Einfalt að minnka verðbólgu

Það er enginn vandi að takast á við verðbólgu. Seðlabanki Íslands veit það þegar hann hækkar vexti og hægir á framleiðslu nýrra peninga í bankakerfinu, bæði með því að draga úr eftirspurn eftir lánum og með því að gera sparnað meira aðlaðandi. En ríkisstjórnin er ráðvillt. Hvað er til ráða?

Til að byrja með mætti lækka til muna alla skatta á varning og þjónustu. Þannig lækkar verð. Þetta ætti meira að segja reyndur ráðherra að vita þrátt fyrir að hafa búið í sápukúlunni sinni í mörg ár.

Einnig mætti grisja reglugerðafrumskóginn. Allskyns kvaðir á merkingar varnings, endurmenntun fagmanna, eyðublöð og leyfisumsóknir hækka verð á öllu mögulegu sem rýkur auðvitað beint út í verðlagið.

Tolla mætti afnema - líka þá sem kallast eitthvað annað en tollar, svo sem vörugjöld og allskyns pappírsvinnukostnað í tengslum við innflutning.

En hvað með alla þessa mikilvægu þjónustu sem hið opinbera sinnir? Þarf að skera niður þar? Nei. Hins vegar mætti hreinsa aðeins út á skrifstofunum þar sem situr fólk sem engum sinnir nema manninum á næsta skrifborði. Til dæmis mætti hætta við að ráða háskólamenntaða skýrsluframleiðendur í Utanríkisráðuneytið, enda tilgangslaus vinna. Þeir 65 - sextíu og fimm! - starfsmenn sem eru þar nú þegar ættu að ráða við utanríkisvinnu Íslendinga. 

Einu sinni sat vinstrisinnaður maður í stól fjármálaráðherra og hleypti af stokkunum átaksverkefni, Allir vinna, þar sem iðnaðarmenn og kaupendur að þjónustu þeirra sluppu tímabundið frá svíðandi skattlagningu. Þessi vinstrisinnaði ráðherra sá að skattheimtan hans jókst við þessa ráðstöfun og var himinlifandi. Getur hinn svokallaði hægrisinnaði fjármálaráðherra ekki lært eitthvað af þeim vinstrisinnaða?


mbl.is Fjármálaáætlun frestast til morguns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

"gera sparnað meira aðlaðandi"

Hvernig á að leggja fyrir í sparnað þegar allur peningur sem annars væri afgangs fer í stökkbreyttar vaxtagreiðslur af húsnæðislánum? Það skiptir engu máli hversu "aðlaðandi" það er ef ekkert er eftir í sparnað.

Þessi kenning seðlabankans fellur þannig um sjálfa sig.

Svo er hitt, að þar sem langflest húsnæðislán eru jafngreiðslulán, hafa þau þann eiginleika að þegar vextir hækka þá minnkar mánaðarleg afborgun af höfuðstól sem hægir á niðurgreiðslu hans og þar með samdrætti peningamagns í umferð. Þannig vinna vaxtahækkanir gegn því markmiði að hvetja til þess að lækka skuldsetningu og draga þannig úr verðbólgu.

Þessi kenning seðlabankans fellur þannig um sjálfa sig.

Langbesta og einfaldasta leiðin til að draga úr verðbólgu er að öll sem eru með lán frá bönkum endurfjármagni þau með lánum frá lífeyrissjóðum. Ástæðan er sú að lánveitingar lífeyrissjóða auka ekki peningamagn í umferð en uppgreiðslur bankalána draga úr peningamagni í umferð.

Ef öll/flest húsnæðislán frá bönkum yrðu þannig greidd upp gæti það dregið úr peningamagni í umferð um helming eða meira, sem myndi á augabragði snöggkæla verðbólguna niður að frostmarki.

Þetta væri vel framkvæmanlegt ef viljinn væri fyrir hendi.

Guðmundur Ásgeirsson, 28.3.2023 kl. 11:31

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Guðmundur,

Athyglisvert, vægast sagt. 

Eitthvað hljóta hærri vextir að gera fyrir sparnað en kannski ekki nándar nærri því nógu mikið, í ljósi þess hvað fáir hafa eitthvað afgangs fyrir sparnað og þeir sem eiga slíkan afgang eru ekki að leggja á bankabók heldur sýsla með hlutabréf og slíkt. 

Geir Ágústsson, 28.3.2023 kl. 13:15

3 Smámynd: Bjarni Gunnlaugur Bjarnason

Þú meinar þá Guðmundur, að Lífeyrissjóðirnir virki eins og sparisjóðir. Láni peninga sem þeir sjálfir tóku að láni. 

Bankarnir á hinn bóginn láni peninga sem þeir eigi ekki til, búi semsagt til peninga  sem eftir því sem idol síðuhafa Milton Friedman sagði að væri eina orsök verðbólgu.  Þar dygði að slökkva á peningaprenntunarvélunum. 

Bjarni Gunnlaugur Bjarnason, 28.3.2023 kl. 16:35

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Bjarni,

Verðbólga er þýðing á orðinu "inflation" sem þýðir "útþensla" og á við um peningamagn í umferð. Aukning á peningamagninu þynnir út kaupmátt peninga sem leiðir til hækkandi verðlags. Óumflýjanlega þótt það komi ekki jafnt fram í öllu og getur t.d. falist á bak við bólur á ákveðnum mörkuðum.

Geti Seðlabanki Íslands ekki tamið peningamagnið í umferð, eins og Guðmundur gefur til kynna, þá þarf að koma íslenska ríkisvaldinu út úr umsýslu með peninga og einfaldlega gefa lögeyri frjálsan.

Geir Ágústsson, 28.3.2023 kl. 18:59

5 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Verið raunsæir.  Reiknið með meiri verðbólgu - vegna þess að: sjáið bara liðið sem er við vo0ld og hvað þauð hugsar.

Hagið ykkur í samræmi við það.

Verðbólgan fer ekki undir 10% næstu 5 árin, spái ég.  Gæti farið yfir 100% í ár.

Ásgrímur Hartmannsson, 28.3.2023 kl. 19:52

6 Smámynd: Bjarni Gunnlaugur Bjarnason

Stóri vandinn er og verður sá að þeir sem valda verðbólgunni græða á henni.

Ef ríki og bankar töpuðu á verðbólgu sem og lífeyrissjóðir þá er komin rétti hvatinn til þess að þeir valdi ekki verðbólgu!

Hvernig er þá hægt að koma því svo fyrir að þessir aðilar tapi á verðbólgu?

Afnema verðtryggingu?  Mögulega!

En verðbólgan var skæð áður en verðtryggingin var tekin upp.  Þá græddi ríkið reyndar líka á verðbólgu. 

Hugmyndir?

Bjarni Gunnlaugur Bjarnason, 28.3.2023 kl. 21:33

7 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Bjarni Gunnlaugur Bjarnason.

Nei, sparisjóðir virka eins og bankar í því að búa til lánsfé. Það gera lífeyrissjóðir aftur á móti ekki, þeir þurfa að eiga fé til að lána og þegar það gerist færist féð bara af einum bankareikningi á annan.

Og já, peningaprentun er ein helsta orsök verðbólgu, þó hún sé kannski ekki sú eina mögulega. Verðbólga er nefnilega röng þýðing á orðinu "inflation" sem upphaflega þýddi útþensla peningamagns í umferð. Það eru ekki verðin sem "bólgna" heldur peningamagnið og þannig verður hver eining þess verðminni en áður. Þess vegna er einmitt nóg að slökkva á "prentvélunum" til að stöðva "inflation" samkvæmt réttri skilgreiningu hugtaksins.

Guðmundur Ásgeirsson, 28.3.2023 kl. 22:48

8 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Það er gaman að sjá ykkur velta fyrir ykkur verðbólgunni. Hvernig bjuggum við til húsnæðisverðbólguna? Við bjuggum til skort þannig að fólkið þurfti að slást um íbúðirrnar.  Þá þrefaldaðist verðið.

Næsta skref samkvæmt Thomas Jefferson er að hækka vexti og hætta að lána út úr bankanum og búa til peningaskort, í þjóðfélaginu og stöðva sem flest.

Þá getur folk og fyrirtæki ekki greitt af lánum, og bankinn hirðir allt fyrir slikk. Munum að bankinn lánaði ekki neitt, skrifaði aðeins töluna. Auðvitað átti ríkið að skrifa töluna, bókhaldið.

Þegar verkafólkið sem byggði húsið og þeir sem komu með efnið hafa fengi greitt er engin skuld á húsinu. Þá á framkvæmdageta  þjóðarinnar allt sem gert hefur verið.  Nú hugsum við og skoðum, hvernig gerum við þetta?

Skáldjöfrar og skáldið í hverjum manni, orkan og efnið,... - jonasg-egi.blog.is

https://jonasg-egi.blog.is/blog/jonasg-egi/entry/2288726/

Thomas Jefferson sagði okkur þetta allt saman.

(13 April 1743 – 4 July 1826)

“Ef Ameríska þjóðin lætur einkabanka stýra myntútgáfunni, peningaprentuninni,  

þá munu bankarnir og fyrirtæki þeim tengd, ræna þjóðina allri velmegun,  

í fyrstu með verðbólgu, og síðan með verðhjöðnun, og þá munu afkomendur okkar

verða heimilislausir í landinu sem feður okkar byggðu upp.

Egilsstaðir, 29.03.2023   Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 29.3.2023 kl. 19:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband