekki-vísindin

Ég veit! Tucker Carlson er hægrisinnaður samsæriskenningasmiður! Hann er vitleysingur! Hann er á móti vísindum, heilbrigðri skynsemi og almennri vitneskju!

En mikið er hann hressandi. Algjörlega óþolandi fyrir æðstupresta okkar, og er það mögulega ástæðan fyrir því hvers vegna hann er svona vinsæll. Ég kveikti á 15 mín upptöku með honum og gerði ekki ráð fyrir að sitja límdur við hana, en endaði á að vera það. Straumur upplýsinga sem kom mér á óvart var ómótstæðilegur. 

Ég mæli með þessu. Þú smellir eða ekki, en ég vil deila. 

Ég lýsi eftir íslenskum Tucker Carlson, og er tilbúinn að bíða lengi.


Á meðan, í raunveruleikanum

Hvernig ætla Íslendingar að koma á orkuskiptum (lesist: Bola út jarðefnaeldsneyti) án þess að framleiða miklu meira rafmagn?

Það geta þeir auðvitað ekki.

Þetta hlýtur að vera flókin þraut í huga þeirra sem trúa bæði á loftslagsbreytingar af mannavöldum og vilja vernda hverja einustu lækjarsprænu fyrir mannvirkjum. Þeirra besta hugmynd að lausn er sú að leggja niður orkufrekan iðnað á Íslandi og forðast að ræða afleiðingar þess fyrir hagkerfið, raforkuverð til neytenda og lífskjör almennings.

Víða ræða menn um þessi orkuskipti. Stundum má hafa samúð fyrir ástæðunni: Ef ríki getur framleitt meira af orku sinni en áður þá minnkar þörfin á að flytja hana inn og senda gjaldeyri til spilltra prinsa. Orkuöryggi er mjög mikilvægt og ekki vantar dæmi um að því sé ógnað af ýmsum ástæðum. En allt eru þetta frekar hagnýt rök fyrir orkuskiptum og koma þannig séð andúð á jarðefnaeldsneyti lítið sem ekkert við.

Nýlega gaf brasilíska ríkisolíufélagið Petrobras út að þeir ætli að halda áfram að einbeita sér að olíuframleiðslu - jafnvel þar til þeir verði seinasti olíuframleiðandi heims. Þeir sjá flótta annarra frá olíuframleiðslu sem myndun svigrúms á markaðinum fyrir þá sjálfa. Hyggilegt, finnst mér. Olían er ekkert á förum og þeir sem spila rétt úr sínum spilum geta hagnast vel á þeirri innsýn. 

Nema auðvitað að mannkynið átti sig á ágæti kjarnorku og byrji að henda í kjarnorkuver í stórum stíl en sennilega er það ekkert að fara gerast. Þess í stað eru Evrópubúar að snúa aftur til miðalda og brenna sprek og greinar til að búa til orku og halda á sér hita. 

Það er auðvitað gaman að tala um heimsenda og lausnir við honum en raunveruleikinn á það til að banka upp á. Og hann er hreint ekki jafnslæmur og skýrslurnar gefa til kynna.


Er sannleikurinn bara fyrir suma?

Manneskja var staðin að röð endurtekinna lyga sem höfðu þann tilgang að þenja út orðspor viðkomandi, afla viðkomandi vinsælda og samúðar, sópa fylgjendum að hlaðvarpi og samfélagsmiðlum viðkomandi og gefa viðkomandi ræðupúlt sem var notað til að svipta menn mannorði, starfsframa, tekjum, möguleikum til að tjá sig og getu til að framfleyta sér.

Hverjir hafa hag af því að afhjúpa lygar þessarar manneskju? Hverjir vilja að sannleikurinn sé uppi á borðum? Í þessu sem og öðru? Allir, ekki satt? 

Að þessu var ritstjóri fjölmiðils, sem réð þessa manneskju í starf áður en upp komst um lygavefinn, spurður, og svarið vægast sagt athyglisvert:

„Það er þetta menn­ing­ar­stríð. Þeir sem eru and­stæðir MeT­oo, þeir sem hafa hags­muna að gæta eða hafa orðið und­ir með ein­hverj­um hætti í þess­ari umræðu, vegna þess að þeir hafa gert eitt­hvað sem hef­ur verið af­hjúpað og op­in­berað – það hlakk­ar svo­lítið í þeim núna vegna þess að hætt­an er sú að þetta verði notað til að draga úr trú­verðug­leika brotaþola.“

Þá höfum við það. Þeir sem vilja að fólk segi satt og rétt frá fyrri reynslu og störfum og auðvitað upplifunum, auglýsi sig á réttum forsendum og sé ekki að ljúga um fortíð sína til að draga að sér vinsældir og tekjur - þeir eru bara að hefna sín! Þeir vilja ekki að fólk trúi brotaþolum! Raunverulegum brotaþolum auðvitað. Þetta er menningarstríð!

Þá vitum við það.

Með þetta í farteskinu er því væntanlega fátt því til fyrirstöðu að ég segist hafa verið geimfari, skoppað um á tunglinu og sótt sýni til frekari rannsókna. Að ég selji aðgang að fyrirlestrum um þessa lífsreynslu mína. Ef upp kemst um lygavefinn get ég biðlað til almennings um að láta ekki mínar fabúleringar bitna á trúverðugleika annarra geimfara. Aðrir hafa jú farið til tunglsins! Ég, sem verkfræðingur, hef jú komist í tæri við eitrað andrúmsloft á vinnustöðum tæknisinnaðs fólks og get því tjáð mig eins og ég sé raunverulega geimfari! 

Þau mega eiga það, þessi sem standa vörð um útskúfunarmenninguna, dómstól götunnar og þá hugsun að ásökun þurfi bara að orða vel til að vera hafin ofar öllum vafa, að þau kunna að snúa út úr.

En það dugir ekki til. Ekki lengur. Við skuldum raunverulegum brotaþolum að halda sannleikanum uppi sem göfugu markmiði en ekki tæki sem má sveigja og beygja í einhverju svokölluðu menningarstríði örfárra háværra einstaklinga með greiðan aðgang að fjölmiðlum og styrktarfé úr vösum skattgreiðenda.


mbl.is Mikilvægt að fólk geri hreint fyrir sínum dyrum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endalausar afsakanbeiðnir - en gaman!

Í kjölfar þess að komið var upp um langa runu endurtekinna lyga á starfsferli þar sem viðkomandi einstaklingur var áreittur í starfi sem hann hafði aldrei unnið hefur farið að af stað nokkurs konar bylgja afsökunarbeiðna sem nær til allskyns fortíðarsynda, og fjölmiðlar gleypa glaðir. Að vísu er enginn að játa að ganga um með falsaða starfsferilskrá (sem kallast í dag að lýsa ekki með réttum hætti stöðu sinni gangvart ákveðnum fyrirtækjum), en sniðugt samt að hreinsa aðeins út beinagrindurnar í skápnum og um að gera að taka þátt í því.

Ég hef því miður aldrei falsað starfsferilskrá mína en í einni atvinnuumsókn sagðist ég kunna aðeins fyrir mér í forritun í PHP. Ég hafði fiktað aðeins við PHP-kóða í tengslum við vefsíðu sem ég átti og ekki fundist neitt sérstaklega flókið við það og var því kokhraustur. Sem betur fer fékk ég samt ekki starfið.

Ég hef stundum lofað upp í ermina á mér í ýmsu samhengi, meðal annars og mögulega fyrst og fremst í vinnunni. Mér finnst erfitt að segja nei við spennandi verkefnum og það bitnar á bæði mér og öðrum. 

Ég hef stolið ýmsum smámunum, kveikt í sinu, keyrt eftir einn, búið til heimagerða sprengju úr flugeldum, verslað áfengi án þess að hafa aldur til, reykt jónu, svindlað á skatti, notað ólöglega leigubíla, afritað kvikmyndir og þætti án heimildar, brotið mögulega allar tegundir sóttvarnaraðgerða, logið því hvar ég var staddur, ýkt tímaskýrslur og mögulega verið of ágengur í samskiptum við fólk í ýmsu samhengi án þess samt að gera ör á sálir viðkomandi, eða það ætla ég rétt að vona. 

Fleira dettur mér ekki í hug í fljótu bragði, og ég sem hélt í að ég gæti skrifað frekar safaríka færslu. 

Atriði sem munu aldrei fara á listann yfir drauga fortíðar hjá mér eru að reyna þagga niður í fólki sem ég er ósammála, svindla á starfsferilsumsókn, lofa eyðslu á peningum annarra, siga lögreglunni á ungmenni að skemmta sér á friðsælan hátt, brjóta trúnað og mála mig sem einhvern dýrling sem má labba um og krossfesta aðra fyrir breyskleika þeirra.

Því miður, því þetta takmarkar allt möguleika mína til að stofna vinsælt hlaðvarp á Íslandi og fá jafnvel ríkisstyrki og pláss á RÚV til að tala út úr rassgatinu á mér. Ég þarf bara að sætta mig við það.


Ísland fyrir Íslendinga, eða hvað?

Um daginn komst í fréttir þvermóðska Reykjavíkurborgar í skipulagsmálum þegar borgin neitaði að leyfa breytingar á galtómum jarðhæðum nokkurra húsa þannig að í stað atvinnuhúsnæðis sem enginn kærir sig um yrði hægt að skipuleggja íbúðir. Eitthvað hefur íbúðaskortur verið ræddur, húsnæðið byggt, verktakar tilbúnir og bara spurning um að breyta skilgreiningu í tölvukerfi til að hefjast handa.

En nei, þetta mátti ekki. Tölvan sagði nei. 

En núna vantar húsnæði fyrir flóttafólk. Þá skal hugsað í lausnum, og gera þá breytingu í tölvunum að í stað atvinnuhúsnæðis sem enginn kærir sig um er hægt að skipuleggja íbúðir.

Það skal allskonar gert fyrir útlendinga á kostnað skattgreiðenda sem er ekki hægt að gera fyrir skattgreiðendur. Þar á meðal að gera einfaldar breytingar í tölvunni sem fjarlægja hindranir sem yfirvöld leggja fyrir framan þegna sína.

Auðvitað er allt gott og blessað við að gera vel við flóttafólk og hælisleitendur að því marki sem menn eru yfirleitt með laust rúm og hafa efni á því. En kannski eru gestarúmin núna öll full og ekki sniðugt að fleygja ömmu út á götu til að búa til pláss fyrir unga karlmenn sem týndu skilríkjunum sínum eftir öryggisleitina á flugvellinum.


Hin nútímalega Biblía - vonandi ekki of nútímaleg

Biblían er mögnuð bók sem fylgdi mér lengi vel í lífinu. Hún er ekki bara trúarrit heldur einskonar heimspekirit sem mótaði og mótar jafnvel ennþá mjög vestræna menningu og verður þetta tvennt ekki aðskilið. Meira að segja þeir sem trúa engu (nema mögulega sósíalisma og öðru slíku) lifa og hrærast í samfélagi kristni og kristinna gilda. Eða þar til vestræn yfirvöld ákveða að önnur gildi eigi nú að leysa af þau vestrænu.

Ég hafði hug á því um daginn að kaupa mér nýja Biblíu í íslenskri þýðingu, bara svona til að eiga hana og blaða í eins og ég gerði svo oft á mínum yngri árum. Biblíur eru fallegar bækur og hægt að lesa af ýmsum ástæðum fyrir utan þá trúarlegu. 

En hvað sé ég? Ný íslensk þýðing! Við lesum:

Biblía 21. aldar – 2007
BIBLÍAN. HEILÖG RITNING. GAMLA TESTAMENTIÐ ÁSAMT APÓKRÝFU BÓKUNUM. NÝJA TESTAMENTIÐ. HIÐ ÍSLENSKA BIBLÍUFÉLAG. JPV ÚTGÁFA.

Þetta er 11. biblíuútgáfan á íslensku. Um nýþýðingu er að ræða, þá sjöttu frá upphafi, og núna úr frummálunum, eins og í útgáfunni 1912/1914.

Þýtt var eftir frummálunum en við yfirferð studdust þýðingarnefndir Gamla og Nýja testamentisins — sem ákvörðuðu að lokum hver textinn skyldi vera — við eldri útgáfur íslenskar, sem og nýjar þýðingar frá Danmörku, Noregi og Svíþjóð, og svo þýskar Biblíur, breskar og bandarískar.

Þýtt eftir frummálum? Mjög gott. Það hlýtur þá að vera texti sem kemst næst hinum upprunalega.

En bíddu nú við, hvað er hér á seyði?

Í fyrsta sinn er reynt að koma hér á málfari beggja kynja. Oftast var t.d. fornafninu „þeir“ í Gamla testamentinu breytt í hvorugkyn, ef fullljóst var að um blandaðan hóp var að ræða, annars ekki. Svipað var upp á teningnum með Nýja testamentið, þar má nú víða lesa „systkin“ þar sem áður hefur staðið „bræður“.

Hvað þýðir að „koma á málfari“? Er það eitthvað annað en þýðing eftir frummálunum? Eða er verið að ná til blæbrigða í upprunalegum texta sem voru áður ekki til staðar? Orðalagið „koma á“ þýðir oft breytingar eða innleiðing á einhverju nýju í stað einhvers gamals. Er þá Gamla testamentið orðið hið Nýja, og hið Nýja orðið að hinu Pólitískt rétttrúaða?

Sé um að ræða afskræmingu eins og reynt var að koma á um daginn á verkum Roald Dahls (en síðar hætt við) þá leita ég frekar í eldri þýðingu eða tek virta enska þýðingu, en sé um að ræða nákvæmara orðalag (t.d. að segja „þau“ en ekki „þeir“ um hópa með báðum kynjum) þá er ég opinn. 

Kannski lesendur geti frætt mig aðeins.


mbl.is Fermingargjafir sem Kolbrún Bergþórs mælir með
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað erum við að gera rangt í loftslagsmálum? Prumpa of mikið?

Í sennilega fertugasta eða fimmtugasta árið í röð kemur úr svört skýrsla sem segir að við, mannkynið (ekki eldfjöllin, geimgeislarnir, segulsviðið og annað slík), þurfum að gera eitthvað núna til að afstýra meiriháttar loftslagshamförum bráðum.

Í sífellu dynja á okkur allskyns íþyngjandi og kostnaðarsamar ráðleggingar og þvinganir, og við reynum og reynum að koma til móts við þær. 

Minnka notkun á jarðefnaeldsneyti.

Minnka orkunotkun.

Endurvinna meira.

Flokka umbúðir og rusl. 

Keyra og fljúga minna. Á tímabili ferðast innandyra, en það var að vísu kallað veiruvörn.

Borga losunarskatta.

Plaströrin eru farin og plastpokarnir á leið út líka.

Hagkvæmir bensínbílar látnir niðurgreiða rándýra rafmagnsbíla og slitið sem þeir valda á vegunum.

Listinn er endalaus.

Almenningur tekur allar þessar svörtu skýrslur alvarlega. Fréttatímar eru mettaðir af þeim. Skattkerfið bregst við þeim. Allir eru með! Þeir sem andmæla eru fámennir og ýmist hunsaðir eða úthrópaðir sem samsæriskenningasmiðir (þ.e. hafna þeirri kenningu að mannkynið stjórni veðrinu með gjörðum sínum).

Og hver er niðurstaðan?

Enn ein svarta skýrslan! Enn eitt ákallið um að ekki sé nóg gert!

Hvenær er nóg komið?

Svarið er: Aldrei, því allar þessar skerðingar og allur þessi missir á nothæfum og hagnýtum hlutum skila engu og breyta engu í meintri krossferð gegn óumflýjanlegum og sífellum breytingum í loftslagi Jarðar. Plaströr breyta ekki loftslaginu og raunar engu. Þau eru tekin af þér til að fá þig til að iðrast. Til að þjást mátulega mikið. Um það snýst leikurinn. Þetta veit (einka)þotuliðið. Þetta vita stjórnmálamenn sem nærast á örvæntingunni. Þetta vita hagsmunasamtök í leit að tilgangi í lífinu.

Ég sakna plaströrsins eins og áður hefur komið fram á þessari síðu. Að það hafi verið tekið af mér er táknmynd vitleysunnar. 

Hvernig ætli stjórnmálamenn bregðist við nýjustu skýrslunni? Hvað ætla þeir að taka af þér næst? Borga fyrir? Missa hreinlega úr lífi þínu? Kemur í ljós, en þú er væntanlega til í tuskið. Þú ert jú að valda hamförum með því einu að reka við.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband